Jæja Florida búið og mér er ansi létt.  Tvö ár af æfingum, undirbúningi og allavega mis alvarlegum tjónum á mér að baki.  Ég trúi því að núna verði auðveldara að setja sér markmið og ná þeim.  Florida hefur veirð soldið fyrir en eins og ég segi, búið.

Ætla að geyma úthalds og hraða æfingar fram að áramótum en vinna þeim mun betur í styrk og liðleika þann tíma.  Fór með Oddi á þriðjudaginn í Spöngina þar sem við tókum Allen hring á lóðin.  Vissum báðir að við fengjum hressandi harðsperrur fyrir vikið og klikkaði ekkert þar.  Ég fékk þær svo fínar að ég gat ekki synt á fimmtudaginn (í gær).  Fór reyndar og tók aðeins á áður og gekk svona bærilega já.  Fékk að vísu á mig skot að ég hefði horast og mikið af vöðvum væru farnir.

Fór á Tinds hjólaæfingu og skemmti mér alveg stórkostlega.  Vorum í skítaveðri á fjallahjólum.  Myrkur, rigning og nokkur vindur.  Alveg freðinn þegar ég kom heim.  Er á negldum 700×35 á fjallahjólinu.  Treysti nöglunum ekki alveg en mikið rosalega er gaman að geta vaðið um á reiðhjóli í hvaða veðri sem er.

Planið er að slaka vel á þessar vikur.  Yoga, lyftingar, sund og hjól.  Ekkert hasar eitthvað heldur tækni og skynsemi á þetta.  Ætla reyndar að fá Valda bróðir til að taka mig og Odd í smá beygju og dedd kennslu.  Hann var að gera flotta hluti í Las Vegas og er ég þvílíkt stoltur af honum.  Hann setur sér markmið og fylgir settri leið að þeim.  Flottur.  Mig langar að ná soldið fallegri tölu í beygjunni og gaman væri að ná einhverju skemmtilegu í deddinu.  Þetta verða auðvitað bara tölur fyrir mig miðaðar við mig en það dugir mér 🙂

Hef verið alveg ótrúlega vitlaus með svefn frá því ég kom heim og er kvöldið í kvöld engin undantekning.  Sef lítið og illa og er svo syfjaður allan daginn.  Ekki beint góð undirstaða fyrir æfingar.  Þarf að koma mér í réttan gír áður en ég byrja og þá bæði svefn og mat.  Það verður ekki erfitt.

Tveir og tveir þriðju

Posted: 16 November, 2012 in Keppnir

Florida, Florida og smá Sandy.  Oddur skutlaði okkur Hrefnu út á flugvöll seinnipartinn á sunnudegi.  Dásamlegt alveg og ferðin byrjar vel.  Lendum í Washington og náum skutlu þaðan.  Só far só gúd, jebb.  Í Baltimore sjáum við bara og heyrum að það sé búið að fella allt flug frá Baltimore næsta dag niður!  Við tekur þriggja daga dásemd á flugvallarhóteli.  Hvorugt okkar með föt til að skunda um í 10 stiga hita og rigningu.  Það sem verra var að það var ekkert að hafa að borða í grenndinni og sló þetta soldið taktinn hjá okkur.  Hammarar og franskar eða eitthvað í þeim fíling varð soldið ráðandi.  Nú við komumst til Panama City Beach rétt tímanlega til að byrja partýið.  Skráning, setja saman hjól, smá expo og allt þetta sem fylgir.

Gistum á keppnishótelinu og Boy var það keppnis.  Sundið startaði í fjörunni fyrir neðan, T1 og T2 voru inn á hótelinu og markið beint fyrir framan.  Þetta var eins kúl og þú færð það.  113 hérna!  Keppnishótel og það var engin leið að fá neitt gáfulegt að borða þarna.  Föstudagsmorgun og það er ekki einu sinni hægt að fá morgunmat.  Jahérna.  Ég ætlaði hvort eð er ekkert að vera í fitun.

Nú þetta var svona eitthvað út og suður hjá okkur, gerðum lítið enda stóð aldrei til að vera í einhverjum túrisma.  Bara hlýtt og gott en þó alltaf einhver leiðinda gustur á þessu öllu.  Okkur sagt að leifarnar af Sandy séu að ganga yfir.  Hvað veit ég um það?  Sjórinn er hrikalega úfinn alla daga en ég hugsa til félaga minna frá síðasta ári þegar allt varð spegilslétt nóttina fyrir keppni.  Svona verður þetta hjá mér.

Já akkúrat.  Bullandi sjór, mikil alda og stuð í fjörunni.  Í einhverri heimsku trúði ég því að með því að vera aftarlega mundi ég jafnvel græða lygnari sjó en það var auðvitað ekki.  Hefði bara átt að fylgja plani, fara vel til hægri og vera framarlega.  Ansi erfitt að rata nokkuð í sjónum svona.  Maður er svo neðarlega að þegar aldan er fyrir framan mann sér maður ekki neitt.  Fann svo þegar ég kom að ströndinni til að hlaupa yfir í seinna ger að var ég óstöðugur.  Sá að ég var á 40 mínútum og langaði að reyna að bæta aðeins í.  Mér tókst það nú aldeilis já.  Bætti við fimm mínútum á seinni hring.  Kannski ekki alveg það sem mig langaði en ég var svo sem ekkert mjög skýr þegar ég var að óska mér bætingar.

Nú ég gusast upp úr sjónum, rusla gallanum niður og á bakið.  Flysjararnir drógu af mér gallann á undratíma og ég inn í T1.  Var óstöðugur en fannst ég annars bara góður.  Fór í skóna inni og hljóp af stað, botna ekkert í mér að gera það og fór fljótlega úr þeim enda stéttin hál og skórnir ekki með neinu gúmmí til að gera þá stama.  Þurfti að bíða aðeins eftir sturtunni þegar ég kom úr sjónum en fannst ég að öðru leiti ekki lengi í skiptingu og hef því ekki betri skýringu á tímanum.

Flýg af stað á hjólinu.  Frábært malbik og man ég að ég hugsaði hvílík forréttindi það væru að fá að hjóla á svona.  Var með Powerade á Aero brúsanum og Magnesíum og C-vítamín blöndu á öðrum brúsanum aftan á.  Ég hafði spurt á Expo-inu um hvernig gel við fengjum og var sagt eitthvað dásemdar ávaxta GU.  Það átti eftir að breytast því Peanut butter var aðallega í boði.  Mér, ansi flökurt eftir sjóinn, gekk illa að koma þessu niður og ekki var Perform drykkurinn betri.  Sennilega hefur þetta verið ágætis stöff en maginn var eitthvað ósáttur við þetta.  Hef sennilega komið 6 gelum niður og rétt rúmum lítra af drykk.  Það er bara ekki nóg á svona langri og erfiðri hjólaferð í 35 stiga hita.

Ég fann alveg hvernig ég fjaraði út en gat andskotann ekkert gert í því.  Þegar ég kom að drykkjarstöðvum og fékk mér gel og setti það í skálmina var ég bara að bæta í hauginn.  Þarna vantaði mig eitthvað, kannski hefði einhverju breytt að hafa High5 gelin sem mér þykja svo góð en ég efast um það.  Held samt að ég verði gera ráðstafanir fyrir næsta Kall.

Kom inn á T2 á sæmilegu gasi.  Var ekkert hress en samt viss um að ég gæti hlaupið og það jafnvel sæmilega.  Var alveg með það á hreinu að 3:30 yrðu ekki mál.  Annað átti eftir að koma í ljós.  Ég hafði því miður valið mér Racer-a til að hlaupa á.  Slæmur díll þegar maður er kraftlaus.  Komst ekkert upp á fótinn og gat ekki rass.  Reyndi að bumba í mig hressleika en gekk ekkert.  Fín hlaupaleið, fjölbreytt og hressileg og því var tíminn fljótur að líða og fannst mér þetta merkilega skemmtilegt hlaup.

Kem í mark og heyri setninguna frábæru: Einar Valdimarsson of Iceland you are an Ironman.  Frábært alveg.  Hafði tekið vel á síðustu tvær mílurnar og meira að segja það vel að ég hafði áhyggjur af því að ég mundi ekki ráða við að klára á því gasi sém ég var  Á móti mér, í markinu, tók alveg frábær kall, setti á mig húfu, vafði mig í álteppi og beindi mér til konu sem smellti á mig medalíu.  Sagði mér að knúsa hana og svo héldum við áfram.  Splæst í mynd og svo bara allt í lagi bless.  Keppnin búin en ég ekki alveg sáttur.  Eða hvað?

Eftir á er ég bara ekkert ósáttur.  Ég synti bara alveg ágætlega miðað við aðstæður.  hjólaði alveg la la en hlaupið er bara skiljanlegt og í raun seinni hluti hjólsins líka.  Daginn eftir er ég varla þreyttur enda langt undir getu megnið af leiðinni.  Ég held ég dragi þann lærdóm helstan að ég verði að vera með neysluna meira á hreinu.  Það er alveg ferlegt að vera stökk með gel sem ég kem ekki niður og orkudrykk sem er ógóður.  Orkudrykknum breyti ég ekki en gelið er ekkert mál að hafa á hreinu.  Súkkulaðistykki á hjólinu hefði mögulega gert eitthvað fyrir mig en ég er ekki viss.

Allt í allt er ég bara sáttur með sjálfan mig eftir þetta.  Bæting er alltaf bæting og skrokkurinn svona urrandi fínn.

Held bara að ég splæsi í myndirnar úr keppninni.

Það styttist

Posted: 24 October, 2012 in Æfingarnar, Keppnir

Já hvur þremillinn.  Tæplega tvær vikur og ég er orðinn ansi spenntur.  Búinn að kíkja í Kríuna með hjólið og fá Emil til að segja mér að þetta verði allt í lagi.  Sýndi mér fína leið til að pakka hjólinu sem gerir það ansi mikið léttara.

Síðasti tíminn hjá Magga sjúkraþjálfara og Guðbrandi nuddara fyrir keppni, þeir kvöddu mig með miklum ágætum og óskuðu mér góðs gengis.  Djöfull flott lið þessir gaurar.

Það er soldið gaman að fá hvatningu og pressu frá allavega hressandi mannskap í sportinu.  Hef aðeins verið að spá hvort ég láti það stíga mér til höfuðs en ég held ekki.  Ég er ekki í því leiðinda standi sem ég var í Roth en á móti kemur að ég hef ekki æft mikið eftir Þýskaland í sumar.  Ég hef reyndar ekkert æft svo mikið í ár held ég bara.  Finnst einhvern veginn að það verði smá kaflaskil með Florida og skiptir árangurinn þar engu máli í því samhengi.  Mér finnst að eftir Florida geti ég loksins byrjað aftur í uppbyggingu, slakað á lyft, yoga og svona aðeins “basic” eitthvað.  Veit ekki alveg hvað ég er að meina en ég finn það samt.  Held það verði bara soldið kúl.

Parísarmaraþonið á næsta ári, tjékk.  Við Oddur að fara í Epíska för, frægðarför án nokkurs vafa.  Ég ætla mér undir 3 tímana, þetta sem klikkaði í Miami 😦

Við Oddur gerðum bara svona ljómandi ferð til Spánar núna í september.  Grunar að Oddur hafi verið að reyna að koma mér í eitthvað form fyrir Florida og vona ég að það hafi tekist.  Hef ekkert Brick-að lengi en það hlýtur að koma.

Djöfull langar mig að þetta gangi hjá mér úti.  Ef veðrið verður skikkanlegt finnst mér ég eiga að fara nálægt 10 tímunum.  Veit ekki alveg hvernig staðan á mér er en ég hef aldrei hlaupið jafn hratt og var fínn á hjólinu á Spáni.  Sundið er bara eins og það er.

Afmælis

Posted: 10 October, 2012 in Æfingarnar, Hið daglega amstur

Jebb 45 ára í dag.  Upp um aldursflokk í IM og er núna yngstur í mínum flokki.  Vonandi næ ég að nýta mér það á Florida í næsta mánuði.

Hef verið hjá Magga sjúkraþjálfara og Guðbrandi nuddara einu sinni í viku núna í soldinn tíma.  Maggi að djöflast á öxl og hálsi meðan Guðbrandur er aðallega í kálfum og lærum.  Ferlega fínt og formið á mér alveg verulega frábært.  Veit alveg af þessu læra rugli sem hefur verið að trufla mig en mér hefur þó tekist að hjóla það úr mér þegar ég finn það er að koma.

Við Oddur skelltum okkur til Spánar í viku núna um daginn.  Flugum til Alicante með Racer-ana í töskunum.  Hörku vindur allan tímann og vorum við í talsverðum átökum alla dagana.  Fyrsti var þó sá sem bara af í hjólamennskunni þar sem þar græddum við verulega af brekkum í bót.  Hlupum eitthvað en syntum lítið enda mikil alda og talsvert drasl í sjónum.  Rúlluðum yfir til Torevella og svo til Benidorm þar sem við borðuðum breska hamborgara.  Merkilegir svona breskir borgarar þar sem þeir nota bara kjötfars í þá svei mér þá.  Helvíti andstyggilegt.

Fílingurinn sem maður hafði fyrir þessu svæði var sá að annað hvort væri þetta í mikilli niðurníðslu eða væri verið að byggja þarna upp.  Reyndar bar ekkert á liði í uppbyggingu þannig að líklega er þetta bara eitthvað ekki gott.  Held ég að Mallorka verði frekar fyrir valinu í næstu svona ferð þrátt fyrir mun lengri ferðatíma.  Þar er allt á allt öðru leveli til íþróttaiðkunnar.  Mjög skemmtilegt.

Hef verið að hlaupa með Laugaskokki.  Ferlega gaman þó auðvitað vildi ég helst hlaupa með ÍR.  Æfingatíminn klukkan fimm hentar mér bara svo ári illa þar sem ég vinn til fimm og það í Kópavogi.  Það vantar ekki klassa þjálfarana í Laugaskokkið en maður er bara orðinn svo mikill ÍR ingur eitthvað fyrir utan auðvitað hvað er gaman að æfa inni á braut þegar fer að vetra.  Sjáum til hvernig þetta vinnst.

Var svo ljómandi heppinn að Vífilfell var til í að styrkja mig með Powerade og Hámark.  Veitir ekkert af allri þeirri orku sem ég get fengið þessa síðustu og verstu.  Er reyndar ekkert í neinu ógnar magni æfingalega séð heldur hef ég meira hugsað um gæði og svo að fara soldið vel með mig.  Ég veit að ég get tuðað þetta allt en ég geri ekki nokkurn hlut ef lappirnar verða í sama standi og í Roth í sumar.  Ég verð líka að hafa hugfast að ég ætla að nota þessar sömu lappir og sama skrokk eitthvað áfram eftir keppnina og get ómögulega verið að tjóna mig eitthvað óþarflega.

 

Kelerí

Posted: 16 August, 2012 in Uncategorized

Já já það heldur bara áfram.  Ólöf í fríi þessa viku og næstu en hún bókaði mig hjá honum Guðbjarti í staðinn.  Sá tók all rækilega á mér, rass og IT bandið í krafta meðferð.  Þetta og Maggi sjúkra á þriðjudaginn, Gúkka í dag og Magni Kíró á morgun.

Frábært hjól með Oddi á miðvikudagskvöldið.  Blanka logn og dásamlegt allt saman.  Rúlluðum um á flottu tempó og kíktum á Viðar Braga og Einar halda kynningu á Þríkó.  Fannst verðskráin í hærri kantinum hjá þeim en fín kynning.

Þó var eitt sem stakk alveg hrikalega.  Hvað í ósköpunum gengur mönnum til að vera með sundæfinar klukkan 5:30!!!  Eru menn að keppa hver við annan í fávitaskap eða hvað er málið?  3SH sem sínar rétt fyrir sex æfingar og núna Þríkó með svona.  Sjálfsagt þykir þetta eitthvað voða flott og þá að fara að sofa klukkan níu.  Fínt þá gera aðrir það en ég fer nú ekki að missa af Jóhönnu Vigdísi í kvöldfréttunum að spjalla við vin sinn Bjarna Ben.  Ó nei.

Vadím á landinum og ég í tíma.  Búinn að fara í einn og það í Áslandslaug.  Alveg ljómandi dásamlegt allt saman.  Hann er að gera tvo krakka tilbúna fyrir Ólympíuleika fatlaðra og eru þau hrikalega flott bæði tvö.  Gaman að hitta Vadím og fá að æfa hjá honum.  Mikill heiður finnst mér og ég heppinn að hann skuli nenna þessu.

Fokk zybbinn

Zzzzzz Einar

Eftirleikur

Posted: 9 August, 2012 in Æfingarnar, NIðritími

Þar sem þetta var svo sem ekki í fyrsta skiptið sem lærið (hamstring) hefur hrekkt mig svona eins og í Roth ákvað ég að reyna að taka þetta soldið föstum tökum.  Snæfellsneskeppnin hafði verið alveg hreint ljómandi slæm og hefði átt að vara mig við en eins og oft áður heyri ég bara ekki þegar skrokkurinn er að kvarta.

Nú Mæja okkar Odds bauðst til að tala við hann Magna og athuga með að koma mér að í Kíró.  Ég þáði það að sjálfsögðu enda engu að tapa.  Mætti á stofuna og var myndaður hátt og lágt og síðan var bara djöflast soldið á því sem þurfa þótti.  Til að byrja með voru þvílík læti í mér, brak og brestir, en núna er þetta allt að verða nokkuð settlegt.  Ég var ansi efins á þetta en ég held bara að þetta sé að gera sig.  Hef verið heiðarlegur við mig og Magna þ.e. engin meðvirkni á þetta.  Hann óhress ef illa hefur gengið og þá breytt til.

Vegna stöðunnar, á leið til Florida og svona, ákvað ég að fá nokkra tíma hjá Ólöfu íþróttanuddara og Gúkku sem kom Viðari Braga í gang eftir hans stopp.  Þetta allt hefur verið alveg full dagskrá liggur mér við að segja.  Hef aðeins lyft en finnst ég þó ekkert hafa æft í langan tíma.  Hef tekið einhver styttri hlaup á flottu tempói og aðeins hjólað en samt ekki mikið og alls ekki það sem ég mundi vilja vera að gera núna.

Góðu fréttirnar fyrir mig eru þó þær að lappirnar eru bara allar að gera sig.  Hljóp í fyrrakvöld á bretti niðrí Laugum.  Var búinn að ákveða að hlaupa hratt en ekkert mjög langt.  Hitaði upp og teygði og svona eitthvað gáfulegur já.  2km á brettinu í upphitun og svo bara stuðið í gang.  Var mest á pace 3:50 en tók þó tvo kílómetra á 3:22 sem tók nú sæmilega í.  Var bara með vatn en hefði þurft að vera með orku og jafnvel bara gel með mér.  Beyglur og smá axlir á eftir, teygjur og rúlla og það flautar í mér af hamingju.  Lappirnar bara betri en þegar ég lagði af stað.

Næsta vika er aðeins minni recovery vika en samt drjúg.  Nú er bara að halda sjó í vatnsdrykkju, mataræði (muna að borða), rúllum og teygjum.  Ef ég passa þetta verður gaman að æfa af mikilli ákefð fram að Florida og enn skemmtilegra að keppa þar.

 

Sjáum til.  Við Eva flugum til Stuttgart með WOW.  Alveg stór skemmtilegt að fljúga með þeim en reyndar var nú smá pikkles í Keflavík.  Bjargaðist allt og við komumst af stað.  Lentum í Stuttgart og fórum beint í lestina frá flugvellinum áleiðis að aðalstöðinni í Stuttgart.  Á leiðinni kynntumst við Gunnhildi fótboltafrú sem var á heimleið með frænku sinni.  Hún býr í Nurnberg en er að flytja til Frankfurt.  Frábær ferðafélagi.  Hún þekkti nokkuð vel á lestarkerfið og var ágætt að geta treyst á hana með þetta allt.

Þegar við loks, eftir eina aukalest, komum til Allesberg þurftum við að skella okkur á labbið.  Það er ekkert grín að þramma um með ferðatösku og hjólatösku í ókunnum bæ í útlöndum.  Maður veit ekkert hvert maður er að labba en svona eitthvað í áttina þó.  Smá sandur og taskan dró hjólin, jibbí.  Ekki mjög gott að vera ekki með svona hluti á hreinu þegar maður er á leið í svona aksjón.  Maður má ekkert við einhverju rugli en svo var þetta nú ekki svo slæmt, taugarnar bara aðeins strekktar.  Náðum í strákana sem voru nýkomnir og sóttu þeir okkur.

Herbergið reyndist íbúð og var frábær.  Allt stórt og fínt en svefnsófinn var þó afleitur.  Talaði strax um að kaupa bara almennilega uppblásna dýnu en af einhverjum furðulegum ástæðum gerðum við það ekki.  Strákarnir byrjuðu á svefnherberginu en þegar Vignir fór á hótelið með frúnni skiptum við og Oddur tók sófann.  Ómögulegt að sofa ekki almennilega og því enn undarlegra að klikka á dýnunni.

Frú Lori og Gerd voru aldeilis frábær.  Fengum bílskúr eða eitthvað undir hjólin, varla bílskúr þar sem hann snéri að garðinum og það var grasflöt fyrir framan hann.  Alveg kjörið til að setja hjólin saman.  Magnað vatnssöfnunarkerfi utan á húsinu.  Vatni af þakinu safnað í risa tunnur og það svo notað í að vökva garðinn.  Það var svo sem ekki það eina sem þau hjón söfnuðu.  Held bara að þau safni öllu eða kannski henda þau bara ekki neinu.  Veit það ekki en þetta var alveg stórmerkilegt heimili.  Alveg sama hvað var, ef það var hægt að hengja eitthvað á það var það gert.  Englar, myndir, englavængir, fuglar og bara hvað sem er.  Allt hengt upp, sett á borð eða hillur.  Alls staðar.  Dásamlegt.

Þetta skemmtilega fólk bauð okkur til kvöldverðar eitt kvöldið.  Pasta að hætti frúarinnar, alveg ljómandi.  Sonur, dóttir og tengdasonur öll með og varð úr þessi fína kvöldstund.  Sonurinn ætlaði að keppa í liðakeppninni og virðist vera mikill íþróttaáhugi í fjölskyldunni.  Þau sögðu okkur stolt frá því að einn af Pro gaurunum í Kallinum væri úr Allesberg og greinilega talsvert stolt.  Merkilegt þarna í bænum að Jesú er talsvert að dúlla sér á krossinum á gatnamótum.  Talsvert stór og góður bara eins og gangbrautarvörður fyrir utan bara að flautuna vantar.  Hann er að sjálfsögðu með þyrnikórónu í staðinn.  Hún toppar nú eiginlega flautuna.

Prófuðum okkur aðeins á hjólinu og var það alveg blússandi fínt.  Prófuðum okkur svo aðeins á hlaupum og var það ekki blússandi fínt.  Fann alveg að helv… Ham string vesenið var ekkert farið.  Hugsaði samt jákvætt og var viss um að þetta yrði ekki svo slæmt.  Raunin reyndist önnur.

Kvöldið fyrir keppni var nú ekki það gáfulegasta hjá þríþrautarmönnum.  Fórum á einhvern stórkostlegan veitingastað og fengu flestir sér pizzu en ég eitthvað ótrúlega frábært kjöt.  Oddur gúffaði Jalapeno í auman ristilinn og hressti soldið upp á hann en Vignir fék því miður ekki síld.  Held að við höfum öll verið frekar ósátt með matinn.  Þetta þarf að vera búið að spá í áður.  Maður fer ekki óétinn að sofa kvöldið fyrir Járnkarl, punktur.

Nú Oddur ræsti eftir nokkuð ósofna nótt.  Nóttina þá sem maður sefur bara eins og ekkert sé fyrir svona þá vaknar maður sennilegast ekki aftur.  Eitthvað aðeins gruflað í Coco Pops og svo bara kaffi.  Alveg súper.  Vítamín já já og magnesíum.  Allt eins og það á að vera.  Svo bara brennt af stað.  Damn hvað stressið var farið að segja til sín.  Nú við Oddur væfluðumst aðeins um svæðið, redduðum Vigni naglaklippum, fórum á dolluna og svona þetta helsta.  Svo þegar við vorum rétt að verða of seinir smelltum við okkur í gallana.  Fokk!  Allt í einu var bara komið að þessu.  Fokk aftur!  Ég að verða of seinn það er verið að hringja inn.  Á handahlaupum út í á og synti að startinu.  Rétt komin þegar fallbyssuskotið reið af.  Stressið farið, ekkert mál.

Menn ættu að tala meira um að sjórinn sé gruggugur og ble ble.  Dóná er kannski ekki alltaf skítug en boy ó boy þegar fleiri hundruð manns róta af stað í skriðsundi þá skiptir botninn um lögheimili og flýtur upp.  Útsýni núll.  Maður sá ekki neitt.  Svo sem ekki mikið mál en samt fannst mér erfitt að reyna að drafta þegar ég sá ekki manninn fyrir framan mig.  Fannst ég óþolandi hægur enda svo sem ekki við miklu að búast í einhentu sundi.  Tókst þó að halda mér slökum og slapp þar með við krampa í þríhöfðanum.  Fór mína 4,5 km á 1:22 eitthvað og er bara helvíti sáttur með.  Ekki gaman að koma á skiptisvæðið þar sem ég var ansi aftarlega í mínum hópi og hafði fengið fullt af liði úr næsta starti fram úr mér líka.  Vissi alltaf að þetta mundi gerast en samt er þetta ekki gaman.

Var kannski full lengi á skiptisvæðinu þar sem ég flækti Garmininn í gallanum góða hans Gylfa.  Var eitthvað búinn að hugsa hvernig ég ætlaði að gera þetta en ekki æfa.  Klaufi.  Var ekki með skóna á hjólinu og hljóp á þeim að því og út.  Rauk af stað og fílaði mig strax alveg hrikalega vel.  Sá litli pirringur að vera seinn úr vatninu og lengi að skipta hvarf fljótt og ég datt strax í fíling að fara að elta mannskapinn sem hafði verið fljótari en ég að synda.  Vindurinn kom nokkuð á óvart, tók í hjólið bara fljótlega og ég svona eitthvað var að pæla að þetta væri nú eitthvað skrítið logn en fokk it.  Hjólaði bara og hjólaði og fannst svona líka glimrandi gaman.  Hugsa þó að ég hefði bara viljað sleppa því að hafa keyrt þetta á bíl.  Það að fara hjólaleiðina á bíl er bara ekkert líkt og á hjóli.  Nokkuð Scary brekka var bara skítlétt og sama var með beygjurnar ógulegu á niðurleiðinni.  Pís of keik.

Byrjaði full snemma að finna fyrir hamstringnum.  Vissi alveg að það boðaði ekki gott og var að vona að með því að gíra bara nokkuð lágt og spinna vel hratt mundi ég mögulega ná að losa mig við þetta.  Það gekk ekki rass.  Var orðinn svo stífur fyrir seinni hringinn að ég var hættur að gera rétt úr mér.  Held ég hafi ákveðið nokkuð snemma að þetta væri bara rugl.  Var þó alltaf að spá að taka maraþonið á einhverjum fjórum tímum og bæta mig all verulega þannig en þetta var eiginlega of vont.  Hugsaði sem svo að ég væri búinn að Járna mig og ég gæti lent í mjög löngu maraþoni.  Með svoleiðis æfingum væri ég mögulega að meiða mig fyrir Florida og ég var bara ekki til í það.  Mig langar að eiga gott sund, gott hjól og helvíti fínt hlaup í Florida og til þess að það gerist má ég ekki meiða mig meira en orðið er.

Minnugur hvursu langan tíma það tók að jafna sig á Miami þá veit ég að ég gerði rétt.  Þetta hefur pirrað mig endrum og sinnum en fjandinn hafi það ég ætla ekki að fara að safna Járnkörlum ég læt aðra sjá um það.  Ég er reyndar búinn að skrá mig í Roth á næsta ári, árið sem átti að vera Boston og Laugavegsár en það var bara ekki hægt að sleppa því þar sem við verðum tríóið saman aftur.

Já jæja, keppnin svona að mestu búin hjá mér þarna.  Skellti mér í sturtu og svona.  Hitti þar nokkra gaura og spjölluðum við aðeins saman.  Einn var þarna með allar tær bláar og asnalegar.  Kauði talaði fína ensku og var ég eitthvað að hlægja að tánum á honum.  Spyr síðan hvernig honum hafi gengið og jú það gekk bara svona prýðilega, hann vann 🙂 7:59:59 var tíminn.  Not bad.

Rennislétt og fínt

Posted: 6 July, 2012 in Æfingarnar, Keppnir

Ó já, búinn að vera í Germaní frá því á þriðjudag.  Heitt og gott en kannski ekkert mikið sólskin.  Þrátt fyrir brúnkuleisi held ég að það sé bara gott núna.  Maður vitnar alveg eins og prestur í fermingarfræðslu.  Erum þrír úr járni hérna ásamt Evu og Berglindi.  Mátuðum skipaskurðinn í dag ásamt fjölda manns.  Skurðurinn verandi Dóná er með fiskum og fíneríi í en það sást ekki boffs í dag þar sem áin var mjög gruggug.  Líst nú bara svona á þetta.  Er ennþá fullur efasemda að það hafi verið rétt að koma hingað en við sjáum til.  Nógu djö.. er nú frábært að hjóla hérna.  Það er bara einn, tveir og þrír og allt í botn.  Rennislétt malbik og fínt en þó merkilega krappar beygjur á mörgum stöðum.

Keyrðum hjólabrautina í fyrradag.  Sæll vertu, maður var búinn að heyra og sjá af Solar berg og hélt að það væri eitthvað stuð en brekka sem við förum í áður er alveg brekka fyrir allan peninginn.  Það eina sem vantar er kannski soldið rok í fangið og þá er þetta fullorðins.  Það kemur til með að taka hressilega á að fara hana í annað sinn eftir tæpa 140 km.  Ekki er niður rúnturinn verri.  Organdi brekkur með beygjum krappari en 90°.  Það geggjaða við þær er að maður sér þær ekki fyrirfram.

Hlaupið er að sögn frábært.  Tengdasonur hjónanna sem við búum hjá hefur hlaupið í Relay liði hérna og segir að þetta sé alveg frábært.  Þjöppuð möl á nokkuð flatri leið er bara æði.  Þannig er þetta að 70%.

Þannig að…  Ef ég hætti ekki í sundinu og lappirnar verða til friðs í hlaupinu verður þetta djöfull gott hjá mér.  Aftur á móti ef ég finn að þetta er eitthvað ómögulegt þá ætla ég að fara varlega með hlaupið.  En þetta kemur nú í ljós á sunnudaginn.  Afslöppun á mánudag en svo hressandi ferðalag heim á þriðjudag.  Úff allur dagurinn í ferðalag aftur.  Kannski ég kaupi mér bara einkaþotu.

Damn allt að bresta á.  Roth á þriðjudaginn og mér finnst ég varla hafa æft af neinu gagni á þessu ári.  Þetta verður áhugavert.  Þungarokksslammið í götuna um daginn hefur leikið mig soldið grátt.  Fyrir utan talsverð líkamlega krankleika er involsið í hausnum að hrekkja mig líka.  Minnið er þar verst og hefur verið að bregðast mér á slæmum stundum (sem góðum reyndar líka).

Skellti mér í Snæfellsnes hjólakeppni um daginn.  Hafði heyrt agalegar sögur af þessu og leist hreint ekkert á.  Skítamalbik og rok allan andsk… tímann.  Lét Vigni þó gabba mig í þetta sem langa æfingu, hann ætlaði auðvitað ekkert að koma sjálfur, og skráði mig.  Ég gæti trúað honum til að vera enn hlægjandi að þessu.  Heyrði í Trausta og fékk far með honum.  Helvíti langt og því ómögulegt annað en að hafa félagsskap.  Eddi hafði eitthvað verið að spá að vera með en kom ekki.  Svekk.  Vorum fjórir í opnum flokki, ég, Trausti, Sigurþór og Sissi.  Malbikið alveg í fínu lagi en djöfull blés og að sjálfsögðu framan á mann.  Endaði daginn sem sigurvegari, ekki slæmt það og eiginlega alveg þrælgaman.  Flott að borða á Vegamótum.

Sneiðin alveg prýðileg þarna á Snæfellsnesinu.  Pétur Örn nýbúinn að lækka hjá mér stýrið og kom það bara ljómandi út.  Hræddur um að ég sé innskeifur á pedulunum og laga það áður en ég keppi í Roth.  Talandi um Roth.  Ferlega skemmtilegir póstar sem við fáum orðið á hverjum degi frá keppninni um allavega skemmtilega hluti.  Einn stuðningsaðili keppninnar er sóparafyrirtæki og þeir að sjálfsögðu pússa hjólaleiðina glansandi fína.  Frábært.  Veðurspáin svona heitt eða ekki, rakt eða ekki.  Soldið eins og verið sé að spá fyrir um veður á lítilli eyju í Atlantshafi.

Þar sem flugið til Munchen hafði hækkað svo þegar ég ætlaði að kaupa það fór ég með WOW til Stuttgart.  Þaðan eru rétt rúmir 200km til Allersberg þar sem við verðum.  Partý partý í lest í 3 tíma.  Fékk reyndar lestarmiðann á slikk.  Sennilega er þetta eitthvað dásamlega vangefið sem ég hef keypt en það kemur bara í ljós.  Það er nú ekki eins og lestin frá Berlin til Auschwitz hafi verið með einhverri lúxus lest en við komumst þó bæði fram og til baka.  Gott betra en slatti gerði.

Hef verið að sulla soldið í sjónum undanfarið.  Fékk Cat3 gallann hans Gylfa lánaðann og þar munar nú talsvert skal ég nú bara segja.  Minn þessi af ódýru gerðinni, allur jafn hnausþykkur og fínn meðan Gylfa er þunnur þar sem við á og þykkari á hinum stöðunum.  Afbragð.  Hef soldið verið að spá í því sem ég ætla að hjóla og hlaupa í.  Á alveg ágætis Craft Tri-suit en það er bæði frekar þröngt yfir brjóstið og eins er bölvað vesen að fara á klóið í þessu.  Skiptir þá engu hvað skal gera þar.  Af þessum sökum er ég að hugsa um að vera í TYR buxum sem ég á, með vösum neðst á skálmunum og svo einhverjum dásamlegum bol.  Þetta held ég að sé alveg dásamlegur dúett.  Mig langar ekki að hlaupa í þröngum bol og enn síður í þröngum galla.

Þá er það Garmin.  Sama þar.  Nenni ekki að hlaupa með stóra hlunkinn.  Hann er bara óþægilegur á hendi og uppfullur af infó sem ég hef ekkert við að gera.  Mig vantar að vita hraðann og búið.  Ég hef engar áhyggjur af því að ég hjóli/hlaupi of langt.  Ég verð alveg örugglega stöðvaður þegar nóg er komið.  Fékk mér Specialized TT2 hjálminn fyrir helgi.  Sæll vertu hvað hann er rosalegur.  Ætlaði að máta í dag en stytting á böndunum vafðist eitthvað fyrir mér þegar ég var að hlaupa út svo ég tók bara standardinn.  Virkar en er ekki mjög Aero.

Vignir lánaði mér SRAM gjarðirnar sínar.  Þær líta út eins og þær hafi verið hannaðar fyrir þetta hjól.  Váá hvað það er töff.  Nokkuð þyngri en Mavic Cosmic gjarðirnar mínar en vonandi hagnast ég á dýptinni þar sem afturgjörðin er dýpri en mín og hey, ég vil hafa þetta í stíl.

Kannski er það ekki langur tími miðað við allt og allt en þegar maður er í blússandi undirbúningi undir Challenge Roth þá eru 2 vikur í stopp langur tími.  Þetta gerist í bót rétt eftir að Cintamani reyndi að eitra fyrir mér.  Ef ég hefði étið þvottaefnið hefði ég sennilega bara drepist!  Þetta var það alvarlegt, já.  Þá var ég stopp í 3 vikur og svo núna í 2.  Ljóta óstuðið.

Hjólaði í gær í fyrsta sinn í hálfan mánuð.  Hífandi rok og ég úti á Ólafi.  Hann er reyndar enn á CycloCross dekkjunum (700×33) þannig að hann rennur ljúft yfir.  Skellti mér á Hólmsheiðina, Úlfarsfellið og Heiðmörkina.  Hitti ekkert af fólki svona seint á sunnudegi í hávaða helvítis roki og snjókomu.  Þegar ég svo kom að Ingvari Helga á leiðinni heim leist mér ekkert á mig.  Alveg búinn á því og var bara ekkert viss um að ég meikaði það heim.  Lét mig hafa það og tók þetta á þrjóskunni.

Fann það í gær á hjólinu að ég var ekki góður.  Vantaði kraftinn og það þrátt fyrir svona langa pásu.  Svo þegar ég fór að lyfta í kvöld fann ég virkilega fyrir þessu því venjulega eftir smá pásu er ég alveg að springa og ferlega sterkur en ekki í kvöld.  Lyfti samt talsvert en þegar ég fór svo heim fann ég að ég var ekki svona upp pumpaður eins og venjulega eftir gott lóðarí heldur var ég bara þreyttur í þeim vöðvum sem ég hafði verið að taka á.

Tek þátt í Hjólað í vinnuna átakinu með hinum Point-urunum.  Ansi gaman enda andinn auðsóttur á svona litlum stað.  Þetta þýðir aftur á móti að ég verð að hagræða eitthvað æfingum næstu daga með tilliti til þessa.  Það ætti ekki að vera neitt mál og ég læt það bara ganga.  Því miður verður sundið eitthvað að bíða meðan sárið er að fá á sig einhverja húð.  Vil ómögulega fá óþarflega stórt ör í andlitið.  Svo er þetta talsvert óþægilegt eins og er þannig að já, sundið bíður.

Þar sem ég gat ekki tekið þátt í Kópavogsþrautinni bauð ég mig fram til starfa.  Það var þegið og skemmti ég mér alveg ljómandi vel við að brautarverja hlaupabrautina.  Var bara á Ólafi hinum sérstaka enda veitti svo sem ekki af þar sem ég var að mestu einn við þetta.  En það var bara gaman.  Ótrúlega gaman að sjá allt nýja liðið sem er að detta inn og af þvílíkum krafti.  Ég veit ekki hvort kemur mér meira á óvart Stefán Guð eða Alma en þau eru bæði alveg ótrúleg.  Það er samt eitthvað við það að Stefán fær allt upp í hendurnar, að því virðist, meðan Alma er nokkuð venjuleg á þessu.

Ég verð að trúa því að núna sé ég kominn á beinu brautina.  Spurning um að slaufa Bláa Lóninu 😦