Archive for the ‘Hið daglega amstur’ Category

Jæja Florida búið og mér er ansi létt.  Tvö ár af æfingum, undirbúningi og allavega mis alvarlegum tjónum á mér að baki.  Ég trúi því að núna verði auðveldara að setja sér markmið og ná þeim.  Florida hefur veirð soldið fyrir en eins og ég segi, búið.

Ætla að geyma úthalds og hraða æfingar fram að áramótum en vinna þeim mun betur í styrk og liðleika þann tíma.  Fór með Oddi á þriðjudaginn í Spöngina þar sem við tókum Allen hring á lóðin.  Vissum báðir að við fengjum hressandi harðsperrur fyrir vikið og klikkaði ekkert þar.  Ég fékk þær svo fínar að ég gat ekki synt á fimmtudaginn (í gær).  Fór reyndar og tók aðeins á áður og gekk svona bærilega já.  Fékk að vísu á mig skot að ég hefði horast og mikið af vöðvum væru farnir.

Fór á Tinds hjólaæfingu og skemmti mér alveg stórkostlega.  Vorum í skítaveðri á fjallahjólum.  Myrkur, rigning og nokkur vindur.  Alveg freðinn þegar ég kom heim.  Er á negldum 700×35 á fjallahjólinu.  Treysti nöglunum ekki alveg en mikið rosalega er gaman að geta vaðið um á reiðhjóli í hvaða veðri sem er.

Planið er að slaka vel á þessar vikur.  Yoga, lyftingar, sund og hjól.  Ekkert hasar eitthvað heldur tækni og skynsemi á þetta.  Ætla reyndar að fá Valda bróðir til að taka mig og Odd í smá beygju og dedd kennslu.  Hann var að gera flotta hluti í Las Vegas og er ég þvílíkt stoltur af honum.  Hann setur sér markmið og fylgir settri leið að þeim.  Flottur.  Mig langar að ná soldið fallegri tölu í beygjunni og gaman væri að ná einhverju skemmtilegu í deddinu.  Þetta verða auðvitað bara tölur fyrir mig miðaðar við mig en það dugir mér 🙂

Hef verið alveg ótrúlega vitlaus með svefn frá því ég kom heim og er kvöldið í kvöld engin undantekning.  Sef lítið og illa og er svo syfjaður allan daginn.  Ekki beint góð undirstaða fyrir æfingar.  Þarf að koma mér í réttan gír áður en ég byrja og þá bæði svefn og mat.  Það verður ekki erfitt.

Afmælis

Posted: 10 October, 2012 in Æfingarnar, Hið daglega amstur

Jebb 45 ára í dag.  Upp um aldursflokk í IM og er núna yngstur í mínum flokki.  Vonandi næ ég að nýta mér það á Florida í næsta mánuði.

Hef verið hjá Magga sjúkraþjálfara og Guðbrandi nuddara einu sinni í viku núna í soldinn tíma.  Maggi að djöflast á öxl og hálsi meðan Guðbrandur er aðallega í kálfum og lærum.  Ferlega fínt og formið á mér alveg verulega frábært.  Veit alveg af þessu læra rugli sem hefur verið að trufla mig en mér hefur þó tekist að hjóla það úr mér þegar ég finn það er að koma.

Við Oddur skelltum okkur til Spánar í viku núna um daginn.  Flugum til Alicante með Racer-ana í töskunum.  Hörku vindur allan tímann og vorum við í talsverðum átökum alla dagana.  Fyrsti var þó sá sem bara af í hjólamennskunni þar sem þar græddum við verulega af brekkum í bót.  Hlupum eitthvað en syntum lítið enda mikil alda og talsvert drasl í sjónum.  Rúlluðum yfir til Torevella og svo til Benidorm þar sem við borðuðum breska hamborgara.  Merkilegir svona breskir borgarar þar sem þeir nota bara kjötfars í þá svei mér þá.  Helvíti andstyggilegt.

Fílingurinn sem maður hafði fyrir þessu svæði var sá að annað hvort væri þetta í mikilli niðurníðslu eða væri verið að byggja þarna upp.  Reyndar bar ekkert á liði í uppbyggingu þannig að líklega er þetta bara eitthvað ekki gott.  Held ég að Mallorka verði frekar fyrir valinu í næstu svona ferð þrátt fyrir mun lengri ferðatíma.  Þar er allt á allt öðru leveli til íþróttaiðkunnar.  Mjög skemmtilegt.

Hef verið að hlaupa með Laugaskokki.  Ferlega gaman þó auðvitað vildi ég helst hlaupa með ÍR.  Æfingatíminn klukkan fimm hentar mér bara svo ári illa þar sem ég vinn til fimm og það í Kópavogi.  Það vantar ekki klassa þjálfarana í Laugaskokkið en maður er bara orðinn svo mikill ÍR ingur eitthvað fyrir utan auðvitað hvað er gaman að æfa inni á braut þegar fer að vetra.  Sjáum til hvernig þetta vinnst.

Var svo ljómandi heppinn að Vífilfell var til í að styrkja mig með Powerade og Hámark.  Veitir ekkert af allri þeirri orku sem ég get fengið þessa síðustu og verstu.  Er reyndar ekkert í neinu ógnar magni æfingalega séð heldur hef ég meira hugsað um gæði og svo að fara soldið vel með mig.  Ég veit að ég get tuðað þetta allt en ég geri ekki nokkurn hlut ef lappirnar verða í sama standi og í Roth í sumar.  Ég verð líka að hafa hugfast að ég ætla að nota þessar sömu lappir og sama skrokk eitthvað áfram eftir keppnina og get ómögulega verið að tjóna mig eitthvað óþarflega.

 

Djöfulls verkun er þetta á manni.  Maður vill auðvitað vera nokkuð frambærilegur.  Því var það þegar ég var staddur í Sportís að velja mér jakka að ég kippti með mér eins og einu afar hressandi glasi Sport þvottaefni.  Cintamani kallinn minn, verður ekki mikið betra.  Veldur ekki miklum kláða á húð þar sem húðin brennur að mestu leiti í burtu.  Svo ég sé nú “fair” þá þvoði ég íþróttafötin mín upp úr þessu og fór svo í þau á langa Trainer æfingu.  4 tímar, hviss bamm búmm og mig er aðeins farið að svíða.

Nú daginn eftir, mánudagur og ég í svona líka stuði.  Lærin, lærin hreint ekki í stuði.  Ekki þreyta heldur risa sár og blöðrur.  Við skulum ekkert vera að ímynda okkur að lærin séu bara framan á fótunum.  Neibb þau ná allan hringinn og ef þau byrja við hné þá enda þau við rass.  Sárin náðu reyndar á rassinn enda ná hjólabuxurnar yfir hann.  Hélt ég dræpist bara.  Andskotans vesen þetta á manni.

Trausti bróðir kom til bjargar eins og er að verða hans vani.  Sá að þetta var skítamál og sagði mér að koma á stofuna til sín.  Þar lét hann draga mér blóð og skoðaði mig síðan.  Sagði þetta vera eitthvað bráða ofnæmi/exem.  Lét mig fá sterakrem til að losna við óþægindin af þessu.  Var ekki alveg að gera sig og lét hann mig fá stera pillur stuttu síðar.  Þær virkuðu alveg ljómandi fínt nema hvað ég minnkaði skammtinn of snemma.  Trausti lét mig bæta í aftur þar til árangurinn væri alveg súper, þá mætti ég minnka.  Gerði það og sárin eru að mestu farin.

Hef verið að dúlla mér svona og svona undanfarið.  Heiðmerkurtvíþrautin er auðvitað uppáhalds hjá mér en núna tók ég þátt.  Gekk alveg la la en hjólið eitthvað þreytt hjá mér.  Keppti síðan í Cube prologue og var bara svona sæmó.  Bæti mig alveg örugglega í næstu keppni ef ég tek þátt.  Það er annað hvort að hvíla einn dag fyrir keppni eða láta eiga sig að taka þátt.  Ekki nógu gaman að finna kraftinn í fótunum en halda ekki keppnina út.

Frábærar æfingabúðir hjá Ægi Þríþraut.  Sprettir voru þemað og komust þau skilaboð rækilega til skila.  Var alveg sannfærður um að ég dræpist bara í lauginn slíkt var actionið á Jacky.  Fann hvað sundið hjá Vadím hefur skilað miklu til mín þar sem ég gat synt á pari við hina þó að mig hafi að sjálfsögðu vantað hraðann.  Öxlin fín og annað bara eftir því.

Eftir afar erfiða daga lét ég mig hafa það og tók þátt í Reykjanes hjólreiðakeppni.  Mætti á Racer og fannst ég til.  Var það sennilega ekki þar sem ég missti hópinn sem ég ætlaði að fylgja langt fram úr mér og gekk bara illa.  Var að berjast einn í nokkurn tíma og tapað kröftum á því.  Merkilegt þar sem ég er nýbúinn að fara illa með mig í Þingvallatúr við sömu aðstæður.  Lét hlutina fara í skapið á mér og það þó að ég viti að skapið bitni fyrst og síðast á mér.  Hjólaði 64 km á 2:06 eða þar um bil.  Svo sem allt í lagi en samt ekki.

Var mjög þreyttur eftir keppnina og rosalega slæmur í öllum liðamótum.  Veit ekki hvort þetta er vatnsleysi eða hvað en þetta gerist stundum hjá mér.  Borðaði og drakk vel og skellti mér út á Sneiðinni fögru.  Að koma af ál racer yfir á Carbon þríþrautarhjól er bara æði.  Rauk í bæinn á no time og áður en ég vissi af var ég að tala við Kristján Eldjárn og son hans við Akraborgina.  Hjóla út á Granda og passa mig að muna eftir stefnumerkjum og vera flottur.  Fer eftir göngustígnum en man lítið eftir beygjunni við JL húsið.  Man næst eftir mér á Borgarspítalanum.

Allt í steik, andlitið illa farið, hendur rispaðar, fætur rispaðir, bak í ólagi, háls mjög slæmur og verst af öllu er hægri öxlin.  Þetta er á sunnudagskvöldið 29. apríl.  Ég er einhverja átta tíma á spítalanum og talað er um að hafa mig um nóttina vegna höfuðáverka.  Fæ þó að fara heim.

Á mánudeginum fæ ég tíma hjá Örnólfi eða réttara sagt, Örnólfur ætlar að hitta mig eftir vinnu.  Oddur býðst til að taka mig á rúntinn, damn að þekkja svona mann, og sækja hjólið líka.  Örnólfur skoðar mig og gerir og sendir mig í ómskoðun.  Þar er byrjað á að segja að ég sé brotinn.  Jibbíí, það var þá eitthvað sem mig vantaði.  Svo kemur í ljós að svo er að öllum líkindum ekki??? og sinar og dót sé líka í fínu lagi.  Mánudagurinn er sá 30. sem er líka síðasti dagurinn til að segja sig úr Challenge Roth.  Ég ákveð eftir miklar pælingar að gera það ekki.  Vil ekki fá það í hausinn að það sé eitthvað lítið mál að hætta við keppni.  Maður klárar það sem maður er byrjaður á.  Ég finn að það vantar hörku í mig og ég verð að finna hana aftur.  Eitthvað farinn að linast og það er ekki ásættanlegt.

Tala við lögguna og fæ að vita að það var vitni að slysinu.  Hjón sem ég fór fram úr báru mér vel söguna og sögðu að þegar ég ætlaði fram úr skokkara hafi hann stokkið til hliðar fyrir mig.  Þá hafi ég nauðhemlað og það má ekki á TT hjóli.  Ég er ansi svekktur ég viðurkenni það.  Hjólið skemmt þó ekki virðist það mikið og ég er bara talsvert slasaður.  Lít mjög illa út og líður jafnvel verr.

Doktorinn segir að ég verði að taka því alveg á núlli næstu 3 til 4 daga.  Lét vinnuna vita og það var auðvitað ekkert mál.  Svo á það að fara í hálfan mánuð samtals og þá má ég byrja að taka á því.  Ég held að ég verði að hlusta á Vigni núna og stilla Roth inn sem leik.  Veit ekki hvernig mér gengur að taka svona keppni ekki alvarlega en ég verð bara að reyna.  Held samt að ég verði aldrei sáttur við sjálfan mig ef ég fer ekki undir 11 tímana.  Það er kannski ekkert merkilegt en eitthvað verð ég að miða við ef ástandið ætlar að vera svona á mér.  Þá er bara að taka tímann eftir Roth alvarlega og taka Florida glæsilega.  Eitthvað sem segir mér að svo verði.

Nýja hjólið er Specialized Allez 2011 árgerðin.  Alveg nýtt fyrir mig að fara út að hjóla á svona græju.  Ótrúlega skemmtilegt apparat og mikill munur að vera á svona í borginni samanborði við TT hjólið.  Hef reyndar verið að uppgvöta nýtt hjól síðustu dag.  Rockhopperinn 29″ fjallahjólið er alveg dásamlegt á Cyclocross dekkjunum sem David Kríu seldi mér.  Veð áfram á þessum líka hlunk en munurinn er að ég gossa alveg hiklaust yfir kanta og allavega drasl.  Brjálað fjör.  Notaði það í Heiðmerkurtvíþrautinni á þessum dekkjum.  Virkaði svona glimrandi en þar var það líka formið á mér í einhverju óstuði.

Morgun ætla ég að kíkja á heilsugæsluna hérna í Mosó.  Grefur alveg djöfullega í andlitunu á mér og lyktin aldeilis eftir því.  Held ég skilji Súbbann bara eftir heima og hjóli bara á fjallahjólinu.  Ekki veitir mér af hreina loftinu.  Djöfull er eitthvað leiðinlegt að lenda í einhverju svona eina helvítis ferðina enn.  Mig langar að kenna hlauparanum um þetta en veit að ég hefði brugðist við á sama hátt og hann.  Ég átti bara að vera á götunni eða ég veit það ekki…  Kannski er þetta ekkert fyrir mig?

Jú víst er þetta fyrir mig.  Þetta kemur allt.

Búinn að vera ansi duglegur þessa vikuna.  Skrokkurinn svona glimrandi að verða.  Eftir heilmikinn djöfulgang hjá sjúkraþjálfara er öxlin öll að koma til.  Ég hef getað tekið aðeins á því í kjötvinnslunni en það sem betra er þó að ég hef getað klárað sundæfingarnar.  Nú síðast á fimmtudaginn kláraði ég hana létt og var þó ekkert slegið af alla æfinguna.

Fór í hjólatest hjá Vigni.  Veit ekki hvort það var gáfulegt þar sem það dró soldið úr mér.  Gekk illa, var strax þreyttur og mjög móður.  Hvernig er hægt að vera þreyttur þegar maður er ekki að gera neitt?  Maður spyr sig.  Núna er ég búinn að taka eitt rólegt hlaup, Pace 5, þar sem púlsinn var að meðaltali 122.  Það held ég að hljóti að vera merki þess að ég sé að detta í gang.  Hörku hjól í kvöld, Ólafur á nagladekkjum, 30+ í roki og rigningu á dúndur meðalhraða.  Erfitt til að byrja með en svo hætti að svíða og öndunin komst í gang.

Heiðmörkin á morgun með Oddi.  Ætlum að vera spakir og taka stuttan hring.  12 km er örugglega bara fínn klukkutími þar sem reikna má með drullu og stuði.  Nú það má þá alltaf lengja aðeins ef það passar.

Fór á þessa ljómandi Gel kynningu hjá Gylfa og Heimi Karls.  Flott hárið á Heimi.  Klikkar ekkert á því kallinn.  Hefði ekki orðið hissa að sjá hann í Diskó jakka á Kadilakk.  Hann var reyndar á Lexus jeppa þannig að það klikkaði.  Gelin virka ansi snjöll.  Voru tvenn eða þrenn sem ég gæti alveg hugsað mér að gúffa í mig en kostnaðurinn er aðeins að þvælast fyrir.  Tíkall á kassann með 30 gelum.  Eitt á dag og maður er alveg dásamlegur.  Gummi Gísla segir þetta hafa bjargað einhverju bakdóti hjá konunni og einhver Pétur hjá Atlas ber þessu voða góða sögu.  Merkileg fannst mér þó staðhæfingin um að næringarinnihald hinna ýmsu matvæla hefði rýrnað um tugi prósenta á 20+ árum.  Banani er ekki nema brot af þeim banana sem hann var ’84.  Mengun og eitthvað mannanna böl er að skemma allt.  Það sem við ekki drepum skemmum við bara í staðinn.

Horfði á nokkur Roth video í dag.  Horfði talsvert á skiptinguna á T2 og hugsaði með mér hvernig í ósköpunum mér dytti þetta rugl í hug og það með nokkurra daga millibili.  Fokk, maður er ekki í lagi.  Held að ég fái Maríu Sæmunds til að bóka mig í hrútaþukl á næsta héraðsmóti.  Þá verð ég fastur í æfingum fyrir það og leiðist ekki út í svona dellu á meðan.  Læri kannski bara á harmonikku eða greiðu í leiðinni.  A star is born.

Búið

R and R

Posted: 12 February, 2012 in Hið daglega amstur, NIðritími

Neibb ekkert rokk í þessu hjá mér.  Þvert á móti er það bara hvíld og endurheimt.  Jamm, sultuslakur þessa dagana.  Æfi lítið sem ekkert utan smá Yoga, sund og léttar lyftingar.  Þær eru þó meira til að gera bara eitthvað.

Var hjá sjúkró í síðasta tímanum vegna kálfans á fimmtudaginn var.  Spyr hann um hreyfiæfingar á öxlina og það dót þar sem ég hef verið hundleiðinlegur þar eftir að herðablaðið gaf sig.  Hann segir mér að rusla mér úr að ofan og fer eitthvað að tékka á mér.  Segir svo eftir stutta skoðun að vöðvarnir í bakinu séu bara óstarfhæfir vegna bólgna og séu allir samanherptir.  Bloody brilljant og ég sem hélt að það væri eitthvað að mér.  Hann rauk í að nudda í þetta og boj var það sárt.  Hann átti ekki dropa til af miskunn og hélt bara áfram þrátt fyrir tístið í mér.  Sagði mér að slaka á í nokkra daga og lofar mér flottum á stuttum tíma.

Það skyldi þó aldrei vera að ég verði bara fínn og flottur í öxlinni og get bara farið að synda?  Þá eru nú horfur ekki slæmar.  Kálfinn að jafna sig, axlirnar mögulega að verða svona glimrandi og restin bara svona glettileg.

En hvað?  Ætla ég til Roth?  Verður hvíldin milli Florida og Roth næg eða verð ég bara eins og drasl í aðal keppninni?  Ég hef ekkert að vinna í Roth nema auðvitað flottan tíma en hvað kostar það?  Draumurinn er auðvitað að fá boð um Kona hvert sem ég þigg það eður ei.  Æ ég veit það ekki.  Mig langar til Roth og tíu tíma keppni þarf ekkert að drepa mig.  Mánuður í “hvíld”, tveir stífir í æfingar og svo niður aftur á heilum mánuði.  Kannski er þetta ekkert glatað plan.

Ég get reyndar aldeilis djammað ef ég sleppi Roth.  Bláa lónið og Laugavegurinn er nú aldeilis spennandi með tíma í báðum keppnum sem ég ætti að eiga frekar létt með að bæta.

Þriðja táknið á hljóðbók og smá WoW er það sem klárar kvöldið

Adios

Djöfull er ferlegt að taka svona pásu, pásu frá æfingum og pásu frá keppni sem unnið hefur verið að í heilt ár.  Í svekkelsinu dreif ég mig í og skráði mig í Miami maraþon sem haldið verður í lok janúar.  So far so good.

Markmið:  Sub 3, á ekki að vera neitt meiriháttar mál, held ég.  Það sem verra er er að margir aðrir halda það líka.  Þá er bara að renna sér í spandexið og reima á sig hlaupaskóna og byrja að æfa!  Nú heimurinn er að sjálfsögðu sigraður á fyrstu vikunni.  Ekkert gert í langan tíma og allt í botn.  Krass-búmm, leggurinn stífnar og þá meiði ég mig í ökklanum og jarí jarí.

Sjúkraþjálfun, nálar, rafmagn, Hot Yoga og Yoga fyrir hlaupara.  Sennilega hef ég þó grætt jafn mikið á hvíldinni sem ég fékk við þetta en ég var rólegur í næstum viku.  Fór PowerAde á fjórða degi og leið hreint ekki vel, reyndar bara ömurlega þegar á leið.  Hljóp á efri mörkum æfingapúls og gekk alveg la la að halda því.  Verst var þó að fá fullt af fólki fram úr sér en ég hélt mig við planið.  Þegar kílómetri var eftir ákvað ég að teygja mig í skálina og gaf vel í.  Hljóp alveg ljómandi vel og endaði á 46 mín.

Verð að passa álagið þar sem ég hef ekki verið að æfa það mikið hraða en einbeitt mér að stöðugu hlaupi á lágum púls.  Núna þegar vel er bætt í finn ég fyrir ökklum og að sjálfsögðu vöðvum í fótum enda svo sem að standa mig ágætlega í lóðaríinu með og það telur að sjálfsögðu.

Hinar ýmsustu axlaræfingar eru að skila sér sæmilega.  Upphýfingar og svoleiðis líka.  Sundið frekar viðkvæmt og þarf ég lítið til að meiða mig nokkuð vel.  Er ekki viss um að það sé byltunni um að kenna, þessi eymsli eru of kunnugleg til þess er ég hræddur um.  Það kemur í ljós.  Læknir og sjúkraþjálfarar segja að ég komist ekki hjá því að láta laga viðbeinið.  Eins og fílingurinn er á mér núna veit ég ekki hvað ég geri eða geri ekki ef ég þarf að fara í enn eina aðgerðina.

Er að virka í hlaupum og sjálfsagt þokkalega á hjólinu en ef sundið heimtar aðgerð held ég að sundið verði bara að fá að eiga sig.

Sundtak

Posted: 3 November, 2011 in Æfingarnar, Hið daglega amstur, NIðritími

Jamm fimm vikur frá óhappinu og ég synti í fyrsta sinn í dag (kvöld).  Gekk merkilega vel þrátt fyrir að ég hafi verið, tja næstum nervus við þetta.  Veit ekki hvort ég hélt að Vadím væri bara allur gleymdur og ég væri bara á upphafsreit en svo var sem betur fer ekki.  200 metrar til að byrja með, ég í smá rugli með mig og tók aðeins of mikið á.  Fann fyrir mér og dreif mig bara í gufu.  Það var þó eftir að ég hafði synt á eftir einhverri dömu og var sífellt í löppunum á henni.  Hún var ekki níræð!

Var lengi í gufu og slakaði vel á og fór svo 100 í bót.  Eins og fokkíng engill.  Leið um vatnið, silent but deadly.  Gerði meira áðan.  Bekkurinn og þá ekki sá hjá sála.  Ó nei!  Tóm stöng en alveg frá þröngu og út að mörkum.  Grilljón sinnum og í framhaldinu setti ég lauflétt á.  Gerði slatta í bót og var svona glimrandi með þetta.  Handlóð á bibba, mjög létt og nennti ég ekki að standa í því.  Fór á prestinn og tók bibba þar.  Fínt þangað til ég gekk frá stönginni, það var ekki gott.  Þessir árans brestir í dótinu eru svo leiðinlegir eitthvað.

Hef verið að mæta á æfingar hjá ÍR hlaup.  Var alveg búinn að gleyma því hvað er ferlega gaman á svona hlaupaæfingum.  Ekki skemmir að ég er með öftustu mönnum og er því í baráttu allan tímann.  Er ekki í nokkrum vafa að ég á eftir að ná miklum framförum á stuttum tíma ef ég verð ekki dauður úr hjartaáfalli eða einhverjum ámóta ósköpum.

Innanhúss sprettæfing, freistandi að hafa þetta í einu orði, í fyrsta sinn í gær.  Vááá Bé.Oo.Bé.Aa. Bomba!  Þvílíkt stuð.  Gaf vel af mér og er bara með harðsperrur í dag.  Talsverð breyting frá púlsæfingunum :-).  Ég er ennþá nokkuð jákvæður fyrir Miami þó að mér finnist ég vera þungur á mér þessa dagana.  Tók 9 á bretti í vikunni á Pace 4:07 og fannst það bara erfitt.  Reyndar var að ég því seint um kvöld en samt.

Legg ekki ennþá í að fara út að hjóla.  Meðan ég get ekki gert armbeygjur sé ég ekki að ég hafi nokkuð í eitthvað skemmtilegt fjallahjól að gera og ekki fer ég á Sneiðinni.  Veit ekkert hvað ég vill en ég get ómögulega verið í þessu rugli.  Mér finnst eitthvað vanta í daginn að vera svona fjári óæfður og fara óþreyttur að sofa.  Ég sef reyndar lítið vegna verkja en það stendur allt til bóta.

Keypti mér flug til Egilsstaða í dag.  Ætla að rölta til rjúpna um miðjan nóvember og verður verulega gaman að prófa formið í fjöllunum fyrir austan.  Þyrfti að taka nokkrar leirdúfur áður þar sem ég hef ekki skotið núna í tvö ár og þar áður var mjög löng bið.

 

Sei sei og já já.  Vinstra herðablaðið brotið.  Röntgen læknir segir að höggið sem þarf til að brjóta herðablað sé svo mikið að yfirleitt brotni eitthvað með.  Fyrir utan tognanir og eymsli er ég heill að öðru leiti s.s. sinar og dót í góðum gír.  Spurning hvernig öxlin kemur út úr þessu.

Axlarlæknirinn Örnólfur segir mér að slaufa Florida en bannar mér ekki að fara!  Segir að sundið verði mér erfitt (eins og ég hafi ekki vitað það ha ha) vegna verkja.  Ég ætla að sjá til með hvað ég geri og ekki taka neina ákvörðun strax.

Nú fyrir utan þetta “frávik” á æfingaáætluninni var Mallorcaferðin ótrúlega frábær.  Hjóluðum, hlupum og syntum eins og englar innan um alla fallegu englendingana.  Síðasta daginn minn úti reyndi ég að taka sundlaugina á þetta enda frekar ógangfær en gafst fljótlega upp og fór á röltið.

Eitthvað smotterí tók ég af myndum sem ég smelli á myndasíðuna.

Eftir HIM

Posted: 16 July, 2011 in Æfingarnar, Hið daglega amstur

Eftir alveg ágætt gengi í HIM síðustu helgi hef ég tekið því alveg ljómandi rólega.  Hef farið nokkrum sinnum í sjóinn og synt eitthvað.  Fór aðeins að lyfta og gekk alveg súper vel en reyndar fékk ég í öxlina um leið og ég reyndi bekk.  Tók samt mjög vel á því og hef verið með harðsperrur alla vikuna.

Fór aðra frábæra ferð með Ólafi núna upp að Hafravatni og þvældist þar aðeins um, sá einhvern vitleysing henda fullt af drasli úr bíl  og hringdi í lögguna.  Fór að Reykjum þaðan yfir í Skammadal, Mosfellsdal og heim.  Rigning og rok og ég alveg haug skítugur.  Skolaði aðeins framan úr mér í Hafravatni áður en ég hélt áfram.  30 kílómetra nokkuð erfiður rúntur og alveg ferlega skemmtilegur.

Fór með Corinnu í gallasund í gær, föstudag, í Bongó blíðu og háflóði.  Syntum yfir í víkina Kópavogsmegin og til baka ca. 1500 metra.  Nokkur alda á móti okkur þegar við syntum frá Kópavogi en það gerir þetta bara ennþá skemmtilegra.  Þó það sé gaman að synda í gallanum er það mikið meira álag á öxlina og átti ég nokkuð erfitt með svefn vegna þess.  Veit ekki hvort þetta er eitthvað sem þýðir að reyna að æfa úr sér en það er sjálfsagt að reyna það þar sem aðgerð er ekki á dagskrá fyrr en eftir Florida og ég fæ ekki aðra sprautu fyrr en rétt fyrir keppnina.

Fór norður á Laugabakka í gærkvöldi.  Góður fílingur í sæmó veðri þó það mætti nú blása aðeins minna.  Hljóp inn Miðfjörðinn í dag, kalt til að byrja með en svo spratt sólin úr leyni og þá hitnaði strax.  Nokkur strekkingur og þegar var farið að bæta vel í snéri ég við enda þá með vindinn í fangið og leiðin upp í mót.  Fór rúma 26 km án vatns eða orku og var bara orðinn þreyttur þegar ég kom til baka.  Var á Fastswitch skónum og ökklar og iljar orðin ansi aum enda að hlaupa á malarvegi og Fastswitch ekki beint til þess gerðir.  Kældi það versta og er bara fínn eftir.  Byrjaði reyndar hlaupatúrinn með hundinn Fróða með mér en hann gafst fljótlega upp og vildi heim.

Ætla snemma heim á morgun til að ná mér í gott, rólegt hjól í góða veðrinu sem á að vera.

Hvað fer fram á Gay kvöldi í dýragarði?  Þegar ég var í Berlin um daginn renndi ég mér í dýragarðinn.  Þá um kvöldið átti að vera sérlegt kynvillukvöld í garðinum og var allt að fyllast af svona líka ljómandi hommum.  Minna bara á lessunum enda hommarnir afskaplega áberandi í sínum hommaskap.  Það er ábyggilega nokkuð sérstakt að vera við svona “Show” en við bræður treystum okkur ekki til þess.  Kom þar helst til þýskukunnáttuleysi okkar bræðra.

Þar sem það hljómar lygilega að vera með sérstakt kynvillukvöld í dýragarði, hvernig passar það líka saman?, tók ég mynd af auglýsingunni til sönnunar.  Valdi á svo nokkrar skínandi hommamyndir.  Sæki ég þær við tækifæri og pósta hérna á Járnkarl.com.  Verður nafni síðunnar breytt í softí.com í framhaldi af því.

 

Góða nótt

Samkvæmt Allen átti síðasti föstudagur að vera sæmilegt hjól enda við að Taper-a á fullu fyrir hálfa kallinn sem verður 10. júlí í Hafnarfirði.  Ég var eitthvað ekki í stuði fyrir Reykjavíkurhring eða brun á Þingvelli þannig að ég gíraði Ólaf bara upp í langferð og smurði mér nesti.  Ætlaði að fara frá Reykjum yfir Skammadalinn og svo niður með Leirvogsá.  Var varla lagður af stað þegar sprakk og eyddi ég bjánalega löngum tíma í að skipta um slöngu og brjóta rándýr sólgleraugu.  Darn!

Nú ég brenndi af stað í annað skipti og fór líka svona frábæran túr.  Gott veður, soldil gola en hlýtt og kvöldsól fyrir allan peninginn.  Hentist út um allar trissur, torfærur og ár.  Dreif ekki yfir ánna og blotnaði í fæturna, dreif ekki upp brekkur og flaug næstum á hausinn og fannst svo hrikalega gaman að ég er þegar farinn að velta fyrir mér annari svona ferð.  Gaman að hafa hana nokkuð lengri og jafnvel einhvern með.  Sjáið leiðina, alveg frábært.  Smelli inn myndum sem ég tók þegar ég nenni að draga þær úr símanum en hér er linkur á leiðina:  http://connect.garmin.com/activity/96145484

Hef verið nokkuð duglegur að fara í sjóinn og synda slatta þar.  Ég veit ekki hvað veldur en allt í einu er eitthvað að gerast, mér finnst ég nái að renna og sundið er eitthvað svo áreynslulaust.  Öxlin er ekki sammála en þetta er alveg að koma held ég.  Corinna spurði meira að segja hver hefði verið að segja mér til.  Well mig dreymir fjandans sundið, ég horfi mikið á myndbönd af sundi og hugsa um hvernig ég ætla að gera þetta.  Svo þegar ég mæti á skýlunni þá reyni ég að hugsa um hvað ég var að horfa á og það hefur hjálpað til.  Ég get samt ekki sleppt því að minnast á að auðvitað hafa þau Vignir, Gylfi og Corinna verið ómetanleg í að koma mér í gang.

Nú er hálfi kallinn eftir einn dag og það sem ég hugsa um eru skiptingar ekki sund.  Það er auðvitað alveg út úr kú en ég næ ekkert að gera meira fyrir sundið á þessum tíma en skiptingarnar verða að vera í lagi.  Fór og æfði að fara úr og í hjólaskóna á ferð og var það lítið mál.  Bara að láta vaða.

Sneiðin fór til þeirra GÁP manna vegna leguhljóða og sögðust þeir hafa gert og gert.  Svo þegar ég var að æfa á þriðjudagskvöldið fór ég að heyra hljóðið aftur og fattaði þá að þeir GÁP menn hafa ekki prófað hjólið eftir.  Soldið svekk.  Er nú samt farinn að hallast að því að þetta sé hljóð í pedalanum þannig að ég flysja honum í sundur og maka á hann olíu.  Vonandi dugar það.

Fór í sjóinn við Garðskagavita í gærkvöldi.  Það var alveg meiriháttar, ný upplifun í sjósundi.  Þarna er hvítur sandur, tær sjór, flottur gróður og fiskur í sjónum.  Hún Gauja Garðsbúi sagði mér að það væri bara nokkuð algengt að synda með sel þarna.  Var virkilega gaman að heimsækja hana og Pálmar og eyða með þeim kvöldstund.

Fór með hann Fróða minn í það sem átti að vera rólegt þriðjudagsskokk í Tapering.  Ég var ekki með púlsmælinn á mér þannig að kannski hef ég gefið aðeins of mikið inn en mikið óskaplega var hundurinn þreyttur á eftir.  Kannski er svona erfitt fyrir hann að hlaupa í einhvern tíma í ól í stað þess að fá að gormast um sjálfur.  Á morgun eru 15 mínutur af öllum þremur greinum.  Þetta á að vera svo maður haldi spennunni.  Ég held að ég þurfi ekkert að gabba mig neitt til þess.   Spennan er mikil hjá mér, mig langar verulega að standa mig vel enda hef ég æft verulega vel.

Sunnudagur er svo HIM og verður vonandi ekki mikið rok á okkur á Krýsuvíkurveginum.  Ég verð góður sama hvernig veðrið verður.  Ef það verður skítaveður er skítaveður hjá öllum en mér finnst oft bara gaman að leika mér í skítaveðri.  Ef það verður sól og brakandi blíða verð ég úber hress því í þannig veðri finnst mér skemmtilegast að hlaupa o ghjóla í .

Gott í kvöld