Jú jú er það ekki frídagur að kalla þegar maður er ekki í klaustrinu. Það að vinna þessi verk sem þarf að vinna, þrífa frá nokkrum af stóru dýrunum, leika við ungana og annað álíka krefjandi er samt ekki mikil vinna. Maður má vera alveg úr tengslum ef maður nýtur ekki hverrar mínútu á svona stað. Túristarnir geta jú verið hundleiðinlegir en maður leiðir það bara hjá sér og þá er það ekkert mál.
Fórum í fyrrakvöld inn til Kachanaburi að kveðja Piyush sem er að fara til Vietnam að vinna við eitthvað tengt því að bjarga dýrum í útrýmingarhættu, þar á meðal einhverjum slöngum, akkúrat eitthvað fyrir mig 🙂 Fórum á indverskan stað og Piyush, verandi Indverji, dílaði eitthvað og gerði og fékk ég besta matinn sem ég hef fengið frá því ég kom hingað til Thailands. Kostuðu herlegheitin 1200 kall með drykk.
Gisutm hérna á Tara resort gistiheimili/hóteli eða einhverju. Sameiginleg klósett og sturtur en nóttin kostar ekki nema 250 baht (1000 kall) fyrir herbergið. Við erum tveir saman þannig að nóttin er á fimmhundruð kall. Frábær rúm, sundlaug og geggjað útsýni yfir Kwai fljótið. Aðalmanneskjan í mótökunni, sem er bara borð við gangstéttina, er dama sem var fyrir ekki svo löngu herra. Hún er enn með talsverða rót og ansi ókvenlega rödd. Alveg ljómandi frábær, alltaf þegar hún sér mig spyr hún mig hvort ég vilji það ekki svart og sykurlaust. Það eru ekki margir hérna sem drekka kaffið sitt þannig. Thailendingarnir eru með þetta allt dísætt og mjólkað.
Nú við J.P. (Jean Philippe) félagi minn erum hérna saman. Hann er 32 ára hagfræðingur og fyrrverandi bankamaður frá Tahiti. Hann fékk nóg af bankavinnu, hætti skellti sér í ferðalag. Það hófst fyrir hálfu ári og sér ekki fyrir endan á því. Hann er ótrúlega séður með í hvað peningarnir fara. Hann kaupir refill á vatnið sitt fyrir 1 baht meðan flaskan kostar 15 baht í búð, hann spáir mikið í hvar er best fyrir hann að taka út pening, gengið milli banka er mjög mismunandi og það getur bara munað miklum peningum að hans sögn. Hann ætlar ekki aftur í bankann og langar jafnvel að fara í bakarann. Skemmtilegur náungi.
Nú já fríið. Við mættum svo aftur hingaði í Kachana í gærkvöldi, ég fór með föt í þvott og við kíktum á næturmarkaðinn. Þar keyptum við okkur tilbúinn mat á 25 baht, reyndar splæsti ég mér í kók fyrir 15 þannig að kvöldmaturinn stóð í 160 krónum hjá mér. Hreint ekki slæmt. Leigðum okkur svo vespu í dag til að fara að skoða Erawan f0ssana. Það er fönký að keyra vespu í þessari umferð. Með eitthvað pottlok á hausnum, í stuttbuxum og stuttermabol, vinstra megin og umferðin eins og í Teheran. Það er ekkert ósennilegt að þú sért að keyra á einnar akreinar vegi en mætir þremur bílum hlið við hlið. Voða gaman allt.
Byrjuðum þó á brúnni góðu yfir Kwai.
Ansi sérstakt að vera þarna, hafandi séð myndina grilljón sinnum og svo lesið um hvað þetta kostaði allt í lífi og limum innfæddra og fanga sem voru neyddir til að vinna þarna. Fallegur staður engu að síður. Gengum yfir og svona túristuðumst aðeins eins þarf líka.
Brenndum svo af stað í áttina að fossunum. Skemmtilegur túr og æðislegir fossar og allt umhverfi í kringum þá. Fossarnir eru á 7 hæðum og er hægt að synda í flestum þeirra. Nokkuð fríkað að í þeim er fiskur sem kroppar í fæturna á manni ef maður stoppar eitthvað. Ég kunni nú ekki við það og mér sýndist nú fólki líka það misvel. Við J.P. syntum á þriðju hæðinni og þrömmuðum svo upp einhverja hundruði metra á sandölunum. Á efstu hæðinni voru svona ljómandi skemmtilegir apar að leik í trjánum. Á leiðinni upp sáum við, á nokkrum stöðum, kvennmanns hengd upp í tré og klútum einhverjum vafið um þau. J.P. hafði heyrt þetta vera einhverja hjátrú en við fundum ekkert meira um það.
Brenndum í bæinn á núll komma einni. Tókum bensín á leiðinni og þar var ekkert verið að vesenast eitthvað með eitthvað rafmagnsdælufínerí. Ó nei, bensíndæludaman dældi bensíni upp í glas og þaðan á tankinn. Mjög kúl. Borgað með peningum, enginn posi. Allt í lagi bless.
Kíktum í BigC sem er nokkuð stórt Fjarðarkaup þó FK séu nú notalegri. Renndi mér í klippingu meðan J.P. fór á hjólinu í banka.
Þú afsakar allar myndirnar af mér þarna en þetta blogg er nú að mestu leiti fyrir mig gert 🙂
Ég er nú eiginlega alveg viss um að þetta verður ekki eina ferðin sem þú ferð. Mér finnst þetta muni vera alveg dásamlegt. Bestu kveðjur, mamma.