Þokkaleg ástundun undanfarnar vikur er aðeins farin að segja til sín og þreyta farin að síga inn. Þegar ég hef orðið hennar var hef ég slegið af eða jafnvel splæst mér í frídag. Þeir hafa þó ekki orðið margir undanfarið. Prófaði að fara í djúpnudd til hennar Ólafar Sæmundsdóttur og þrátt fyrir að vera skratti vont þá lét ég mig nú hafa það og fór aftur vikuna eftir. Kálfar sem höfðu verið eins og grjót eru bara orðnir mjúkir og fínir en ég var nú nokkurn tíma að jafna mig á þessum djöfulgang.
Fór að fá bólgurnar fínu í vinstri legginn aftur og kíkti til Valgeirs hjá Atlas. Hann stakk og stakk og ég var bara svona ljómandi fínn á eftir. Algjör galdur svona nálastungur. Er hættur í sjúkraþjálfun í bili, ætla bara að lyfta vel, teygja, fara í gufu og nudd og halda mér góðum þannig. Axlirnar hafa verið svona og svona en samt ekkert sem ég get notað sem afsökun. Það var einmitt þess vegna sem ég ákvað að gera eitthvað í sundmálum.
Sá auglýsingu frá sjósundfélaginu þar sem auglýst var sundnámskeið með Vadím Forafonov. Þar sá ég email addressuna hans og smellti á hann línu þar sem ég bað hann um einkaþjálfun. Hann hringdi í mig stuttu seinna og ákváðum við hitting daginn eftir.
Fyrsta æfingin var flott og allar æfingar síðan verið frábærar. Mér finnst ég finna mun á mér á hverri æfingu og það sem meira er ég hlakka til hverrar æfingar. Það er aldeilis nýtt. Núna finnst mér gaman að gera drill og ef ég klúðra einhverju, sem gerist ekki sjaldan, stoppar Vadím mig og segir mér hvað ég er að gera vitlaust. Ég veit að ég verð ekki góður sundmaður á þessum stutta tíma fram að keppni en það má eitthvað mikið gerast ef ég næ ekki að bæta sundtímann minn verulega frá Köben.
Á mánudaginn förum við fjórir, ég, Vignir, Trausti og Oddur til Mallorka í æfingaferð. Það verður ekkert nema frábært að æða um eyjuna á flottum Racer-um í 25 stiga hita og sól. Karen bjó til prógram fyrir okkur með rosalegum hjólatúrum en líka slatta af sundi. Hlaupið er í minna lagi enda ekki gáfulegt að taka langar hlaupaæfingar þar sem maður er svo lengi að jafna sig eftir þær. Við fáum líka tækifæri til að rækta hauginn í okkur því síðasti dagurinn er að miklum hluta ætlaður til sólbaðs.
Ég hef verið tregur til að kalla þáttökuna í Ironman Florida verkefni, frekar áskorun þar sem ég er að mestu að keppa við sjálfan mig. Mér hefur aldrei þótt ég eyða of miklum tíma í æfingar og fæ sárasjaldan það á tilfinninguna að ég þurfi að fara á æfingu. Það er miklu frekar að ég hlakki til að fara á æfingarnar.
Fokk ég er farinn að sofa, æfing í fyrramálið!
djöfull er menn “pro” að fara í æfingaferð 🙂 Skemmtið ykkur vel.