Að leika sér með stóru krökkunum

Posted: 30 July, 2011 in Æfingarnar, Keppnir

Já já ég og sundmót.  daríadaa ég hlýt að vera alvarlega eitthvað.  Skráði mig og tók þátt í kílómetra sjósundi.  Frábært alveg.  Var með einhvern fíling að ég væri að skána eitthvað í sundinu en þá hvað?  Púff, lendi með einhverju liði sem er kallað skriðdýrin og var skilin eftir í fjörunni eins og gamalmenni á sólarströnd.  Sú litla færni sem mér hafði tekist að ná upp var skilin eftir í minningunni og ég buslaði þennan kílómetra á óratíma.  Glæsilegt.  Lét þetta ekki fara of mikið í taugarnar á mér merkilegt nokk.  Skrítið hvað sundið gekk illa, ég hef getað synt alveg ágætlega í sjónum en núna var ég ömurlega lélegur og kalt í bót.  Hélt að fíflin á bátnum í minni víkurinnar væru að sprella í mér og færðu bátinn því mér fannst hann bara ekkert nálgast.  Lenti í sjötta sæti af tíu, veit ekki hvort þeir sem voru hægari en ég komust í land og ég vil ekki vita það.

Hitti Kristínu Laufeyju (með eða án Joðs) og ákváðum við að búa til lið fyrir Ólympisku þríþrautina sem halda átti á laugardeginum 23. júlí.  Fengum Vigni Íslands til að hjóla með okkur.  Flott keppni þarna í Hveragerði, nokkurt rok og öskuský yfir öllu en það truflaði mig ekki neitt.  Verra var með hjólafólkið sem þurfti að slást við mikinn vind á leiðinni.  Ég hafði ákveðið að taka ekki þátt í þríþrautinni þar sem sundið er svo lélegt hjá mér og það vigtar svo mikið í þessari vegalengd.  Liðakeppnin var því kærkomin svona til að fá að vera með að einhverju leiti.

Okkur gekk öllum alveg ljómandi vel, Kristín Laufey með fyrstu sundmönnum, Vignir annar bestur á hjólinu og ég með besta hlaupatímann.  Frábær hlaupaleið fyrir ofan Hveragerði um skógarstíga og smá malbik.  Nokkuð erfið þó eins og sjá má af tímanum 41:47.  Fengum Pizzu í verðlaun sem er vissulega skárra en kók og prins en ég hefði nú viljað fá verðlaunapening frekar enda óvanur að fá svoleiðis fínerí nema sem þáttökudót.

Núna er seinni eða síðasti hluti Mark Allens prógrammsins farinn í gang.  Vikurnar lengjast og eru allar yfir 20 tíma.  Mér hefur gengið nokkuð vel að halda mig við plan þó svo að auðvitað syndi ég ekki tilætlaðan tíma enda mundi ég ekki endast lengi þá.  Veður hefur hamlað nokkuð Racer æfingum og því hef ég bara skellt mér á bak Ólafi og þeyst um á honum.  Fór í fimm tíma túr á sunnudaginn og svo þriggja tíma túr á þriðjudaginn var.  Algjörlega kreiiisí veður á þriðjudagskvöldið.  Fauk næstum af hjólinu og það oftar en einu sinni.  Hlaupin ganga ferlega fínt.  Hljóp á þriðjudagsmorgun og svo aftur á miðvikudagskvöld.  Miðvikudagshlaupið var tempó hlaup, ég gleymdi púlsmælinum og lét bara flakka.  Þrælgaman á fullu gasi.  Hefði verið skemmtilegur tími í 10 km hlaupi.

Á morgun á að vera langt hlaup og sund en það verður bara að ráðast hvernig það gengur þar sem ég ætla að vera hjá henni ömmu minni á þessum síðust metrum í hennar langa lífshlaupi.  Hún hefur sagt mér það svo oft hversu stolt hún er af þeim breytingum sem ég gerði á lífi mínu og ætli næsti Járnkarl verði ekki hennar 🙂  Það held ég.

Leave a comment