Brick er æfing þar sem hlaupið er beint eftir hjól. Samkvæmt Mark Allen eigum við ekki að láta líða meira en 15 mín. á milli og stóðst það hjá okkur.
Mættum 7, Siggi Sig, Oddur, Vignir, Maggi R, Hávar, Ásdís og ég í World Class Mosó í morgun. Hjóluðum í þrjá tíma og styttum okkur stundir með skemmtilegheitum, videoglápi og góðum félagsskap. Nýja hjólið ferlega fínt og hnakkurinn sem ég hélt að yrði eins og prik kom skemmtilega á óvart. Enga vitleysu, ég er ansi sviðinn í klofinu þrátt fyrir þennan fína hnakk og góða slummu af Butt-R.
Vatn, kók og Powerade, 2 bananar, epli, orkustöng og eitt gel og ég kom jafn þungur/léttur af hjólinu og þegar ég byrjaði. Verður að teljast gott.
Skórnir og nýr bolur og svo hlaupið af stað á brettinu. Fór fljótlega á pace 4,26 en endaði svo á tæplega 5 eftir þessar 30 mínútur. Nokkuð sáttur við mig. Fórum svo í gufuna þar sem ég notaði restina af mentholinu sem ég fékk hjá Jóni Ágústi við nokkurn fögnuð. Mentholið er svo dásamlegt að maður má velja það sem maður vill að það geri gott fyrir mann. Mjög hentugt, næstum eins og að fara til miðils. Kældum okkur í snjónum og brunuðum svo aftur í gufuna og er ég með því búin að fá mér nokkurs konar aflátsbréf á allar bólgur í einhvern tíma.
Nokkrar myndir voru teknar, Vignir mætti með nýju græjuna og tók smá vídeó þannig að þessi æfing er vel skrásett. Myndirnar eru hérna einhversstaðar á síðunni.
Góðar stundir.
Flott eruð þið!