Fúlt

Posted: 6 May, 2012 in NIðritími, Tuðað og vælt

Helvíti var fúlt að horfa á eftir Vigni, Gústa og Gylfa leggja af stað í lokaáfanga lengstu æfingar ever í dag og ég bara heima.  Ein æfing er kannski ekki aðalmálið en hún telur þegar maður þarf að slepppa henni.

Núna þegar ein vika er frá óhappinu er ég hreint ekkert hress.  Mikið bólginn um allan skrokk, talsverður hausverkur og ógleði.  Fór í gærkvöldi og hitti skólafélagana úr gaggó.  Ferlegt, ég þreyttur og illa haldinn og tafsaði mikið.  Sé á myndum frá kvöldinu að ég leit illa út.  Að sjálfsögðu, við hverju bjóst ég eiginlega?

Fer í saumatöku í fyrramálið.  Lítur nú ansi vel út með andlitið þ.e. hvað ör varðar.  Feginn því að vera ekki með einhver leiðinda ör eða sár þar sem ég hefði örugglega ekki látið laga þau.

Bólgurnar eru byrjaðar að koma út.  Fjólubláar skellur og kýli að myndast á hnjám og verður gott þegar þetta jafnar sig.  Var að spá að kíkja í potta í dag en treysti mér ekki til þess.

Hjólið búið að fara í tékk til mikilla spekúlanta.  Hitti fyrst hann Bjarka í Össur eftir ábendingu frá Rúnari Hjólameistara.  Eðal stykki alveg sem var nokk viss um að þetta væri allt í lagi.  Talaði svo við Haffa Íslands sem sagði það sama nema kannski ákveðnar.  Gríðarlega feginn að það er á hreinu.

Gott í dag, já.

Djöfulls verkun er þetta á manni.  Maður vill auðvitað vera nokkuð frambærilegur.  Því var það þegar ég var staddur í Sportís að velja mér jakka að ég kippti með mér eins og einu afar hressandi glasi Sport þvottaefni.  Cintamani kallinn minn, verður ekki mikið betra.  Veldur ekki miklum kláða á húð þar sem húðin brennur að mestu leiti í burtu.  Svo ég sé nú “fair” þá þvoði ég íþróttafötin mín upp úr þessu og fór svo í þau á langa Trainer æfingu.  4 tímar, hviss bamm búmm og mig er aðeins farið að svíða.

Nú daginn eftir, mánudagur og ég í svona líka stuði.  Lærin, lærin hreint ekki í stuði.  Ekki þreyta heldur risa sár og blöðrur.  Við skulum ekkert vera að ímynda okkur að lærin séu bara framan á fótunum.  Neibb þau ná allan hringinn og ef þau byrja við hné þá enda þau við rass.  Sárin náðu reyndar á rassinn enda ná hjólabuxurnar yfir hann.  Hélt ég dræpist bara.  Andskotans vesen þetta á manni.

Trausti bróðir kom til bjargar eins og er að verða hans vani.  Sá að þetta var skítamál og sagði mér að koma á stofuna til sín.  Þar lét hann draga mér blóð og skoðaði mig síðan.  Sagði þetta vera eitthvað bráða ofnæmi/exem.  Lét mig fá sterakrem til að losna við óþægindin af þessu.  Var ekki alveg að gera sig og lét hann mig fá stera pillur stuttu síðar.  Þær virkuðu alveg ljómandi fínt nema hvað ég minnkaði skammtinn of snemma.  Trausti lét mig bæta í aftur þar til árangurinn væri alveg súper, þá mætti ég minnka.  Gerði það og sárin eru að mestu farin.

Hef verið að dúlla mér svona og svona undanfarið.  Heiðmerkurtvíþrautin er auðvitað uppáhalds hjá mér en núna tók ég þátt.  Gekk alveg la la en hjólið eitthvað þreytt hjá mér.  Keppti síðan í Cube prologue og var bara svona sæmó.  Bæti mig alveg örugglega í næstu keppni ef ég tek þátt.  Það er annað hvort að hvíla einn dag fyrir keppni eða láta eiga sig að taka þátt.  Ekki nógu gaman að finna kraftinn í fótunum en halda ekki keppnina út.

Frábærar æfingabúðir hjá Ægi Þríþraut.  Sprettir voru þemað og komust þau skilaboð rækilega til skila.  Var alveg sannfærður um að ég dræpist bara í lauginn slíkt var actionið á Jacky.  Fann hvað sundið hjá Vadím hefur skilað miklu til mín þar sem ég gat synt á pari við hina þó að mig hafi að sjálfsögðu vantað hraðann.  Öxlin fín og annað bara eftir því.

Eftir afar erfiða daga lét ég mig hafa það og tók þátt í Reykjanes hjólreiðakeppni.  Mætti á Racer og fannst ég til.  Var það sennilega ekki þar sem ég missti hópinn sem ég ætlaði að fylgja langt fram úr mér og gekk bara illa.  Var að berjast einn í nokkurn tíma og tapað kröftum á því.  Merkilegt þar sem ég er nýbúinn að fara illa með mig í Þingvallatúr við sömu aðstæður.  Lét hlutina fara í skapið á mér og það þó að ég viti að skapið bitni fyrst og síðast á mér.  Hjólaði 64 km á 2:06 eða þar um bil.  Svo sem allt í lagi en samt ekki.

Var mjög þreyttur eftir keppnina og rosalega slæmur í öllum liðamótum.  Veit ekki hvort þetta er vatnsleysi eða hvað en þetta gerist stundum hjá mér.  Borðaði og drakk vel og skellti mér út á Sneiðinni fögru.  Að koma af ál racer yfir á Carbon þríþrautarhjól er bara æði.  Rauk í bæinn á no time og áður en ég vissi af var ég að tala við Kristján Eldjárn og son hans við Akraborgina.  Hjóla út á Granda og passa mig að muna eftir stefnumerkjum og vera flottur.  Fer eftir göngustígnum en man lítið eftir beygjunni við JL húsið.  Man næst eftir mér á Borgarspítalanum.

Allt í steik, andlitið illa farið, hendur rispaðar, fætur rispaðir, bak í ólagi, háls mjög slæmur og verst af öllu er hægri öxlin.  Þetta er á sunnudagskvöldið 29. apríl.  Ég er einhverja átta tíma á spítalanum og talað er um að hafa mig um nóttina vegna höfuðáverka.  Fæ þó að fara heim.

Á mánudeginum fæ ég tíma hjá Örnólfi eða réttara sagt, Örnólfur ætlar að hitta mig eftir vinnu.  Oddur býðst til að taka mig á rúntinn, damn að þekkja svona mann, og sækja hjólið líka.  Örnólfur skoðar mig og gerir og sendir mig í ómskoðun.  Þar er byrjað á að segja að ég sé brotinn.  Jibbíí, það var þá eitthvað sem mig vantaði.  Svo kemur í ljós að svo er að öllum líkindum ekki??? og sinar og dót sé líka í fínu lagi.  Mánudagurinn er sá 30. sem er líka síðasti dagurinn til að segja sig úr Challenge Roth.  Ég ákveð eftir miklar pælingar að gera það ekki.  Vil ekki fá það í hausinn að það sé eitthvað lítið mál að hætta við keppni.  Maður klárar það sem maður er byrjaður á.  Ég finn að það vantar hörku í mig og ég verð að finna hana aftur.  Eitthvað farinn að linast og það er ekki ásættanlegt.

Tala við lögguna og fæ að vita að það var vitni að slysinu.  Hjón sem ég fór fram úr báru mér vel söguna og sögðu að þegar ég ætlaði fram úr skokkara hafi hann stokkið til hliðar fyrir mig.  Þá hafi ég nauðhemlað og það má ekki á TT hjóli.  Ég er ansi svekktur ég viðurkenni það.  Hjólið skemmt þó ekki virðist það mikið og ég er bara talsvert slasaður.  Lít mjög illa út og líður jafnvel verr.

Doktorinn segir að ég verði að taka því alveg á núlli næstu 3 til 4 daga.  Lét vinnuna vita og það var auðvitað ekkert mál.  Svo á það að fara í hálfan mánuð samtals og þá má ég byrja að taka á því.  Ég held að ég verði að hlusta á Vigni núna og stilla Roth inn sem leik.  Veit ekki hvernig mér gengur að taka svona keppni ekki alvarlega en ég verð bara að reyna.  Held samt að ég verði aldrei sáttur við sjálfan mig ef ég fer ekki undir 11 tímana.  Það er kannski ekkert merkilegt en eitthvað verð ég að miða við ef ástandið ætlar að vera svona á mér.  Þá er bara að taka tímann eftir Roth alvarlega og taka Florida glæsilega.  Eitthvað sem segir mér að svo verði.

Nýja hjólið er Specialized Allez 2011 árgerðin.  Alveg nýtt fyrir mig að fara út að hjóla á svona græju.  Ótrúlega skemmtilegt apparat og mikill munur að vera á svona í borginni samanborði við TT hjólið.  Hef reyndar verið að uppgvöta nýtt hjól síðustu dag.  Rockhopperinn 29″ fjallahjólið er alveg dásamlegt á Cyclocross dekkjunum sem David Kríu seldi mér.  Veð áfram á þessum líka hlunk en munurinn er að ég gossa alveg hiklaust yfir kanta og allavega drasl.  Brjálað fjör.  Notaði það í Heiðmerkurtvíþrautinni á þessum dekkjum.  Virkaði svona glimrandi en þar var það líka formið á mér í einhverju óstuði.

Morgun ætla ég að kíkja á heilsugæsluna hérna í Mosó.  Grefur alveg djöfullega í andlitunu á mér og lyktin aldeilis eftir því.  Held ég skilji Súbbann bara eftir heima og hjóli bara á fjallahjólinu.  Ekki veitir mér af hreina loftinu.  Djöfull er eitthvað leiðinlegt að lenda í einhverju svona eina helvítis ferðina enn.  Mig langar að kenna hlauparanum um þetta en veit að ég hefði brugðist við á sama hátt og hann.  Ég átti bara að vera á götunni eða ég veit það ekki…  Kannski er þetta ekkert fyrir mig?

Jú víst er þetta fyrir mig.  Þetta kemur allt.

Er að standa mig alveg urrandi vel á hjólinu.  Trainer æfing er hin besta skemmtun þar sem ég gleymi mér á nóinu og stend allt flatt, tja allt nema kannski hjartalínuritið.  Það er í laginu eins og Himalayafjöllin.  Kannski ekki alveg því hef nú verið nokkuð passasamur á efri mörkin.  Það eru helst æfingarnar á einni löpp sem ýfa þetta eitthvað upp hjá mér en þær eru líka andskoti erfiðar.

Sundæfingar ganga bara.  Síðasti fimmtudagur var ansi erfiður.  Öxlin leiðinleg og þegar næstum korter var eftir af æfingunni sagði ég Vadim að ég réði ekki við meira, öxlin væri orðin það slæm.  Ekkert mál sagði hann þá eru það bara fótaæfingar.  Það fór svo þannig að ég var vel rúmlega æfinguna að skrattast þetta hjá honum.  Ljómandi.

Hlaupin hafa verið erfið þessa vikuna.  Verið með þreytuverki, held ég, aftan í lærum og rassi.  Hef verið að lyfta soldið vel og það er sjálfsagt að hjálpa til en ég hef hjólið þó grunað um græsku í þessu.  Laugardagshlaupið var mér sérstaklega erfitt og var bara eins og ég væri með staurfætur.  Stirður og ómögulegur og að spítta í upp brekku var ekki gaman.

Í dag var samhjól á vegum Ægis-3.  Farið af stað frá TRI og vestur í bæ hringur tekinn með einhverju Sundahafnar ralli.  Óvenju mikið um óhöpp en merkilegast var nú við flugvallarendann þegar einn stakst á kaf í klaka.  Hann var með hjálmmyndavél og vonandi hefur hún verið á upptöku.  Væri gaman að fá að sjá það.  Smá lenging í restina og svo kakó og bakkelsi í TRI.  Eftir full gott stopp þar héldum við fjórir, Oddur, Gylfi og Tjörvi, áfram enda æfingu dagsins ekki lokið.  Rúlluðum með Tjörva heim og héldum við svo áfram upp í Kóra þaðan í Garðabæ, Kópavog, Fossvog og þaðan fór hver til síns heima.  Náði ég að hjóla 80 km í dag sem mér finnst bara flott á fjallahjóli í svona svona færi.

Ætla að prófa að vera meira á hjólinu þessa vikuna.  Allavega þá daga sem það er gerlegt.  Morgundagurinn er fyrstur.  Þarf að taka með mér sunddót, föt í Yoga og vinnuföt.  Ansi góð hleðsla á manni en ég slepp þó við að vera með skó.  Þetta verður ansi gott aukahjól á manni þessa dagana.´

Búið og ansi búinn á því í kvöld

Allt að slípast til, loksins

Posted: 1 March, 2012 in Æfingarnar

Mark Allen er og verður málið næstu vikurnar.  Ætla fylgja prógramminu frá því í fyrra meðan ég … bíddu bíddu!  Ég ætlaði að segja kem mér í stand en ég er bara í hörku standi.  Var eitthvað lélegur eftir Miami og svona óstuð á mér eitthvað í smá tíma en ég held að ég sé kominn all rækilega yfir það.

Hef verið að hjóla með Oddi á fjallahjóli, ágætis túra í misjöfnu veðri sem hafa skilað þreyttum lærum kvöld eftir kvöld.  Búinn að hlaupa nokkrum sinnum en ekki fílað það sem best.  Finnst ég stirður og eitthvað óþægilegur.  Finnst samt allt vera að gerast í öllum greinum.

Synti í morgun hjá Vadím.  Hann lét mig drilla út í eitt og þegar ég fór að pípa út af öxlinni lét hann mig bara gera fótaæfingar.  Þrælerfitt alveg og greinilegt að það þarf aðeins að taka á þeim málum.  Trainer í kvöld, klukkutími og korter, og mér tókst að sjá annað en það sem stóð á plani.  Átti að hanga í neðri mörkum æfingapúlsins en ég sá standa efri mörk.  Frábært.  Nú logsvíður mig í lærin eftir að hafa ekki bara farið of hátt miðað við það sem ég hélt ég ætti að gera heldur var viðmiðið hjá mér vitlaust.  Svo sem ekkert nýtt hjá mér og alveg örugglega ekki í síðasta skipti heldur.

Tempo hlaup á bretti í gær.  Var byrjaður að hita upp á brettinu þegar ég mundi eftir æfingunum hans Valla.  Snar negldi niður og þaut upp, vonandi að enginn hafi tekið eftir mistökunum.  Hitaði síðan upp í rúmt korter á brettinu og skellti mér síðan beint í æfinguna.  Byrjaði brattur en hægði full mikið á mér í restina.  Fannst ég aftur svona stífur eitthvað í hamstrings sem leiddi niður í hné og var bara orðið óþægilegt að hlaupa.  Setti þá bara handklæðið yfir púlsmælinn og lét flakka á takkann.  Síðustu tíu mínútur voru afar hressandi og var ég kominn á 3:20 þegar ég hætti.

Eygló endaði svo daginn með úrvals Yoga fyrir hlaupara.  Frábærir tímar hjá henni þar sem hún er ekki bara að láta okkur gera heldur kennir í leiðinni.

En aftur að Allen.  Lagaði dagsetningar á planinu frá því í fyrra og leit svo á núverandi staðsetningu.  Að sjá er þetta bara pís of keik.  Finnst ekki ósennilegt að ég bæti aðeins í fljótlega en svo er ég ákveðinn í að taka mér verulega léttar vikur á þriggja vikna fresti.  Grunar að ég verði bara í miklu betra standi til að gera eitthvað af viti ef ég leyfi mér að anda aðeins einstaka sinnum.

Búið

Búinn að vera ansi duglegur þessa vikuna.  Skrokkurinn svona glimrandi að verða.  Eftir heilmikinn djöfulgang hjá sjúkraþjálfara er öxlin öll að koma til.  Ég hef getað tekið aðeins á því í kjötvinnslunni en það sem betra er þó að ég hef getað klárað sundæfingarnar.  Nú síðast á fimmtudaginn kláraði ég hana létt og var þó ekkert slegið af alla æfinguna.

Fór í hjólatest hjá Vigni.  Veit ekki hvort það var gáfulegt þar sem það dró soldið úr mér.  Gekk illa, var strax þreyttur og mjög móður.  Hvernig er hægt að vera þreyttur þegar maður er ekki að gera neitt?  Maður spyr sig.  Núna er ég búinn að taka eitt rólegt hlaup, Pace 5, þar sem púlsinn var að meðaltali 122.  Það held ég að hljóti að vera merki þess að ég sé að detta í gang.  Hörku hjól í kvöld, Ólafur á nagladekkjum, 30+ í roki og rigningu á dúndur meðalhraða.  Erfitt til að byrja með en svo hætti að svíða og öndunin komst í gang.

Heiðmörkin á morgun með Oddi.  Ætlum að vera spakir og taka stuttan hring.  12 km er örugglega bara fínn klukkutími þar sem reikna má með drullu og stuði.  Nú það má þá alltaf lengja aðeins ef það passar.

Fór á þessa ljómandi Gel kynningu hjá Gylfa og Heimi Karls.  Flott hárið á Heimi.  Klikkar ekkert á því kallinn.  Hefði ekki orðið hissa að sjá hann í Diskó jakka á Kadilakk.  Hann var reyndar á Lexus jeppa þannig að það klikkaði.  Gelin virka ansi snjöll.  Voru tvenn eða þrenn sem ég gæti alveg hugsað mér að gúffa í mig en kostnaðurinn er aðeins að þvælast fyrir.  Tíkall á kassann með 30 gelum.  Eitt á dag og maður er alveg dásamlegur.  Gummi Gísla segir þetta hafa bjargað einhverju bakdóti hjá konunni og einhver Pétur hjá Atlas ber þessu voða góða sögu.  Merkileg fannst mér þó staðhæfingin um að næringarinnihald hinna ýmsu matvæla hefði rýrnað um tugi prósenta á 20+ árum.  Banani er ekki nema brot af þeim banana sem hann var ’84.  Mengun og eitthvað mannanna böl er að skemma allt.  Það sem við ekki drepum skemmum við bara í staðinn.

Horfði á nokkur Roth video í dag.  Horfði talsvert á skiptinguna á T2 og hugsaði með mér hvernig í ósköpunum mér dytti þetta rugl í hug og það með nokkurra daga millibili.  Fokk, maður er ekki í lagi.  Held að ég fái Maríu Sæmunds til að bóka mig í hrútaþukl á næsta héraðsmóti.  Þá verð ég fastur í æfingum fyrir það og leiðist ekki út í svona dellu á meðan.  Læri kannski bara á harmonikku eða greiðu í leiðinni.  A star is born.

Búið

Þjálfi

Posted: 17 February, 2012 in Æfingarnar

Yess, eftir brösótt gengi við að hnoða trainer-num saman ákvað ég að dúndra honum bara til meistarans á Nýbýlaveginu.  Rúnar tók við honum með bros á vör og skilaði honum til baka eftir smá stund með bros á vör.  Dótið sett upp fyrir framan sjónvarpið, Sneiðin sett á æfingaskó og Árni Páll að detta í fíling í Kastljósinu.  Ég í hrikalegum fíling á hvítu hjólaskónum.  Ó-töffaðara verður það nú varla.  Það fór líka svo að eftir smá stund gafst ég upp!  Árni Páll settur á mute og Public Enemy og eld gamalt þungarokk drifu þetta áfram.

Ekkert plan nema bara snúa pedulunum og reyna að vera eins og maður eftir allt afslappelsið undanfarið.  Hr. Minoura var bara þungt stilltur og gírarnir þyngdust bara og þyngdust en alltaf var ég hinn hressasti.  Þó fór nú svo að eftir 45 mínútur fannst mér nóg komið og pakkaði saman.  Alveg á floti og því lá beint við að renna sér í sturtu en ég fór nú frekar í World of Warcraft.  Gekk alveg prýðilega og kláraði ég nokkur dailí.

Kláraði heila sundæfingu í gær.  Vadím ánægður með það og þá ég.  Boy þvílíkur áfangi.  Seig nú aðeins í gleðina þegar öxlin fór að minna á sig og þá áminningu sjúkró að ég ætti ekki að taka á.  Man það örugglega næst.

Eftir alveg ótrúlegar harðsperrur í maganum núna í heila viku fannst mér gott mál að drífa mig í aðra yfirferð á pakkann.  Gerði og gerði þangað til mig var farið að svíða og fór þá í skreytingarnar.  Það er ekki endalaust hægt að hlífa helv. herðadótinu.  Það hlýtur að vera til fljótvirkari leið til að ná þessu úr sér en þetta fjárans hnoð á þessu mörgum sinnum í viku.

Til stendur að fara gríðarlega hressandi túr á sunnudaginn.  Staðfest er að hópurinn samanstandi af mér og Oddi en þó er ekki útilokað að Íslandsmeistarinn sláist í för.  Það væri bara 50% aukning en ég er þó ekki að gefa í skyn að hann sé bara 50% maður.  Ó nei ekki aldeilis.

 

R and R

Posted: 12 February, 2012 in Hið daglega amstur, NIðritími

Neibb ekkert rokk í þessu hjá mér.  Þvert á móti er það bara hvíld og endurheimt.  Jamm, sultuslakur þessa dagana.  Æfi lítið sem ekkert utan smá Yoga, sund og léttar lyftingar.  Þær eru þó meira til að gera bara eitthvað.

Var hjá sjúkró í síðasta tímanum vegna kálfans á fimmtudaginn var.  Spyr hann um hreyfiæfingar á öxlina og það dót þar sem ég hef verið hundleiðinlegur þar eftir að herðablaðið gaf sig.  Hann segir mér að rusla mér úr að ofan og fer eitthvað að tékka á mér.  Segir svo eftir stutta skoðun að vöðvarnir í bakinu séu bara óstarfhæfir vegna bólgna og séu allir samanherptir.  Bloody brilljant og ég sem hélt að það væri eitthvað að mér.  Hann rauk í að nudda í þetta og boj var það sárt.  Hann átti ekki dropa til af miskunn og hélt bara áfram þrátt fyrir tístið í mér.  Sagði mér að slaka á í nokkra daga og lofar mér flottum á stuttum tíma.

Það skyldi þó aldrei vera að ég verði bara fínn og flottur í öxlinni og get bara farið að synda?  Þá eru nú horfur ekki slæmar.  Kálfinn að jafna sig, axlirnar mögulega að verða svona glimrandi og restin bara svona glettileg.

En hvað?  Ætla ég til Roth?  Verður hvíldin milli Florida og Roth næg eða verð ég bara eins og drasl í aðal keppninni?  Ég hef ekkert að vinna í Roth nema auðvitað flottan tíma en hvað kostar það?  Draumurinn er auðvitað að fá boð um Kona hvert sem ég þigg það eður ei.  Æ ég veit það ekki.  Mig langar til Roth og tíu tíma keppni þarf ekkert að drepa mig.  Mánuður í “hvíld”, tveir stífir í æfingar og svo niður aftur á heilum mánuði.  Kannski er þetta ekkert glatað plan.

Ég get reyndar aldeilis djammað ef ég sleppi Roth.  Bláa lónið og Laugavegurinn er nú aldeilis spennandi með tíma í báðum keppnum sem ég ætti að eiga frekar létt með að bæta.

Þriðja táknið á hljóðbók og smá WoW er það sem klárar kvöldið

Adios

Spældur?

Posted: 30 January, 2012 in Keppnir

Er ég?  Ég veit það ekki.  Ætlaði að fara undir þremur en eftir miðvikudaginn í síðustu viku var það ekki inn í myndinni.  Kálfinn það slæmur og þó svo að ég hafi farið í þrjá góða tíma hjá sjúkraþjálfara þá bara hélt það ekki.  Á föstudaginn, þegar ég ætlaði rétt að skokka, gaf allt dótið sig í fyrstu skrefunum.  Var mikið að hugsa um að sleppa því bara að mæta í dag en bara gat það ekki.  Það er of mikil stemming við svona hlaup til að mæta ekki.

Hitti Ívar og Jóhönnu og ákváðum við Ívar að tékka á okkur og þá í versta lagi að klára bara.  Fann það strax í startinu að þetta mundi ekki ganga og yrði alveg örugglega mjög langt hlaup hjá mér.  Nefndi það margoft við Ívar að hætta en hann hvatti mig áfram og ég lét til leiðast.  Ekkert smá ánægður með það núna.  Vorum eitthvað að myndast við að halda uppi einhverjum hraða en það gekk ekki neitt.  Leiðir skildi svo að mig minnir í kringum 10 mílurnar eða jafnvel fyrr þegar Ívar stoppaði til að taka eina netta skák.  Þar með var hvatningin frá honum farin.

Var endalaust í baráttu við mig að hætta og þegar hinn kálfinn fór að kvarta og í framhaldi af honum lærið þeim megin var ég viss um að þetta væri búið.  Grunaði að lærið væri bara krampi og bætti því í Gatorade drykkjuna án þess að minnka vatnið.  Þegar ég svo kom að þrettándu mílu var augljóst ða það tæki því ekki að hætta þaðan af þar sem þetta væri nú að verða búið.  Fann ekkert fyrir þreytu nema bara í hausnum en reyndi samt að láta þetta ekki fara í taugarnar á mér.  Brosandi staff út um allt og skemmtilegt umhverfi gerðu þetta alveg afbragðs sunnudagsmorgun.

Ömurleg stjórn á hólfunum í startinu varð þess valdandi að við vorum rúmlega 10 mínútur með fyrstu míluna.  Hellingur af gangandi fólki og verulega hægu var í hólfinu okkar, hólfi sem átti að vera hraðasta hólfið fyrir almenning.  Í staðinn var maður að taka fram úr næstum alla leiðina sem er alveg ótrúlega gaman.  Var í baráttu við nokkra síðustu kílómetrana og smellti mér svo fram úr þegar við fórum að nálgast markið.  Tók síðan vel hraðann endasprett síðustu 600, eða svo, metrana.  Þar fór ég fram úr þeim þrjóskustu og heyrði ég öskrið í honum á eftir mér þegar ég hljóp einn leiðina að markinu.  Mikil fagnaðarlæti gerðu þetta bara eins og ég væri að vinna hlaupið.  Svaka stuð.

Kom í markið, fékk bling og vatn og fór beint í að teygja.  Núna er ég allur undarlegur á litinn á verri kálfanum og ansi slæmur í þeim báðum en að öðru leiti alveg súper.  Hef vökvað mig vel, fékk mér Herbalife recovery drykkinn minn og er bara að tjilla.  Rúllaði það sem hægt var að rúlla.

Ívar kláraði á 3:37 og Jóhanna kláraði kvartettinn á 4:57 sem er frábær árangur.  Siggi og Inga kláruðu sitt glæsilega, Siggi á 1:17 og Inga á 1:42 sem er PB hjá henni.  Flott fólk allt saman.  Ég er verulega þakklátur Ívari fyrir að draga mig áfram þegar ég var við að leggjast í aumingjaskap.  Núna er ég enn vissari en áður að ég get allt!  Að skrattast þetta í 3 tíma og 17 mínútur með talsverða verki í hverju skrefi er sönnun þess.

Hefði viljað ná þessu Sub3 markmiði mínu í ár en það verður nú varla úr þessu.  Þá er kannski að ná bara bætingu í einhverju öðru.

Mikið óskaplega væri gott að geta kælt núna 🙂

 

Ha, ég að væla? Nauts

Posted: 29 January, 2012 in Keppnir

Finnst reyndar að ég hafi smá ástæðu til.  Eftir ansi jákvæðan fíling á kálfann og ég bara í rólegheitum ætla ég rétt að skokka hérna í hitanum í fyrrakvöld.  10 skref og málið var dautt.  Núna er staðan þannig að ég verð sáttur ef ég klára.  Það er soldið langur vegur frá því að ætla á Sub3.  Sjáum til.

Ég er sem sagt kominn til Miami.  Nokkuð spennandi borg en ég held mér finnist hún nú ekki falleg.  Veit ekki hvað það er við svona borg en það virðist ekki vera neitt sameiginlegt eða eitthvað sem hið opinbera gerir fyrir staðinn.  Samanborið við Spán og þá skiptir engu hvort maður er í Barcelona eða bara Mallorca þá eru listaverk út um allt, í hringtorgum og já bara út um allt.  Hérna er ekkert svoleiðis.  Eina skrautið eða eitthvað í þá áttina er eitthvað ódýrt plast drasl sem er notað í auglýsingar.

Fór á Expo-ið í dag.  Svona dæmigerður markaðsfílingur á þessu.  Nennti nú lítið að skoða enda verðin ekkert æði.  Fer frekar bara í einhverja búðina hérna hjá mér og finn mér eitthvað.

Frábært þegar ég kom hingað á hótelið þá var ég spurður hvort ég væri með módel með mér.  Ég hváði og þá var ég spurður svona óbeint hvort ég væri að fara að skjóta klám.  Naa ég er í maraþonhlauparahlutverkinu núna.  Reyndar er þetta búið að vera svo skemmtilegt ferðalag að ég held ég verði að smella inn heilli færslu.  Mér tókst að velja mér gististaði í þeim alverstu hverfum sem hugsast gat.  Fyrir svertingja, ég er hvítur í svörtu hverfi og var líka svoleiðis í New York. Ferlega gaman.

Styttist í startið.  Ég ekki nema bara mátulega stressaður enda þetta svo sem fyrir fram dæmt hjá mér.  Bara að spila það kúl og klára með sæmd.  Tímann tek ég bara í Vorþoninu.  Þetta er bara eitthvað sem fylgir.  Maður fer að mörkunum í þjálfun og svo fer maður yfir þau.  Ég áttaði mig ekki á því þegar ég var kominn að þeim.  Því fór sem fór.

En að sjálfsögðu flottur

Mitt næsta trikk… Miami

Posted: 26 January, 2012 in Keppnir

Jebb, allt að bresta á með Miami.  Fyrst að böðlast í gegnum snjóskaflana hérna og síðan að bíða soldið í Leifsstöð.  Mjög gott.  New York, gist í Jamaica??? WTF og svo áfram í fyrramálið.

Hef ekkert hlaupið í rúma viku.  Hef verið slæmur í löppunum og eitthvað lélegur og ákvað bara að hvíla, fara til sjúkraþjálfara og láta hljóðbylgja mig.  Gekk svona glimrandi og vonandi verður allt í standi á sunnudaginn.  Gummi Svans á þvílíkar þakkir skyldar fyrir að græja mig svona án fyrirvara.

Bibbinn minn er númer 1123 og Live Trackerinn er hérna: http://www.racemyrace.com/hosted/ingmiami_full.php

Þetta er voðalegt fínerí með allavega view-i og svona skemmtilegt eitthvað en hey, hver eins og þurfi einhverja tilbreytingu við að horfa á Maraþon.  Ha ha kjánalegt.

Félagsskapurinn hérna í Leifsstöð ekki af verri endanum.  Lárus litli Welding hérna að flýja land undan ódælum skilanefndum.  Ljóti skúnkurinn.

Alltaf er maður nú jafn stressaður fyrir svona allskonar.  Sei sei.  Hvernig má það vera að það sé dýrara að kaupa sér tollfrjáls rakvélablöð en með tolli?  Meikar ekki sens frekar en margt annað.

Farinn út í vél.  Ætli ég taki ekki eitthvað af myndum á Jamaica og laumi þeim inn í kvöld.  Það væri nú gaman.