Jæja París París. Við Oddur mættir eins og þeir höfðingjar sem við erum. Fræsum beint á hótelið, losum okkur við dótið og hendumst bæinn þverann til að sækja hlaupagögnin.
Rosa Expo en því miður eins og annað í þessar borg, rándýrt. Þar sem spáin er ansi kuldaleg og reyndar skítkalt eins og er þá ákveð ég að kaupa mér ermar. Er ekki með neina síðerma og þaðan af síður síðar buxur með mér. Come on, maður hleypur ekki PB á föðurlandinu og lopapeysu. Nei, dressið er ákveðið. Stuttar, þunnar hlaupabuxur, þunnur stuttermabolur og hlýrabolurinn flotti frá Ævari ystur. Ermar og Oakley toppa síðan gallann.
Hefði þurft að splæsa í hlýraboli þar sem mínir eru farnir að harðna af mikilli notkun og þvottum en verðið bara stoppaði mig. Hundfúlt þar sem það voru flottar vörur þarna.
Herbergið, já hótelið, er alveg dásamlegt. Herbergið okkar er sagt á fjórðu hæð sem er fimmta og þangað liggja 76 tröppur. Lyftan kemur kannski seinna. Ekkert mál fyrir hlaup en seinnihluti sunnudags gæti orðið soldið annað mál. Allt voða kósí. Minibarinn er bara rennan utan á húsinu og kyndingin er tveir ofnar. Annar rafmagns og hinn ekki neitt. Báðir ískaldir. þá var nú heppilegt að sængin eða teppið eða eitthvað var hlý. Hlý alveg þangað til að Oddur ákvað að betra væri að ég mannaðist soldið og lægi í kuldanum. Ég sá snilldarlega við honum. Breyddi rúmteppið yfir mig og var álíka mikill hiti af því og plastpoka úr Krónunni. Það hvarflaði auðvitað ekki að mér að ná í auka sængina inn í skáp. það hefði verið of auðvelt.
Á laugardeginum skelltum við félagar okkur í hlaupagalla og tókum nett skokk. Fórum upp að Sigurboga þar sem við veltum sögunni fyrir okkur en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Ætluðum aldeilis að spyrja herra Gúggl en gleymdum því. Later dude, draslið er ekkert farið. Góður kvöldmatur á fínum veitingastað klára góðan dag.
Vissi að ég mundi sofa lítið en djöfull var ég syfjaður. Fórum í morgunmatinn. Cocoa pops, jógúrt og kaffi. Aftur upp á herbergi og svo út. Grísuðum á einhverja sem voru á sömu leið og við. Hrikalega seinir og þegar 5 mínútur voru í start og ég ekki enn búinn að finna innganginn á rauða svæðið varð ég stressaður og stökk yfir girðinguna. Vinaleg tveggja metra girðing með pinnum upp úr stoppaði mig ekki enda of mikið lagt í þetta til að klikka á startinu.
Þrátt fyrir mikil veikindi og allavega slæmsku undanfarið var ég svo hrikalega tilbúinn þegar til kom að ég var viss um að þetta gengi hjá mér. Áttaði mig á að þessi slæmska hafði að sjálfsögðu bara verið þessi venjulega Tapering pest sem margir fá. Startað og ég af stað.
Fokk hvað er málið með hraðann? Fánarnir langt á undan og hraðinn á mannskapnum þetta í kringum 4. Alveg með það á hreinu að þetta endar ekki vel. Sex gel í belti og fjögur í skálmunum á buxunum. Um leið og ég byrja að hlaupa detta þessi úr skálmunum og ég læt þau liggja. Hafði ætlað að vera með gel á 5km fresti en nú er þetta komið í rugl hjá mér. Hleyp alveg ferlega vel. Hleyp hratt og hugsa um að bera mig vel, slaka vel á öllu sem má slaka á og brosa. Damn hvað þetta legst vel í mig. Eitthvað er Garmurinn að láta undarlega. Sýnir mér hvað eftir annað hrikalega lélegt Pace og ég trúi honum. Fer fram úr bunka af liði í hvert sinn en reyni að hemja mig vitandi að ég er ekkert að hlaupa á Pace 5.
Einhvern tímann um 28 slökknar á honum og þá finnst mér bara eins og þetta sé orðið eitt Royal klúður. Er þreyttur, búinn að klúðra næringunni og ofan á það bætist svo að ég er sannfærður um að markmiðið sé langt í burtu og 3:10 sé ekki einu sinni séns. Labba á drykkjarstöðinni á 30 og þá held ég að Ívar Adolfs fari fram úr mér. Fer af stað á eftir honum og stuttu seinna sé ég rauða fána rétt fyrir framan mig. Hef ekki hugmynd um hvaðan þeir komu en allt í einu er ég bara með í hlaupinu. Djöfulls, ég hélt að þetta væri allt í rugli. Þetta upp og niður rugl á mér í hraðanum er búið að kosta mig full mikið þannig að ég næ ekki að draga á Ívar og fánarnir eru aðeins í burtu. Reyni að halda mér góðum, uppréttum og í formi en mikið djöfull var frábært að sjá 40km skiltið! Var með Trausta alveg á hreinu. Þegar hausinn vill stoppa á maður 10% eftir og þá er bara að sækja þau. Gerði það og hljóp ferlega vel í mark. Tíminn 3:04:37 sem er frábær bæting og bara fínn tími. Átti von á að vera spældur að ná ekki undir 3 en er það bara ekki. Þetta var erfitt, ég gaf mig í þetta og hafði alveg hrikalega gaman af. Djöfull er þetta skemmtilegt.
þetta er skemmtilegur staður að vera á með skemmtilegum félögum. Lífið er bara svona ljómandi.
Næst er það Challenge Roth Járnkarl, þýskalandi í júlí. Aldeilis kominn tími á bætingar þar.