Eitthvað undarlegur þessa dagana. Mæðist alveg djöfullega og finnst ég bara ekkert súrefni fá. Mikil átök á hjólinu og ég er bara í tómu tjóni, meira að segja lyftingar eru ekki sem bestar þar sem mig allt að því svimar eftir þungar lyftur. Svipað ástand og var á mér eftir Florida sem svo bara hvarf einn daginn. Hef þó hvílt ágætlega á mér lappirnar en tekið mjög vel á lóðunum.

Veit ekki, er þetta ofþjálfun? Skil samt ekki hvernig það mætti vera. Hef ekki verið í neinu rugli eftir París, tek kannski æfingar í meðallagi langar en passa ákefðina vel. Samt… ég sef illa á virkum dögum en get sofið lengi ef ég fæ tækifæri til. Losna ekki við hor og viðbjóð úr öndunarveginum og eins og ég sagði er öndunin alveg ferleg. Sándar eins og ofþjálfun en ég bara veit ekki hvernig hún ætti að vera til komin.

En nóg af væli! Ég hef bætt mig verulega í lóðunum, þó svo að bekkurinn sé ekkert markmið hjá mér er hann nú einu sinni bekkurinn. Repsaði 80×8 um daginn og fannst bara fínt og svipaða sögu er að segja um flest annað. Hef þó hlýft fótunum við þyngdum en er í 70 prósentunum og þá aðeins oftar. Það sem ég hef hjólað hefur verið fínt. Blússandi kraftur í fótunum og fílingurinn góður. Ef ekki væri fyrir helvítis súrefnisskortinn væri þetta alveg dúndur allt.

Er að synda hjá Þríkó þessa dagana. Þjálfarinn svona ljómandi, er þetta kannski bara málið með alla sundþjálfara? Vadim, Gylfi og nú Kalli. Frábærir allir saman. Mæti tvisvar í viku og er bara, svei mér þá, að öðlast smá sjálfstraust.

Hef verið að spá að hvíla nokkuð vel eftir sumarið. Allt of mikið að angra mig líkamlega og ég held bara að þriggja mánaða Yoga og huggulegheit væru af hinu góða. Mögulega gæti eitthvað hressandi haustmaraþon í október þó seinkað þessum plönum eitthvað en ég sé til. Veskið verður líka að fá að hafa eitthvað að segja um þetta og það er með eitthvað djöfulls væl þessa dagana 🙂

Eftirmálar… eða

Posted: 13 April, 2013 in NIðritími

Nei ég held bara ekki. Skrokkurinn allur í topp standi enda æfingarnar verið algjört dúndur og ég frekar hvílt meira en minna. Fann aðeins fyrir þurrk eftir að ég kom heim og það tók mig smá tíma að losna við það. Notaði steinefnatöflur, mikið vatn en líka kók. Var alveg hættur að drekka kók en mér veitti ekkert af orkunni.

Hef lyft ansi vel þessa vikuna. Gaman að fara í lóðin af svona miklum krafti eftir þessar miklu hlaupaæfingar. Var orðinn ansi mjósleginn allur en er ekki nokkra stund að laga það aðeins til. Það er ómögulegt að líta út eins og maraþonhlaupari 🙂

Nú er hvíldarvikan að verða búin. Hefði viljað fara í tvíþrautina á morgun en er að vinna á ÍM50 í Laugardalslaug. það bætir bara degi við sem er hið besta mál. Prófaði að hlaupa í vikunni. Fór tvö km á vel rúmlega maraþonhraða og fannst það æði. Hafði samt vit á að hætta þegar ég fann aðeins til og einbeitti mér bara að lóðunum. Góð virkni þar og fjölgar völdum plötum hratt.

Nú fer alveg að bresta á með sundæfingar og hjól en að sjálfsögðu ætla ég að halda hlaupaforminu við. Oddur var að sniða til úr Mark Allen planinu frá því 2011 sem við erum að spá að notast við. Alveg ljómandi skemmtilegt plan.

Næstu viku hafði ég planað að hvíla líka en er nú líklegur til að grípa eitthvað reiðhjólið og hendast á því til vinnu. Það eru flottir 20 hvora leið, brekkur og hressleiki. Vonandi að það fari nú aðeins að hlýna.

París

Posted: 9 April, 2013 in Keppnir

Jæja París París. Við Oddur mættir eins og þeir höfðingjar sem við erum. Fræsum beint á hótelið, losum okkur við dótið og hendumst bæinn þverann til að sækja hlaupagögnin.

Rosa Expo en því miður eins og annað í þessar borg, rándýrt. Þar sem spáin er ansi kuldaleg og reyndar skítkalt eins og er þá ákveð ég að kaupa mér ermar. Er ekki með neina síðerma og þaðan af síður síðar buxur með mér. Come on, maður hleypur ekki PB á föðurlandinu og lopapeysu. Nei, dressið er ákveðið. Stuttar, þunnar hlaupabuxur, þunnur stuttermabolur og hlýrabolurinn flotti frá Ævari ystur. Ermar og Oakley toppa síðan gallann.

Hefði þurft að splæsa í hlýraboli þar sem mínir eru farnir að harðna af mikilli notkun og þvottum en verðið bara stoppaði mig. Hundfúlt þar sem það voru flottar vörur þarna.

Herbergið, já hótelið, er alveg dásamlegt. Herbergið okkar er sagt á fjórðu hæð sem er fimmta og þangað liggja 76 tröppur. Lyftan kemur kannski seinna. Ekkert mál fyrir hlaup en seinnihluti sunnudags gæti orðið soldið annað mál. Allt voða kósí. Minibarinn er bara rennan utan á húsinu og kyndingin er tveir ofnar. Annar rafmagns og hinn ekki neitt. Báðir ískaldir. þá var nú heppilegt að sængin eða teppið eða eitthvað var hlý. Hlý alveg þangað til að Oddur ákvað að betra væri að ég mannaðist soldið og lægi í kuldanum. Ég sá snilldarlega við honum. Breyddi rúmteppið yfir mig og var álíka mikill hiti af því og plastpoka úr Krónunni. Það hvarflaði auðvitað ekki að mér að ná í auka sængina inn í skáp. það hefði verið of auðvelt.

Á laugardeginum skelltum við félagar okkur í hlaupagalla og tókum nett skokk. Fórum upp að Sigurboga þar sem við veltum sögunni fyrir okkur en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Ætluðum aldeilis að spyrja herra Gúggl en gleymdum því. Later dude, draslið er ekkert farið. Góður kvöldmatur á fínum veitingastað klára góðan dag.

Vissi að ég mundi sofa lítið en djöfull var ég syfjaður. Fórum í morgunmatinn. Cocoa pops, jógúrt og kaffi. Aftur upp á herbergi og svo út. Grísuðum á einhverja sem voru á sömu leið og við. Hrikalega seinir og þegar 5 mínútur voru í start og ég ekki enn búinn að finna innganginn á rauða svæðið varð ég stressaður og stökk yfir girðinguna. Vinaleg tveggja metra girðing með pinnum upp úr stoppaði mig ekki enda of mikið lagt í þetta til að klikka á startinu.

Þrátt fyrir mikil veikindi og allavega slæmsku undanfarið var ég svo hrikalega tilbúinn þegar til kom að ég var viss um að þetta gengi hjá mér. Áttaði mig á að þessi slæmska hafði að sjálfsögðu bara verið þessi venjulega Tapering pest sem margir fá. Startað og ég af stað.

Fokk hvað er málið með hraðann? Fánarnir langt á undan og hraðinn á mannskapnum þetta í kringum 4. Alveg með það á hreinu að þetta endar ekki vel. Sex gel í belti og fjögur í skálmunum á buxunum. Um leið og ég byrja að hlaupa detta þessi úr skálmunum og ég læt þau liggja. Hafði ætlað að vera með gel á 5km fresti en nú er þetta komið í rugl hjá mér. Hleyp alveg ferlega vel. Hleyp hratt og hugsa um að bera mig vel, slaka vel á öllu sem má slaka á og brosa. Damn hvað þetta legst vel í mig. Eitthvað er Garmurinn að láta undarlega. Sýnir mér hvað eftir annað hrikalega lélegt Pace og ég trúi honum. Fer fram úr bunka af liði í hvert sinn en reyni að hemja mig vitandi að ég er ekkert að hlaupa á Pace 5.

Einhvern tímann um 28 slökknar á honum og þá finnst mér bara eins og þetta sé orðið eitt Royal klúður. Er þreyttur, búinn að klúðra næringunni og ofan á það bætist svo að ég er sannfærður um að markmiðið sé langt í burtu og 3:10 sé ekki einu sinni séns. Labba á drykkjarstöðinni á 30 og þá held ég að Ívar Adolfs fari fram úr mér. Fer af stað á eftir honum og stuttu seinna sé ég rauða fána rétt fyrir framan mig. Hef ekki hugmynd um hvaðan þeir komu en allt í einu er ég bara með í hlaupinu. Djöfulls, ég hélt að þetta væri allt í rugli. Þetta upp og niður rugl á mér í hraðanum er búið að kosta mig full mikið þannig að ég næ ekki að draga á Ívar og fánarnir eru aðeins í burtu. Reyni að halda mér góðum, uppréttum og í formi en mikið djöfull var frábært að sjá 40km skiltið! Var með Trausta alveg á hreinu. Þegar hausinn vill stoppa á maður 10% eftir og þá er bara að sækja þau. Gerði það og hljóp ferlega vel í mark. Tíminn 3:04:37 sem er frábær bæting og bara fínn tími. Átti von á að vera spældur að ná ekki undir 3 en er það bara ekki. Þetta var erfitt, ég gaf mig í þetta og hafði alveg hrikalega gaman af. Djöfull er þetta skemmtilegt.

þetta er skemmtilegur staður að vera á með skemmtilegum félögum. Lífið er bara svona ljómandi.

Næst er það Challenge Roth Járnkarl, þýskalandi í júlí. Aldeilis kominn tími á bætingar þar.

Vika eftir

Posted: 1 April, 2013 in Æfingarnar

Stutt í startið í París, vika. Jebb og ég hlakka til. Veit ekki með tímann en ég held ég verði bara flottur. Er svona alveg þokkalegur í skrokknum, sennilega jafn góður/ slæmur og allir þeir sem eru að fara að hlaupa þetta. Fyrir utan gott form skilja margra mánaða æfingar eftir aumar lappir og á köflum auman skrokk. Það sígur vonandi úr manni á þessum dögum sem eftir eru.

Þrátt fyrir að þessi keppni sé ekki byrjuð er sjálfsagt að huga að þeirri næstu. Challenge Roth, Þýskalandi. 14. júlí er dagurinn. Ég er ansi laus við væntingar þetta árið. Áföllin hafa verið full mörg og aðeins í þyngri kantinum og nú er bara réttur tími til að passa sig aðeins. Ef mér tekst að halda hlaupinu góðu, mögulega bæta aðeins við sundið og taka vel á hjólinu veit ég að ég get bætt Florida tímann verulega en samt…

En París. Soldið svekkjandi að vera að fara til Parísar og koma ekki til með að muna neitt eftir henni. Það er nefnilega þannig að þegar ég hleyp þá hleyp ég bara. Það slökknar á öllu apparatinu á efri hæðinni. Ég heyri músikina en tek ekki eftir neinu. Man lítið eftir umhverfinu enda svo sem ekki í skoðunarferð heldur að gefa það sem ég á í þetta. Þess vegna er alveg glatað að ganga illa. þá er bæði hlaupið leiðinlegt og maður man ekkert úr skoðunarferðinni. Það er fúlt.

Eitthvað er Oddurinn búinn að hóta kulda en þó allt að logni. Eins og mér fannst frábært að hlaupa í hitanum í Miami þá kvíði ég smá að hlaupa í kulda í París. Það er þó kostur að maður þarf að drekka eitthvað minna.

Fór til að taka eins og einn langan laugardag. Átti reyndar ekki gel þannig að ég ætlaði að brettast þetta. Svo þegar til kom var ég með of mikil einkenni frá Soas vöðva til að ég þyrði að fara að hlaupa einhver ósköp. Byrjaði en hætti mjög fljótlega. Fór bara og skipti úr hlaupagallanum og fór í hentug föt til lyftinga. Fór og átti stórleik í lóðunum.

Tók ótrúlega mikið og andskoti þungt. Tók rækilega á lærin svona fyrir fílinginn, bak, rass og svo góða blöndu á efri hluta. Oftar en einu sinni var ég með allar plöturnar sem í boði voru. Árangurinn er dásamlega harðsperrur í lærum, það fínar að ég sest ekki af neinum myndarskap á prívatið.

Fór svo í dag með Vigni í rólegheita hjól. Racerinn tekinn niður af veggnum og pumpað í dekkin. Hittum Emil Tuma niðrí Skútuvogi. Hann snéri við og tók hringinn með okkur. Fórum í bakaríið á Fálkagötu og þáðum dásamlegar veitingar í boði Vignis en hann var að fagna góðum árangri reiknimeistara Arionbanka. Tókum alveg þokkalega á því á bakaleiðinni enda í smá mótvindi. Smá sýra í lærum en allt í lagi.

Þorlákur var að senda plan. Nú er það Tapering og ekkert rugl. Tveir algjörir hvíldardagar í vikunni, tvær hraðaæfingar og svo tuttu kílómetra laugardagur. Bara hressandi. Þetta er orðið svakalega nálægt.

Langur laugardagur

Posted: 22 March, 2013 in Æfingarnar

Jebb og sá síðasti í bili. Næsti langi “laugardagurinn” er sunnudagurinn sjöundi apríl. Þá ætla ég að hendast um götur Parísar, kílómetra eftir kílómetra þangað til ég er búinn með 42. Þá ætla ég að hlaupa 200 metra í viðbót og fara svo að fá mér kaffi. Það verður huggó. Kannski ég fái mér bara vínarbrauð með. Svei mér þá.

Hefur gengið þetta alveg ljómandi. Rétt svona kvíðastundir þegar kálfarnir minna á sig og svo svona smá þegar annað lærið fór að vilja vera með líka. Þetta var allt sett á rúllur, nuddað slatta og svo rykkti Magni soldið í þetta og ég er bara nokkuð frábær held ég bara. Þennan sunnudaginn þegar ég legg af stað skil ég allar áhyggjur eftir á ráslínu, kveiki á iPodinum og skrúfa nokkuð hátt.

Merkilegt að mér er eiginlega skítsama um árangurinn. Ég stefni að því að fara undir þremur tímum en samt… ef það næst ekki þá so be it. Truflar mig ekki rass. Lappirnar eru heilar og restin í ansi hreint flottu standi. Ég held nú samt að ég sé bara að segja þetta núna. Þegar á hólminn kemur verður það ekkert svoleiðis. Vona að það standi að ég starti í rauða startinu og verði þá með þriggja tíma pacer fyrir framan mig. Er smeykur við góðan fíling eða jafnvel gott lag í iPodinum dugi til að ég missi mig og hlaupi frá mér allt vit.

Jæja snemma að sofa í kvöld. 32km á morgun, slatti á Maraþonhraða og ég þarf að muna að plástra á mér Tits-in. Ljóta ruglið. Hef verið eitthvað nískur á nýja boli og nú er þetta orðið eins og að hlaupa í sandpappír og þá er ekki von á góðu. Síðast þegar ég fékk sár Tits var þegar ég hljóp hálft maraþon á bretti í gömlu Hreyfingu. Tók mig alveg Forever, man hvað ég var rosalega stoltur að hlaupa þetta. Þetta eru sennilega sjö ár síðan. Og ég er aftur kominn með plástur á geirvörturnar, jahérna hér.

Mikið djöfull kostar svona maraþonþjálfun mikið á skrokkinn. Ég hef ekki verið léttari í mörg ár, samt borða ég og borða. Komin með einhver leiðindi í eitthvað sem heitir Soas vöðvi og kálfar ansi tæpir. Nú er bara að halda áfram að vera duglegur á rúllunni og vona að dótið haldi. Eitthvað af “greddu” æfingum eftir en þá á álagið nú samt að vera komið vel niður þannig að það sleppur vonandi.

Tók mataræðið einhverjum tökum þegar ég byrjaði að léttast, hætti að borða nammi og drekka gosdrykki og fór aðeins yfir í ávexti og vatn. Við það hægðist aðeins á og ég er bara alveg sæmilegur núna. Hef meira segja bara bætt mig aðeins í lóðunum, nokkuð sem kom á óvart. Það er nú ekkert leiðinlegt að vera ansi fituskorinn eftir þessar maraþonæfingar og vera á sama tíma að lyfta alveg sæmó.

Fór á sunnudaginn með Vigni og Oddi einn vænan hjólatúr. Tókum einn dægilegan Reykjavíkurhring með fínu stoppi í bakaríi. Skítkalt og blástur en urrandi sólskin. Var með sviða í andlitinu langt fram eftir degi, veit ekki hvort það var sólbruni eða kuldi.

Helvítis rótarbólga að gera mig geggjaðann. Það er alveg ótrúlegt hvað það er erfitt að harka svoleiðis af sér en þetta venst þó eins og annað. Bitnar kannski bara helst á þeim sem maður umgengst. Þeim fer þó fækkandi.

Lokapróf

Posted: 17 March, 2013 in Æfingarnar

Jæja já. Þorlákur lagði fyrir okkur próf. Kalt mat á maraþonhraða á að ráða æfingahraða dagsins. Ég er ákveðinn í að vera þetta á rétt undir þremur tímum og hann spurði hvort ég héldi að ég gæti það. Ég svaraði honum því að ég gæti allt! Við það stóð og prófið var tekið á þeim forsendum. Ég stóðst prófið eins og ég bjóst við.

Hef verið með ansi auman og harðan hægri lærvöðva, það auman að ég hef fengið talsverða verki við niðurstig. Sleppti Powerade hlaupinu á fimmtudaginn og vonaðist til að jafna mig. Ég náði því ekki og hafði smá áhyggjur þegar ég byrjaði í morgun. Var eiginlega bara fjandi aumur og var mikið að spá hvort ég ætti að slaufa æfingunni. Hitaði alveg sæmilega gáfulega upp, rólegt með talsverðum hraða inn á milli en samt þessi árans verkur. Fokk ég tek sjénsinn. Veit ekki hvenær ég hætti að finna til en það gerðist allavega einhvern tímann á leiðinni.

Nú eftir æfinguna skaust ég í Kópavoginn fyrir Valda bróðir og dreif mig svo niður í Jakaból til að horfa á hann þríbæta Íslandsmetið í bekkpressu. Strákurinn endaði í 245 kílóum í flottri lyftu. Verður ansi gaman að sjá hann á Power mótinu sem verður eftir fimm vikur.

Sundæfing hjá Gylfa seinna en venjulega fyrir mig þar sem mig langaði að sjá Valda keppa. Fullt af fótaæfingum og óvenju mikið sund hjá honum í dag. Ég er nokkuð sannfærður um að það er þeim að þakka að ég er í ótrúlega góðu standi núna. Mér finnst ég hafa tekið fínum framförum í sundinu hjá Gylfa en auðvitað þyrfti ég að æfa þetta af einhverju gagni. Málið er að ég bara nenni ekki að vera að vakna fyrir sex á morgnana til að fara í sund.

Næsta vika er svona la la með nokkuð þungan laugardag en svo er það bara alvöru Tapering.

Ég hlakka mikið til þessa hlaups. Er nokkuð viss um að markmiðið náist en vona að ég átti mig nógu snemma ef það stefnir í að það geri það ekki þannig að ég geti dottið niður á 4:30 og klárað hlaupið á 3:10.

Hef velt framhaldinu nokkuð fyrir mér. Sé fyrir mér að taka viku í góða hvíld með sundi og yoga en svo dúndra ég mér í gang á hjólinu. Fíni trainerinn hefur fengið að standa nokkuð óhreifður þar sem áherslan hefur verið nokkuð ákveðin á hlaupin undanfarið. Held að hann verði tekinn í gott brúk, hafi Sneiðina á honum og skrattist um á Racernum. Svekkjandi að hafa sennilega ekki efni á hjólinu sem mig langaði í en það er bara fínt að æfa á þungu hjóli. Ég verð þá bara að leggja aðeins meira á mig til að hanga í liðinu sem ég æfi með. Það er auðvitað bara frábært.

Hjól með Vigni og vonandi Oddi í fyrramálið þannig að það gæti verið skynsamlegt að fara að sofa.

Hellingur í gangi

Posted: 30 January, 2013 in Æfingarnar

Jæja jæja eitthvað kom þetta nú til baka hjá mér.  Hljóp gamlárshlaupið við lítinn fögnuð.  Var varla lagður af stað þegar ég var farinn að hugsa hvað í ósköpunum ég væri að gera þarna.  Var á einhverjum tíma sem ég var alls ekki ánægður með.  Ég bara allur í rugli með skrokkinn og þreytuna og fannst bara ekkert vera að gerast hjá mér.  Borgaði tollinn hjá ÍR og fór að mæta á æfingar hjá Þorláki.  Sama þar, æfingar í tómu rugli, hraðinn alveg sæmilegur en ekkert úthald.

Nú svo bara smellur það bara.  Allt í einu er löng tempo æfing ekkert mál.  Svitna alveg rosalega og bara alveg í frábæru standi.  Einn daginn hrikalega þreyttur en þann næsta bara fokking brill.  Þorlákur lét okkur finna skynsamlegan æfingahraða með Jack Daniels.  Aldeilis vel við hæfi fyrir mig svona bláedrú.  Flott stöff þessi útreikningur http://www.runbayou.com/jackd.htm Ég miðaði við sub40 á 10 og það gerir mig 52.  Hef haldið mig nokkuð vel á mottunni utan þess að ég enda oftast á auknum hraða.  Bara of gaman til að sleppa því.

Æfingar ganga alveg geggjað.  Hraðinn fínn og úthaldið allt annað og betra en fyrir nokkrum vikum.  Mæti tvisvar í viku á hjólaæfingu hjá Ægi þar sem Jens lætur okkur djöflast í einn og hálfan tíma.  Á eftir hlaupum við Oddur í korter.  Ég er farinn að ná 3,6 km á þeim tíma og finnst bara fínt þar sem ég byrja alltaf rólega.  Held mig við hlauparajógað hjá Eygló og reyni að lyfta af einhverju viti tvisvar í viku.  Byrja vonandi að synda á laugardaginn hjá Meistara Gylfa.  Ef ég dett í gírinn þar er aldrei að vita hvort ég bæti í.

Helsta vandamálið hjá mér er maturinn.  Ég borða of lítið og of lélegt.  Hef bætt mig nokkuð í vítamínum og vatninu en maturinn er í rugli og léttist ég bara við þessar æfingar.  Það er ekki gaman og ekki smart að horast allur upp.  Man nú oftast eftir Recovery drykk enda með svona ljómandi Hámark sem ég fékk hjá Vífilfelli.  Ég er aðeins of snemma í því að létta mig en ekki vil ég heldur fara að þyngjast.  Gullni meðalvegurinn og allt það já.

Já ansi er það að kosta mig þetta Ironman brölt mitt.  Núna fjórum vikum eftir keppni hef ég ekki enn náð að vinna upp orkuna til að hlaupa almennilega æfingu.  Ég borða og borða en þyngist ekkert og hressist ekki hið minnsta.  Finnst alveg ljómandi að sofa bara og vera latur þ.e. skrokknum finnst það meðan ég er alveg að springa mig langar svo að setja í gír.  Þetta kemur en ég er ekki alveg sá þolinmóðasti.  Hef verið að prófa hraðar æfingar en þurft að hætta (gefist upp) eftir of stuttan tíma og á of litlum hraða.

Valdi að taka okkur Odd í smá beygjukennslu/ æfingar.  Erum að niðrí Jakabóli þar sem kraftamenn dúlla sér við lóðalyftingar.  Helvíti gaman að núna annað skiptið í röð er World Strongest sjálfur á svæðinu að taka á því og má því, með góðum vilja, segja að við séum að æfa saman.  Lyftingarnar eru einn hluti af uppbyggingu fyrir komandi átök.  Annar hluti er af þessari gáfulegu áætlun er að fara í alvöru Yoga.  Nú er ég ekki að gera lítið úr því sem ég hef grætt á tímunum hjá Eygló í World Class en þeir tímar eru þó frekar hugsaðir sem teygjur og gotterí fyrir hlaupara.

Ashtanga Yoga er aftur á móti svona eitthvað system.  Það er ákveðin leið sem er farin í hverjum tíma, teygjur, jafnvægi og styrkur.  Ég þarf að læra afskaplega merkilega öndun sem verður ábyggilega gaman.  Tíminn tekur mun meira á en ég átti von á.  Eftir korter tuttugu var ég orðinn alveg rennandi sveittur og átti bara í veseni með að renna ekki á mottunni.  Ja sve.

Var eitthvað að spá að taka mér Sub40 prógram og miða við Sub38 en held að ég ætti að halda mig við að vera spakur fram að áramótum og byrja þá frekar af krafti.  Svo er spurning… er það nægur tími fyrir París eða þarf ég að byrja eitthvað fyrr?