Skemmtilegir dagar

Posted: 25 January, 2015 in Thailand
Tags: , ,

Frá því að ég ákvað að koma hingað hef ég svona velt því fyrir mér að auðvitað væri séns á að eitthvað kæmi fyrir.  Það að umgangast meira en hundrað tígrisdýr hlýtur bara að kalla á óhapp.  Þetta hefur sloppið svona glimrandi fínt… hingað til.  Vissulega hef ég verið bitinn og klóraður nokkuð jafnt og þétt en svo virðist þetta bara allt koma í einni gusu.

Ég þurfti að skjótast niður á herbergi í gær, stytti mér leið í gegnum garð sem er hérna hjá okkur.  Ansi flottur steinsteyptur hringur með tveimur stórum Buddah styttum.  Fórum þangað fyrir mjög fáum dögum, kveiktum eld og fíluðum staðinn.  Nú ég hleyp bara nokkuð greitt þarna í gegn þegar allt í einu ég finn rosalegan bruna á bakinu og svo strax þvílík læti í flugum.  Fyrst hélt ég að ég væri að brenna og ég átta mig ekki á því hvort að ég fleygði mér í jörðina eða datt en í jörðina fór ég.  Lenti frekar leiðinlega og hruflaðist soldið þannig að ég græddi bæði alveg haug af stungum út um allt bak, hendur og fætur.  Mikið djöfull var ég hræddur í þessar fáu sekúntur sem á þessu stóð.  Hljóðin og bara eitthvað, úff ég vona að ég lendi ekki í svona aftur.

Kvöldið áður hafði ég setið við tölvuna og séð sporðdreka við tærnar á mér.  Sá varð nú ekki langlífur blessaður en ég sé auðvitað eftir því núna að hafa drepið hann.  Hefði verið gaman að eiga hann.  Virkilega flott kvikindi en ógnvekjandi þó.

Ákveð að rúlla bara í bæinn eftir vinnu, kaupa mér eitthvað til að græja sárin og sofa í almennilegu rúmi á Tara.  Chicken man bjargaði farinu og fékk ég meira að segja að sitja frammí enda pallurinn fullur af fólki.  Chicken man er sá sem færir okkur, fólkinu og dýrunum, kjúkling.

Nú svo í morgun er ég eitthvað að kjassast í einum að verða sjö mánaða.  Allt voða fínt hjá okkur þegar hann allt í einu æðir á ökklann á mér og bítur bara vel og rækilega.  Þetta var upp í hofi og ég í sokkum, venjulega er ég berfættur þar en núna var ég í hlaupaskóm, og rifnaði sokkurinn sem hann beit í.  Ansi vel skrapaður bæði framan og aftan eftir þetta.  Versta við svona er ef maður lætur ekki eitthvað yfir svona sár strax fara flugurnar alveg í bana stuð og djöflast í þessu.  Ég átti næstum þrjá tíma eftir með túristunum þannig að það voru svona frekar pirraðir tímar hjá mér.

Í hádeginu fór ég svo með mannskapnum að taka búr Civet kattanna soldið í gegn.  Civet kettir eru ansi stórir kettir sem klifra um allt og eru mannafælur.  Nú ég var að gefa þeim að éta, kjúlla að sjálfsögðu, og var að leyfa þeim að éta úr hendinni þegar einn tekur sig til og bítur mig svona rækilega.  Ég varð ekkert smá hissa en dreif mig bara niður, var hátt uppi á palli hjá þeim, til að reyna að þrífa þetta og jú afla mér upplýsinga um hundaæðismöguleika.  Hann er frekar ólíklegur þar sem dýrin ættu að bera þess nokkuð greinileg merki.  Þreif mig því bara og hélt áfram með daginn.  Vonandi hef ég verið að klára daginn með því að drepa þessa líka hlussu könguló hérna inni hjá mér áðan.  Hún fékk að kenna á sama kertapakkanum og sporðdrekinn sælla minninga.

Eftir stendur að ég er alveg hressilega merktur starfinu þessa stundina.  Það var enda ekki mikið mál að fá fólk til að fara eftir reglum í umgengni við dýrin í dag.  Það að benda á lappirnar og brosa þegar fólk spurði hvort þessi fallegu dýr bitu nokkuð fast var ansi gaman.

Dagurinn var ansi heitur og fer það ekkert á milli mála þegar maður þarf að vera á fullu við að slá af sér Mosquito flugur meðan maður glamrar þetta á tölvuna.  Þær geta verið ansi stórar en alls ekki skerí að sjá sko.

Ég veit að ég er sjálfsagt að Jinxa þetta núna en samt…  Það eina hræðilega sem ég á eftir að lenda í er að snákur bíti mig.  Það held ég að fari endanlega með þetta hjá mér.

 

Hreyfingar á mannskap og dýrum

Posted: 21 January, 2015 in Thailand

Eitthvað hefur okkur fækkað, sjálfboðaliðunum hérna og tvö fara núna í vikunni.  Þá verðum við bara fimm eftir og verður það örugglega bara gaman.  Maður er líka allur orðinn öruggari með bæði dýrin og túristana þannig að þetta verður bara létt.  Maður finnur hvað mánaðarmótin nálgast og ég er farinn að kvíða því að fara héðan.  Maður er farinn að þekkja dýrin og þau mann.  Meira að segja geðvondu stóru dýrin eru farin að hnusa af manni svona milli þess sem þau reyna að troða sér milli rimlanna.

Við erum með gamalt par hérna.  Hann er 15 ára og hún 12 að ég held.  Þegar hann fer út og hún er skilin eftir vælir hún hástöfum þangað til hann kemur aftur.  Hún kemst lítið út greyið því hún er með gláku og er farin að sjá illa.  Hún bætir það hins vegar alveg upp með geðillsku en henni fyrirgefst hún.  Sá um daginn, þegar ég gekk framhjá þeim, að þau lágu í faðmlögum.  Alveg ótrúlega fallegt eitthvað.

Þó tígrisdýrin hérna séu auðvitað aðal er haugur af öðrum dýrum.  Ég hef nú minnst á þau flest held ég en nú var að bætast í hópinn.  Fyrir utan herbergisgluggann minn er nú grísamamma með litla gríslinginn sinn, kannski viku gamlann.  Fór í dag og kíkti á þau.  Hún var með einhverjar varnir svona ti að byrja með en um leið og ég fór að strjúka henni um kviðinn slakaði hún á og leyfði mér kíkja á þenn nýja.  Hún elti mig svo þegar ég fór og sá litli skottaðist á eftir.

Hún dreif sig í bað í drullupollinum sem vatnabuffalóarnir baða sig í og rölti síðan að skrifstofunni.  Þar fór hún yfir ræsið eins og venjulega en sá litli átti ekki breik í það enda um 50 cm breitt.  Nú ég tók bara undir hann og vippaði honum yfir en við það skrækti hann smá og þá tóku mamman og amman, Saucage, þvílíkan kipp og ætluðu að fara að verja hann.  Þetta slapp nú allt til.  Julie, aðalkonan á svæðinu, sagði mér að mesta hættan fyrir svona grísling hérna hjá okkur væri af pabbanum, pabbarnir dræpu gríslingana mjög oft og líklega hefði hann náð í einhverja úr þessu goti fyrst aðeins einn væri sjáanlegur.  Þetta eru villisvín og eru einn eða tveir hérna svona gaurar sem eru algeggjaðir og rjúka í mann.  Hef ekki lent í því frekar en honum Tank, vatnabuffaló.

Kom heim úr hugleiðslu upp í hofi í gærkvöldi.  Orðið ansi dimmt og þegar ég var að fara yfir ræsið hjá okkur heyri ég eitthvað hljóð.  Ég fer eitthvað að tékka á þessu og finn þessa líka fínu skjaldböku, sennilega svona 15 til 20 cm langa.  Hún var augljóslega í skítamálum því ekki komst hún upp og áfram var bara stífla og ekki átti hún séns á að snúa við.  Tók hana því upp og labbaði með út að pollinum fína.  Pollurinn fíni er reyndar alveg skærgrænn á litinn og virkar þykkur að sjá og eiginlega frekar eins og geymslustaður fyrir geislavirkan úrgang.

Bakan tekur ansi góðan sprett svona í lausu lofti og ég var bara skíthræddur um að missa hana.  Hún vigtaði bara slatta og fór öll á fleygiferð þegar hún lét svona.  Um leið og ég setti hana á bakkann rauk hún niður hann og út í vatnið.  Eftir á hugsaði ég:  Djö… ég vona að þetta hafi verið vatnaskjaldbaka.

Myndirnar tala sínu máli.  Vatnabuffalóinn sem er þarna með rassinn í okkur er að ég held Tank, ég nennti ekki að hlaupa fram úr honum og fá hann þá jafnvel á eftir mér.  Hann ræðst á kýrnar í hópnum og bara hvað sem er.

Hin besta megrun

Posted: 20 January, 2015 in Uncategorized

Að fara í svona útilegu sem sjálfboðaliði er afskaplega langt frá því að vera einhver lúxus, tja allavega hérna í Wat Pha Luang Ta Bua.  Maður býr jú frítt og borðar frítt en lengra verður það nú varla teygt.  Við erum í samkeppni við Buddah munka um að búa sem frumstæðast held ég.  Þeir skíttapa þar sem þeir eru með plasma og huggó hjá sér meðan brauðristin okkar er ónýt og sturturnar okkar strákanna eru allar ískaldar.  Hressandi… vissulega en skítkalt engu að síður.

Munkarnir borða bara einu sinni á dag.  Þeir byrja daginn eldsnemma á því að fara á röltið og þiggja í matinn frá nágrönnum sínum.  Ég hef séð þá á röltinu fyrir sex þannig að þeir eru nokkuð snemma í því.  Við byrjum hins vegar klukkan sjö á því að fara og heilsa upp á þá yngstu og næst yngstu.  Við löbbum svo með hópinn, 6 stykki, frá Tiger Island yfir í hofið.  Þar fara þeir upp á gólf og fá þeir yngstu að hlaupa um en hinir eru tjóðraðir við súlurnar.  Þá mæta túristarnir sem hafa keypt sig inn í Morning program.  Þeir fá að leika við ungana og svona aðeins við þá eldri en síðan er það abbotinn sem hefur upp raust sína.  Þegar hann er búinn með sitt byrjar partíið.

Þá er rokið í matinn.  Búið er að taka það sem hafðist úr röltinu og raða upp á langborð.  Fyrst eru það túristarnir en svo eru það bara slagsmál.  Thai staffið er með þetta alveg þaul skipulagt meðan við hin erum meira svona á kurteysari nótunum.  Þarna er samt eins gott að standa sig því þetta er morgun, hádegis og kvöldmaturinn… Í alvöru sko!  Ég hef ekkert verið að ná mér í fyrir aðrar máltíðir dagsins en þessa.  Reyni bara að borða vel og svo á ég bara brauð og Nutella, núðlusúpur og eitthvað af nammi fyrir utan auðvitað kaffi.  Gáfulegt já svona rétt fyrir Ironman æfingastuðið sem maður er að detta í.  Það er langt síðan ég hef verið eins léttur og ég er núna.

Ég veit ekkert hvað ég er að borða og vil helst ekkert vita það.  Kjúllinn er bara saxaður með stóru saxi þannig að maður er soldið að pilla beinin út úr sér en svo er eitthvað í þessu sem er með ansi andstyggilega áferð, sumt er alveg ævintýralega sterkt og svo er sumt sem er bara viðbjóður.  Mér hefur samt tekist að borða mig sæmilega saddann þarna með því að fá mér bara vel af hrísgrjónum í hverri skóflu því þá finn ég síður áferðina og bragðið svona aðeins dofnar.

Við höfum verið að fara þetta svona tvisvar í viku á markað hérna í grennd og hefur það bjargað mér frá því að léttast enn meira.  Þar fær maður allavega girnilegan mat, aðallega kjúlla, á smápening.  Svo er það að sjálfsögðu Kanchanaburi einu sinni í viku, tvö kvöld, og þá fær maður sér nú vel að borða á nætur markaðnum.  Þar borðar maður nægju sína fyrir max 100 baht sem gera 400 krónur.  Þetta er með gosi og einhverri girnilegri köku í eftirrétt.

Ætlaði að segja frá hvað ég væri búinn að Búddah upp hjá mér herbergið en kortalesarinn fyrir myndavélakortið er Fubar þannig að þá er smá stopp á myndum.  Fæ mér nú annan hið fyrsta.

Smelli með bunka af myndum sem mér hefur vonandi tekist að skíra gáfulegum nöfnum en svo setti ég Caption texta með þeim öllum held ég.  Annars held ég nú að þetta séu flestar myndir bara fyrir mig.  Þó er nú væntanlega gaman að sjá munkana við það að fara að borða eða bara í aðgerð.

Annar frídagur

Posted: 15 January, 2015 in Uncategorized

Djöfull ætlar þetta að líða hratt.  Annar frídagurinn framundan og við JP drífum okkur í “bæinn” Kachanaburi.  Meðan aðrir héðan splæsa 200 baht í far með Chicken Man, gaurnum sem kemur með kjúllann í okkur og tígrana förum við JP bara á puttanum.  Gerðum það síðast og aftur núna.  Fengum far niður á veg og eftir svona soldið labb fengum við far með einni konunni sem vinnur hérna.  Við sátum bara aftan á palli hjá henni í góðum fíling.

Vorum búnir að panta hjá fyrrverandi gaurnum, núverandi píunni og klikkaði ekkert þar.  Brosið í hring og almennilegheitin út í eitt.  Hún er ansi frábær og alltaf á vaktinni, með allt á hreinu.  Hentum draslinu inn á herbergi og skutumst út með þvottinn og leigðum okkur hjól.  Afar hentugt að það sé sami aðilinn sem þvær af manni og sér manni fyrir mótorhjóli.  Brenndum út í BigC (Fjarðarkaup) og græjuðum innkaup.  Ofarlega á listanum hjá mér var Tape og kveikjari.  Tape-ið í viðgerðir á borðinu inni hjá mér og kveikjarinn í Búddah æfingarnar sem ég er með hérna hjá mér.  Kerti og reykelsi er málið þegar veturinn gengur í garð.

Já veturinn…  Það er kominn vetur hérna.  Hitinn fer niður fyrir 20 gráðurnar á nóttunni og þá er nú fjári kalt á vindsænginni og undir teppinu af bensínstöðinni.  Hef jafnvel skellt mér í bol þegar verst hefur verið.  Dagarnir eru líka áberandi kaldari, hitinn fer ekki mikið yfir 30 gráðurnar og oft er skýjað.  Ég er ekki að þykjast eitthvað, það er bara talsvert niður úr 37 gráðunum og blússandi sólskini.  Ég hélt ekki að maður gæti kvartað undan 30 gráðum en það er greinilega hægt að tuða yfir öllu.

Sváfum alveg eins og skepnur fram eftir degi.  Dröttuðumst á lappir undir hádegi og drifum okkur af stað.  Miklu styttra en út að fossum og aðeins kraftmeira hjól.  Sæmilegustu merkingar hérna á öllu og því duttum við á þetta í fyrstu tilraun.

Kynntum okkur sem starfsmenn Tiger Temple og fengum frábærar móttökur.  Snöruðumst um borð í rútu sem tók okkur hring í garðinum.  Einn tígur og tvö ljón, allavega grasbítar og svo voru það Zebrar og gíraffar.  Höfðum fengið okkur fötu með niðurskornum gulrótum og gáfum þessum fallegu dýrum óspart.  Skemmtilegt að fá gíraffana inn í bíl til sín, þessir löngu hálsar koma hausnum hvert sem er en Zebrarnir þurftu meira að treysta á lúkkið til að vinna í sníkjunum.  Þeim gekk alveg bærilega enda hrikalega flottir.

Tékkuðum á fílum sem voru þarna í rólegheitunum, alveg sjálfsagt að ganga að þeim og tékka á þeim.  Fyndið þegar raninn er að tékka á manni, skóm, höndum og svona eitthvað.  Næst voru það ljónin og tígur sem þau eru með þarna.  Hittum frábæra sjálfboðaliða sem buðu okkur að smella okkur inn í til dýranna og þáðum við það að sjálfsögðu!  Hver notar ekki tækifærið og skellir sér inn í búr hjá 11 mánaða gömlu tígrisdýri og ljónum á svipuðum aldri?  Við létum ekki bíða eftir okkur og smelltum okkur inn.  Gaman að finna muninn á þessum dýrum.  Tígrísdýrin fara nokkuð beint í mann, reyna að komast aftan að þér og fara þar í lappirnar og neðra bakið.  Ljónin stökkva jafnvel upp á bakið á manni og faðma mann.  Þó tígrisdýrunum finnist gott að taka um mann áður en þau bíta eru ljónin mun flottari með það.  Hrikalega gaman að leika við þessi flottu dýr og að vera nokkra sentimetra fyrir framan andlitið á nokkuð stóru karlljóni er geggjað.  Augun eru engu lík þau eru svo stór.  Maður týnist alveg í þeim.  Náði mér í fínt bit sem blæddi úr og allt 🙂

Á leiðinni út duttum við inn á krókódílasjóv.  Kostaði ekkert og við drifum okkur.  Þar voru sex krókódílar, sá elsti og stærsti 40 ára.  Þvílíkar skepnur, ertu eins og spenntar fjaðrir sem skjótast af stað við áreiti.  Þjálfarinn var með fínt sjóv sem endaði á að hann stakk hausnum upp í gin eins.  Það slapp allt til og þjálfarinn brosti breitt.  Þegar sjóvið var búið bauð hann upp á að setjast hjá krókódílnum, halda um halann og láta taka af sér mynd.  Ég gat ekki sleppt þessu en mikið djöfull var ég rosalega hræddur þegar ég var að setjast hjá honum.  Viss um það að ef ég ræki mig í hann mundi hann gormast á mig af fullu afli.  Það slapp líka til.

Brenndum til Kanchaniburi, fengum okkur steik á hótelinu og drifum okkur af stað heim.  Höfðum fengið tuð fyrir að mæta of seint síðast þegar við áttum frí, þá hafði strætó verið korteri of seinn, þannig að við ákváðum að sofa bara í hofinu.  Strætó allt of seinn og vagninn sem átti að koma sex kom korter í sjö.  Komnir út að hofi um átta og áttum þá eftir að labba slatta.

Klukkan fimm er hliðinu inn á svæðið lokað og læst.  Hliðið er ekki lítið og það er með pinnum ofan á.  Allur veggurinn í kringum svæðið er þriggja metra hár hið minnsta og með brotnum flöskum ofan á honum öllum.  Lykillinn að hliðinu er inn í Kanchanaburi.  Snilld.  Við þurftum að klifra yfir dótið.  Ég með þrjá innkaupapoka, fullan poka af þvotti og tölvutöskuna, níþunga og fína.  Þetta slapp allt til eins og annað hjá okkur.  Held samt að ég tími nú ekki aukanóttinni næsta frídag.  Taki frekar bara far hingað í hofið og fái þannig auka nótt á hótelinu.  Það munar ansi mikið um að sofa í rúmi og getað farið í heita sturtu.

Næsta frídag, sem er nú bara á laugardaginn, verð ég einn.  Það verður eitthvað stuðið.  Ætli ég skelli mér ekki bara í gott nudd og reyni svo að æða eitthvað að skoða eða gera.  Það stendur nú til að fara að aðstoða við umönnun vinnuþreyttra fíla og er aldrei að vita nema ég dembi mér í það.

This slideshow requires JavaScript.

 

Djobbið hjá munkunum

Posted: 12 January, 2015 in Uncategorized

Tiger temple er merkilegur staður.  Mér skilst að munkar sem fá að reisa sér klaustur þurfi að vera í stakk búnir til að taka við þeim dýrum sem til þeirra koma.  Þetta hefur eitthvað með endurfæðinguna að gera og svona eitthvað í þeim fíling.  Allavega, ég er staddur í Wat Pa Luangta Maha Bua Yannasampanno eða Tiger temple.  Það er staðsett 45 km frá Kanchanaburi sem er aftur staðsett nærri landamærum Burma.

Þetta hófst allt voða rómó hjá þeim, komið var með tvo unga sem var bjargað frá veiðiþjófum og svo hefur þetta undið svona rækilega upp á sig.  Núna eru þeir með 139 tígrisdýr, helling af vatnabuffalóum, tvö ljón, fullt af villisvínum, allavega flotta fugla og svo er fullt af dádýrum hérna.  Jú einhverjir svartir birnir eru hérna en ég hef ekkert skipt mér af þeim.

Þegar ég mæti hingað er enginn til að taka á móti mér.  Fólk er ekkert á því að skilja mann og ég ekki það.  Þó er mér sagt að bíða.  Sem ég og geri, og bíð og bíð.  Ingrid og Josefine mæta svo og þar á eftir J.P.  Þær eru frá Noregi og Svíþjóð, hann frá Tahiti.  Annie fer með okkur fínan skoðunarferð um svæðið og segir okkur svona það helsta.  Það er mér soldið sjokk að sjá staðinn.  Það er drasl um allt.  Hef ekki orð á því en skil ekkert í þessu.  Seinna segir J.P. mér að þetta sé asíski stíllinn, það er engin tilfinning fyrir þessum hlutum.  Svekk því maður sér að túristunum er sumum brugðið við að sjá suma staði hérna hjá okkur.

Byrjum á aðalatriðinu, vistarverum sjálfboðaliða.  Vá hvað þetta er geggjað.  Á myndunum sem fylgja er ég búinn að skúra gólfið og sópa loft og veggi.  Þriðja myndin er af steyptri rist hingað inn sem er full af einhverju afar huggulegu.  Nú svo er það klósettið.  Það eru þrjú, hvert öðru æðislegra með rassaskolara og kaldri sturtu.  Það er baðaðstaðan sem í boði er.  Vaskarnir eru fyrir framan klósettdyrnar, sex stykki.  Þá notum við til að þvo okkur, bursta, vaska upp, þvo þvotta og svona annað sem til fellur.  Allt upp úr ísköldu vatni.  Það er að vísu ekki drykkjarhæft en hey… það er ekki hægt að fá allt 🙂

IMG_0075 IMG_0074 IMG_0073  IMAG0091 IMAG0090 IMAG0088 IMAG0060

 

Við byrjum alla daga á að fara og heimsækja tígrisdýrin.  Leikum við litlu gaurana sem eru 5 vikna og 2 og 3 mánaða gamlir.  Þetta eru skemmtilegir gaurar og dömur sem við förum svo með í gönguferð upp í hof.  Þar hittum við túristahópin sem kaupir sig inn í morgunferðina.  Við förum með ungana upp og skiljum þá þar eftir með staffinu og túristunum.  Við förum svo aftur niður og slökum á.  Túristarnir fá smá munkafíling en svo er blásið til morgunverðar.  Túristarnir ganga fyrir… á eftir munkunum… en síðan eru það við og Thai staffið.  Þetta er bara blóðug styrjöld.  Ef maður er ekki harður endar maður á einhverju drasli eða þá bara ekki neinu.  Þarna þarf maður líka að taka sér auka skammt til að eiga mat um kvöldið.  O jæja…

Það er krafa að menn fari úr skónum hvert sem þeir koma.  Það er bara hlægilegt að sjá skilti á almenningssalerni  þar sem fólki er bent á að fara úr skónum.  Klósettið er svo skítugt að manni dettur ekki einu sinni í hug að fara þangað inn á skóm!

Tókum okkur soldið á í kvöld og gerðum fínt hérna hjá okkur.  Ég rakst á geymslu þar sem allavega Buddah dót var geymt og náði  mér í Buddah líkneski, lítil borð, risa kerti og reykelsi.  Það er hrikalega kósí hérna hjá mér núna.

IMG_0386 IMG_0384Datt á Tea Tree olíu í apóteki hérna.  Blandaði í vatn og setti í spreybrúsa og ætla að úða gullinu í kringum dýnuna mína og við dyrnar.  Vonandi minnkar gestagangurinn á í rúminu hjá mér eitthvað aðeins.  Svo er ég nú smá stressaður vegna sporðdrekans.

Gott að sinni.  Sennilega bara áframhaldandi neikvæðni næst.  Ég er reyndar ekkert neikvæður á þetta, ég er meira svona alveg rasandi hissa á umgengninni og svoleiðis hérna.  Mér kemur það auðvitað ekki rass við.

 

 

Frídagur?

Posted: 8 January, 2015 in Uncategorized

Jú jú er það ekki frídagur að kalla þegar maður er ekki í klaustrinu.  Það að vinna þessi verk sem þarf að vinna, þrífa frá nokkrum af stóru dýrunum, leika við ungana og annað álíka krefjandi er samt ekki mikil vinna.  Maður má vera alveg úr tengslum ef maður nýtur ekki hverrar mínútu á svona stað.  Túristarnir geta jú verið hundleiðinlegir en maður leiðir það bara hjá sér og þá er það ekkert mál.

Fórum í fyrrakvöld inn til Kachanaburi að kveðja Piyush sem er að fara til Vietnam að vinna við eitthvað tengt því að bjarga dýrum í útrýmingarhættu, þar á meðal einhverjum slöngum, akkúrat eitthvað fyrir mig 🙂  Fórum á indverskan stað og Piyush, verandi Indverji, dílaði eitthvað og gerði og fékk ég besta matinn sem ég hef fengið frá því ég kom hingað til Thailands.  Kostuðu herlegheitin 1200 kall með drykk.

Gisutm hérna á Tara resort gistiheimili/hóteli eða einhverju.  Sameiginleg klósett og sturtur en nóttin kostar ekki nema 250 baht (1000 kall) fyrir herbergið.  Við erum tveir saman þannig að nóttin er á fimmhundruð kall.  Frábær rúm, sundlaug og geggjað útsýni yfir Kwai fljótið.  Aðalmanneskjan í mótökunni, sem er bara borð við gangstéttina, er dama sem var fyrir ekki svo löngu herra.  Hún er enn með talsverða rót og ansi ókvenlega rödd.  Alveg ljómandi frábær, alltaf þegar hún sér mig spyr hún mig hvort ég vilji það ekki svart og sykurlaust.  Það eru ekki margir hérna sem drekka kaffið sitt þannig.  Thailendingarnir eru með þetta allt dísætt og mjólkað.

Nú við J.P. (Jean Philippe) félagi minn erum hérna saman.  Hann er 32 ára hagfræðingur og fyrrverandi bankamaður frá Tahiti.  Hann fékk nóg af bankavinnu, hætti skellti sér í ferðalag.  Það hófst fyrir hálfu ári og sér ekki fyrir endan á því.  Hann er ótrúlega séður með í hvað peningarnir fara.  Hann kaupir refill á vatnið sitt fyrir 1 baht meðan flaskan kostar 15 baht í búð, hann spáir mikið í hvar er best fyrir hann að taka út pening, gengið milli banka er mjög mismunandi og það getur bara munað miklum peningum að hans sögn.  Hann ætlar ekki aftur í bankann og langar jafnvel að fara í bakarann.  Skemmtilegur náungi.

Nú já fríið.  Við mættum svo aftur hingaði í Kachana í gærkvöldi, ég fór með föt í þvott og við kíktum á næturmarkaðinn.  Þar keyptum við okkur tilbúinn mat á 25 baht, reyndar splæsti ég mér í kók fyrir 15 þannig að kvöldmaturinn stóð í 160 krónum hjá mér.  Hreint ekki slæmt.  Leigðum okkur svo vespu í dag til að fara að skoða Erawan f0ssana.  Það er fönký að keyra vespu í þessari umferð.  Með eitthvað pottlok á hausnum, í stuttbuxum og stuttermabol, vinstra megin og umferðin eins og í Teheran.  Það er ekkert ósennilegt að þú sért að keyra á einnar akreinar vegi en mætir þremur bílum hlið við hlið.  Voða gaman allt.

Byrjuðum þó á brúnni góðu yfir Kwai.IMAG0137 Ansi sérstakt að vera þarna, hafandi séð myndina grilljón sinnum og svo lesið um hvað þetta kostaði allt í lífi og limum innfæddra og fanga sem voru neyddir til að vinna þarna.  Fallegur staður engu að síður.  Gengum yfir og svona túristuðumst aðeins eins þarf líka.

Brenndum svo af stað í áttina að fossunum.  Skemmtilegur túr og æðislegir fossar og allt umhverfi í kringum þá.  Fossarnir eru á 7 hæðum og er hægt að synda í flestum þeirra.  Nokkuð fríkað að í þeim er fiskur sem kroppar í fæturna á manni ef maður stoppar eitthvað.  Ég kunni nú ekki við það og mér sýndist nú fólki líka það misvel.  Við J.P. syntum á þriðju hæðinni og þrömmuðum svo upp einhverja hundruði metra á sandölunum.  Á efstu hæðinni voru svona ljómandi skemmtilegir apar að leik í trjánum.  Á leiðinni upp sáum við, á nokkrum stöðum, kvennmanns hengd upp í tré og klútum einhverjum vafið um þau.  J.P. hafði heyrt þetta vera einhverja hjátrú en við fundum ekkert meira um það.

Brenndum í bæinn á núll komma einni.  Tókum bensín á leiðinni og þar var ekkert verið að vesenast eitthvað með eitthvað rafmagnsdælufínerí.  Ó nei, bensíndæludaman dældi bensíni upp í glas og þaðan á tankinn.  Mjög kúl.  Borgað með peningum, enginn posi.  Allt í lagi bless.

Kíktum í BigC sem er nokkuð stórt Fjarðarkaup þó FK séu nú notalegri.  Renndi mér í klippingu meðan J.P. fór á hjólinu í banka.

Þú afsakar allar myndirnar af mér þarna en þetta blogg er nú að mestu leiti fyrir mig gert 🙂

 

 

This slideshow requires JavaScript.

Gallery  —  Posted: 4 January, 2015 in Thailand

Kanchanaburi

Posted: 4 January, 2015 in Thailand
Tags:

Somporn, leigubílstjórinn knái kom mér á endanum á hótelið dularfulla.  Merkilegt hvað fáir könnuðust við Lúxus hótelið.  Jæja hvað um það.  Ég er alveg dauður úr þreytu en get illa sofnað, kaffi drykkja og taugarnar í einhverju rugli.  Stressaður fyrir framhaldinu og svona eitthvað.

Vaki fram á morgun og þá er kominn gamlársdagur, held ég.  Nú ég fer mjög seint á fætur og kíki út í sjö/ellefu.  Þar næ ég mér í eitthvað að borða en samt…  þegar maður kemur inn í svona allt annað umhverfi þá veit maður ekkert hvað maður á að kaupa.  Ég keypti mér eitthvað sem ég vissi að ég gæti treyst á, kók, Snickers, prótein drykki og snakk.  Prótein drykkirnir voru reyndar díselolía og terpentína en þeir lúkkuð vel.  Ég henti þeim.

Matsölustaðurinn nokkra metra frá hótelinu er afar girnilegur að sjá  Fer inn og þar er aldeilis stuðið.  Evrópsk hjón í eldri kantinum að spá í úrvalið og svo ansi sprækur kall á míkrafóninum.  Rudda Roland fyrir aftan hann en enginn við það.  Þó heyrist í flottum trommum og fjörugt undirspil.  Mögulega leikið af bandi, hvað veit ég.  Þegar kallinn fór í pásu tók systir hans við og gerði stormandi lukku og síðan kom dóttir þeirra og bætti um betur.  Frábært kvöld og ég dríf mig saddur á sál og líkama upp á hótel aftur.

Nýarsdagur, er gamlárs bara búið?, og ég hunskast á fætur rétt eftir hádegi.  Rölti út í Big C, sem er svona búð með fullt af búðum, þar sem til stendur að kaupa það sem ég veit að vantar.  Splæsi mér í tölvu, bænaföt,eitthvað meira nauðsynlegt dót og sleppti fullt af dóti sem hefði verið gott að hafa.  Lenóvó tölvan góða hætti allt í einu að taka straum og var því ekkert annað að gera en að splæsa í nýja.  Þessi nýja kostaði 48þús kall og sé ég ekki eftir þeim peningum.

Burðarpokarnir hérna eru pínulitlir og þó svo ég væri ekki með neinn helling fór það í slatta af pokum.

Ætlaði að grípa mér taxa upp á hótel enda einhverjir 3 km þangað.  Nei kallinn minn, hér eru engir taxar!  Frábært, ég spyr strák hvort einhver ráð séu þar sem ég nenni bara ekki að rölta með alla þessa poka, alla þessa leið.  Hann kippir mér með út á bílastæði þar sem gaur á Hondu vespu er í grænu vesti merkt Taxi.  Humm ég er með haug af pokum og hann á 125 cc vespu.  Akkúrat.  Hann tekur nokkra poka og raðar þeim á hjólið en restinni held ég á.  Saman brennum við svo eins og Lukku Láki og Léttfeti í átt að sólsetrinu.

Ákvað að vera ekkert að taka einhverja áhættu og fór aftur á matsölustaðinn fína.  Þar var aldeilis búið að blása til sóknar í tónlistinni.  Heill salur var nú undirlagður í karókí og var alveg haugur ef brosandi Thailendingum þar í hörku fíling.  Ég fór bara inn í standardinn og graðgaði þar í mig þessu líka fína Massaman.  Fjölskyldan músikalska, hvaða orð er þetta?, var enn við völd á míkrafóninum og brostu þau öll sínu blíðasta þegar þau sáu mig.  Sennilega áttað sig á að þau voru á barmi alþjóðlegrar frægðar.

Luxury hotel er ekkert rosalega mikið Luxury.  Rúmið er alveg gler hart.  Húsgögnin eru að detta í sundur, eitt er reyndar dottið í sundur.  Kaffið er bara nokkuð andstyggilegt instant sem ég sæki mér fram í litla bolla.  113 ég veit.  Merkilegt er allt ruslið út um allt.  Menn opna umbúðir, taka innihaldið úr og henda þeim bara frá sér.  Svona er þetta um allt.  Stór undarlegt þykir mér.

Valdi bróðir hefur nú verið að slá um sig með glæsilegum dollum í henni Ameríku.  Þá er ég auðvitað að meina dollunum sem þú notar í tafli við páfann.  Hérna eru nokkrar myndir af dollunni í Luxury hotel og svo þrjár með sem sýna glæsilegar innréttingarnar.  Hún er ansi skemmtileg þessi sprauta við hliðina á klósettinu.  Dúndur kraftur í henni og þræl gaman að sprauta á maurana meðan maður sinnti öðrum verkum.  Ótrúlega skemmtilegt að hafa baðgólfið svona 10 cm neðar gólfinu í herberginu.  Ég datt næstum niður og rak lappirnar í á ferðum mínum þarna svefnvana og ruglaður.

IMG_0051 (Medium) IMG_0052 (Medium) IMG_0050 (Medium) IMG_0064 (Medium)    IMG_0062 (Medium) IMG_0063 (Medium)

 

Jæja þá er ég lentur í Bangkok og er kominn á rútustöðina. Ég er allavega á rútustöð og ekki er það BSÍ. Þessi rútustöð lítur jafnvel verr út en BSÍ og mögulega verr en Reykjavíkurflugvöllur. Ég átti að fara á Suður Terminal eitthvað en þetta er nú soldið eins og þetta sé að fara úr notkun. Hér var einu sinni heilmikill bisness en ekki lengur. Nú eru flest verslunarrými bara tóm. Það eru þó nokkrir mat eitthvað starfandi. Staðir sem geta kannski afgreitt tíu manns og þá er allt hráefni búið. Þeir virðast flestir vera með það sama en þó er einhver smá munur á sýnist mér.
Uppselt er í rútuna til Kachanaburi og þá næstu og þá næstu. Ég kaupi því miða í þá á eftir þeim. Annað á reyndar eftir að koma í ljós.

Nú rútan á að fara 12:50 þannig að ég hef rúma þrjá tíma til að gera eitthvað spennandi eins og t.d. að hlaða símann minn en hann, þrátt fyrir að vera “nýr” vinnusími, dugir ekki nema í tæpa fjóra tíma nú orðið. Hafði keypt mér auka hleðslu í Amsterdam en hún er búin og mér gengur illa að finna innstungu til að stelast í.
Finn soldið fyrir því að vera svona einn. Ekkert mál að vera á þessum þvæling og öllu þessu standi en það er einhver einsemd í mér. Get ekki einu sinni hringt í einhvern vegna símaleysisins. Maður verður eitthvað blár þegar svona stendur á. Hugurinn reikar í einhverja vitleysu, ég sakna Fróða. Er að koma frá Köben. Hitti Gunna minn þar en hann hafði verið hjá mömmu sinni og systir um jólin. Gengum Strikið og ég fór með hann á Hvids vinstue. Ánægjulegur dagur fannst mér. Gistum svo á fínu hóteli á Istegade 6. Mæli svo sem ekkert með því en ég væri alveg vís með að gista þar aftur ef þarf.
Ein af litlu búðunum hérna selur aldeilis frábært kaffi. Tvöfaldur Espresso á 35 baht sem eru um 140 krónur. Aldeilis fínt. Skúringakona bjargaði mér um kló og nú eru bæði sími og aukarafhlaðan í hleðslu. Snilld.
Jæja áfram með smjörið. Þarf að koma mér til Kachanaburi fyrir kvöldið. Ætla að reyna að nota morgundaginn, 30 des, til að kynna mér aðstæður og vonandi hlaupa eitthvað smá. Mikið djöfull er ég orðinn þreyttur. Hef ekki sofið í marga daga finnst mér. Verið soldið stressaður heima og svo bara já…. Núna er ég búinn að vera á ferðinni frá því sjö í morgun og klukkan orðin tvö að nóttu. Flugið hingað frá Amsterdam var djöfull stíft, þröng sæti og bara erfitt.
Jæja ég með allt mitt á hreinu. Hafði verið með allt útprentað, leiðina á hótelið og nafnið á bænum. Allt á ensku og Thailensku. Rútan kemur og rútan fer með mig innanborðs. Keyrum og keyrum á hörðum, holóttum vegum. Stoppað til að éta og pissa, allt til að tefja finnst mér. Nú við keyrum og þegar við erum búin að vera tæplega fjóra tíma á ferðinni líst mér ekkert á þetta lengur og spyr driverinn AFTUR hvort við séum ekki örugglega á leiðinni til Kachanaburi… Nei nei við erum á leiðinni til Chanburi og það er sko í allt aðra átt. Ég fékk smá sjokk en samt held ég bar aað ég hafi verið of þreyttur til að fá eitthvað verra en það. mér er bent á hvað ég þarf að gera og það er bara að fara á leiðarenda og taka rútu til baka. Já veiiii.
Næsta rútustöð, þessi talsvert skárri en sú fyrri. Ekkert nema góðar fréttir. Rútan til baka kemur eftir næstum tvo tíma! Meira jibbííí. Samkvæmt áætlun á hún að vera 17:30 en það er þegar orðin korters seinkun. Jæja… Nú klukkan eitthvað ferlega mikið er okkur sagt að fara aftur á pall á litlum pickup. Við erum sjö sem troðum okkur aftur á pallinn með farangri og öllu. Belti eru fyrir aumingja, þak, veltigrind nú eða hurð eru bara til skrauts. Keyrum í soldinn tíma að sögn til að fara til móts við rútuna sem er strand vegna umferðar.
Á leiðinni til Bangkok um borð í rútunni fínu og ég þarf að pissa. Veit ekki hvað er mikið eftir en mér líst ekki baun á þetta. Korteri seinna afræð ég að tala við driverinn og segja honum að ég þurfi á tojlettið. Hann veifar mér burtu, held að hann hafi ekki skilið svona vandað mál. Það er munkur í fremsta sætinu sem spyr mig hvað sé málið, hvort ég sé svangur. Ég neita og hann bara brosir. Nokkuð seinna og ég bara get ekki haldið lengur í mér. Fer fram og segi við munkinn að hann verði að koma herra bílstjóra í skilning um að ég verði að pissa, Stop…. piss segi ég. Hann skilur ekki rass fyrr en ég slæ um með leik. Hann brosir og bendir mér á klósettið aftur í bílnum. Ég var búinn að tékka, ég sver það.
Jæja loksins í Bangkok aftur. Klukkan orðin miðnætti og ég alveg ónýtur á því. Til mín kemur hressleikinn sjálfur og bendir mér á að engar rútur séu fyrr en í fyrramálið og ég geti því annað hvort tekið taxa á hótel eða taxa þangað sem ég er að fara. Ég segi honum hvert það sé og hann segir mér að það séu 170 km og það kosti mig 2000 baht (8000 kall). Ég reyni að prútta en ekkert gengur. Tek bílinn, nenni ekki meiru. Ég labba með hressleikanum og hann fer með mig eitthvað bakvið hús. Þar er alveg dásamlega skuggalegt lið með opinn eld í tunnu og voða glæpó eitthvað. Hressleikinn segir mér að ef ég vilji geti ég alveg farið bara á hótel og fengið mér konu. Ég hélt hann væri að grínast er svo var bara alls ekki, honum var fyllsta alvara. Hann talaði um að ég gæti fundið mér konu til að giftast, þær vildu svona vestræna menn eins og mig. Ég þakkaði gott boð en sagðist vilja halda áfram.
Leigubílstjórinn sem ég fékk talaði enga ensku og vissi varla hvert við vorum að fara. Þetta bjargaðist þó allt og ég kom á hótelið alveg fáránlega seint í nótt hafandi verið á ferðalagi í næstum 40 tíma. Þó þetta hafi verið ótrúlega erfitt var þetta soldið ævintýri og verður örugglega gaman að rifja þetta upp síðar.

Hérna eru rafmagnsstaurar og dæmigerðar byggingar í Kanchanaburi.  Eins og sést er þetta ekki mjög glamorous.  Ljósastaurarnir milli akreina eru aftur á móti ansi flottir.

IMG_0056 (Medium) IMG_0057 (Medium)

IMG_0058 (Medium) IMG_0055 (Medium) IMG_0054 (Medium) IMG_0053 (Medium)

 

Þessar fjórar eru af herberginu mínu á Luxury hotel.  Þarna kostuðu þrjár nætur 2400 baht eða 9600 krónur.  Á miðvikudaginn er fyrsti frídagurinn minn og þá gisti ég á einhverju gisti þar sem nóttin kostar 250 baht eða 1000 kall.  Þar er sundlaug, góður morgunmatur og frábær rúm.

 

 

 

IMG_0052 (Medium) IMG_0051 (Medium) IMG_0050 (Medium) IMG_0064 (Medium)

Nú þessi fyrsta er af kónginum sjálfum.  Thailendingar eru álíka hrifnir af honum og Íslendingar af ÓRG.

IMG_0049 (Medium) IMG_0048 (Medium) IMG_0047 (Medium) IMG_0043 (Medium)IMG_0045 (Medium)IMG_0044 (Medium)IMG_0042 (Medium) IMG_0040 (Medium)IMG_0041 (Medium)  IMG_0039 (Medium) IMG_0038 (Medium)  IMG_0045 IMG_0042Nú svo er það BSÍ.  Þetta er ekki jafn æðislegt á myndum og í alvöru.  Ég náði engan vegin að taka myndir af niðurníðslunni og óstuðinu þarna, kannski vegna þess hversu ánægður ég var með þetta allt saman.

Boston búið, ekki góður árangur.  Var þreyttur í startinu og vissi að ég mundi ekki ná þriggja tíma markmiðinu.  Undirbúningur hafði ekki verið sem skildi, ég sleppti allt of mörgum dýrum, löngum laugardagsæfingum og stóð mig bara ekki nógu vel.

Þá var það Vegas.  Eftir ég veit ekki hvað en allavega ekki æfingar tók ég Parísar plan Þorláks og setti í gang.  Stór hluti tekinn á bretti.  mér fellur það vel, finnst rosa gaman á brettinu og það býður líka upp á að æfa með hlaupara á öðru plani en maður sjálfur er.  Nú ég æfði andskoti vel og var mjög samviskusamur.  Lenti þó í því að, ótrúlegt en satt, siggið undir iljunum stoppaði mig.  Ég hafði alltaf haldið að sigg væri bara af hinu góða.  Ekki aldeilis kallinn minn.  þegar verst lét var bara eins og ég væri með skóna fulla af grjóti og eftir æfingar fékk ég risa blöðrur.

Hlín tók mig í gjörgæslu með lappirnar og eftir allt of langa æfingapásu gat ég sett allt á fullt aftur.  Veit ekki hvort þetta skipti máli en mér leið alveg geggjað, fann að allt væri að gera sig.

Las Vegas er undarleg borg, mjög undarleg.  Spáin hafði verið þetta rétt undir 20 gráðunum og hlakkaði ég til en þegar við fórum út rétt fyrir hádegi á hlaupadag var dottið niður í fjögur hitastig… Ískalt alveg og blástur.  Shitt, hvað gerir maður nú.  Hlýrabolur og stuttbuxur með og ekkert annað.  Nú ég kaupi mér einhverja bómullardruslu í minjagripabúllu til að vera í meðan beðið er eftir startinu en svo ætlaði ég að hlaupa í stuttermabol.  Þetta fúnkeraði bara fínt.

Ekki alveg sáttur við hólfin í startinu.  Hálfu og heilu er startað saman og var ansi mikið af skemmtiskokkurum í fremsta hólfinu.  Soldið sikk sakk í startinu en það var svo sem bara gaman.  Fann að ég var til í allt og hugsaði aðallega um að halda mig innan skekkjumarka á úrinu, þau voru 4:05 -4:20.  Það komu svo sem kaflar sem ég þurfti að slá af en annars var þetta frekar barátta við vindinn fannst mér.  Gaman að hlaupa fram hjá Elvis Presley Chapel, Drive through kapellu og alls konar undarlegu fólki.

Tók þetta bara á baráttunni og hélt ég væri á tíma en eitthvað klikkaði þar hjá mér því ég lenti á 3:01.  Þess má geta að merkingarnar voru helvíti lélegar hjá þeim þannig að maður gat ekki Pace-að sig manualt heldur neyddist ég til að treysta á úrið og það er mjög óáræðanlegt.

Ekkert af þessu tekur þó frá þann hluta hlaupsins að ná öðru sæti aldursins og 24 sæti Overall, það voru 3400 hlauparar.  Helvíti gaman að vera á fyrstu síðu í úrslitunum.  Las Vegas maraþon fer því á ofarlega á listann yfir skemmtilega hluti sem ég hef dúllað mér við.

Næst er það Thailand.  Ég sit við tölvuna í 12 tíma flugi til Bangkok núna og skrifa þetta.  Þar ætla ég að vera næstu 40 dagana við umhirðu tígrisdýra.  Eitthvað klappa ég fílum, björnum og vatnabuffalóum en um kvöldmatarleitið er það svo hugleiðsla með Buddah munkunum.  Ég veit ekki hvernig verður að æfa eitthvað þarna, mér skilst að það sé talsvert af slöngum og sporðdrekum í skóginum og það er afar óhressandi að láta þau kvikyndi narta í sig.

Hvernig sem það fer þá verður allt sett á fullt þegar ég kem heim í byrjun febrúar.  Ég er skráður í Ironman Barcelona sem er haldinn 4. október.  Mig langar soldið að reyna að æfa meira á morgnana en ég hef gert og fara frekar fyrr að sofa.  Er þetta aldurinn eða hvað?  Ég held að þetta sé hið besta mál, mér hættir alltaf til að vaka of lengi og ég ætla að passa soldið upp á hvíldina núna.

Besti Ironman tími minn er 10:55 og langar mig að bæta mig einhvern smá slatta núna og segja þetta svo bara gott af Ironman.  Þetta er of tímafrekt og mér finnst ég bara hafa of mikið af skemmtilegum hlutum að gera.  Mig langar í hjólaferðir til útlanda og heima, eitthvað ekki á tíma eða æfingaleveli heldur bara til að njóta.  Aftur…. er þetta aldurinn?  Ég meina… hjólið er frábært, ég hef hjólað út um allt einn og í góðum félagsskap en endalausar ferðir inn á Þingvelli, yfir Mosfellsheiði, vond pulsa og svo til baka yfir sömu heiðina…. Well ég veit ekki hvort það togi svo fast lengur.

Mér finnast hlaupin alveg æðisleg og frábært að hjóla en mig langar að leika mér meira á hjólinu og keppa minna eða ekkert.  Sundið er frábært í sjónum en mér hefur ekki tekist að smitast af sundáhuganum í lauginni.  Ég viðurkenni að það er gaman að geta synt af einhverju viti en tíminn sem fer í að verða góður sundmaður er bara tími sem ég hef ekki.

Fróði minn fór í pössun fram að Ironman, ég sé ekki að ég hafi tíma fyrir hann og get ekki hugsað mér að hafa hann illa hirtan og leiðan greyið.  Hundur eins og hann þarf athygli og hreyfingu.  Ég gat boðið upp á félagsskap en fátt annað.  Hann er búinn að vera í vist núna í mánuð og ég sakna hans hræðilega.  Það er frábær nærvera af svona dýri og skilur það eftir sig mjög stórt tómarúm þegar það fer.

Allavega… það er Thailand, tígrisdýrin, klaustur og Buddah munkar núna.  Kannski dettur í mig einhver ægilegur æfingaandi þegar ég kem heim eða kannski fer ég bara á tvöfaldan snúning í fjósinu.  Nú svo er það auðvitað skólinn sem ég byrja í að hluta núna á vorönn en fer svo á fulla ferð í haust.  Það verður frábært að fara að læra aftur og í þetta sinn eitthvað sem ég hef verulegan áhuga á.

761492-1007-0045s - Copy 761551-1332-0027s - Copy 761563-1075-0013s - Copy  761551-1332-0024s - Copy

En nú er það Thailand og tígrisdýrin næstu vikurnar.  Ætla að taka eitthvað af myndum og skrifa um það sem mér þykir áhugavert í þessu merkilega landi.