Frá því að ég ákvað að koma hingað hef ég svona velt því fyrir mér að auðvitað væri séns á að eitthvað kæmi fyrir. Það að umgangast meira en hundrað tígrisdýr hlýtur bara að kalla á óhapp. Þetta hefur sloppið svona glimrandi fínt… hingað til. Vissulega hef ég verið bitinn og klóraður nokkuð jafnt og þétt en svo virðist þetta bara allt koma í einni gusu.
Ég þurfti að skjótast niður á herbergi í gær, stytti mér leið í gegnum garð sem er hérna hjá okkur. Ansi flottur steinsteyptur hringur með tveimur stórum Buddah styttum. Fórum þangað fyrir mjög fáum dögum, kveiktum eld og fíluðum staðinn. Nú ég hleyp bara nokkuð greitt þarna í gegn þegar allt í einu ég finn rosalegan bruna á bakinu og svo strax þvílík læti í flugum. Fyrst hélt ég að ég væri að brenna og ég átta mig ekki á því hvort að ég fleygði mér í jörðina eða datt en í jörðina fór ég. Lenti frekar leiðinlega og hruflaðist soldið þannig að ég græddi bæði alveg haug af stungum út um allt bak, hendur og fætur. Mikið djöfull var ég hræddur í þessar fáu sekúntur sem á þessu stóð. Hljóðin og bara eitthvað, úff ég vona að ég lendi ekki í svona aftur.
Kvöldið áður hafði ég setið við tölvuna og séð sporðdreka við tærnar á mér. Sá varð nú ekki langlífur blessaður en ég sé auðvitað eftir því núna að hafa drepið hann. Hefði verið gaman að eiga hann. Virkilega flott kvikindi en ógnvekjandi þó.
Ákveð að rúlla bara í bæinn eftir vinnu, kaupa mér eitthvað til að græja sárin og sofa í almennilegu rúmi á Tara. Chicken man bjargaði farinu og fékk ég meira að segja að sitja frammí enda pallurinn fullur af fólki. Chicken man er sá sem færir okkur, fólkinu og dýrunum, kjúkling.
Nú svo í morgun er ég eitthvað að kjassast í einum að verða sjö mánaða. Allt voða fínt hjá okkur þegar hann allt í einu æðir á ökklann á mér og bítur bara vel og rækilega. Þetta var upp í hofi og ég í sokkum, venjulega er ég berfættur þar en núna var ég í hlaupaskóm, og rifnaði sokkurinn sem hann beit í. Ansi vel skrapaður bæði framan og aftan eftir þetta. Versta við svona er ef maður lætur ekki eitthvað yfir svona sár strax fara flugurnar alveg í bana stuð og djöflast í þessu. Ég átti næstum þrjá tíma eftir með túristunum þannig að það voru svona frekar pirraðir tímar hjá mér.
Í hádeginu fór ég svo með mannskapnum að taka búr Civet kattanna soldið í gegn. Civet kettir eru ansi stórir kettir sem klifra um allt og eru mannafælur. Nú ég var að gefa þeim að éta, kjúlla að sjálfsögðu, og var að leyfa þeim að éta úr hendinni þegar einn tekur sig til og bítur mig svona rækilega. Ég varð ekkert smá hissa en dreif mig bara niður, var hátt uppi á palli hjá þeim, til að reyna að þrífa þetta og jú afla mér upplýsinga um hundaæðismöguleika. Hann er frekar ólíklegur þar sem dýrin ættu að bera þess nokkuð greinileg merki. Þreif mig því bara og hélt áfram með daginn. Vonandi hef ég verið að klára daginn með því að drepa þessa líka hlussu könguló hérna inni hjá mér áðan. Hún fékk að kenna á sama kertapakkanum og sporðdrekinn sælla minninga.
Eftir stendur að ég er alveg hressilega merktur starfinu þessa stundina. Það var enda ekki mikið mál að fá fólk til að fara eftir reglum í umgengni við dýrin í dag. Það að benda á lappirnar og brosa þegar fólk spurði hvort þessi fallegu dýr bitu nokkuð fast var ansi gaman.
Dagurinn var ansi heitur og fer það ekkert á milli mála þegar maður þarf að vera á fullu við að slá af sér Mosquito flugur meðan maður glamrar þetta á tölvuna. Þær geta verið ansi stórar en alls ekki skerí að sjá sko.
Ég veit að ég er sjálfsagt að Jinxa þetta núna en samt… Það eina hræðilega sem ég á eftir að lenda í er að snákur bíti mig. Það held ég að fari endanlega með þetta hjá mér.












































































































































