Archive for the ‘Uncategorized’ Category

Djobbið hjá munkunum

Posted: 12 January, 2015 in Uncategorized

Tiger temple er merkilegur staður.  Mér skilst að munkar sem fá að reisa sér klaustur þurfi að vera í stakk búnir til að taka við þeim dýrum sem til þeirra koma.  Þetta hefur eitthvað með endurfæðinguna að gera og svona eitthvað í þeim fíling.  Allavega, ég er staddur í Wat Pa Luangta Maha Bua Yannasampanno eða Tiger temple.  Það er staðsett 45 km frá Kanchanaburi sem er aftur staðsett nærri landamærum Burma.

Þetta hófst allt voða rómó hjá þeim, komið var með tvo unga sem var bjargað frá veiðiþjófum og svo hefur þetta undið svona rækilega upp á sig.  Núna eru þeir með 139 tígrisdýr, helling af vatnabuffalóum, tvö ljón, fullt af villisvínum, allavega flotta fugla og svo er fullt af dádýrum hérna.  Jú einhverjir svartir birnir eru hérna en ég hef ekkert skipt mér af þeim.

Þegar ég mæti hingað er enginn til að taka á móti mér.  Fólk er ekkert á því að skilja mann og ég ekki það.  Þó er mér sagt að bíða.  Sem ég og geri, og bíð og bíð.  Ingrid og Josefine mæta svo og þar á eftir J.P.  Þær eru frá Noregi og Svíþjóð, hann frá Tahiti.  Annie fer með okkur fínan skoðunarferð um svæðið og segir okkur svona það helsta.  Það er mér soldið sjokk að sjá staðinn.  Það er drasl um allt.  Hef ekki orð á því en skil ekkert í þessu.  Seinna segir J.P. mér að þetta sé asíski stíllinn, það er engin tilfinning fyrir þessum hlutum.  Svekk því maður sér að túristunum er sumum brugðið við að sjá suma staði hérna hjá okkur.

Byrjum á aðalatriðinu, vistarverum sjálfboðaliða.  Vá hvað þetta er geggjað.  Á myndunum sem fylgja er ég búinn að skúra gólfið og sópa loft og veggi.  Þriðja myndin er af steyptri rist hingað inn sem er full af einhverju afar huggulegu.  Nú svo er það klósettið.  Það eru þrjú, hvert öðru æðislegra með rassaskolara og kaldri sturtu.  Það er baðaðstaðan sem í boði er.  Vaskarnir eru fyrir framan klósettdyrnar, sex stykki.  Þá notum við til að þvo okkur, bursta, vaska upp, þvo þvotta og svona annað sem til fellur.  Allt upp úr ísköldu vatni.  Það er að vísu ekki drykkjarhæft en hey… það er ekki hægt að fá allt 🙂

IMG_0075 IMG_0074 IMG_0073  IMAG0091 IMAG0090 IMAG0088 IMAG0060

 

Við byrjum alla daga á að fara og heimsækja tígrisdýrin.  Leikum við litlu gaurana sem eru 5 vikna og 2 og 3 mánaða gamlir.  Þetta eru skemmtilegir gaurar og dömur sem við förum svo með í gönguferð upp í hof.  Þar hittum við túristahópin sem kaupir sig inn í morgunferðina.  Við förum með ungana upp og skiljum þá þar eftir með staffinu og túristunum.  Við förum svo aftur niður og slökum á.  Túristarnir fá smá munkafíling en svo er blásið til morgunverðar.  Túristarnir ganga fyrir… á eftir munkunum… en síðan eru það við og Thai staffið.  Þetta er bara blóðug styrjöld.  Ef maður er ekki harður endar maður á einhverju drasli eða þá bara ekki neinu.  Þarna þarf maður líka að taka sér auka skammt til að eiga mat um kvöldið.  O jæja…

Það er krafa að menn fari úr skónum hvert sem þeir koma.  Það er bara hlægilegt að sjá skilti á almenningssalerni  þar sem fólki er bent á að fara úr skónum.  Klósettið er svo skítugt að manni dettur ekki einu sinni í hug að fara þangað inn á skóm!

Tókum okkur soldið á í kvöld og gerðum fínt hérna hjá okkur.  Ég rakst á geymslu þar sem allavega Buddah dót var geymt og náði  mér í Buddah líkneski, lítil borð, risa kerti og reykelsi.  Það er hrikalega kósí hérna hjá mér núna.

IMG_0386 IMG_0384Datt á Tea Tree olíu í apóteki hérna.  Blandaði í vatn og setti í spreybrúsa og ætla að úða gullinu í kringum dýnuna mína og við dyrnar.  Vonandi minnkar gestagangurinn á í rúminu hjá mér eitthvað aðeins.  Svo er ég nú smá stressaður vegna sporðdrekans.

Gott að sinni.  Sennilega bara áframhaldandi neikvæðni næst.  Ég er reyndar ekkert neikvæður á þetta, ég er meira svona alveg rasandi hissa á umgengninni og svoleiðis hérna.  Mér kemur það auðvitað ekki rass við.

 

 

Frídagur?

Posted: 8 January, 2015 in Uncategorized

Jú jú er það ekki frídagur að kalla þegar maður er ekki í klaustrinu.  Það að vinna þessi verk sem þarf að vinna, þrífa frá nokkrum af stóru dýrunum, leika við ungana og annað álíka krefjandi er samt ekki mikil vinna.  Maður má vera alveg úr tengslum ef maður nýtur ekki hverrar mínútu á svona stað.  Túristarnir geta jú verið hundleiðinlegir en maður leiðir það bara hjá sér og þá er það ekkert mál.

Fórum í fyrrakvöld inn til Kachanaburi að kveðja Piyush sem er að fara til Vietnam að vinna við eitthvað tengt því að bjarga dýrum í útrýmingarhættu, þar á meðal einhverjum slöngum, akkúrat eitthvað fyrir mig 🙂  Fórum á indverskan stað og Piyush, verandi Indverji, dílaði eitthvað og gerði og fékk ég besta matinn sem ég hef fengið frá því ég kom hingað til Thailands.  Kostuðu herlegheitin 1200 kall með drykk.

Gisutm hérna á Tara resort gistiheimili/hóteli eða einhverju.  Sameiginleg klósett og sturtur en nóttin kostar ekki nema 250 baht (1000 kall) fyrir herbergið.  Við erum tveir saman þannig að nóttin er á fimmhundruð kall.  Frábær rúm, sundlaug og geggjað útsýni yfir Kwai fljótið.  Aðalmanneskjan í mótökunni, sem er bara borð við gangstéttina, er dama sem var fyrir ekki svo löngu herra.  Hún er enn með talsverða rót og ansi ókvenlega rödd.  Alveg ljómandi frábær, alltaf þegar hún sér mig spyr hún mig hvort ég vilji það ekki svart og sykurlaust.  Það eru ekki margir hérna sem drekka kaffið sitt þannig.  Thailendingarnir eru með þetta allt dísætt og mjólkað.

Nú við J.P. (Jean Philippe) félagi minn erum hérna saman.  Hann er 32 ára hagfræðingur og fyrrverandi bankamaður frá Tahiti.  Hann fékk nóg af bankavinnu, hætti skellti sér í ferðalag.  Það hófst fyrir hálfu ári og sér ekki fyrir endan á því.  Hann er ótrúlega séður með í hvað peningarnir fara.  Hann kaupir refill á vatnið sitt fyrir 1 baht meðan flaskan kostar 15 baht í búð, hann spáir mikið í hvar er best fyrir hann að taka út pening, gengið milli banka er mjög mismunandi og það getur bara munað miklum peningum að hans sögn.  Hann ætlar ekki aftur í bankann og langar jafnvel að fara í bakarann.  Skemmtilegur náungi.

Nú já fríið.  Við mættum svo aftur hingaði í Kachana í gærkvöldi, ég fór með föt í þvott og við kíktum á næturmarkaðinn.  Þar keyptum við okkur tilbúinn mat á 25 baht, reyndar splæsti ég mér í kók fyrir 15 þannig að kvöldmaturinn stóð í 160 krónum hjá mér.  Hreint ekki slæmt.  Leigðum okkur svo vespu í dag til að fara að skoða Erawan f0ssana.  Það er fönký að keyra vespu í þessari umferð.  Með eitthvað pottlok á hausnum, í stuttbuxum og stuttermabol, vinstra megin og umferðin eins og í Teheran.  Það er ekkert ósennilegt að þú sért að keyra á einnar akreinar vegi en mætir þremur bílum hlið við hlið.  Voða gaman allt.

Byrjuðum þó á brúnni góðu yfir Kwai.IMAG0137 Ansi sérstakt að vera þarna, hafandi séð myndina grilljón sinnum og svo lesið um hvað þetta kostaði allt í lífi og limum innfæddra og fanga sem voru neyddir til að vinna þarna.  Fallegur staður engu að síður.  Gengum yfir og svona túristuðumst aðeins eins þarf líka.

Brenndum svo af stað í áttina að fossunum.  Skemmtilegur túr og æðislegir fossar og allt umhverfi í kringum þá.  Fossarnir eru á 7 hæðum og er hægt að synda í flestum þeirra.  Nokkuð fríkað að í þeim er fiskur sem kroppar í fæturna á manni ef maður stoppar eitthvað.  Ég kunni nú ekki við það og mér sýndist nú fólki líka það misvel.  Við J.P. syntum á þriðju hæðinni og þrömmuðum svo upp einhverja hundruði metra á sandölunum.  Á efstu hæðinni voru svona ljómandi skemmtilegir apar að leik í trjánum.  Á leiðinni upp sáum við, á nokkrum stöðum, kvennmanns hengd upp í tré og klútum einhverjum vafið um þau.  J.P. hafði heyrt þetta vera einhverja hjátrú en við fundum ekkert meira um það.

Brenndum í bæinn á núll komma einni.  Tókum bensín á leiðinni og þar var ekkert verið að vesenast eitthvað með eitthvað rafmagnsdælufínerí.  Ó nei, bensíndæludaman dældi bensíni upp í glas og þaðan á tankinn.  Mjög kúl.  Borgað með peningum, enginn posi.  Allt í lagi bless.

Kíktum í BigC sem er nokkuð stórt Fjarðarkaup þó FK séu nú notalegri.  Renndi mér í klippingu meðan J.P. fór á hjólinu í banka.

Þú afsakar allar myndirnar af mér þarna en þetta blogg er nú að mestu leiti fyrir mig gert 🙂

 

 

This slideshow requires JavaScript.

Boston búið, ekki góður árangur.  Var þreyttur í startinu og vissi að ég mundi ekki ná þriggja tíma markmiðinu.  Undirbúningur hafði ekki verið sem skildi, ég sleppti allt of mörgum dýrum, löngum laugardagsæfingum og stóð mig bara ekki nógu vel.

Þá var það Vegas.  Eftir ég veit ekki hvað en allavega ekki æfingar tók ég Parísar plan Þorláks og setti í gang.  Stór hluti tekinn á bretti.  mér fellur það vel, finnst rosa gaman á brettinu og það býður líka upp á að æfa með hlaupara á öðru plani en maður sjálfur er.  Nú ég æfði andskoti vel og var mjög samviskusamur.  Lenti þó í því að, ótrúlegt en satt, siggið undir iljunum stoppaði mig.  Ég hafði alltaf haldið að sigg væri bara af hinu góða.  Ekki aldeilis kallinn minn.  þegar verst lét var bara eins og ég væri með skóna fulla af grjóti og eftir æfingar fékk ég risa blöðrur.

Hlín tók mig í gjörgæslu með lappirnar og eftir allt of langa æfingapásu gat ég sett allt á fullt aftur.  Veit ekki hvort þetta skipti máli en mér leið alveg geggjað, fann að allt væri að gera sig.

Las Vegas er undarleg borg, mjög undarleg.  Spáin hafði verið þetta rétt undir 20 gráðunum og hlakkaði ég til en þegar við fórum út rétt fyrir hádegi á hlaupadag var dottið niður í fjögur hitastig… Ískalt alveg og blástur.  Shitt, hvað gerir maður nú.  Hlýrabolur og stuttbuxur með og ekkert annað.  Nú ég kaupi mér einhverja bómullardruslu í minjagripabúllu til að vera í meðan beðið er eftir startinu en svo ætlaði ég að hlaupa í stuttermabol.  Þetta fúnkeraði bara fínt.

Ekki alveg sáttur við hólfin í startinu.  Hálfu og heilu er startað saman og var ansi mikið af skemmtiskokkurum í fremsta hólfinu.  Soldið sikk sakk í startinu en það var svo sem bara gaman.  Fann að ég var til í allt og hugsaði aðallega um að halda mig innan skekkjumarka á úrinu, þau voru 4:05 -4:20.  Það komu svo sem kaflar sem ég þurfti að slá af en annars var þetta frekar barátta við vindinn fannst mér.  Gaman að hlaupa fram hjá Elvis Presley Chapel, Drive through kapellu og alls konar undarlegu fólki.

Tók þetta bara á baráttunni og hélt ég væri á tíma en eitthvað klikkaði þar hjá mér því ég lenti á 3:01.  Þess má geta að merkingarnar voru helvíti lélegar hjá þeim þannig að maður gat ekki Pace-að sig manualt heldur neyddist ég til að treysta á úrið og það er mjög óáræðanlegt.

Ekkert af þessu tekur þó frá þann hluta hlaupsins að ná öðru sæti aldursins og 24 sæti Overall, það voru 3400 hlauparar.  Helvíti gaman að vera á fyrstu síðu í úrslitunum.  Las Vegas maraþon fer því á ofarlega á listann yfir skemmtilega hluti sem ég hef dúllað mér við.

Næst er það Thailand.  Ég sit við tölvuna í 12 tíma flugi til Bangkok núna og skrifa þetta.  Þar ætla ég að vera næstu 40 dagana við umhirðu tígrisdýra.  Eitthvað klappa ég fílum, björnum og vatnabuffalóum en um kvöldmatarleitið er það svo hugleiðsla með Buddah munkunum.  Ég veit ekki hvernig verður að æfa eitthvað þarna, mér skilst að það sé talsvert af slöngum og sporðdrekum í skóginum og það er afar óhressandi að láta þau kvikyndi narta í sig.

Hvernig sem það fer þá verður allt sett á fullt þegar ég kem heim í byrjun febrúar.  Ég er skráður í Ironman Barcelona sem er haldinn 4. október.  Mig langar soldið að reyna að æfa meira á morgnana en ég hef gert og fara frekar fyrr að sofa.  Er þetta aldurinn eða hvað?  Ég held að þetta sé hið besta mál, mér hættir alltaf til að vaka of lengi og ég ætla að passa soldið upp á hvíldina núna.

Besti Ironman tími minn er 10:55 og langar mig að bæta mig einhvern smá slatta núna og segja þetta svo bara gott af Ironman.  Þetta er of tímafrekt og mér finnst ég bara hafa of mikið af skemmtilegum hlutum að gera.  Mig langar í hjólaferðir til útlanda og heima, eitthvað ekki á tíma eða æfingaleveli heldur bara til að njóta.  Aftur…. er þetta aldurinn?  Ég meina… hjólið er frábært, ég hef hjólað út um allt einn og í góðum félagsskap en endalausar ferðir inn á Þingvelli, yfir Mosfellsheiði, vond pulsa og svo til baka yfir sömu heiðina…. Well ég veit ekki hvort það togi svo fast lengur.

Mér finnast hlaupin alveg æðisleg og frábært að hjóla en mig langar að leika mér meira á hjólinu og keppa minna eða ekkert.  Sundið er frábært í sjónum en mér hefur ekki tekist að smitast af sundáhuganum í lauginni.  Ég viðurkenni að það er gaman að geta synt af einhverju viti en tíminn sem fer í að verða góður sundmaður er bara tími sem ég hef ekki.

Fróði minn fór í pössun fram að Ironman, ég sé ekki að ég hafi tíma fyrir hann og get ekki hugsað mér að hafa hann illa hirtan og leiðan greyið.  Hundur eins og hann þarf athygli og hreyfingu.  Ég gat boðið upp á félagsskap en fátt annað.  Hann er búinn að vera í vist núna í mánuð og ég sakna hans hræðilega.  Það er frábær nærvera af svona dýri og skilur það eftir sig mjög stórt tómarúm þegar það fer.

Allavega… það er Thailand, tígrisdýrin, klaustur og Buddah munkar núna.  Kannski dettur í mig einhver ægilegur æfingaandi þegar ég kem heim eða kannski fer ég bara á tvöfaldan snúning í fjósinu.  Nú svo er það auðvitað skólinn sem ég byrja í að hluta núna á vorönn en fer svo á fulla ferð í haust.  Það verður frábært að fara að læra aftur og í þetta sinn eitthvað sem ég hef verulegan áhuga á.

761492-1007-0045s - Copy 761551-1332-0027s - Copy 761563-1075-0013s - Copy  761551-1332-0024s - Copy

En nú er það Thailand og tígrisdýrin næstu vikurnar.  Ætla að taka eitthvað af myndum og skrifa um það sem mér þykir áhugavert í þessu merkilega landi.

Eitthvað þungt

Posted: 20 May, 2014 in Uncategorized

Enn eina ferðina er ég á fleygiferð í rússibana tilfinninganna.  Allavega jákvæðir hlutir í gangi hjá mér en það er bara of margt og of stórt sem skyggir á.  Það er eitthvað ekki að gera sig núna hjá mér.  Veit ekki hvað ég geri.  Ég held að ég taki þetta ekki á hressleikanum einum.

Er á Dale Carnegie námskeiði.  Hvernig á að takast á við erfiða kúnna.  Sumt svona líka frábærlega skynsamlegt eitthvað og er engin spurning að það hjálpi í daglega lífinu.  Ef maður man bara að nota það.  Svo er það allt annað mál.  Spurning um æfingu og hversu oft manni má mistakast.  Hef reyndar aðeins spáð í þessu dóti og kann betur og betur við það.

Sótti um og fékk sjálfboðaliðastarf hjá Buddah munkum í Thailandi.  Starfið felst í umhirðu tígrisdýra eða tígrisdýraunga.  Það eru fastir starfsmenn sem sjá um fullorðnu dýrin.  Þetta verður eitthvað.  Ætlast er til að maður stundi íhugun með munkunum síðdegis á hverjum degi.  Hljómar vel.  Ég er ekki í nokkrum vafa um að vaxa sem maður í þessu.  Hey…  Tígrisdýr eru risastór rándýr.  Risa, risa stór.  Karldýrið er ca 3 metrar á lengd og 200 kíló að þyngd.  Það er ansi mikið af rándýri.  Þegar þetta er svo komið á 60 km hraða er þetta orðið almennilegt.

Það verður gaman að fara til Thailands og þá sérstaklega þangað sem ég er að fara.  Ég verð nálægt landamærum Myanmar og rennur Kwai fljótið þarna rétt hjá.  Það verður vonandi tækifæri til að fara og sjá hina frægu brú.  Djöfull held ég hann pabbi hefði orðið ánægður með það.

 

Eitthvað að virka

Posted: 14 May, 2014 in Uncategorized

Fer út að hjóla, tek nokkra km á fínu gasi með nægri áreynslu.  Bara flott.  Ég hélt að lærin væru bara í ruglinu en það var ekki.  Núna hjóla ég í vinnuna, stutt jú jú, og geri það vel.

Fór í dag eftir að hjóla heim úr vinnunni og náði í Fróða minn og hlaupagallann.  Niðrí Laugar.  Ætlaði upp í Hólma en farið að rigna og eitthvað svona væl þannig að ég skellti mér í utanvega hlaup á brettinu.  Setti á meðaltal 4% halla sem þýddi 3,2% hið minnsta en 7% hið mesta.  Tók klukkutíma þannig á 12,5 og var bara urrandi sáttur með mig.  Ætti að hlaupa á morgun en sé til.  Kannski ég geymi það þar til á fimmtudag og hjóli bara hressandi á morgun.  Kannski hleyp ég á morgun og hjóla á fimmtudag.  Kannski fer ég bara á skíði.  Naaa varla.

Allavega… það er fínn kraftur í mér fyrir utan að ég hef bara ekki tíma til að gera allt sem ég vil gera.  Gera fínt hérna heima, tékka á fjósinu og athuga háaloftið.  Fíddd fíúú hvað þetta á eftir að verða smart hjá mér.  Verð nú að taka einn rólegan túr á fjallahjólinu með hann Fróða minn.

Langt í dag

Posted: 18 January, 2014 in Uncategorized

Við Steindór búnir að mæla okkur mót við Laugar í morgun. Fokk mér leist ekkert á það. Tilfinningin að vera í skíta formi var alls ráðandi og ég bara eitthvað dööö. Nú við stukkum af stað og byrjuðum ekki sterkt. Vitlaus hringur… ég meina það fer enginn öfugan hring eða hvað? Júbb Steindór, hann fer vitlausa leið og það vandræðalaust.

Blússandi meðvindur og talsverð hálka. Hann á nöglum en ég ekki. Stígarnir svona flestir sandaðir og fínir þannig að þetta var alveg ljómandi bara. Eftir Gróttu var nokkur mótvindur en það var bara hressandi. Var orðinn ansi þreyttur eftir 20km en gel sló aðeins á og komum við nokkuð hraðir inn að Laugum.

Enduðum í 25,2 á 2:02 sem er alveg viðunandi. Ágætis hlaupavika að baki. Magnið kannski ekki neitt spes en tempóið verið þeim mun betra. Er að vinna á RIG á morgun þannig að eitthvað verður lítið að gera í hlaupum hjá mér í fyrramálið. Nú svo er aldeilis fjörið klukkan eitt í Höllinni.

Enn að gera sig

Posted: 18 January, 2014 in Uncategorized

Já já áhuginn er enn til staðar og bætir bara í ef eitthvað er.  Hef verið ansi lélegur í Powerade í vetur.  Samt…  engar æfingar að heiti geti og þá sígur nú úr forminu.  Hraðinn hefur verið alveg sæmilegur en úthaldið lítið.  Leit út fyrir að ég smellti mér bara á væludeildina en ákvað að harka þetta af mér.  Það er eitthvað að skila sér því bæði er hraðinn að rjúka upp og þolið sömuleiðis að koma.

Vorum á æfingu í frjálsíþróttahöllinni á miðvikudaginn.  Hlupum þetta fjórir saman, ég, Steindór, Gauti og Sigurjón.  Ferlega gaman að vera ekkert alveg að drepast við að “hanga” í þeim heldur hlupum við bara með þeim.  Fínasta æfing sem endaði á 4×200 þar sem við gormuðumst þetta á 2:40 sem gerir sig á 22,5 km/h.  Það er skemmtileg tala.  Held ég vinni bara í að fara aðeins hærra.

Boston er byrjað að þokast nær.  Fékk mér ferlega skemmtilega gistingu hjá tveimur herramönnum með hreingerninga fetish.  Er að vonast til að ná að draga hana Grétu mína með en það er nú ábyggilega ekki gaman að fara með í svona keppnisferð.  Held samt að ég sé kominn yfir það að vera alveg ónýtur daginn eftir svona hlaup en það á eftir að koma í ljós.

Langt í fyrramálið, ég svefnlaus þannig að þetta er gott í kvöld.

Lífið er skrítin skepna. Tók aldeilis skrens á því í ár. Svipuð aðferð og þegar rússneska stafrófið var búið til. Venjulegir stafir settir í bauk og svo var bara hrist hressilega.

Nú ég er fluttur, skilinn og svona eitthvað meira til. Bý í næstum 100 ára gömlu húsi með yfirdrifið af verkefnum sem þarf að sinna. Hef svona verið að dunda mér í þessu og þá hafa æfingar fengið að bíða. Er búinn að taka nokkur stört á æfingaprógrömm en ekki dugað í þau. Nenni svo sem ekki mikið að velta mér upp úr því en ætla að reyna að koma mér í einhvern gang núna.

Boston maraþonið sendi mér einhver æfingaplön sem ég á alveg eins von á að nýta mér. Miða við Advanced plan sem er nokkuð ákveðið. Það miðar við 6 daga í viku og einn í hvíld sem er helvíti mikið hlaupaprógramm fyrir mig. Mér finnast fjórir dagar vera hið besta mál, æfa bara vel og hjóla síðan tvo daga í viku. Gott hjól held ég að hjálpa til með að halda mann meiðsla lausum.

Er aðeins að spá með æfingar og æfingatímana. Langar að prófa að hlaupa á morgnana áður en ég fer í vinnuna. Tja allavega þessar þrjá virku daga en svo laugardaginn þá með Ægi/Laugaskokki. Langar að láta verða af því að prófa þetta. Svo er nú að vakna en það verður bara að koma í ljós hvernig það gengur.

Nóg að sinni.

Kelerí

Posted: 16 August, 2012 in Uncategorized

Já já það heldur bara áfram.  Ólöf í fríi þessa viku og næstu en hún bókaði mig hjá honum Guðbjarti í staðinn.  Sá tók all rækilega á mér, rass og IT bandið í krafta meðferð.  Þetta og Maggi sjúkra á þriðjudaginn, Gúkka í dag og Magni Kíró á morgun.

Frábært hjól með Oddi á miðvikudagskvöldið.  Blanka logn og dásamlegt allt saman.  Rúlluðum um á flottu tempó og kíktum á Viðar Braga og Einar halda kynningu á Þríkó.  Fannst verðskráin í hærri kantinum hjá þeim en fín kynning.

Þó var eitt sem stakk alveg hrikalega.  Hvað í ósköpunum gengur mönnum til að vera með sundæfinar klukkan 5:30!!!  Eru menn að keppa hver við annan í fávitaskap eða hvað er málið?  3SH sem sínar rétt fyrir sex æfingar og núna Þríkó með svona.  Sjálfsagt þykir þetta eitthvað voða flott og þá að fara að sofa klukkan níu.  Fínt þá gera aðrir það en ég fer nú ekki að missa af Jóhönnu Vigdísi í kvöldfréttunum að spjalla við vin sinn Bjarna Ben.  Ó nei.

Vadím á landinum og ég í tíma.  Búinn að fara í einn og það í Áslandslaug.  Alveg ljómandi dásamlegt allt saman.  Hann er að gera tvo krakka tilbúna fyrir Ólympíuleika fatlaðra og eru þau hrikalega flott bæði tvö.  Gaman að hitta Vadím og fá að æfa hjá honum.  Mikill heiður finnst mér og ég heppinn að hann skuli nenna þessu.

Fokk zybbinn

Zzzzzz Einar

Hólka Pólka

Posted: 26 June, 2011 in Uncategorized

Einhver losarabragur er á hópnum þessa dagana.  Formaðurinn fjarri góðu gamni með auma hásin og menn að keppa um allar trissur.  Ég reyndar á heilmiklu skralli í Berlin þessa vikuna þar sem ég sá Slipknot í pínulitlum sal, eitthvað sem maður hefði aldrei þorað að vonast til að sjá.  Mikil nálægð, mikill hávaði og mikið rokk.  Tók eina góða hlaupaæfingu á flugvellinum sem var hluti loftbrúarinnar til Berlin við upphaf kalda stríðsins.  Berlinarborg er að breyta honum í almenningsgarð þar sem til stendur að halda brautunum fyrir hjólara, hlaupara og skate-ara.  Rennislétt malbik og það mikið af því.  Hringurinn um flugvöllinn tæpir 7 km og fór ég tvo.

En að æfingum.  Fór í fyrsta gallasundið á föstudaginn eftir lyftingaæfingu.  Hafði verið á hefðbundnu róli, léttur og fínn, þegar ég prófaði bekkinn.  Byrjaði létt og þyngdi svo aðeins.  Fer síðan einn og hálfan í sjónum og var svo gjörsamlega ónýtur í öxlinni á eftir.  Fór svo í gær og dag en þá bara styttra í einu en fór þá bara aftur.  Synti aðeins með Ermarsundsfólkinu og náði fínum tíma í sjónum í bæði skiptin sem er bara ágætt eftir 17 km hlaup.

Sunnudagur spáði góðu hjólaveðri en svo virðast spár hafa breyst eða eitthvað.  Fórum fjórir, ég, Eddi, Pétur og Siggi, á Þingvelli í talsverðum strekkingi í fangið.  Ég í góðum gír og ákváðum við að skipta liði við Gljúfrastein, ég gaf aðeins í og fór á undan.  Var ekki með iPodinn og rúllaði Holka polka með Sniglabandinu í hausnum á mér alla leiðina austur.  Vonaðist til að heyra eitthvað í sjoppunni sem ég gæti gripið en svo heppinn var ég ekki og rúllaði því lagið aftur í bæinn.  Verst að ég kann ekki allan textann þannig að þetta var að verða þreytt.

Var rétt rúma tvo tíma austur en svo eftir að fá kaffi, flatara og pönnsu rauk ég í bæinn á rétt rúmum klukkutíma.  Hrikalega gaman þó að notalegt hefði verið að hafa skóhlífarnar.

Sneiðin fór í tékk í vikunni og er ég laus við leguhljóðið sem var að trufla mig.  Það er gott.

Græðgi virðist hafa gripið Hafnfirðingana því þáttökugjaldið í hálfa kallinum hefur hækkað um 50% milli ára.  Misjafnt er eftir því við hvern er talað hver ástæðan er en augljóst er að mikil óheillaþróun er að eiga sér stað í keppnisgjöldum.  Var að hugsa um Laugaveginn svona þar sem öxlin er varla sundhæf en þá kostar 51.000 að fara hann!  Þetta er alveg út í bláinn.  Tökum 113 á þetta.

Hérna sést hvað við v0rum á frábærum stað á tónleikunum.  DJ-inn kom þarna upp á svalirnar til okkar og lét sig síðan gossa aftur á bak niðrí mannhafið.  Algjörlega geggjað.

Amen