Tiger temple er merkilegur staður. Mér skilst að munkar sem fá að reisa sér klaustur þurfi að vera í stakk búnir til að taka við þeim dýrum sem til þeirra koma. Þetta hefur eitthvað með endurfæðinguna að gera og svona eitthvað í þeim fíling. Allavega, ég er staddur í Wat Pa Luangta Maha Bua Yannasampanno eða Tiger temple. Það er staðsett 45 km frá Kanchanaburi sem er aftur staðsett nærri landamærum Burma.
Þetta hófst allt voða rómó hjá þeim, komið var með tvo unga sem var bjargað frá veiðiþjófum og svo hefur þetta undið svona rækilega upp á sig. Núna eru þeir með 139 tígrisdýr, helling af vatnabuffalóum, tvö ljón, fullt af villisvínum, allavega flotta fugla og svo er fullt af dádýrum hérna. Jú einhverjir svartir birnir eru hérna en ég hef ekkert skipt mér af þeim.
Þegar ég mæti hingað er enginn til að taka á móti mér. Fólk er ekkert á því að skilja mann og ég ekki það. Þó er mér sagt að bíða. Sem ég og geri, og bíð og bíð. Ingrid og Josefine mæta svo og þar á eftir J.P. Þær eru frá Noregi og Svíþjóð, hann frá Tahiti. Annie fer með okkur fínan skoðunarferð um svæðið og segir okkur svona það helsta. Það er mér soldið sjokk að sjá staðinn. Það er drasl um allt. Hef ekki orð á því en skil ekkert í þessu. Seinna segir J.P. mér að þetta sé asíski stíllinn, það er engin tilfinning fyrir þessum hlutum. Svekk því maður sér að túristunum er sumum brugðið við að sjá suma staði hérna hjá okkur.
Byrjum á aðalatriðinu, vistarverum sjálfboðaliða. Vá hvað þetta er geggjað. Á myndunum sem fylgja er ég búinn að skúra gólfið og sópa loft og veggi. Þriðja myndin er af steyptri rist hingað inn sem er full af einhverju afar huggulegu. Nú svo er það klósettið. Það eru þrjú, hvert öðru æðislegra með rassaskolara og kaldri sturtu. Það er baðaðstaðan sem í boði er. Vaskarnir eru fyrir framan klósettdyrnar, sex stykki. Þá notum við til að þvo okkur, bursta, vaska upp, þvo þvotta og svona annað sem til fellur. Allt upp úr ísköldu vatni. Það er að vísu ekki drykkjarhæft en hey… það er ekki hægt að fá allt 🙂
Við byrjum alla daga á að fara og heimsækja tígrisdýrin. Leikum við litlu gaurana sem eru 5 vikna og 2 og 3 mánaða gamlir. Þetta eru skemmtilegir gaurar og dömur sem við förum svo með í gönguferð upp í hof. Þar hittum við túristahópin sem kaupir sig inn í morgunferðina. Við förum með ungana upp og skiljum þá þar eftir með staffinu og túristunum. Við förum svo aftur niður og slökum á. Túristarnir fá smá munkafíling en svo er blásið til morgunverðar. Túristarnir ganga fyrir… á eftir munkunum… en síðan eru það við og Thai staffið. Þetta er bara blóðug styrjöld. Ef maður er ekki harður endar maður á einhverju drasli eða þá bara ekki neinu. Þarna þarf maður líka að taka sér auka skammt til að eiga mat um kvöldið. O jæja…
Það er krafa að menn fari úr skónum hvert sem þeir koma. Það er bara hlægilegt að sjá skilti á almenningssalerni þar sem fólki er bent á að fara úr skónum. Klósettið er svo skítugt að manni dettur ekki einu sinni í hug að fara þangað inn á skóm!
Tókum okkur soldið á í kvöld og gerðum fínt hérna hjá okkur. Ég rakst á geymslu þar sem allavega Buddah dót var geymt og náði mér í Buddah líkneski, lítil borð, risa kerti og reykelsi. Það er hrikalega kósí hérna hjá mér núna.
Datt á Tea Tree olíu í apóteki hérna. Blandaði í vatn og setti í spreybrúsa og ætla að úða gullinu í kringum dýnuna mína og við dyrnar. Vonandi minnkar gestagangurinn á í rúminu hjá mér eitthvað aðeins. Svo er ég nú smá stressaður vegna sporðdrekans.
Gott að sinni. Sennilega bara áframhaldandi neikvæðni næst. Ég er reyndar ekkert neikvæður á þetta, ég er meira svona alveg rasandi hissa á umgengninni og svoleiðis hérna. Mér kemur það auðvitað ekki rass við.











