Djöfull ætlar þetta að líða hratt. Annar frídagurinn framundan og við JP drífum okkur í “bæinn” Kachanaburi. Meðan aðrir héðan splæsa 200 baht í far með Chicken Man, gaurnum sem kemur með kjúllann í okkur og tígrana förum við JP bara á puttanum. Gerðum það síðast og aftur núna. Fengum far niður á veg og eftir svona soldið labb fengum við far með einni konunni sem vinnur hérna. Við sátum bara aftan á palli hjá henni í góðum fíling.
Vorum búnir að panta hjá fyrrverandi gaurnum, núverandi píunni og klikkaði ekkert þar. Brosið í hring og almennilegheitin út í eitt. Hún er ansi frábær og alltaf á vaktinni, með allt á hreinu. Hentum draslinu inn á herbergi og skutumst út með þvottinn og leigðum okkur hjól. Afar hentugt að það sé sami aðilinn sem þvær af manni og sér manni fyrir mótorhjóli. Brenndum út í BigC (Fjarðarkaup) og græjuðum innkaup. Ofarlega á listanum hjá mér var Tape og kveikjari. Tape-ið í viðgerðir á borðinu inni hjá mér og kveikjarinn í Búddah æfingarnar sem ég er með hérna hjá mér. Kerti og reykelsi er málið þegar veturinn gengur í garð.
Já veturinn… Það er kominn vetur hérna. Hitinn fer niður fyrir 20 gráðurnar á nóttunni og þá er nú fjári kalt á vindsænginni og undir teppinu af bensínstöðinni. Hef jafnvel skellt mér í bol þegar verst hefur verið. Dagarnir eru líka áberandi kaldari, hitinn fer ekki mikið yfir 30 gráðurnar og oft er skýjað. Ég er ekki að þykjast eitthvað, það er bara talsvert niður úr 37 gráðunum og blússandi sólskini. Ég hélt ekki að maður gæti kvartað undan 30 gráðum en það er greinilega hægt að tuða yfir öllu.
Sváfum alveg eins og skepnur fram eftir degi. Dröttuðumst á lappir undir hádegi og drifum okkur af stað. Miklu styttra en út að fossum og aðeins kraftmeira hjól. Sæmilegustu merkingar hérna á öllu og því duttum við á þetta í fyrstu tilraun.
Kynntum okkur sem starfsmenn Tiger Temple og fengum frábærar móttökur. Snöruðumst um borð í rútu sem tók okkur hring í garðinum. Einn tígur og tvö ljón, allavega grasbítar og svo voru það Zebrar og gíraffar. Höfðum fengið okkur fötu með niðurskornum gulrótum og gáfum þessum fallegu dýrum óspart. Skemmtilegt að fá gíraffana inn í bíl til sín, þessir löngu hálsar koma hausnum hvert sem er en Zebrarnir þurftu meira að treysta á lúkkið til að vinna í sníkjunum. Þeim gekk alveg bærilega enda hrikalega flottir.
Tékkuðum á fílum sem voru þarna í rólegheitunum, alveg sjálfsagt að ganga að þeim og tékka á þeim. Fyndið þegar raninn er að tékka á manni, skóm, höndum og svona eitthvað. Næst voru það ljónin og tígur sem þau eru með þarna. Hittum frábæra sjálfboðaliða sem buðu okkur að smella okkur inn í til dýranna og þáðum við það að sjálfsögðu! Hver notar ekki tækifærið og skellir sér inn í búr hjá 11 mánaða gömlu tígrisdýri og ljónum á svipuðum aldri? Við létum ekki bíða eftir okkur og smelltum okkur inn. Gaman að finna muninn á þessum dýrum. Tígrísdýrin fara nokkuð beint í mann, reyna að komast aftan að þér og fara þar í lappirnar og neðra bakið. Ljónin stökkva jafnvel upp á bakið á manni og faðma mann. Þó tígrisdýrunum finnist gott að taka um mann áður en þau bíta eru ljónin mun flottari með það. Hrikalega gaman að leika við þessi flottu dýr og að vera nokkra sentimetra fyrir framan andlitið á nokkuð stóru karlljóni er geggjað. Augun eru engu lík þau eru svo stór. Maður týnist alveg í þeim. Náði mér í fínt bit sem blæddi úr og allt 🙂
Á leiðinni út duttum við inn á krókódílasjóv. Kostaði ekkert og við drifum okkur. Þar voru sex krókódílar, sá elsti og stærsti 40 ára. Þvílíkar skepnur, ertu eins og spenntar fjaðrir sem skjótast af stað við áreiti. Þjálfarinn var með fínt sjóv sem endaði á að hann stakk hausnum upp í gin eins. Það slapp allt til og þjálfarinn brosti breitt. Þegar sjóvið var búið bauð hann upp á að setjast hjá krókódílnum, halda um halann og láta taka af sér mynd. Ég gat ekki sleppt þessu en mikið djöfull var ég rosalega hræddur þegar ég var að setjast hjá honum. Viss um það að ef ég ræki mig í hann mundi hann gormast á mig af fullu afli. Það slapp líka til.
Brenndum til Kanchaniburi, fengum okkur steik á hótelinu og drifum okkur af stað heim. Höfðum fengið tuð fyrir að mæta of seint síðast þegar við áttum frí, þá hafði strætó verið korteri of seinn, þannig að við ákváðum að sofa bara í hofinu. Strætó allt of seinn og vagninn sem átti að koma sex kom korter í sjö. Komnir út að hofi um átta og áttum þá eftir að labba slatta.
Klukkan fimm er hliðinu inn á svæðið lokað og læst. Hliðið er ekki lítið og það er með pinnum ofan á. Allur veggurinn í kringum svæðið er þriggja metra hár hið minnsta og með brotnum flöskum ofan á honum öllum. Lykillinn að hliðinu er inn í Kanchanaburi. Snilld. Við þurftum að klifra yfir dótið. Ég með þrjá innkaupapoka, fullan poka af þvotti og tölvutöskuna, níþunga og fína. Þetta slapp allt til eins og annað hjá okkur. Held samt að ég tími nú ekki aukanóttinni næsta frídag. Taki frekar bara far hingað í hofið og fái þannig auka nótt á hótelinu. Það munar ansi mikið um að sofa í rúmi og getað farið í heita sturtu.
Næsta frídag, sem er nú bara á laugardaginn, verð ég einn. Það verður eitthvað stuðið. Ætli ég skelli mér ekki bara í gott nudd og reyni svo að æða eitthvað að skoða eða gera. Það stendur nú til að fara að aðstoða við umönnun vinnuþreyttra fíla og er aldrei að vita nema ég dembi mér í það.
This slideshow requires JavaScript.