Archive for the ‘Tuðað og vælt’ Category

Ég veit það ekki. Finnst ég hafa verið alveg dúndur á hjólinu. Hef hjólað slatta en langt frá því sem ég ætti að vera að gera. Hef fjandakornið ekkert hlaupið síðan í París. Vignir dró mig aðeins á lappir og lét mig synda með sér í Nauthólsvíkinni. Hef aðeins verið að sulla þar á skýlunni en hann setti okkur í galla og nú skyldi synt. Laugardagur 2,2 og allt í marglyttu. Ekkert mál enda lítil og krúttleg greyið sem fer öll í flækju þegar maður syndir í gegnum hana. Hittum sel við endann á flugbrautinni. Ferlega gaman þó ég viðurkenni nú alveg að kíkja soldið í kringum mig á bakaleiðinni.

Sunnudagurinn var svo annað eins sund. Soldill kraftur í þessu og svo hjóluðum við að stað austur á Þingvelli. Dásamleg kökusneið og enn betra kaffi, stutt stopp það og svo beint af stað aftur. Nesjavellir heim. Mótvindur og geggjaðar brekkur. Hrikalega gaman. Þríþrautarhjólin eru strembin í brekkunum en ferlega skemmtileg þegar maður hjólar svo heim. 120 km túr þetta og lappirnar alveg ágætar. Hef reyndar verið að slást við mikinn verk í annari rasskinninni. Magni Kíró sagði að þetta væri nær örugglega klemmd settaug. Mögulega er hnakkurinn að hrekkja mig því þetta gerðist líka eftir átakahjól á þríþrautarhjólinu, þá í Hvalfirðinum. Þá eins og nú var ég stopp í viku. Svaf ekki baun og var ómögulegur.

Mánudagurinn eftir þessa hressingu bauð svo upp á miðnæturhlaup. Tók þátt í 5 km og bara vann minn aldursflokk. Reyndar á ömurlegum tíma miðað við það sem ég ætlaði mér en það er annað mál. Ég þarf greinilega að fara að endurskoða væntingar til sjálfs míns all hressilega. Stendst orðið ansi fátt hjá mér.

Þá er það stóra málið, væntingar og hausverkun. Hausinn er ekki á sínum stað þessa dagana. Sef illa og er eins langt frá Roth og hugsast getur. Helst vil ég hætta við. Ég efast ekkert um að ég komist þetta en damn hvað ég nenni ekki enn einn lélegan Járnkarlinn og það svona stuttu eftir að klúðra maraþoni. Ég veit ekki hvað þetta er með mig eiginlega, ég hvílist andskotann ekkert og borða minna en litlu börnin í Eþíópíu. Mér finnst ég hafa æft ömurlega. Helst alltaf með allt á útopnu milli þess sem ég er alveg að drepast úr þreytu og ræfildóm. Þetta er bara ekki það sem þarf fyrir yfir 10 tíma úthaldskeppni. Stefnan er ekki tekin á að vera með eða klára. Það er bæting eða ekkert.

Smá jákvæðni… Tja ég var að fá mér nýjan framskipti á þríþrautarhjólið. SRAM Red 22 sem á að gera alla skiptingu milli framhjóla betri. Sjáum til með það en mikið djöfull kostaði hann. Svo pantaði ég mér tíma hjá David í Bike fit. Hann er sagður fjári góður í þessu og þá er um að gera. Mig hefur alltaf langað að láta setja hjólið upp miðað við mig. GÁP gátu ekki einu sinni sett hjólið upp hvað þá fyrir mig. Það sem ég er óánægður með þá verslun. Sendi þeim fyrirspurn um daginn vegna nýrra Cranka og fékk svar mörgum dögum síðar þar sem ég var spurður hvers konar BB ég væri með! Það er alveg klárt að það eru ekki mörg Cannondale Slice HiMod hérna á Íslandi. Sennilega er það nú bara eitt og Cannondale leyfir ekki breytingar á þeim þegar þau eru keypt.

Svo mörg voru þau orð

Eitthvað undarlegur þessa dagana. Mæðist alveg djöfullega og finnst ég bara ekkert súrefni fá. Mikil átök á hjólinu og ég er bara í tómu tjóni, meira að segja lyftingar eru ekki sem bestar þar sem mig allt að því svimar eftir þungar lyftur. Svipað ástand og var á mér eftir Florida sem svo bara hvarf einn daginn. Hef þó hvílt ágætlega á mér lappirnar en tekið mjög vel á lóðunum.

Veit ekki, er þetta ofþjálfun? Skil samt ekki hvernig það mætti vera. Hef ekki verið í neinu rugli eftir París, tek kannski æfingar í meðallagi langar en passa ákefðina vel. Samt… ég sef illa á virkum dögum en get sofið lengi ef ég fæ tækifæri til. Losna ekki við hor og viðbjóð úr öndunarveginum og eins og ég sagði er öndunin alveg ferleg. Sándar eins og ofþjálfun en ég bara veit ekki hvernig hún ætti að vera til komin.

En nóg af væli! Ég hef bætt mig verulega í lóðunum, þó svo að bekkurinn sé ekkert markmið hjá mér er hann nú einu sinni bekkurinn. Repsaði 80×8 um daginn og fannst bara fínt og svipaða sögu er að segja um flest annað. Hef þó hlýft fótunum við þyngdum en er í 70 prósentunum og þá aðeins oftar. Það sem ég hef hjólað hefur verið fínt. Blússandi kraftur í fótunum og fílingurinn góður. Ef ekki væri fyrir helvítis súrefnisskortinn væri þetta alveg dúndur allt.

Er að synda hjá Þríkó þessa dagana. Þjálfarinn svona ljómandi, er þetta kannski bara málið með alla sundþjálfara? Vadim, Gylfi og nú Kalli. Frábærir allir saman. Mæti tvisvar í viku og er bara, svei mér þá, að öðlast smá sjálfstraust.

Hef verið að spá að hvíla nokkuð vel eftir sumarið. Allt of mikið að angra mig líkamlega og ég held bara að þriggja mánaða Yoga og huggulegheit væru af hinu góða. Mögulega gæti eitthvað hressandi haustmaraþon í október þó seinkað þessum plönum eitthvað en ég sé til. Veskið verður líka að fá að hafa eitthvað að segja um þetta og það er með eitthvað djöfulls væl þessa dagana 🙂

Kannski er það ekki langur tími miðað við allt og allt en þegar maður er í blússandi undirbúningi undir Challenge Roth þá eru 2 vikur í stopp langur tími.  Þetta gerist í bót rétt eftir að Cintamani reyndi að eitra fyrir mér.  Ef ég hefði étið þvottaefnið hefði ég sennilega bara drepist!  Þetta var það alvarlegt, já.  Þá var ég stopp í 3 vikur og svo núna í 2.  Ljóta óstuðið.

Hjólaði í gær í fyrsta sinn í hálfan mánuð.  Hífandi rok og ég úti á Ólafi.  Hann er reyndar enn á CycloCross dekkjunum (700×33) þannig að hann rennur ljúft yfir.  Skellti mér á Hólmsheiðina, Úlfarsfellið og Heiðmörkina.  Hitti ekkert af fólki svona seint á sunnudegi í hávaða helvítis roki og snjókomu.  Þegar ég svo kom að Ingvari Helga á leiðinni heim leist mér ekkert á mig.  Alveg búinn á því og var bara ekkert viss um að ég meikaði það heim.  Lét mig hafa það og tók þetta á þrjóskunni.

Fann það í gær á hjólinu að ég var ekki góður.  Vantaði kraftinn og það þrátt fyrir svona langa pásu.  Svo þegar ég fór að lyfta í kvöld fann ég virkilega fyrir þessu því venjulega eftir smá pásu er ég alveg að springa og ferlega sterkur en ekki í kvöld.  Lyfti samt talsvert en þegar ég fór svo heim fann ég að ég var ekki svona upp pumpaður eins og venjulega eftir gott lóðarí heldur var ég bara þreyttur í þeim vöðvum sem ég hafði verið að taka á.

Tek þátt í Hjólað í vinnuna átakinu með hinum Point-urunum.  Ansi gaman enda andinn auðsóttur á svona litlum stað.  Þetta þýðir aftur á móti að ég verð að hagræða eitthvað æfingum næstu daga með tilliti til þessa.  Það ætti ekki að vera neitt mál og ég læt það bara ganga.  Því miður verður sundið eitthvað að bíða meðan sárið er að fá á sig einhverja húð.  Vil ómögulega fá óþarflega stórt ör í andlitið.  Svo er þetta talsvert óþægilegt eins og er þannig að já, sundið bíður.

Þar sem ég gat ekki tekið þátt í Kópavogsþrautinni bauð ég mig fram til starfa.  Það var þegið og skemmti ég mér alveg ljómandi vel við að brautarverja hlaupabrautina.  Var bara á Ólafi hinum sérstaka enda veitti svo sem ekki af þar sem ég var að mestu einn við þetta.  En það var bara gaman.  Ótrúlega gaman að sjá allt nýja liðið sem er að detta inn og af þvílíkum krafti.  Ég veit ekki hvort kemur mér meira á óvart Stefán Guð eða Alma en þau eru bæði alveg ótrúleg.  Það er samt eitthvað við það að Stefán fær allt upp í hendurnar, að því virðist, meðan Alma er nokkuð venjuleg á þessu.

Ég verð að trúa því að núna sé ég kominn á beinu brautina.  Spurning um að slaufa Bláa Lóninu 😦

Fúlt

Posted: 6 May, 2012 in NIðritími, Tuðað og vælt

Helvíti var fúlt að horfa á eftir Vigni, Gústa og Gylfa leggja af stað í lokaáfanga lengstu æfingar ever í dag og ég bara heima.  Ein æfing er kannski ekki aðalmálið en hún telur þegar maður þarf að slepppa henni.

Núna þegar ein vika er frá óhappinu er ég hreint ekkert hress.  Mikið bólginn um allan skrokk, talsverður hausverkur og ógleði.  Fór í gærkvöldi og hitti skólafélagana úr gaggó.  Ferlegt, ég þreyttur og illa haldinn og tafsaði mikið.  Sé á myndum frá kvöldinu að ég leit illa út.  Að sjálfsögðu, við hverju bjóst ég eiginlega?

Fer í saumatöku í fyrramálið.  Lítur nú ansi vel út með andlitið þ.e. hvað ör varðar.  Feginn því að vera ekki með einhver leiðinda ör eða sár þar sem ég hefði örugglega ekki látið laga þau.

Bólgurnar eru byrjaðar að koma út.  Fjólubláar skellur og kýli að myndast á hnjám og verður gott þegar þetta jafnar sig.  Var að spá að kíkja í potta í dag en treysti mér ekki til þess.

Hjólið búið að fara í tékk til mikilla spekúlanta.  Hitti fyrst hann Bjarka í Össur eftir ábendingu frá Rúnari Hjólameistara.  Eðal stykki alveg sem var nokk viss um að þetta væri allt í lagi.  Talaði svo við Haffa Íslands sem sagði það sama nema kannski ákveðnar.  Gríðarlega feginn að það er á hreinu.

Gott í dag, já.

Djöfulls verkun er þetta á manni.  Maður vill auðvitað vera nokkuð frambærilegur.  Því var það þegar ég var staddur í Sportís að velja mér jakka að ég kippti með mér eins og einu afar hressandi glasi Sport þvottaefni.  Cintamani kallinn minn, verður ekki mikið betra.  Veldur ekki miklum kláða á húð þar sem húðin brennur að mestu leiti í burtu.  Svo ég sé nú “fair” þá þvoði ég íþróttafötin mín upp úr þessu og fór svo í þau á langa Trainer æfingu.  4 tímar, hviss bamm búmm og mig er aðeins farið að svíða.

Nú daginn eftir, mánudagur og ég í svona líka stuði.  Lærin, lærin hreint ekki í stuði.  Ekki þreyta heldur risa sár og blöðrur.  Við skulum ekkert vera að ímynda okkur að lærin séu bara framan á fótunum.  Neibb þau ná allan hringinn og ef þau byrja við hné þá enda þau við rass.  Sárin náðu reyndar á rassinn enda ná hjólabuxurnar yfir hann.  Hélt ég dræpist bara.  Andskotans vesen þetta á manni.

Trausti bróðir kom til bjargar eins og er að verða hans vani.  Sá að þetta var skítamál og sagði mér að koma á stofuna til sín.  Þar lét hann draga mér blóð og skoðaði mig síðan.  Sagði þetta vera eitthvað bráða ofnæmi/exem.  Lét mig fá sterakrem til að losna við óþægindin af þessu.  Var ekki alveg að gera sig og lét hann mig fá stera pillur stuttu síðar.  Þær virkuðu alveg ljómandi fínt nema hvað ég minnkaði skammtinn of snemma.  Trausti lét mig bæta í aftur þar til árangurinn væri alveg súper, þá mætti ég minnka.  Gerði það og sárin eru að mestu farin.

Hef verið að dúlla mér svona og svona undanfarið.  Heiðmerkurtvíþrautin er auðvitað uppáhalds hjá mér en núna tók ég þátt.  Gekk alveg la la en hjólið eitthvað þreytt hjá mér.  Keppti síðan í Cube prologue og var bara svona sæmó.  Bæti mig alveg örugglega í næstu keppni ef ég tek þátt.  Það er annað hvort að hvíla einn dag fyrir keppni eða láta eiga sig að taka þátt.  Ekki nógu gaman að finna kraftinn í fótunum en halda ekki keppnina út.

Frábærar æfingabúðir hjá Ægi Þríþraut.  Sprettir voru þemað og komust þau skilaboð rækilega til skila.  Var alveg sannfærður um að ég dræpist bara í lauginn slíkt var actionið á Jacky.  Fann hvað sundið hjá Vadím hefur skilað miklu til mín þar sem ég gat synt á pari við hina þó að mig hafi að sjálfsögðu vantað hraðann.  Öxlin fín og annað bara eftir því.

Eftir afar erfiða daga lét ég mig hafa það og tók þátt í Reykjanes hjólreiðakeppni.  Mætti á Racer og fannst ég til.  Var það sennilega ekki þar sem ég missti hópinn sem ég ætlaði að fylgja langt fram úr mér og gekk bara illa.  Var að berjast einn í nokkurn tíma og tapað kröftum á því.  Merkilegt þar sem ég er nýbúinn að fara illa með mig í Þingvallatúr við sömu aðstæður.  Lét hlutina fara í skapið á mér og það þó að ég viti að skapið bitni fyrst og síðast á mér.  Hjólaði 64 km á 2:06 eða þar um bil.  Svo sem allt í lagi en samt ekki.

Var mjög þreyttur eftir keppnina og rosalega slæmur í öllum liðamótum.  Veit ekki hvort þetta er vatnsleysi eða hvað en þetta gerist stundum hjá mér.  Borðaði og drakk vel og skellti mér út á Sneiðinni fögru.  Að koma af ál racer yfir á Carbon þríþrautarhjól er bara æði.  Rauk í bæinn á no time og áður en ég vissi af var ég að tala við Kristján Eldjárn og son hans við Akraborgina.  Hjóla út á Granda og passa mig að muna eftir stefnumerkjum og vera flottur.  Fer eftir göngustígnum en man lítið eftir beygjunni við JL húsið.  Man næst eftir mér á Borgarspítalanum.

Allt í steik, andlitið illa farið, hendur rispaðar, fætur rispaðir, bak í ólagi, háls mjög slæmur og verst af öllu er hægri öxlin.  Þetta er á sunnudagskvöldið 29. apríl.  Ég er einhverja átta tíma á spítalanum og talað er um að hafa mig um nóttina vegna höfuðáverka.  Fæ þó að fara heim.

Á mánudeginum fæ ég tíma hjá Örnólfi eða réttara sagt, Örnólfur ætlar að hitta mig eftir vinnu.  Oddur býðst til að taka mig á rúntinn, damn að þekkja svona mann, og sækja hjólið líka.  Örnólfur skoðar mig og gerir og sendir mig í ómskoðun.  Þar er byrjað á að segja að ég sé brotinn.  Jibbíí, það var þá eitthvað sem mig vantaði.  Svo kemur í ljós að svo er að öllum líkindum ekki??? og sinar og dót sé líka í fínu lagi.  Mánudagurinn er sá 30. sem er líka síðasti dagurinn til að segja sig úr Challenge Roth.  Ég ákveð eftir miklar pælingar að gera það ekki.  Vil ekki fá það í hausinn að það sé eitthvað lítið mál að hætta við keppni.  Maður klárar það sem maður er byrjaður á.  Ég finn að það vantar hörku í mig og ég verð að finna hana aftur.  Eitthvað farinn að linast og það er ekki ásættanlegt.

Tala við lögguna og fæ að vita að það var vitni að slysinu.  Hjón sem ég fór fram úr báru mér vel söguna og sögðu að þegar ég ætlaði fram úr skokkara hafi hann stokkið til hliðar fyrir mig.  Þá hafi ég nauðhemlað og það má ekki á TT hjóli.  Ég er ansi svekktur ég viðurkenni það.  Hjólið skemmt þó ekki virðist það mikið og ég er bara talsvert slasaður.  Lít mjög illa út og líður jafnvel verr.

Doktorinn segir að ég verði að taka því alveg á núlli næstu 3 til 4 daga.  Lét vinnuna vita og það var auðvitað ekkert mál.  Svo á það að fara í hálfan mánuð samtals og þá má ég byrja að taka á því.  Ég held að ég verði að hlusta á Vigni núna og stilla Roth inn sem leik.  Veit ekki hvernig mér gengur að taka svona keppni ekki alvarlega en ég verð bara að reyna.  Held samt að ég verði aldrei sáttur við sjálfan mig ef ég fer ekki undir 11 tímana.  Það er kannski ekkert merkilegt en eitthvað verð ég að miða við ef ástandið ætlar að vera svona á mér.  Þá er bara að taka tímann eftir Roth alvarlega og taka Florida glæsilega.  Eitthvað sem segir mér að svo verði.

Nýja hjólið er Specialized Allez 2011 árgerðin.  Alveg nýtt fyrir mig að fara út að hjóla á svona græju.  Ótrúlega skemmtilegt apparat og mikill munur að vera á svona í borginni samanborði við TT hjólið.  Hef reyndar verið að uppgvöta nýtt hjól síðustu dag.  Rockhopperinn 29″ fjallahjólið er alveg dásamlegt á Cyclocross dekkjunum sem David Kríu seldi mér.  Veð áfram á þessum líka hlunk en munurinn er að ég gossa alveg hiklaust yfir kanta og allavega drasl.  Brjálað fjör.  Notaði það í Heiðmerkurtvíþrautinni á þessum dekkjum.  Virkaði svona glimrandi en þar var það líka formið á mér í einhverju óstuði.

Morgun ætla ég að kíkja á heilsugæsluna hérna í Mosó.  Grefur alveg djöfullega í andlitunu á mér og lyktin aldeilis eftir því.  Held ég skilji Súbbann bara eftir heima og hjóli bara á fjallahjólinu.  Ekki veitir mér af hreina loftinu.  Djöfull er eitthvað leiðinlegt að lenda í einhverju svona eina helvítis ferðina enn.  Mig langar að kenna hlauparanum um þetta en veit að ég hefði brugðist við á sama hátt og hann.  Ég átti bara að vera á götunni eða ég veit það ekki…  Kannski er þetta ekkert fyrir mig?

Jú víst er þetta fyrir mig.  Þetta kemur allt.

Djöfulls bull!  Ég er hundsvekktur að þurfa að slaufa Florida, skárra væri það nú.  Æfingarnar á ég þó ennþá og er ekki lagstur í neinn aumingjaskap.  Er búinn að vera í að lágmarka peningatap á þessu öllu en það er nú slatti samt sem ég næ ekki til baka.  Skítt með það.

Hef verið að velta næstu skemmtunum fyrir mér og fyrir utan auðvitað að koma sér í einhvern almennilegan gang aftur er númer eitt að halda áfram hjá meistara Vadím og ná sæmilegum tökum á sundinu.  Það verður að fá nokkurn forgang hjá mér, bæði finnst mér gaman að synda og langar að gera það vel og eins er ómögulegt að tapa helling af mínútum á ekki stærri hluta af keppninni.  Annars sýnist mér 2012 verða líflegt hvað keppnir varðar.  Er nokkuð klár á að fara til Miami í maraþon núna í janúar, Laugavegurinn er á dagskrá, hálfur járnkarl snemma sumars er líklegur, Reykjavíkurmaraþon og svo væntanlega Járnkarl í nóvember.

Ætla að notast við æfingaprógrammið frá Mark Allen til að undirbúa mig undir Miami.  Minnka hjólið eitthvað þar sem það verður að mestu á trainer en annars er það bara allt á fulla ferð um leið og kryppan segir ok.  Full ferð verður auðvitað miðuð við þægilegan púls enda hefur það gefist mér afskaplega dásamlega.  Við vorum með þrjár hlaupaæfingar í viku sennilega um 5 tíma eða minna og gaf það svona ljómandi af sér.

Fór á bretti í kvöld í annað sinn frá byltu.  Fyrra skiptið var í 10 mín með leyfi Eyglóar og í kvöld fór ég 25 mín.  10 mín á pace 5, 10 mín á pace 4 og svo mjög rólegt í 5 mín.  Teygði alveg gommu og gerði æfingar á axlir og bak.  Drulluvont og fann ég rækilega fyrir því hvað mataræðið hefur verið lélegt undanfarnar vikur.  Merkilegt hvað maður getur verið vitlaus, einmitt þegar ég þarf að hugsa sem best um mig klikka ég á þessu.

Er  alveg hættur á verkjalyfjum og bólgueyðandi, lyf eru ekki My thang og fékk ég bara blússandi hausverk af þessu dóti.  Átti eitthvað af voðalega fínum verkjalyfjum sem við nánari skoðun féllu á tíma 2006.  Fékk bara í magann af þeim.  Glatað alveg, skil ekki hvernig ég gat verið fullur í tíma og ótíma þegar ég þoli ekki einu sinni verkjalyf.

Ein vika frá falli

Posted: 2 October, 2011 in Tuðað og vælt

Frábær svona einkahúmor með fallið.  Bubbi fallinn manstu?  Kall tuskan að fá sér smók í Range-anum og Eiríkur Jónsson með það á fórsíðu Séð og Heyrt.  Ég er hvorki byrjaður að reykja né drekka að nýju heldur er þetta talning í nýju meiðslunum.

Alveg er þetta nú óþolandi að fyrir hverja keppni sem ég ætla að reyna að gera af einhverju viti skuli ég þurfa að fara í einhverskonar djöfulls aðgerð eða meiða mig á einhvern hátt.  Komm on, kviðslit, hnéspeyglun, beinbrot eða bara eitthvað.  Nefndu það og ég rétti upp hendi eða þannig líður mér allavega.

Verkirnir sem fylgja brotnu herðablaði eru talsverðir.  Sjálfsagt má skrifa eitthvað af þeim á hnjaskið sem ég varð fyrir á svæðinu í kringum sjálfan mig þegar ég flaug í götuna en þó er norð-austur hlutinn einna verstur.  Tek netta spasma af, því er mér finnst, minnsta tilefni með hljóð effektum og öllu.  Ég vil nú samt trúa því að ég sé í þokkalegu lagi þegar mestu verkirnir verða farnir og beinið aðeins farið að límast saman.  Hef verið að prófa að lyfta hendinni og er það í nokkuð góðu lagi ef ég er á verkjalyfjum.  Það segir mér að dótið virki, verkirnir fara svo með tímanum.

Hef ekkert æft núna í viku og verið frá vinnu í jafn langan tíma.  Hringdi áðan og boðaði forföll á morgun og hinn og líður eins og ég sé með slæma samvisku.  Ljóta heimskan alltaf í manni.

 

Sei sei og já já.  Vinstra herðablaðið brotið.  Röntgen læknir segir að höggið sem þarf til að brjóta herðablað sé svo mikið að yfirleitt brotni eitthvað með.  Fyrir utan tognanir og eymsli er ég heill að öðru leiti s.s. sinar og dót í góðum gír.  Spurning hvernig öxlin kemur út úr þessu.

Axlarlæknirinn Örnólfur segir mér að slaufa Florida en bannar mér ekki að fara!  Segir að sundið verði mér erfitt (eins og ég hafi ekki vitað það ha ha) vegna verkja.  Ég ætla að sjá til með hvað ég geri og ekki taka neina ákvörðun strax.

Nú fyrir utan þetta “frávik” á æfingaáætluninni var Mallorcaferðin ótrúlega frábær.  Hjóluðum, hlupum og syntum eins og englar innan um alla fallegu englendingana.  Síðasta daginn minn úti reyndi ég að taka sundlaugina á þetta enda frekar ógangfær en gafst fljótlega upp og fór á röltið.

Eitthvað smotterí tók ég af myndum sem ég smelli á myndasíðuna.

Jahérna hér, ég synti bara eins og engill mína 1900 metra og var bara allt í lagi á eftir.  Var að vísu lengi að en hafði þetta og hafði meira að segja gaman af.  Ótrúleg heppni að detta svona í gírinn rétt fyrir keppni.  Er reyndar aumur núna en það jafnar sig sjálfsagt fljótt.  Var að sjálfsögðu á hægustu braut, hafði merkt mig á 46 mín, og var fremstur þar allan tímann en að vísu með Gumma Gísla í tánum á mér megnið af tímanum.  Hringaði einhverja og ég held meira að segja oftar en einu sinni.  Hahh ég var ekki lélegastur, var í 28. sæti af 39 keppendum og það er umtalsvert betra en ég bjóst við.  Ég hafði í alvöru búið mig undir að vera síðastur og hugsað um að ég gæti örugglega bjargað slatta á hjólinu og svo einhverju á hlaupum.

Skiptingin var fín hjá mér.  Pedalar á hjólinu og fór það bara fínt fram.  Hafði æf þetta nokkrum sinnum og fannst þetta lítið mál  Var nokkuð með á hreinu hvað ég ætlaði í en var með langerma peysu til öryggis.  Þegar til kom ákvað ég að sleppa henni, grifflur, sólgleraugu og hjálmur og ég farinn.  Fann fljótlega að eitthvað mikið var að mér í maganum og það ekki þessi venjulegi belgingur sem ég fæ alltaf eftir sund.  Ó nei, ég var að drepast!  Þurfti að ropa var flökurt og bara ferlegur alveg.  Var að reyna að drekka en það gerði ekkert fyrir mig.  Á endanum sendi ég frá mér tvær vænar slettur, sem betur fer var engin fyrir aftan mig, og þegar ég var búinn að losna við óbragðið úr munninum gat ég fengið mér smá Golf stykki.  Nokkur gola úr öllum áttum blés á okkur kappana, soldið (svolítið) sem við hjólarar erum vanir af Krýsuvíkurveginum.  Samt getur hinn ljúfi sunnan andvari tekið á taugarnar þegar maður er alltaf í mótvindi að manni finnst.  Hjólið kláraði ég sjöundi.

T2 skiptingin gekk verulega fínt.  Var soldið úti á túni þegar ég kom inn, minnti bara á fílingin í Köben, og hefði alveg verið vís með að panta bara pizzu með pepparóni, lauk og ananas hjá Steini þegar hann vísaði mér á skiptisvæðið.  Fann þó draslið mitt og var fljótur að koma mér af stað.  Þrátt fyrir að hafa tekið vel eftir á kynningarfundinum og skoðað ljómandi fínar teikningar 3SH af svæðinu var ég samt ekki með útrásina á hreinu.  Komst út og hljóp af stað.  Vá hvað tærnar voru kaldar.  Aumingja þeir sem voru ekki í sokkum og voru lengur en ég á hjólinu.  Fór, að mér fannst, hægt af stað.  Var heillengi að losna við stirðleikann af hjólinu og kuldanum.  Svo hlýnaði mér og þá fór að ganga betur.  Skemmtilegt að hafa hlaupaleiðina svona fjórar bunur.  Auðveldar manni að skipta hlaupinu niður og fyrir vikið meta standið.  Þegar maður er búinn með tvær eru bara þessi sem maður er á og svo ein stutt eftir og það gerir þetta allt svo lítið og létt.  Finnst reyndar vanta að maður viti stöðuna á hinum keppendunum svo maður viti við hverja maður er að keppa og taki þá jafnvel enn meira á.

Það var svo gaman að hlaupa inn á skiptisvæðið og heyra töff tónlist og Gísla í góðum gír.

Endaði í 3ja sæti í heldri manna flokknum (40+) sem er alveg frábært.  Gylfi frábær í fyrsta sætinu og Arnar fínn í öðru.  Fyrsta sinn sem ég kemst á verðlaunapall, fyrir utan auðvitað TT hjá Bjarti en þá kom það ekki ljós fyrr en síðar, og var það alveg meiriháttar tilfinning.  Kóngurinn sjálfur, Steinn, hengdi á mig Blingið.  Nú er það harkan sex.  Ég veit hvað ég vil fá út úr Florida þó svo að ég ætli að halda því fyrir mig.  Ég veit hvað ég vil og ég ætla mér að fá það.

Þrátt fyrir að ég hafi verið ósáttur við verðið á keppninni verð ég að segja að hún var hverrar krónu virði.  Þetta er mannskapur með þvílíka reynslu af keppnum, bæði sem keppendur og mótshaldarar að annað eins er vandfundið.  Allt var rúmlega fyrsta flokks og þó ég reyni dettur mér ekkert til að tuða yfir fyrir utan veðurspána hjá Aðalritaranum, hann eins og aðrir veðurspekúlantar klikkaði.  Jú eitt, klukkan var ekki nógu sjáanleg sem hefði ekki komið að sök ef ég hefði ekki klúðrað Garmin startinu hjá mér.  það gerist reyndar alltaf þannig að það fer nú að koma að pælingunni um að hreinlega láta hann bara vera.  Kannski nota hann sem hraðamæli á hjólinu.

Var það snjall fyrir löngu síðan og tryggði mér frí í dag.  Fínt að vera bara heima og jafna sig aðeins, sofa út og synda smotterí.  Læri og kálfar aumir en annars alveg la la bara.  Er með þetta skítabragð oní mér sem minnir óþægilega á daga drykkjunnar.  Eru þetta kolvetni í of miklu magni sem fóru svona illa í mig í gær?  Ég tók óheyrilega af kolvetnum, Glyco Maze, kvöldið áður og um morguninn.  Að öðru leyti var næringin ekki frábrugðin.  Naa hvurn fjandann eins og ég viti?  Næst verður það bara Cheerios og eitthvað gott í morgunmat.