Archive for the ‘Thailand’ Category

Skemmtilegir dagar

Posted: 25 January, 2015 in Thailand
Tags: , ,

Frá því að ég ákvað að koma hingað hef ég svona velt því fyrir mér að auðvitað væri séns á að eitthvað kæmi fyrir.  Það að umgangast meira en hundrað tígrisdýr hlýtur bara að kalla á óhapp.  Þetta hefur sloppið svona glimrandi fínt… hingað til.  Vissulega hef ég verið bitinn og klóraður nokkuð jafnt og þétt en svo virðist þetta bara allt koma í einni gusu.

Ég þurfti að skjótast niður á herbergi í gær, stytti mér leið í gegnum garð sem er hérna hjá okkur.  Ansi flottur steinsteyptur hringur með tveimur stórum Buddah styttum.  Fórum þangað fyrir mjög fáum dögum, kveiktum eld og fíluðum staðinn.  Nú ég hleyp bara nokkuð greitt þarna í gegn þegar allt í einu ég finn rosalegan bruna á bakinu og svo strax þvílík læti í flugum.  Fyrst hélt ég að ég væri að brenna og ég átta mig ekki á því hvort að ég fleygði mér í jörðina eða datt en í jörðina fór ég.  Lenti frekar leiðinlega og hruflaðist soldið þannig að ég græddi bæði alveg haug af stungum út um allt bak, hendur og fætur.  Mikið djöfull var ég hræddur í þessar fáu sekúntur sem á þessu stóð.  Hljóðin og bara eitthvað, úff ég vona að ég lendi ekki í svona aftur.

Kvöldið áður hafði ég setið við tölvuna og séð sporðdreka við tærnar á mér.  Sá varð nú ekki langlífur blessaður en ég sé auðvitað eftir því núna að hafa drepið hann.  Hefði verið gaman að eiga hann.  Virkilega flott kvikindi en ógnvekjandi þó.

Ákveð að rúlla bara í bæinn eftir vinnu, kaupa mér eitthvað til að græja sárin og sofa í almennilegu rúmi á Tara.  Chicken man bjargaði farinu og fékk ég meira að segja að sitja frammí enda pallurinn fullur af fólki.  Chicken man er sá sem færir okkur, fólkinu og dýrunum, kjúkling.

Nú svo í morgun er ég eitthvað að kjassast í einum að verða sjö mánaða.  Allt voða fínt hjá okkur þegar hann allt í einu æðir á ökklann á mér og bítur bara vel og rækilega.  Þetta var upp í hofi og ég í sokkum, venjulega er ég berfættur þar en núna var ég í hlaupaskóm, og rifnaði sokkurinn sem hann beit í.  Ansi vel skrapaður bæði framan og aftan eftir þetta.  Versta við svona er ef maður lætur ekki eitthvað yfir svona sár strax fara flugurnar alveg í bana stuð og djöflast í þessu.  Ég átti næstum þrjá tíma eftir með túristunum þannig að það voru svona frekar pirraðir tímar hjá mér.

Í hádeginu fór ég svo með mannskapnum að taka búr Civet kattanna soldið í gegn.  Civet kettir eru ansi stórir kettir sem klifra um allt og eru mannafælur.  Nú ég var að gefa þeim að éta, kjúlla að sjálfsögðu, og var að leyfa þeim að éta úr hendinni þegar einn tekur sig til og bítur mig svona rækilega.  Ég varð ekkert smá hissa en dreif mig bara niður, var hátt uppi á palli hjá þeim, til að reyna að þrífa þetta og jú afla mér upplýsinga um hundaæðismöguleika.  Hann er frekar ólíklegur þar sem dýrin ættu að bera þess nokkuð greinileg merki.  Þreif mig því bara og hélt áfram með daginn.  Vonandi hef ég verið að klára daginn með því að drepa þessa líka hlussu könguló hérna inni hjá mér áðan.  Hún fékk að kenna á sama kertapakkanum og sporðdrekinn sælla minninga.

Eftir stendur að ég er alveg hressilega merktur starfinu þessa stundina.  Það var enda ekki mikið mál að fá fólk til að fara eftir reglum í umgengni við dýrin í dag.  Það að benda á lappirnar og brosa þegar fólk spurði hvort þessi fallegu dýr bitu nokkuð fast var ansi gaman.

Dagurinn var ansi heitur og fer það ekkert á milli mála þegar maður þarf að vera á fullu við að slá af sér Mosquito flugur meðan maður glamrar þetta á tölvuna.  Þær geta verið ansi stórar en alls ekki skerí að sjá sko.

Ég veit að ég er sjálfsagt að Jinxa þetta núna en samt…  Það eina hræðilega sem ég á eftir að lenda í er að snákur bíti mig.  Það held ég að fari endanlega með þetta hjá mér.

 

Hreyfingar á mannskap og dýrum

Posted: 21 January, 2015 in Thailand

Eitthvað hefur okkur fækkað, sjálfboðaliðunum hérna og tvö fara núna í vikunni.  Þá verðum við bara fimm eftir og verður það örugglega bara gaman.  Maður er líka allur orðinn öruggari með bæði dýrin og túristana þannig að þetta verður bara létt.  Maður finnur hvað mánaðarmótin nálgast og ég er farinn að kvíða því að fara héðan.  Maður er farinn að þekkja dýrin og þau mann.  Meira að segja geðvondu stóru dýrin eru farin að hnusa af manni svona milli þess sem þau reyna að troða sér milli rimlanna.

Við erum með gamalt par hérna.  Hann er 15 ára og hún 12 að ég held.  Þegar hann fer út og hún er skilin eftir vælir hún hástöfum þangað til hann kemur aftur.  Hún kemst lítið út greyið því hún er með gláku og er farin að sjá illa.  Hún bætir það hins vegar alveg upp með geðillsku en henni fyrirgefst hún.  Sá um daginn, þegar ég gekk framhjá þeim, að þau lágu í faðmlögum.  Alveg ótrúlega fallegt eitthvað.

Þó tígrisdýrin hérna séu auðvitað aðal er haugur af öðrum dýrum.  Ég hef nú minnst á þau flest held ég en nú var að bætast í hópinn.  Fyrir utan herbergisgluggann minn er nú grísamamma með litla gríslinginn sinn, kannski viku gamlann.  Fór í dag og kíkti á þau.  Hún var með einhverjar varnir svona ti að byrja með en um leið og ég fór að strjúka henni um kviðinn slakaði hún á og leyfði mér kíkja á þenn nýja.  Hún elti mig svo þegar ég fór og sá litli skottaðist á eftir.

Hún dreif sig í bað í drullupollinum sem vatnabuffalóarnir baða sig í og rölti síðan að skrifstofunni.  Þar fór hún yfir ræsið eins og venjulega en sá litli átti ekki breik í það enda um 50 cm breitt.  Nú ég tók bara undir hann og vippaði honum yfir en við það skrækti hann smá og þá tóku mamman og amman, Saucage, þvílíkan kipp og ætluðu að fara að verja hann.  Þetta slapp nú allt til.  Julie, aðalkonan á svæðinu, sagði mér að mesta hættan fyrir svona grísling hérna hjá okkur væri af pabbanum, pabbarnir dræpu gríslingana mjög oft og líklega hefði hann náð í einhverja úr þessu goti fyrst aðeins einn væri sjáanlegur.  Þetta eru villisvín og eru einn eða tveir hérna svona gaurar sem eru algeggjaðir og rjúka í mann.  Hef ekki lent í því frekar en honum Tank, vatnabuffaló.

Kom heim úr hugleiðslu upp í hofi í gærkvöldi.  Orðið ansi dimmt og þegar ég var að fara yfir ræsið hjá okkur heyri ég eitthvað hljóð.  Ég fer eitthvað að tékka á þessu og finn þessa líka fínu skjaldböku, sennilega svona 15 til 20 cm langa.  Hún var augljóslega í skítamálum því ekki komst hún upp og áfram var bara stífla og ekki átti hún séns á að snúa við.  Tók hana því upp og labbaði með út að pollinum fína.  Pollurinn fíni er reyndar alveg skærgrænn á litinn og virkar þykkur að sjá og eiginlega frekar eins og geymslustaður fyrir geislavirkan úrgang.

Bakan tekur ansi góðan sprett svona í lausu lofti og ég var bara skíthræddur um að missa hana.  Hún vigtaði bara slatta og fór öll á fleygiferð þegar hún lét svona.  Um leið og ég setti hana á bakkann rauk hún niður hann og út í vatnið.  Eftir á hugsaði ég:  Djö… ég vona að þetta hafi verið vatnaskjaldbaka.

Myndirnar tala sínu máli.  Vatnabuffalóinn sem er þarna með rassinn í okkur er að ég held Tank, ég nennti ekki að hlaupa fram úr honum og fá hann þá jafnvel á eftir mér.  Hann ræðst á kýrnar í hópnum og bara hvað sem er.

Tiger Temple dýramyndir

Posted: 4 January, 2015 in Thailand

Kanchanaburi

Posted: 4 January, 2015 in Thailand
Tags:

Somporn, leigubílstjórinn knái kom mér á endanum á hótelið dularfulla.  Merkilegt hvað fáir könnuðust við Lúxus hótelið.  Jæja hvað um það.  Ég er alveg dauður úr þreytu en get illa sofnað, kaffi drykkja og taugarnar í einhverju rugli.  Stressaður fyrir framhaldinu og svona eitthvað.

Vaki fram á morgun og þá er kominn gamlársdagur, held ég.  Nú ég fer mjög seint á fætur og kíki út í sjö/ellefu.  Þar næ ég mér í eitthvað að borða en samt…  þegar maður kemur inn í svona allt annað umhverfi þá veit maður ekkert hvað maður á að kaupa.  Ég keypti mér eitthvað sem ég vissi að ég gæti treyst á, kók, Snickers, prótein drykki og snakk.  Prótein drykkirnir voru reyndar díselolía og terpentína en þeir lúkkuð vel.  Ég henti þeim.

Matsölustaðurinn nokkra metra frá hótelinu er afar girnilegur að sjá  Fer inn og þar er aldeilis stuðið.  Evrópsk hjón í eldri kantinum að spá í úrvalið og svo ansi sprækur kall á míkrafóninum.  Rudda Roland fyrir aftan hann en enginn við það.  Þó heyrist í flottum trommum og fjörugt undirspil.  Mögulega leikið af bandi, hvað veit ég.  Þegar kallinn fór í pásu tók systir hans við og gerði stormandi lukku og síðan kom dóttir þeirra og bætti um betur.  Frábært kvöld og ég dríf mig saddur á sál og líkama upp á hótel aftur.

Nýarsdagur, er gamlárs bara búið?, og ég hunskast á fætur rétt eftir hádegi.  Rölti út í Big C, sem er svona búð með fullt af búðum, þar sem til stendur að kaupa það sem ég veit að vantar.  Splæsi mér í tölvu, bænaföt,eitthvað meira nauðsynlegt dót og sleppti fullt af dóti sem hefði verið gott að hafa.  Lenóvó tölvan góða hætti allt í einu að taka straum og var því ekkert annað að gera en að splæsa í nýja.  Þessi nýja kostaði 48þús kall og sé ég ekki eftir þeim peningum.

Burðarpokarnir hérna eru pínulitlir og þó svo ég væri ekki með neinn helling fór það í slatta af pokum.

Ætlaði að grípa mér taxa upp á hótel enda einhverjir 3 km þangað.  Nei kallinn minn, hér eru engir taxar!  Frábært, ég spyr strák hvort einhver ráð séu þar sem ég nenni bara ekki að rölta með alla þessa poka, alla þessa leið.  Hann kippir mér með út á bílastæði þar sem gaur á Hondu vespu er í grænu vesti merkt Taxi.  Humm ég er með haug af pokum og hann á 125 cc vespu.  Akkúrat.  Hann tekur nokkra poka og raðar þeim á hjólið en restinni held ég á.  Saman brennum við svo eins og Lukku Láki og Léttfeti í átt að sólsetrinu.

Ákvað að vera ekkert að taka einhverja áhættu og fór aftur á matsölustaðinn fína.  Þar var aldeilis búið að blása til sóknar í tónlistinni.  Heill salur var nú undirlagður í karókí og var alveg haugur ef brosandi Thailendingum þar í hörku fíling.  Ég fór bara inn í standardinn og graðgaði þar í mig þessu líka fína Massaman.  Fjölskyldan músikalska, hvaða orð er þetta?, var enn við völd á míkrafóninum og brostu þau öll sínu blíðasta þegar þau sáu mig.  Sennilega áttað sig á að þau voru á barmi alþjóðlegrar frægðar.

Luxury hotel er ekkert rosalega mikið Luxury.  Rúmið er alveg gler hart.  Húsgögnin eru að detta í sundur, eitt er reyndar dottið í sundur.  Kaffið er bara nokkuð andstyggilegt instant sem ég sæki mér fram í litla bolla.  113 ég veit.  Merkilegt er allt ruslið út um allt.  Menn opna umbúðir, taka innihaldið úr og henda þeim bara frá sér.  Svona er þetta um allt.  Stór undarlegt þykir mér.

Valdi bróðir hefur nú verið að slá um sig með glæsilegum dollum í henni Ameríku.  Þá er ég auðvitað að meina dollunum sem þú notar í tafli við páfann.  Hérna eru nokkrar myndir af dollunni í Luxury hotel og svo þrjár með sem sýna glæsilegar innréttingarnar.  Hún er ansi skemmtileg þessi sprauta við hliðina á klósettinu.  Dúndur kraftur í henni og þræl gaman að sprauta á maurana meðan maður sinnti öðrum verkum.  Ótrúlega skemmtilegt að hafa baðgólfið svona 10 cm neðar gólfinu í herberginu.  Ég datt næstum niður og rak lappirnar í á ferðum mínum þarna svefnvana og ruglaður.

IMG_0051 (Medium) IMG_0052 (Medium) IMG_0050 (Medium) IMG_0064 (Medium)    IMG_0062 (Medium) IMG_0063 (Medium)

 

Jæja þá er ég lentur í Bangkok og er kominn á rútustöðina. Ég er allavega á rútustöð og ekki er það BSÍ. Þessi rútustöð lítur jafnvel verr út en BSÍ og mögulega verr en Reykjavíkurflugvöllur. Ég átti að fara á Suður Terminal eitthvað en þetta er nú soldið eins og þetta sé að fara úr notkun. Hér var einu sinni heilmikill bisness en ekki lengur. Nú eru flest verslunarrými bara tóm. Það eru þó nokkrir mat eitthvað starfandi. Staðir sem geta kannski afgreitt tíu manns og þá er allt hráefni búið. Þeir virðast flestir vera með það sama en þó er einhver smá munur á sýnist mér.
Uppselt er í rútuna til Kachanaburi og þá næstu og þá næstu. Ég kaupi því miða í þá á eftir þeim. Annað á reyndar eftir að koma í ljós.

Nú rútan á að fara 12:50 þannig að ég hef rúma þrjá tíma til að gera eitthvað spennandi eins og t.d. að hlaða símann minn en hann, þrátt fyrir að vera “nýr” vinnusími, dugir ekki nema í tæpa fjóra tíma nú orðið. Hafði keypt mér auka hleðslu í Amsterdam en hún er búin og mér gengur illa að finna innstungu til að stelast í.
Finn soldið fyrir því að vera svona einn. Ekkert mál að vera á þessum þvæling og öllu þessu standi en það er einhver einsemd í mér. Get ekki einu sinni hringt í einhvern vegna símaleysisins. Maður verður eitthvað blár þegar svona stendur á. Hugurinn reikar í einhverja vitleysu, ég sakna Fróða. Er að koma frá Köben. Hitti Gunna minn þar en hann hafði verið hjá mömmu sinni og systir um jólin. Gengum Strikið og ég fór með hann á Hvids vinstue. Ánægjulegur dagur fannst mér. Gistum svo á fínu hóteli á Istegade 6. Mæli svo sem ekkert með því en ég væri alveg vís með að gista þar aftur ef þarf.
Ein af litlu búðunum hérna selur aldeilis frábært kaffi. Tvöfaldur Espresso á 35 baht sem eru um 140 krónur. Aldeilis fínt. Skúringakona bjargaði mér um kló og nú eru bæði sími og aukarafhlaðan í hleðslu. Snilld.
Jæja áfram með smjörið. Þarf að koma mér til Kachanaburi fyrir kvöldið. Ætla að reyna að nota morgundaginn, 30 des, til að kynna mér aðstæður og vonandi hlaupa eitthvað smá. Mikið djöfull er ég orðinn þreyttur. Hef ekki sofið í marga daga finnst mér. Verið soldið stressaður heima og svo bara já…. Núna er ég búinn að vera á ferðinni frá því sjö í morgun og klukkan orðin tvö að nóttu. Flugið hingað frá Amsterdam var djöfull stíft, þröng sæti og bara erfitt.
Jæja ég með allt mitt á hreinu. Hafði verið með allt útprentað, leiðina á hótelið og nafnið á bænum. Allt á ensku og Thailensku. Rútan kemur og rútan fer með mig innanborðs. Keyrum og keyrum á hörðum, holóttum vegum. Stoppað til að éta og pissa, allt til að tefja finnst mér. Nú við keyrum og þegar við erum búin að vera tæplega fjóra tíma á ferðinni líst mér ekkert á þetta lengur og spyr driverinn AFTUR hvort við séum ekki örugglega á leiðinni til Kachanaburi… Nei nei við erum á leiðinni til Chanburi og það er sko í allt aðra átt. Ég fékk smá sjokk en samt held ég bar aað ég hafi verið of þreyttur til að fá eitthvað verra en það. mér er bent á hvað ég þarf að gera og það er bara að fara á leiðarenda og taka rútu til baka. Já veiiii.
Næsta rútustöð, þessi talsvert skárri en sú fyrri. Ekkert nema góðar fréttir. Rútan til baka kemur eftir næstum tvo tíma! Meira jibbííí. Samkvæmt áætlun á hún að vera 17:30 en það er þegar orðin korters seinkun. Jæja… Nú klukkan eitthvað ferlega mikið er okkur sagt að fara aftur á pall á litlum pickup. Við erum sjö sem troðum okkur aftur á pallinn með farangri og öllu. Belti eru fyrir aumingja, þak, veltigrind nú eða hurð eru bara til skrauts. Keyrum í soldinn tíma að sögn til að fara til móts við rútuna sem er strand vegna umferðar.
Á leiðinni til Bangkok um borð í rútunni fínu og ég þarf að pissa. Veit ekki hvað er mikið eftir en mér líst ekki baun á þetta. Korteri seinna afræð ég að tala við driverinn og segja honum að ég þurfi á tojlettið. Hann veifar mér burtu, held að hann hafi ekki skilið svona vandað mál. Það er munkur í fremsta sætinu sem spyr mig hvað sé málið, hvort ég sé svangur. Ég neita og hann bara brosir. Nokkuð seinna og ég bara get ekki haldið lengur í mér. Fer fram og segi við munkinn að hann verði að koma herra bílstjóra í skilning um að ég verði að pissa, Stop…. piss segi ég. Hann skilur ekki rass fyrr en ég slæ um með leik. Hann brosir og bendir mér á klósettið aftur í bílnum. Ég var búinn að tékka, ég sver það.
Jæja loksins í Bangkok aftur. Klukkan orðin miðnætti og ég alveg ónýtur á því. Til mín kemur hressleikinn sjálfur og bendir mér á að engar rútur séu fyrr en í fyrramálið og ég geti því annað hvort tekið taxa á hótel eða taxa þangað sem ég er að fara. Ég segi honum hvert það sé og hann segir mér að það séu 170 km og það kosti mig 2000 baht (8000 kall). Ég reyni að prútta en ekkert gengur. Tek bílinn, nenni ekki meiru. Ég labba með hressleikanum og hann fer með mig eitthvað bakvið hús. Þar er alveg dásamlega skuggalegt lið með opinn eld í tunnu og voða glæpó eitthvað. Hressleikinn segir mér að ef ég vilji geti ég alveg farið bara á hótel og fengið mér konu. Ég hélt hann væri að grínast er svo var bara alls ekki, honum var fyllsta alvara. Hann talaði um að ég gæti fundið mér konu til að giftast, þær vildu svona vestræna menn eins og mig. Ég þakkaði gott boð en sagðist vilja halda áfram.
Leigubílstjórinn sem ég fékk talaði enga ensku og vissi varla hvert við vorum að fara. Þetta bjargaðist þó allt og ég kom á hótelið alveg fáránlega seint í nótt hafandi verið á ferðalagi í næstum 40 tíma. Þó þetta hafi verið ótrúlega erfitt var þetta soldið ævintýri og verður örugglega gaman að rifja þetta upp síðar.

Hérna eru rafmagnsstaurar og dæmigerðar byggingar í Kanchanaburi.  Eins og sést er þetta ekki mjög glamorous.  Ljósastaurarnir milli akreina eru aftur á móti ansi flottir.

IMG_0056 (Medium) IMG_0057 (Medium)

IMG_0058 (Medium) IMG_0055 (Medium) IMG_0054 (Medium) IMG_0053 (Medium)

 

Þessar fjórar eru af herberginu mínu á Luxury hotel.  Þarna kostuðu þrjár nætur 2400 baht eða 9600 krónur.  Á miðvikudaginn er fyrsti frídagurinn minn og þá gisti ég á einhverju gisti þar sem nóttin kostar 250 baht eða 1000 kall.  Þar er sundlaug, góður morgunmatur og frábær rúm.

 

 

 

IMG_0052 (Medium) IMG_0051 (Medium) IMG_0050 (Medium) IMG_0064 (Medium)

Nú þessi fyrsta er af kónginum sjálfum.  Thailendingar eru álíka hrifnir af honum og Íslendingar af ÓRG.

IMG_0049 (Medium) IMG_0048 (Medium) IMG_0047 (Medium) IMG_0043 (Medium)IMG_0045 (Medium)IMG_0044 (Medium)IMG_0042 (Medium) IMG_0040 (Medium)IMG_0041 (Medium)  IMG_0039 (Medium) IMG_0038 (Medium)  IMG_0045 IMG_0042Nú svo er það BSÍ.  Þetta er ekki jafn æðislegt á myndum og í alvöru.  Ég náði engan vegin að taka myndir af niðurníðslunni og óstuðinu þarna, kannski vegna þess hversu ánægður ég var með þetta allt saman.