Archive for the ‘NIðritími’ Category

Er að vinna í þessu

Posted: 19 October, 2011 in NIðritími

Beinbrot er ekki hressandi.  Tognanir eru hins vegar alveg til þess fallnar að taka mann úr öllu stuði.  Þegar þetta leggst svo saman er maður kominn með talsverð leiðindi.  Nú eru 3 vikur plús nokkrir dagar síðan ég slasaði mig og er alveg að ná mér í gang.  Hljóp tæpa 18 í gær á bretti.  Það gekk svo sem ágætlega en þegar á leið var norðurendinn allur orðinn stífur og púlsinn farinn að nálgast hæstu hæðir.  Reyndar er nú merkilegt að enginn hafi hrokkið upp af í þrektækjasalnum í World Class Mosó.  Pínulítill með tveimur smá opnanlegum fögum.  Ljómandi dyr reyndar líka en þær eru oftast lokaðar.

Nú ég fór svo aftur í dag og hjólaði á konu þrekhjóli.  Af mörgum leiðinlegum apparötum sem eru í boði þá er svona þrekhjól sennilega það versta.  Ojjj.  20 mínútur af 100 cadensum á þungu level og allt á floti í kringum mig.  Fór svo niðrí sal og tók soldið á löppunum.  Merkilegur fjandi hvað maður getur tekið lítið af æfingum þegar maður er að reyna að hlífa herðum og öllu þar í kring.  Fann líka aðeins fyrir því að vera að byrja eftir þessa pásu að krampar voru aðeins að láta á sér kræla.  Brenndi í trapísur og gerði lögbundnar Rótor æfingar fyrir axlir og herðar plús æfingar sem Eygló sagði mér að gera.  Ætlaði svo að teygja aðeins á mér með því að hanga og þar sem ég má ekki hanga á vinstri ætlaði ég bara að hanga á hægri.  Það er ekkert sniðugt til að teygja á sér.  Dúllaði mér við nokkrar magaæfingar og teygjur og fór sæmilega sáttur út.

Ég geri í því að nota vinstri (brotnu megin) hendina í sem flest sem ég geri.  Ef það er vont reyni ég bara aftur og svo aftur þangað til það gengur.  Hef ég náð að bæta hreyfinguna rosalega og er farinn að geta tekið á í margar áttir.  Ég held að ég hljóti að fara að geta sett mig í samband við Vadím og farið að koma mér í gang.  Stefni á að fá mér Cybex trainer hjá Hjólameistaranum innan skamms og þá verður ítalinn látinn finna fyrir því.  Sneiðin verður eitthvað spöruð í vetur.

Fínn fundur hjá félagi Maraþonhlaupara í kvöld.  Pétur formaður kom fundinum yfir á Aðalritarann sem finnst hreint ekki leiðinlegt að tala og það sem betra er að það er alveg ljómandi að hlusta á hann þannig að þetta var vel gert.  Allt á floti í peningum og félagið í góðum málum.  Kári Steinn kom og brosti sig í gegnum skemmtilegt spjall um Berlín og svo hlaup almennt.  Verulega flottur náungi og gaman að heyra hvernig hann hvatti sig áfram í gegnum hlaupið og eins að láta það bara gossa að hann ætlaði að ná OL markmiðinu en ekki bara þetta venjulega jarm um að gera sitt besta.

Hið ágæta tryggingafélag VÍS ætlar að bæta mér ferðina til Florida, hótel og keppnisgjöld í Ironman og er ég hrikalega ánægður með það.  Var alveg sannfærður um að það yrði eitthvað djöfulls múður og ég yrði brjálaður og segði þeim að éta úr nefinu á sér en svo var nú aldeilis ekki.  Hitti fyrir tvær prýðiskonur sem eftir smá spjall sáu mína hlið mála og það að hún væri sú eina rétta.  Þá var ég orðinn nokkuð sáttur og þær örugglega líka.

Djöfulls bull!  Ég er hundsvekktur að þurfa að slaufa Florida, skárra væri það nú.  Æfingarnar á ég þó ennþá og er ekki lagstur í neinn aumingjaskap.  Er búinn að vera í að lágmarka peningatap á þessu öllu en það er nú slatti samt sem ég næ ekki til baka.  Skítt með það.

Hef verið að velta næstu skemmtunum fyrir mér og fyrir utan auðvitað að koma sér í einhvern almennilegan gang aftur er númer eitt að halda áfram hjá meistara Vadím og ná sæmilegum tökum á sundinu.  Það verður að fá nokkurn forgang hjá mér, bæði finnst mér gaman að synda og langar að gera það vel og eins er ómögulegt að tapa helling af mínútum á ekki stærri hluta af keppninni.  Annars sýnist mér 2012 verða líflegt hvað keppnir varðar.  Er nokkuð klár á að fara til Miami í maraþon núna í janúar, Laugavegurinn er á dagskrá, hálfur járnkarl snemma sumars er líklegur, Reykjavíkurmaraþon og svo væntanlega Járnkarl í nóvember.

Ætla að notast við æfingaprógrammið frá Mark Allen til að undirbúa mig undir Miami.  Minnka hjólið eitthvað þar sem það verður að mestu á trainer en annars er það bara allt á fulla ferð um leið og kryppan segir ok.  Full ferð verður auðvitað miðuð við þægilegan púls enda hefur það gefist mér afskaplega dásamlega.  Við vorum með þrjár hlaupaæfingar í viku sennilega um 5 tíma eða minna og gaf það svona ljómandi af sér.

Fór á bretti í kvöld í annað sinn frá byltu.  Fyrra skiptið var í 10 mín með leyfi Eyglóar og í kvöld fór ég 25 mín.  10 mín á pace 5, 10 mín á pace 4 og svo mjög rólegt í 5 mín.  Teygði alveg gommu og gerði æfingar á axlir og bak.  Drulluvont og fann ég rækilega fyrir því hvað mataræðið hefur verið lélegt undanfarnar vikur.  Merkilegt hvað maður getur verið vitlaus, einmitt þegar ég þarf að hugsa sem best um mig klikka ég á þessu.

Er  alveg hættur á verkjalyfjum og bólgueyðandi, lyf eru ekki My thang og fékk ég bara blússandi hausverk af þessu dóti.  Átti eitthvað af voðalega fínum verkjalyfjum sem við nánari skoðun féllu á tíma 2006.  Fékk bara í magann af þeim.  Glatað alveg, skil ekki hvernig ég gat verið fullur í tíma og ótíma þegar ég þoli ekki einu sinni verkjalyf.