Jahérna hér, ég synti bara eins og engill mína 1900 metra og var bara allt í lagi á eftir. Var að vísu lengi að en hafði þetta og hafði meira að segja gaman af. Ótrúleg heppni að detta svona í gírinn rétt fyrir keppni. Er reyndar aumur núna en það jafnar sig sjálfsagt fljótt. Var að sjálfsögðu á hægustu braut, hafði merkt mig á 46 mín, og var fremstur þar allan tímann en að vísu með Gumma Gísla í tánum á mér megnið af tímanum. Hringaði einhverja og ég held meira að segja oftar en einu sinni. Hahh ég var ekki lélegastur, var í 28. sæti af 39 keppendum og það er umtalsvert betra en ég bjóst við. Ég hafði í alvöru búið mig undir að vera síðastur og hugsað um að ég gæti örugglega bjargað slatta á hjólinu og svo einhverju á hlaupum.
Skiptingin var fín hjá mér. Pedalar á hjólinu og fór það bara fínt fram. Hafði æf þetta nokkrum sinnum og fannst þetta lítið mál Var nokkuð með á hreinu hvað ég ætlaði í en var með langerma peysu til öryggis. Þegar til kom ákvað ég að sleppa henni, grifflur, sólgleraugu og hjálmur og ég farinn. Fann fljótlega að eitthvað mikið var að mér í maganum og það ekki þessi venjulegi belgingur sem ég fæ alltaf eftir sund. Ó nei, ég var að drepast! Þurfti að ropa var flökurt og bara ferlegur alveg. Var að reyna að drekka en það gerði ekkert fyrir mig. Á endanum sendi ég frá mér tvær vænar slettur, sem betur fer var engin fyrir aftan mig, og þegar ég var búinn að losna við óbragðið úr munninum gat ég fengið mér smá Golf stykki. Nokkur gola úr öllum áttum blés á okkur kappana, soldið (svolítið) sem við hjólarar erum vanir af Krýsuvíkurveginum. Samt getur hinn ljúfi sunnan andvari tekið á taugarnar þegar maður er alltaf í mótvindi að manni finnst. Hjólið kláraði ég sjöundi.
T2 skiptingin gekk verulega fínt. Var soldið úti á túni þegar ég kom inn, minnti bara á fílingin í Köben, og hefði alveg verið vís með að panta bara pizzu með pepparóni, lauk og ananas hjá Steini þegar hann vísaði mér á skiptisvæðið. Fann þó draslið mitt og var fljótur að koma mér af stað. Þrátt fyrir að hafa tekið vel eftir á kynningarfundinum og skoðað ljómandi fínar teikningar 3SH af svæðinu var ég samt ekki með útrásina á hreinu. Komst út og hljóp af stað. Vá hvað tærnar voru kaldar. Aumingja þeir sem voru ekki í sokkum og voru lengur en ég á hjólinu. Fór, að mér fannst, hægt af stað. Var heillengi að losna við stirðleikann af hjólinu og kuldanum. Svo hlýnaði mér og þá fór að ganga betur. Skemmtilegt að hafa hlaupaleiðina svona fjórar bunur. Auðveldar manni að skipta hlaupinu niður og fyrir vikið meta standið. Þegar maður er búinn með tvær eru bara þessi sem maður er á og svo ein stutt eftir og það gerir þetta allt svo lítið og létt. Finnst reyndar vanta að maður viti stöðuna á hinum keppendunum svo maður viti við hverja maður er að keppa og taki þá jafnvel enn meira á.
Það var svo gaman að hlaupa inn á skiptisvæðið og heyra töff tónlist og Gísla í góðum gír.
Endaði í 3ja sæti í heldri manna flokknum (40+) sem er alveg frábært. Gylfi frábær í fyrsta sætinu og Arnar fínn í öðru. Fyrsta sinn sem ég kemst á verðlaunapall, fyrir utan auðvitað TT hjá Bjarti en þá kom það ekki ljós fyrr en síðar, og var það alveg meiriháttar tilfinning. Kóngurinn sjálfur, Steinn, hengdi á mig Blingið. Nú er það harkan sex. Ég veit hvað ég vil fá út úr Florida þó svo að ég ætli að halda því fyrir mig. Ég veit hvað ég vil og ég ætla mér að fá það.
Þrátt fyrir að ég hafi verið ósáttur við verðið á keppninni verð ég að segja að hún var hverrar krónu virði. Þetta er mannskapur með þvílíka reynslu af keppnum, bæði sem keppendur og mótshaldarar að annað eins er vandfundið. Allt var rúmlega fyrsta flokks og þó ég reyni dettur mér ekkert til að tuða yfir fyrir utan veðurspána hjá Aðalritaranum, hann eins og aðrir veðurspekúlantar klikkaði. Jú eitt, klukkan var ekki nógu sjáanleg sem hefði ekki komið að sök ef ég hefði ekki klúðrað Garmin startinu hjá mér. það gerist reyndar alltaf þannig að það fer nú að koma að pælingunni um að hreinlega láta hann bara vera. Kannski nota hann sem hraðamæli á hjólinu.
Var það snjall fyrir löngu síðan og tryggði mér frí í dag. Fínt að vera bara heima og jafna sig aðeins, sofa út og synda smotterí. Læri og kálfar aumir en annars alveg la la bara. Er með þetta skítabragð oní mér sem minnir óþægilega á daga drykkjunnar. Eru þetta kolvetni í of miklu magni sem fóru svona illa í mig í gær? Ég tók óheyrilega af kolvetnum, Glyco Maze, kvöldið áður og um morguninn. Að öðru leyti var næringin ekki frábrugðin. Naa hvurn fjandann eins og ég viti? Næst verður það bara Cheerios og eitthvað gott í morgunmat.