Archive for the ‘Keppnir’ Category

Mitt næsta trikk… Miami

Posted: 26 January, 2012 in Keppnir

Jebb, allt að bresta á með Miami.  Fyrst að böðlast í gegnum snjóskaflana hérna og síðan að bíða soldið í Leifsstöð.  Mjög gott.  New York, gist í Jamaica??? WTF og svo áfram í fyrramálið.

Hef ekkert hlaupið í rúma viku.  Hef verið slæmur í löppunum og eitthvað lélegur og ákvað bara að hvíla, fara til sjúkraþjálfara og láta hljóðbylgja mig.  Gekk svona glimrandi og vonandi verður allt í standi á sunnudaginn.  Gummi Svans á þvílíkar þakkir skyldar fyrir að græja mig svona án fyrirvara.

Bibbinn minn er númer 1123 og Live Trackerinn er hérna: http://www.racemyrace.com/hosted/ingmiami_full.php

Þetta er voðalegt fínerí með allavega view-i og svona skemmtilegt eitthvað en hey, hver eins og þurfi einhverja tilbreytingu við að horfa á Maraþon.  Ha ha kjánalegt.

Félagsskapurinn hérna í Leifsstöð ekki af verri endanum.  Lárus litli Welding hérna að flýja land undan ódælum skilanefndum.  Ljóti skúnkurinn.

Alltaf er maður nú jafn stressaður fyrir svona allskonar.  Sei sei.  Hvernig má það vera að það sé dýrara að kaupa sér tollfrjáls rakvélablöð en með tolli?  Meikar ekki sens frekar en margt annað.

Farinn út í vél.  Ætli ég taki ekki eitthvað af myndum á Jamaica og laumi þeim inn í kvöld.  Það væri nú gaman.

 

 

Fékk svona ljómandi prógram frá Þorláki þjálfara.  Einföld regla, stick to it!  Hann segir mér það sem ég veit að það er gaman að hlaupa hratt, ég veit líka að hvíld skiptir jafn miklu máli og æfingin sjálf.  Ég fer bara ekki nógu oft eftir því.  Maður þarf að geta tekið næstu æfingu eins og til er ætlast og þá er vissara að klára sig ekki á æfingunni á undan.  Þetta veit ég en fer bara ekki alltaf eftir því.  Þessi vika hefur verið ansi stíf.  Langar “greddu” æfingar hafa tekið í og svo mjólkusýrumæling hjá Ella Níelsar í gær.  Djöfulls puð og svo hámarkstest í restina.  Gæða hjartaáfall þar.  Þetta olli því að fyrsta langa æfingin mín varð nokkuð erfið.  30 km á 20% afslætti frá MP ætti ekki að vera erfitt en gærdagurinn sat í mér.  Kláraði samt vel og hélt meðal Pace 12,5.

Ég kom rosa vel út úr prófinu, gaman en ég held að ég hafi ekki verið neitt undrandi á því.  Hef lagt vel inn og gert margt vel að mér finnst.  Hef smá áhyggjur af skrokknum en vona að ég geti látið nudda þetta úr mér og æfingarnar frá Valla sjái svo um framhaldið.  Hef tröllatrú á honum enda hefur það sýnt sig að hann veit hvað hann er að tala um.

Er mikið að spá hvort ég ætli að gera mér einhverja ferð úr þessu Miami brölti mínu.  Finnst þetta allt frekar dýrt og er helst á því að fara bara í fimm daga.  Dagana fyrir hlaup verð ég bara á íslenskum tíma, slaka svo smá á eftir hlaupið og svo bara heim.  Súper plan held ég.

Sei sei og já já.  Vinstra herðablaðið brotið.  Röntgen læknir segir að höggið sem þarf til að brjóta herðablað sé svo mikið að yfirleitt brotni eitthvað með.  Fyrir utan tognanir og eymsli er ég heill að öðru leiti s.s. sinar og dót í góðum gír.  Spurning hvernig öxlin kemur út úr þessu.

Axlarlæknirinn Örnólfur segir mér að slaufa Florida en bannar mér ekki að fara!  Segir að sundið verði mér erfitt (eins og ég hafi ekki vitað það ha ha) vegna verkja.  Ég ætla að sjá til með hvað ég geri og ekki taka neina ákvörðun strax.

Nú fyrir utan þetta “frávik” á æfingaáætluninni var Mallorcaferðin ótrúlega frábær.  Hjóluðum, hlupum og syntum eins og englar innan um alla fallegu englendingana.  Síðasta daginn minn úti reyndi ég að taka sundlaugina á þetta enda frekar ógangfær en gafst fljótlega upp og fór á röltið.

Eitthvað smotterí tók ég af myndum sem ég smelli á myndasíðuna.

Enn einn áfanginn

Posted: 24 August, 2011 in Æfingarnar, Keppnir

Hef verið í baráttunni við að komast undir 40 mín á 10 km í nokkurn tíma.  Í sumar gekk það loksins í Valshlaupinu og þá í góðum plús, 39:06.  Síðan hef ég ekki hlaupið 10 nema í Hveragerði en þá í brekkum og utanvegar og tel það ekki með.  Jæja núna í Reykjavíkurmaraþoninu fór ég í hálft og fór fyrstu 10 á undir 40 og það sem meira er, ég hélt þeim hraða allt hlaupið.  Langaði að fara á undir 1:25 en fór á 1:23:48.  Munurinn er bara mínúta en ég er urrandi sáttur.  Grrr!

Var ákveðinn í því að vera flottur í hlaupinu, flottur þ.e. vera ekki alveg eins og ég væri að skíta í mig af erfiði.  Hef reynt að temja mér að hlaupa uppréttur, léttur og brosandi og það gekk núna sem undanfarin hlaup.  Ég hleyp hraðar, mér líður betur og finnst miklu skemmtilegra að hlaupa svoleiðis.  Þegar áhorfendur kalla, heilsa ég og er bara almennt í góðum fíling.  Fór í nýju Brooks Racer-unum, með nýju geimveru gleraugun og með gel í hárinu.  Djöfull var gaman.  Gusaðist af stað með fremstu mönnum enda ákveðinn í að láta ekki troðning skemma fyrir mér.  Við Viðar Bragi hlupum saman talsverðan spotta en strax á Suðurgötunni fannst mér hann ætla að taka full vel á’ðí.  Spurði hann hvort við værum ekki soldið hratt en hann leit bara á mig eins og ég væri geimvera og sló ekkert af.  Eftir á að hyggja hefur hann kannski haldið að ég væri geimvera með nýju gleraugun.  Hugsaði sem svo að fyrst hann væri í þessum gír væri réttast fyrir mig að halda mig þar líka.  Hljóp allt hlaupið eftir Garminum enda svo sem ekkert viss um að ég gæti farið mikið hraðar en Pace 4.  Pillaði upp eitthvað af mannskap á leiðinni og lengi hélt ég að mundi ekki ná konunum tveimur fyrir framan mig.  Það er viss áfangi þegar maður klárar allar konur.

Var með tvo gelbrúsa með mér sem ég hélt á.  Það var ekki gáfulegt.  Fann að ég spenntist allur við að halda á þeim.  Losaði mig við annan hjá Seðlabankanum og það var strax skárra.  Ótrúlegt hvað smá truflun getur haft mikil áhrif.  Brekkan við vöruhótelið tók hressilega í og hugsaði ég að nú væri þetta farið hjá mér en það bjargaðist.  Náði fremstu konunni í Borgartúninu eftir að gefa slatta í þegar ég sá hana.  Hélt sama tempóinu þaðan í frá.  Var orðinn þreyttur og fannst þetta soldið erfitt en það er bara til að hafa gaman af.  Notaði einn og hálfan brúsa af geli og fékk mér Powerade á öllum drykkjarstöðvum.  Sullaði framan í mig á annarri stöðinni, fékk í auga og var allur ómögulegur.  Var eitthvað að reyna að þrífa gleraugun en gekk illa.  Endaði bara með að sleikja putta og þurrka þannig af þeim.  Fékk mér súkkulaðibita við Klepp en fannst hann harður og ómögulegur allur og hrækti honum bara.

Hef æft vel undanfarna daga.  Mjög kraftmikill og fínn.  Hver æfingin eftir aðra þar sem ég hef bókstaflega vaðið áfram á hjólinu og hlaupið eins og vindurinn.  Lærin hafa orgað af hamingju en svo hafa þau fengið vel af kolvetnum og proteinum og þá er allt gott.  Hef verið mjög góður í mataræðinu og fyrir vikið vantar aldrei kraft.

Tók nokkrar fínar í salnum.  Flatur bekkur gengur síður og því hef ég verið í hallandi bekk.  Hef náð að þyngja á næstum öllu og fjölga endurtekningum á sama tíma.  Það er ekki alveg í takt við það sem prógrammið segir en ég get þyngt á sama tíma og ég fjölga repsum þá geri ég það að sjálfsögðu.

Enn batnar sundið.  Ég er að sjálfsögðu ekki orðinn neinn sundmaður og á langt í það en ég batna í hvert skipti sem ég fer í laugina.  Renn betur, teygi mig lengra og velt betur.  Allt í áttina en axlirnar eru enn vandamálið.  Fékk sama verk og þegar öxlin fraus um daginn.  Hringdi beint í Sólveigu sjúkraþjálfara og fékk tíma.  Hún segir að það sé hæpið að öxlin frjósi aftur og það eina fyrir mig sé að æfa bara og æfa.  Humm eins og ég geri lítið af því?  Hvað um það ég get synt 2000 metra á sæmilegum hraða en þá koma verkirnir.

Fór til Ólafar Sæmundsdóttir nuddara í dag.  Vignir mælti með henni og ákvað ég að prófa svona djúpvefja/íþróttanudd.  Kálfarnir alveg gler og hún skrattaðist með olnbogum á mér..Var oft ansi vont en ég reyndi að taka það bara sem áskorun að vera nógu fljótur að ná slökun og losna þannig við sársaukann.  Það gekk ansi misvel en var samt gaman.  Núna sit ég með auma kálfa og móral yfir því að hafa ekki farið í Tempo hlaupið í dag.  Verð í staðinn að vakna eldsnemma og hlaupa í fyrramálið.

Jæja nokkrar myndir úr RM2011. Ég auðvitað í aðalhlutverki en fann líka flottar myndir af Odd og Pétri Helga.  Það sést á þessum myndum hvað þetta er ljómandi skemmtilegt sport.

This slideshow requires JavaScript.

Já já ég og sundmót.  daríadaa ég hlýt að vera alvarlega eitthvað.  Skráði mig og tók þátt í kílómetra sjósundi.  Frábært alveg.  Var með einhvern fíling að ég væri að skána eitthvað í sundinu en þá hvað?  Púff, lendi með einhverju liði sem er kallað skriðdýrin og var skilin eftir í fjörunni eins og gamalmenni á sólarströnd.  Sú litla færni sem mér hafði tekist að ná upp var skilin eftir í minningunni og ég buslaði þennan kílómetra á óratíma.  Glæsilegt.  Lét þetta ekki fara of mikið í taugarnar á mér merkilegt nokk.  Skrítið hvað sundið gekk illa, ég hef getað synt alveg ágætlega í sjónum en núna var ég ömurlega lélegur og kalt í bót.  Hélt að fíflin á bátnum í minni víkurinnar væru að sprella í mér og færðu bátinn því mér fannst hann bara ekkert nálgast.  Lenti í sjötta sæti af tíu, veit ekki hvort þeir sem voru hægari en ég komust í land og ég vil ekki vita það.

Hitti Kristínu Laufeyju (með eða án Joðs) og ákváðum við að búa til lið fyrir Ólympisku þríþrautina sem halda átti á laugardeginum 23. júlí.  Fengum Vigni Íslands til að hjóla með okkur.  Flott keppni þarna í Hveragerði, nokkurt rok og öskuský yfir öllu en það truflaði mig ekki neitt.  Verra var með hjólafólkið sem þurfti að slást við mikinn vind á leiðinni.  Ég hafði ákveðið að taka ekki þátt í þríþrautinni þar sem sundið er svo lélegt hjá mér og það vigtar svo mikið í þessari vegalengd.  Liðakeppnin var því kærkomin svona til að fá að vera með að einhverju leiti.

Okkur gekk öllum alveg ljómandi vel, Kristín Laufey með fyrstu sundmönnum, Vignir annar bestur á hjólinu og ég með besta hlaupatímann.  Frábær hlaupaleið fyrir ofan Hveragerði um skógarstíga og smá malbik.  Nokkuð erfið þó eins og sjá má af tímanum 41:47.  Fengum Pizzu í verðlaun sem er vissulega skárra en kók og prins en ég hefði nú viljað fá verðlaunapening frekar enda óvanur að fá svoleiðis fínerí nema sem þáttökudót.

Núna er seinni eða síðasti hluti Mark Allens prógrammsins farinn í gang.  Vikurnar lengjast og eru allar yfir 20 tíma.  Mér hefur gengið nokkuð vel að halda mig við plan þó svo að auðvitað syndi ég ekki tilætlaðan tíma enda mundi ég ekki endast lengi þá.  Veður hefur hamlað nokkuð Racer æfingum og því hef ég bara skellt mér á bak Ólafi og þeyst um á honum.  Fór í fimm tíma túr á sunnudaginn og svo þriggja tíma túr á þriðjudaginn var.  Algjörlega kreiiisí veður á þriðjudagskvöldið.  Fauk næstum af hjólinu og það oftar en einu sinni.  Hlaupin ganga ferlega fínt.  Hljóp á þriðjudagsmorgun og svo aftur á miðvikudagskvöld.  Miðvikudagshlaupið var tempó hlaup, ég gleymdi púlsmælinum og lét bara flakka.  Þrælgaman á fullu gasi.  Hefði verið skemmtilegur tími í 10 km hlaupi.

Á morgun á að vera langt hlaup og sund en það verður bara að ráðast hvernig það gengur þar sem ég ætla að vera hjá henni ömmu minni á þessum síðust metrum í hennar langa lífshlaupi.  Hún hefur sagt mér það svo oft hversu stolt hún er af þeim breytingum sem ég gerði á lífi mínu og ætli næsti Járnkarl verði ekki hennar 🙂  Það held ég.

Jahérna hér, ég synti bara eins og engill mína 1900 metra og var bara allt í lagi á eftir.  Var að vísu lengi að en hafði þetta og hafði meira að segja gaman af.  Ótrúleg heppni að detta svona í gírinn rétt fyrir keppni.  Er reyndar aumur núna en það jafnar sig sjálfsagt fljótt.  Var að sjálfsögðu á hægustu braut, hafði merkt mig á 46 mín, og var fremstur þar allan tímann en að vísu með Gumma Gísla í tánum á mér megnið af tímanum.  Hringaði einhverja og ég held meira að segja oftar en einu sinni.  Hahh ég var ekki lélegastur, var í 28. sæti af 39 keppendum og það er umtalsvert betra en ég bjóst við.  Ég hafði í alvöru búið mig undir að vera síðastur og hugsað um að ég gæti örugglega bjargað slatta á hjólinu og svo einhverju á hlaupum.

Skiptingin var fín hjá mér.  Pedalar á hjólinu og fór það bara fínt fram.  Hafði æf þetta nokkrum sinnum og fannst þetta lítið mál  Var nokkuð með á hreinu hvað ég ætlaði í en var með langerma peysu til öryggis.  Þegar til kom ákvað ég að sleppa henni, grifflur, sólgleraugu og hjálmur og ég farinn.  Fann fljótlega að eitthvað mikið var að mér í maganum og það ekki þessi venjulegi belgingur sem ég fæ alltaf eftir sund.  Ó nei, ég var að drepast!  Þurfti að ropa var flökurt og bara ferlegur alveg.  Var að reyna að drekka en það gerði ekkert fyrir mig.  Á endanum sendi ég frá mér tvær vænar slettur, sem betur fer var engin fyrir aftan mig, og þegar ég var búinn að losna við óbragðið úr munninum gat ég fengið mér smá Golf stykki.  Nokkur gola úr öllum áttum blés á okkur kappana, soldið (svolítið) sem við hjólarar erum vanir af Krýsuvíkurveginum.  Samt getur hinn ljúfi sunnan andvari tekið á taugarnar þegar maður er alltaf í mótvindi að manni finnst.  Hjólið kláraði ég sjöundi.

T2 skiptingin gekk verulega fínt.  Var soldið úti á túni þegar ég kom inn, minnti bara á fílingin í Köben, og hefði alveg verið vís með að panta bara pizzu með pepparóni, lauk og ananas hjá Steini þegar hann vísaði mér á skiptisvæðið.  Fann þó draslið mitt og var fljótur að koma mér af stað.  Þrátt fyrir að hafa tekið vel eftir á kynningarfundinum og skoðað ljómandi fínar teikningar 3SH af svæðinu var ég samt ekki með útrásina á hreinu.  Komst út og hljóp af stað.  Vá hvað tærnar voru kaldar.  Aumingja þeir sem voru ekki í sokkum og voru lengur en ég á hjólinu.  Fór, að mér fannst, hægt af stað.  Var heillengi að losna við stirðleikann af hjólinu og kuldanum.  Svo hlýnaði mér og þá fór að ganga betur.  Skemmtilegt að hafa hlaupaleiðina svona fjórar bunur.  Auðveldar manni að skipta hlaupinu niður og fyrir vikið meta standið.  Þegar maður er búinn með tvær eru bara þessi sem maður er á og svo ein stutt eftir og það gerir þetta allt svo lítið og létt.  Finnst reyndar vanta að maður viti stöðuna á hinum keppendunum svo maður viti við hverja maður er að keppa og taki þá jafnvel enn meira á.

Það var svo gaman að hlaupa inn á skiptisvæðið og heyra töff tónlist og Gísla í góðum gír.

Endaði í 3ja sæti í heldri manna flokknum (40+) sem er alveg frábært.  Gylfi frábær í fyrsta sætinu og Arnar fínn í öðru.  Fyrsta sinn sem ég kemst á verðlaunapall, fyrir utan auðvitað TT hjá Bjarti en þá kom það ekki ljós fyrr en síðar, og var það alveg meiriháttar tilfinning.  Kóngurinn sjálfur, Steinn, hengdi á mig Blingið.  Nú er það harkan sex.  Ég veit hvað ég vil fá út úr Florida þó svo að ég ætli að halda því fyrir mig.  Ég veit hvað ég vil og ég ætla mér að fá það.

Þrátt fyrir að ég hafi verið ósáttur við verðið á keppninni verð ég að segja að hún var hverrar krónu virði.  Þetta er mannskapur með þvílíka reynslu af keppnum, bæði sem keppendur og mótshaldarar að annað eins er vandfundið.  Allt var rúmlega fyrsta flokks og þó ég reyni dettur mér ekkert til að tuða yfir fyrir utan veðurspána hjá Aðalritaranum, hann eins og aðrir veðurspekúlantar klikkaði.  Jú eitt, klukkan var ekki nógu sjáanleg sem hefði ekki komið að sök ef ég hefði ekki klúðrað Garmin startinu hjá mér.  það gerist reyndar alltaf þannig að það fer nú að koma að pælingunni um að hreinlega láta hann bara vera.  Kannski nota hann sem hraðamæli á hjólinu.

Var það snjall fyrir löngu síðan og tryggði mér frí í dag.  Fínt að vera bara heima og jafna sig aðeins, sofa út og synda smotterí.  Læri og kálfar aumir en annars alveg la la bara.  Er með þetta skítabragð oní mér sem minnir óþægilega á daga drykkjunnar.  Eru þetta kolvetni í of miklu magni sem fóru svona illa í mig í gær?  Ég tók óheyrilega af kolvetnum, Glyco Maze, kvöldið áður og um morguninn.  Að öðru leyti var næringin ekki frábrugðin.  Naa hvurn fjandann eins og ég viti?  Næst verður það bara Cheerios og eitthvað gott í morgunmat.

 

Skemmtilegir dagar

Posted: 13 June, 2011 in Æfingarnar, Keppnir

Hef verið duglegur að fara í Nauthólsvík undanfarið.  Oft með Corinnu en líka einn.  Hef reynt að bæta við tímann í hvert skipti og gengið það alveg ágætlega.  Finnst þetta alltaf jafn gaman og finn ennþá fyrir spennu þegar ég er á leiðinni og eins líka þegar ég sé eitthvað líf í sjónum.  Svo er nú líka nokkuð spennandi að sjá ekki til botns, öfug lofthræðsla?

Æfingar hafa gengið alveg bærilega.  Fór loksins til Örnólfs sem smellti í mig einni huggulegri sprautu.  Nokkuð óþægilegt en allt í lagi.  Þetta var á miðvukudegi og á sunnudeginum tók ég þátt í Bláa Lóns þrautinni.  Alveg brill, öxlin frábær og núna á mánudagskvöldi er ég eins og nýr.

Bláa Lónið gekk svona líka ágætlega.  Ætlaði að vera með Vigni og Bjarts mönnum en klúðraði því að troða mér fram í byrjun og byrjaði afleitlega.  Horfði á eftir þeim meðan ég var stökk í hægri umferð og góðri hrúgu af fólki sem datt.  Ég skrattaðist þetta því einn vankunnugur á alla taktík en þeim mun ákveðnari í að standa mig vel.  Þvílík keppni, ótrúlega fjölbreytt landslag og leiðin algjörlega frábær.  Geggjað að láta sig vaða niður brekkurnar upp á von og óvon að maður kæmist heill á húfi út úr þessu.

Kom í mark á 2:12:58 sem er hvorki betra né verra en ég gerði mér vonir um þar sem ég hafði ekki hugmynd um við hverju væri að búast.  Þegar ég kom í mark var ég ekki hjólaþreyttur heldur meira eitthvað annað.  Sætið var of lágt hjá mér og ég bara eitthvað ekki vanur þessu.  Núna er ég að drepast í klofinu eftir að vera með sætið svona lágt.  Hvað um það.  Tókum Brick á þetta í BL og hlupum út í rúmt korter og svo til baka.  Upp út og mótvindur til baka.  Dæmigert.  Smá sull í Lóninu og svo hjólað í bæinn.  Að sjálfsögðu var áttin okkur ekki hagstæð þannig að þetta tók í.

Fórum fjögur saman í bæinn, ég, Ásdís, Vignir og Oddur.  Rétt náðum starfsmönnum Áslandslaugar og fengum dótið okkar afhent.  Hávar og Maggi voru ekki svona heppnir en þeir komu nokkrum mínutum eftir að við Vignir lukum einum aukahring um hverfið.  Maggi átti stórleik dagsins þar sem hann var með bíllyklana sína í töskunni.  Eftir á að hyggja verð ég smá pirraður yfir þessari eilífu minnimáttarkennd.  Afhverju í ósköpunum drullaðist ég ekki til að berjast um stöðu strax í startinu.  Að gefa eftir stöðu er alveg fáránlegt í keppni og ég verð að fara að venja mig af þessum ósóma.

Er í fríi frá vinnu tvo daga af næstu þremur og verður aldeilis tekið á því þann tíma.

Næst er það svo Slipknot í Berlin, það verður geggjað.