Sjáum til. Við Eva flugum til Stuttgart með WOW. Alveg stór skemmtilegt að fljúga með þeim en reyndar var nú smá pikkles í Keflavík. Bjargaðist allt og við komumst af stað. Lentum í Stuttgart og fórum beint í lestina frá flugvellinum áleiðis að aðalstöðinni í Stuttgart. Á leiðinni kynntumst við Gunnhildi fótboltafrú sem var á heimleið með frænku sinni. Hún býr í Nurnberg en er að flytja til Frankfurt. Frábær ferðafélagi. Hún þekkti nokkuð vel á lestarkerfið og var ágætt að geta treyst á hana með þetta allt.
Þegar við loks, eftir eina aukalest, komum til Allesberg þurftum við að skella okkur á labbið. Það er ekkert grín að þramma um með ferðatösku og hjólatösku í ókunnum bæ í útlöndum. Maður veit ekkert hvert maður er að labba en svona eitthvað í áttina þó. Smá sandur og taskan dró hjólin, jibbí. Ekki mjög gott að vera ekki með svona hluti á hreinu þegar maður er á leið í svona aksjón. Maður má ekkert við einhverju rugli en svo var þetta nú ekki svo slæmt, taugarnar bara aðeins strekktar. Náðum í strákana sem voru nýkomnir og sóttu þeir okkur.
Herbergið reyndist íbúð og var frábær. Allt stórt og fínt en svefnsófinn var þó afleitur. Talaði strax um að kaupa bara almennilega uppblásna dýnu en af einhverjum furðulegum ástæðum gerðum við það ekki. Strákarnir byrjuðu á svefnherberginu en þegar Vignir fór á hótelið með frúnni skiptum við og Oddur tók sófann. Ómögulegt að sofa ekki almennilega og því enn undarlegra að klikka á dýnunni.
Frú Lori og Gerd voru aldeilis frábær. Fengum bílskúr eða eitthvað undir hjólin, varla bílskúr þar sem hann snéri að garðinum og það var grasflöt fyrir framan hann. Alveg kjörið til að setja hjólin saman. Magnað vatnssöfnunarkerfi utan á húsinu. Vatni af þakinu safnað í risa tunnur og það svo notað í að vökva garðinn. Það var svo sem ekki það eina sem þau hjón söfnuðu. Held bara að þau safni öllu eða kannski henda þau bara ekki neinu. Veit það ekki en þetta var alveg stórmerkilegt heimili. Alveg sama hvað var, ef það var hægt að hengja eitthvað á það var það gert. Englar, myndir, englavængir, fuglar og bara hvað sem er. Allt hengt upp, sett á borð eða hillur. Alls staðar. Dásamlegt.
Þetta skemmtilega fólk bauð okkur til kvöldverðar eitt kvöldið. Pasta að hætti frúarinnar, alveg ljómandi. Sonur, dóttir og tengdasonur öll með og varð úr þessi fína kvöldstund. Sonurinn ætlaði að keppa í liðakeppninni og virðist vera mikill íþróttaáhugi í fjölskyldunni. Þau sögðu okkur stolt frá því að einn af Pro gaurunum í Kallinum væri úr Allesberg og greinilega talsvert stolt. Merkilegt þarna í bænum að Jesú er talsvert að dúlla sér á krossinum á gatnamótum. Talsvert stór og góður bara eins og gangbrautarvörður fyrir utan bara að flautuna vantar. Hann er að sjálfsögðu með þyrnikórónu í staðinn. Hún toppar nú eiginlega flautuna.
Prófuðum okkur aðeins á hjólinu og var það alveg blússandi fínt. Prófuðum okkur svo aðeins á hlaupum og var það ekki blússandi fínt. Fann alveg að helv… Ham string vesenið var ekkert farið. Hugsaði samt jákvætt og var viss um að þetta yrði ekki svo slæmt. Raunin reyndist önnur.
Kvöldið fyrir keppni var nú ekki það gáfulegasta hjá þríþrautarmönnum. Fórum á einhvern stórkostlegan veitingastað og fengu flestir sér pizzu en ég eitthvað ótrúlega frábært kjöt. Oddur gúffaði Jalapeno í auman ristilinn og hressti soldið upp á hann en Vignir fék því miður ekki síld. Held að við höfum öll verið frekar ósátt með matinn. Þetta þarf að vera búið að spá í áður. Maður fer ekki óétinn að sofa kvöldið fyrir Járnkarl, punktur.
Nú Oddur ræsti eftir nokkuð ósofna nótt. Nóttina þá sem maður sefur bara eins og ekkert sé fyrir svona þá vaknar maður sennilegast ekki aftur. Eitthvað aðeins gruflað í Coco Pops og svo bara kaffi. Alveg súper. Vítamín já já og magnesíum. Allt eins og það á að vera. Svo bara brennt af stað. Damn hvað stressið var farið að segja til sín. Nú við Oddur væfluðumst aðeins um svæðið, redduðum Vigni naglaklippum, fórum á dolluna og svona þetta helsta. Svo þegar við vorum rétt að verða of seinir smelltum við okkur í gallana. Fokk! Allt í einu var bara komið að þessu. Fokk aftur! Ég að verða of seinn það er verið að hringja inn. Á handahlaupum út í á og synti að startinu. Rétt komin þegar fallbyssuskotið reið af. Stressið farið, ekkert mál.
Menn ættu að tala meira um að sjórinn sé gruggugur og ble ble. Dóná er kannski ekki alltaf skítug en boy ó boy þegar fleiri hundruð manns róta af stað í skriðsundi þá skiptir botninn um lögheimili og flýtur upp. Útsýni núll. Maður sá ekki neitt. Svo sem ekki mikið mál en samt fannst mér erfitt að reyna að drafta þegar ég sá ekki manninn fyrir framan mig. Fannst ég óþolandi hægur enda svo sem ekki við miklu að búast í einhentu sundi. Tókst þó að halda mér slökum og slapp þar með við krampa í þríhöfðanum. Fór mína 4,5 km á 1:22 eitthvað og er bara helvíti sáttur með. Ekki gaman að koma á skiptisvæðið þar sem ég var ansi aftarlega í mínum hópi og hafði fengið fullt af liði úr næsta starti fram úr mér líka. Vissi alltaf að þetta mundi gerast en samt er þetta ekki gaman.
Var kannski full lengi á skiptisvæðinu þar sem ég flækti Garmininn í gallanum góða hans Gylfa. Var eitthvað búinn að hugsa hvernig ég ætlaði að gera þetta en ekki æfa. Klaufi. Var ekki með skóna á hjólinu og hljóp á þeim að því og út. Rauk af stað og fílaði mig strax alveg hrikalega vel. Sá litli pirringur að vera seinn úr vatninu og lengi að skipta hvarf fljótt og ég datt strax í fíling að fara að elta mannskapinn sem hafði verið fljótari en ég að synda. Vindurinn kom nokkuð á óvart, tók í hjólið bara fljótlega og ég svona eitthvað var að pæla að þetta væri nú eitthvað skrítið logn en fokk it. Hjólaði bara og hjólaði og fannst svona líka glimrandi gaman. Hugsa þó að ég hefði bara viljað sleppa því að hafa keyrt þetta á bíl. Það að fara hjólaleiðina á bíl er bara ekkert líkt og á hjóli. Nokkuð Scary brekka var bara skítlétt og sama var með beygjurnar ógulegu á niðurleiðinni. Pís of keik.
Byrjaði full snemma að finna fyrir hamstringnum. Vissi alveg að það boðaði ekki gott og var að vona að með því að gíra bara nokkuð lágt og spinna vel hratt mundi ég mögulega ná að losa mig við þetta. Það gekk ekki rass. Var orðinn svo stífur fyrir seinni hringinn að ég var hættur að gera rétt úr mér. Held ég hafi ákveðið nokkuð snemma að þetta væri bara rugl. Var þó alltaf að spá að taka maraþonið á einhverjum fjórum tímum og bæta mig all verulega þannig en þetta var eiginlega of vont. Hugsaði sem svo að ég væri búinn að Járna mig og ég gæti lent í mjög löngu maraþoni. Með svoleiðis æfingum væri ég mögulega að meiða mig fyrir Florida og ég var bara ekki til í það. Mig langar að eiga gott sund, gott hjól og helvíti fínt hlaup í Florida og til þess að það gerist má ég ekki meiða mig meira en orðið er.
Minnugur hvursu langan tíma það tók að jafna sig á Miami þá veit ég að ég gerði rétt. Þetta hefur pirrað mig endrum og sinnum en fjandinn hafi það ég ætla ekki að fara að safna Járnkörlum ég læt aðra sjá um það. Ég er reyndar búinn að skrá mig í Roth á næsta ári, árið sem átti að vera Boston og Laugavegsár en það var bara ekki hægt að sleppa því þar sem við verðum tríóið saman aftur.
Já jæja, keppnin svona að mestu búin hjá mér þarna. Skellti mér í sturtu og svona. Hitti þar nokkra gaura og spjölluðum við aðeins saman. Einn var þarna með allar tær bláar og asnalegar. Kauði talaði fína ensku og var ég eitthvað að hlægja að tánum á honum. Spyr síðan hvernig honum hafi gengið og jú það gekk bara svona prýðilega, hann vann 🙂 7:59:59 var tíminn. Not bad.