Archive for the ‘Keppnir’ Category

Boston maraþonið

Posted: 7 May, 2014 in Keppnir

Smá svekk þar sem ég átti von á að þrír tímarnir lægju núna. Góður hraði í mér, hnéð að vísu búið að vera að hrekkja mig en samt ekkert alvarlegt. Fann það bara þegar ég lagði af stað að þetta yrði ekki dagurinn minn. Mér fannst ég góður fyrir hlaupið og ég mér finnst ég hefði átt að gera þetta.

Hlaupið geggjað, alveg geggjað. Meira en milljón manns að fylgjast með og hvetja, það vantaði ekkert upp á hvatninguna hjá fólkinu. Alltaf verið að kalla á mig en ég var í bol sem á stóð Iceland Einar. Búið að vera svona í kaldara lagi þessa daga fyrir hlaup en svo á hlaupadag var urrandi sólskin og hiti. Brann geðveikt hægra megin, það er geðveikt fyndið.

Núna er það Bláa Lónið næst og svo Laugavegurinn. Geri ekki ráð fyrir neinu í Bláa þar sem ég hef ekkert hjólað í ár. Smá svekk þar sem mér finnst það æði en ég hef bara ekki haft tíma til þess. Planið er því að hjóla Lónið og vera óstressaður með tíma. Það verður öðruvísi en örugglega gaman.

Laugaveginn ætla ég að reyna að gera vel. Ætla að leggja talsvert í æfingar og allt í kringum þær. Langar til að hjóla soldið, synda smá og lyfta vel en veit ekki hvernig ég fer að því. Það kemur í ljós hvernig þetta fer.

Fékk frábærar fréttir frá hnélækninum góða. Hann sagði að þetta væri bara orðið talsvert slitið og það besta sem ég gerði í því væri að hreyfa mig mikið, styrkja lappirnar og passa þyngdina. Hann sagði reyndar að ég væri bara í ljómandi góðum málum.

París

Posted: 9 April, 2013 in Keppnir

Jæja París París. Við Oddur mættir eins og þeir höfðingjar sem við erum. Fræsum beint á hótelið, losum okkur við dótið og hendumst bæinn þverann til að sækja hlaupagögnin.

Rosa Expo en því miður eins og annað í þessar borg, rándýrt. Þar sem spáin er ansi kuldaleg og reyndar skítkalt eins og er þá ákveð ég að kaupa mér ermar. Er ekki með neina síðerma og þaðan af síður síðar buxur með mér. Come on, maður hleypur ekki PB á föðurlandinu og lopapeysu. Nei, dressið er ákveðið. Stuttar, þunnar hlaupabuxur, þunnur stuttermabolur og hlýrabolurinn flotti frá Ævari ystur. Ermar og Oakley toppa síðan gallann.

Hefði þurft að splæsa í hlýraboli þar sem mínir eru farnir að harðna af mikilli notkun og þvottum en verðið bara stoppaði mig. Hundfúlt þar sem það voru flottar vörur þarna.

Herbergið, já hótelið, er alveg dásamlegt. Herbergið okkar er sagt á fjórðu hæð sem er fimmta og þangað liggja 76 tröppur. Lyftan kemur kannski seinna. Ekkert mál fyrir hlaup en seinnihluti sunnudags gæti orðið soldið annað mál. Allt voða kósí. Minibarinn er bara rennan utan á húsinu og kyndingin er tveir ofnar. Annar rafmagns og hinn ekki neitt. Báðir ískaldir. þá var nú heppilegt að sængin eða teppið eða eitthvað var hlý. Hlý alveg þangað til að Oddur ákvað að betra væri að ég mannaðist soldið og lægi í kuldanum. Ég sá snilldarlega við honum. Breyddi rúmteppið yfir mig og var álíka mikill hiti af því og plastpoka úr Krónunni. Það hvarflaði auðvitað ekki að mér að ná í auka sængina inn í skáp. það hefði verið of auðvelt.

Á laugardeginum skelltum við félagar okkur í hlaupagalla og tókum nett skokk. Fórum upp að Sigurboga þar sem við veltum sögunni fyrir okkur en komumst ekki að neinni niðurstöðu. Ætluðum aldeilis að spyrja herra Gúggl en gleymdum því. Later dude, draslið er ekkert farið. Góður kvöldmatur á fínum veitingastað klára góðan dag.

Vissi að ég mundi sofa lítið en djöfull var ég syfjaður. Fórum í morgunmatinn. Cocoa pops, jógúrt og kaffi. Aftur upp á herbergi og svo út. Grísuðum á einhverja sem voru á sömu leið og við. Hrikalega seinir og þegar 5 mínútur voru í start og ég ekki enn búinn að finna innganginn á rauða svæðið varð ég stressaður og stökk yfir girðinguna. Vinaleg tveggja metra girðing með pinnum upp úr stoppaði mig ekki enda of mikið lagt í þetta til að klikka á startinu.

Þrátt fyrir mikil veikindi og allavega slæmsku undanfarið var ég svo hrikalega tilbúinn þegar til kom að ég var viss um að þetta gengi hjá mér. Áttaði mig á að þessi slæmska hafði að sjálfsögðu bara verið þessi venjulega Tapering pest sem margir fá. Startað og ég af stað.

Fokk hvað er málið með hraðann? Fánarnir langt á undan og hraðinn á mannskapnum þetta í kringum 4. Alveg með það á hreinu að þetta endar ekki vel. Sex gel í belti og fjögur í skálmunum á buxunum. Um leið og ég byrja að hlaupa detta þessi úr skálmunum og ég læt þau liggja. Hafði ætlað að vera með gel á 5km fresti en nú er þetta komið í rugl hjá mér. Hleyp alveg ferlega vel. Hleyp hratt og hugsa um að bera mig vel, slaka vel á öllu sem má slaka á og brosa. Damn hvað þetta legst vel í mig. Eitthvað er Garmurinn að láta undarlega. Sýnir mér hvað eftir annað hrikalega lélegt Pace og ég trúi honum. Fer fram úr bunka af liði í hvert sinn en reyni að hemja mig vitandi að ég er ekkert að hlaupa á Pace 5.

Einhvern tímann um 28 slökknar á honum og þá finnst mér bara eins og þetta sé orðið eitt Royal klúður. Er þreyttur, búinn að klúðra næringunni og ofan á það bætist svo að ég er sannfærður um að markmiðið sé langt í burtu og 3:10 sé ekki einu sinni séns. Labba á drykkjarstöðinni á 30 og þá held ég að Ívar Adolfs fari fram úr mér. Fer af stað á eftir honum og stuttu seinna sé ég rauða fána rétt fyrir framan mig. Hef ekki hugmynd um hvaðan þeir komu en allt í einu er ég bara með í hlaupinu. Djöfulls, ég hélt að þetta væri allt í rugli. Þetta upp og niður rugl á mér í hraðanum er búið að kosta mig full mikið þannig að ég næ ekki að draga á Ívar og fánarnir eru aðeins í burtu. Reyni að halda mér góðum, uppréttum og í formi en mikið djöfull var frábært að sjá 40km skiltið! Var með Trausta alveg á hreinu. Þegar hausinn vill stoppa á maður 10% eftir og þá er bara að sækja þau. Gerði það og hljóp ferlega vel í mark. Tíminn 3:04:37 sem er frábær bæting og bara fínn tími. Átti von á að vera spældur að ná ekki undir 3 en er það bara ekki. Þetta var erfitt, ég gaf mig í þetta og hafði alveg hrikalega gaman af. Djöfull er þetta skemmtilegt.

þetta er skemmtilegur staður að vera á með skemmtilegum félögum. Lífið er bara svona ljómandi.

Næst er það Challenge Roth Járnkarl, þýskalandi í júlí. Aldeilis kominn tími á bætingar þar.

Tveir og tveir þriðju

Posted: 16 November, 2012 in Keppnir

Florida, Florida og smá Sandy.  Oddur skutlaði okkur Hrefnu út á flugvöll seinnipartinn á sunnudegi.  Dásamlegt alveg og ferðin byrjar vel.  Lendum í Washington og náum skutlu þaðan.  Só far só gúd, jebb.  Í Baltimore sjáum við bara og heyrum að það sé búið að fella allt flug frá Baltimore næsta dag niður!  Við tekur þriggja daga dásemd á flugvallarhóteli.  Hvorugt okkar með föt til að skunda um í 10 stiga hita og rigningu.  Það sem verra var að það var ekkert að hafa að borða í grenndinni og sló þetta soldið taktinn hjá okkur.  Hammarar og franskar eða eitthvað í þeim fíling varð soldið ráðandi.  Nú við komumst til Panama City Beach rétt tímanlega til að byrja partýið.  Skráning, setja saman hjól, smá expo og allt þetta sem fylgir.

Gistum á keppnishótelinu og Boy var það keppnis.  Sundið startaði í fjörunni fyrir neðan, T1 og T2 voru inn á hótelinu og markið beint fyrir framan.  Þetta var eins kúl og þú færð það.  113 hérna!  Keppnishótel og það var engin leið að fá neitt gáfulegt að borða þarna.  Föstudagsmorgun og það er ekki einu sinni hægt að fá morgunmat.  Jahérna.  Ég ætlaði hvort eð er ekkert að vera í fitun.

Nú þetta var svona eitthvað út og suður hjá okkur, gerðum lítið enda stóð aldrei til að vera í einhverjum túrisma.  Bara hlýtt og gott en þó alltaf einhver leiðinda gustur á þessu öllu.  Okkur sagt að leifarnar af Sandy séu að ganga yfir.  Hvað veit ég um það?  Sjórinn er hrikalega úfinn alla daga en ég hugsa til félaga minna frá síðasta ári þegar allt varð spegilslétt nóttina fyrir keppni.  Svona verður þetta hjá mér.

Já akkúrat.  Bullandi sjór, mikil alda og stuð í fjörunni.  Í einhverri heimsku trúði ég því að með því að vera aftarlega mundi ég jafnvel græða lygnari sjó en það var auðvitað ekki.  Hefði bara átt að fylgja plani, fara vel til hægri og vera framarlega.  Ansi erfitt að rata nokkuð í sjónum svona.  Maður er svo neðarlega að þegar aldan er fyrir framan mann sér maður ekki neitt.  Fann svo þegar ég kom að ströndinni til að hlaupa yfir í seinna ger að var ég óstöðugur.  Sá að ég var á 40 mínútum og langaði að reyna að bæta aðeins í.  Mér tókst það nú aldeilis já.  Bætti við fimm mínútum á seinni hring.  Kannski ekki alveg það sem mig langaði en ég var svo sem ekkert mjög skýr þegar ég var að óska mér bætingar.

Nú ég gusast upp úr sjónum, rusla gallanum niður og á bakið.  Flysjararnir drógu af mér gallann á undratíma og ég inn í T1.  Var óstöðugur en fannst ég annars bara góður.  Fór í skóna inni og hljóp af stað, botna ekkert í mér að gera það og fór fljótlega úr þeim enda stéttin hál og skórnir ekki með neinu gúmmí til að gera þá stama.  Þurfti að bíða aðeins eftir sturtunni þegar ég kom úr sjónum en fannst ég að öðru leiti ekki lengi í skiptingu og hef því ekki betri skýringu á tímanum.

Flýg af stað á hjólinu.  Frábært malbik og man ég að ég hugsaði hvílík forréttindi það væru að fá að hjóla á svona.  Var með Powerade á Aero brúsanum og Magnesíum og C-vítamín blöndu á öðrum brúsanum aftan á.  Ég hafði spurt á Expo-inu um hvernig gel við fengjum og var sagt eitthvað dásemdar ávaxta GU.  Það átti eftir að breytast því Peanut butter var aðallega í boði.  Mér, ansi flökurt eftir sjóinn, gekk illa að koma þessu niður og ekki var Perform drykkurinn betri.  Sennilega hefur þetta verið ágætis stöff en maginn var eitthvað ósáttur við þetta.  Hef sennilega komið 6 gelum niður og rétt rúmum lítra af drykk.  Það er bara ekki nóg á svona langri og erfiðri hjólaferð í 35 stiga hita.

Ég fann alveg hvernig ég fjaraði út en gat andskotann ekkert gert í því.  Þegar ég kom að drykkjarstöðvum og fékk mér gel og setti það í skálmina var ég bara að bæta í hauginn.  Þarna vantaði mig eitthvað, kannski hefði einhverju breytt að hafa High5 gelin sem mér þykja svo góð en ég efast um það.  Held samt að ég verði gera ráðstafanir fyrir næsta Kall.

Kom inn á T2 á sæmilegu gasi.  Var ekkert hress en samt viss um að ég gæti hlaupið og það jafnvel sæmilega.  Var alveg með það á hreinu að 3:30 yrðu ekki mál.  Annað átti eftir að koma í ljós.  Ég hafði því miður valið mér Racer-a til að hlaupa á.  Slæmur díll þegar maður er kraftlaus.  Komst ekkert upp á fótinn og gat ekki rass.  Reyndi að bumba í mig hressleika en gekk ekkert.  Fín hlaupaleið, fjölbreytt og hressileg og því var tíminn fljótur að líða og fannst mér þetta merkilega skemmtilegt hlaup.

Kem í mark og heyri setninguna frábæru: Einar Valdimarsson of Iceland you are an Ironman.  Frábært alveg.  Hafði tekið vel á síðustu tvær mílurnar og meira að segja það vel að ég hafði áhyggjur af því að ég mundi ekki ráða við að klára á því gasi sém ég var  Á móti mér, í markinu, tók alveg frábær kall, setti á mig húfu, vafði mig í álteppi og beindi mér til konu sem smellti á mig medalíu.  Sagði mér að knúsa hana og svo héldum við áfram.  Splæst í mynd og svo bara allt í lagi bless.  Keppnin búin en ég ekki alveg sáttur.  Eða hvað?

Eftir á er ég bara ekkert ósáttur.  Ég synti bara alveg ágætlega miðað við aðstæður.  hjólaði alveg la la en hlaupið er bara skiljanlegt og í raun seinni hluti hjólsins líka.  Daginn eftir er ég varla þreyttur enda langt undir getu megnið af leiðinni.  Ég held ég dragi þann lærdóm helstan að ég verði að vera með neysluna meira á hreinu.  Það er alveg ferlegt að vera stökk með gel sem ég kem ekki niður og orkudrykk sem er ógóður.  Orkudrykknum breyti ég ekki en gelið er ekkert mál að hafa á hreinu.  Súkkulaðistykki á hjólinu hefði mögulega gert eitthvað fyrir mig en ég er ekki viss.

Allt í allt er ég bara sáttur með sjálfan mig eftir þetta.  Bæting er alltaf bæting og skrokkurinn svona urrandi fínn.

Held bara að ég splæsi í myndirnar úr keppninni.

Það styttist

Posted: 24 October, 2012 in Æfingarnar, Keppnir

Já hvur þremillinn.  Tæplega tvær vikur og ég er orðinn ansi spenntur.  Búinn að kíkja í Kríuna með hjólið og fá Emil til að segja mér að þetta verði allt í lagi.  Sýndi mér fína leið til að pakka hjólinu sem gerir það ansi mikið léttara.

Síðasti tíminn hjá Magga sjúkraþjálfara og Guðbrandi nuddara fyrir keppni, þeir kvöddu mig með miklum ágætum og óskuðu mér góðs gengis.  Djöfull flott lið þessir gaurar.

Það er soldið gaman að fá hvatningu og pressu frá allavega hressandi mannskap í sportinu.  Hef aðeins verið að spá hvort ég láti það stíga mér til höfuðs en ég held ekki.  Ég er ekki í því leiðinda standi sem ég var í Roth en á móti kemur að ég hef ekki æft mikið eftir Þýskaland í sumar.  Ég hef reyndar ekkert æft svo mikið í ár held ég bara.  Finnst einhvern veginn að það verði smá kaflaskil með Florida og skiptir árangurinn þar engu máli í því samhengi.  Mér finnst að eftir Florida geti ég loksins byrjað aftur í uppbyggingu, slakað á lyft, yoga og svona aðeins “basic” eitthvað.  Veit ekki alveg hvað ég er að meina en ég finn það samt.  Held það verði bara soldið kúl.

Parísarmaraþonið á næsta ári, tjékk.  Við Oddur að fara í Epíska för, frægðarför án nokkurs vafa.  Ég ætla mér undir 3 tímana, þetta sem klikkaði í Miami 😦

Við Oddur gerðum bara svona ljómandi ferð til Spánar núna í september.  Grunar að Oddur hafi verið að reyna að koma mér í eitthvað form fyrir Florida og vona ég að það hafi tekist.  Hef ekkert Brick-að lengi en það hlýtur að koma.

Djöfull langar mig að þetta gangi hjá mér úti.  Ef veðrið verður skikkanlegt finnst mér ég eiga að fara nálægt 10 tímunum.  Veit ekki alveg hvernig staðan á mér er en ég hef aldrei hlaupið jafn hratt og var fínn á hjólinu á Spáni.  Sundið er bara eins og það er.

Sjáum til.  Við Eva flugum til Stuttgart með WOW.  Alveg stór skemmtilegt að fljúga með þeim en reyndar var nú smá pikkles í Keflavík.  Bjargaðist allt og við komumst af stað.  Lentum í Stuttgart og fórum beint í lestina frá flugvellinum áleiðis að aðalstöðinni í Stuttgart.  Á leiðinni kynntumst við Gunnhildi fótboltafrú sem var á heimleið með frænku sinni.  Hún býr í Nurnberg en er að flytja til Frankfurt.  Frábær ferðafélagi.  Hún þekkti nokkuð vel á lestarkerfið og var ágætt að geta treyst á hana með þetta allt.

Þegar við loks, eftir eina aukalest, komum til Allesberg þurftum við að skella okkur á labbið.  Það er ekkert grín að þramma um með ferðatösku og hjólatösku í ókunnum bæ í útlöndum.  Maður veit ekkert hvert maður er að labba en svona eitthvað í áttina þó.  Smá sandur og taskan dró hjólin, jibbí.  Ekki mjög gott að vera ekki með svona hluti á hreinu þegar maður er á leið í svona aksjón.  Maður má ekkert við einhverju rugli en svo var þetta nú ekki svo slæmt, taugarnar bara aðeins strekktar.  Náðum í strákana sem voru nýkomnir og sóttu þeir okkur.

Herbergið reyndist íbúð og var frábær.  Allt stórt og fínt en svefnsófinn var þó afleitur.  Talaði strax um að kaupa bara almennilega uppblásna dýnu en af einhverjum furðulegum ástæðum gerðum við það ekki.  Strákarnir byrjuðu á svefnherberginu en þegar Vignir fór á hótelið með frúnni skiptum við og Oddur tók sófann.  Ómögulegt að sofa ekki almennilega og því enn undarlegra að klikka á dýnunni.

Frú Lori og Gerd voru aldeilis frábær.  Fengum bílskúr eða eitthvað undir hjólin, varla bílskúr þar sem hann snéri að garðinum og það var grasflöt fyrir framan hann.  Alveg kjörið til að setja hjólin saman.  Magnað vatnssöfnunarkerfi utan á húsinu.  Vatni af þakinu safnað í risa tunnur og það svo notað í að vökva garðinn.  Það var svo sem ekki það eina sem þau hjón söfnuðu.  Held bara að þau safni öllu eða kannski henda þau bara ekki neinu.  Veit það ekki en þetta var alveg stórmerkilegt heimili.  Alveg sama hvað var, ef það var hægt að hengja eitthvað á það var það gert.  Englar, myndir, englavængir, fuglar og bara hvað sem er.  Allt hengt upp, sett á borð eða hillur.  Alls staðar.  Dásamlegt.

Þetta skemmtilega fólk bauð okkur til kvöldverðar eitt kvöldið.  Pasta að hætti frúarinnar, alveg ljómandi.  Sonur, dóttir og tengdasonur öll með og varð úr þessi fína kvöldstund.  Sonurinn ætlaði að keppa í liðakeppninni og virðist vera mikill íþróttaáhugi í fjölskyldunni.  Þau sögðu okkur stolt frá því að einn af Pro gaurunum í Kallinum væri úr Allesberg og greinilega talsvert stolt.  Merkilegt þarna í bænum að Jesú er talsvert að dúlla sér á krossinum á gatnamótum.  Talsvert stór og góður bara eins og gangbrautarvörður fyrir utan bara að flautuna vantar.  Hann er að sjálfsögðu með þyrnikórónu í staðinn.  Hún toppar nú eiginlega flautuna.

Prófuðum okkur aðeins á hjólinu og var það alveg blússandi fínt.  Prófuðum okkur svo aðeins á hlaupum og var það ekki blússandi fínt.  Fann alveg að helv… Ham string vesenið var ekkert farið.  Hugsaði samt jákvætt og var viss um að þetta yrði ekki svo slæmt.  Raunin reyndist önnur.

Kvöldið fyrir keppni var nú ekki það gáfulegasta hjá þríþrautarmönnum.  Fórum á einhvern stórkostlegan veitingastað og fengu flestir sér pizzu en ég eitthvað ótrúlega frábært kjöt.  Oddur gúffaði Jalapeno í auman ristilinn og hressti soldið upp á hann en Vignir fék því miður ekki síld.  Held að við höfum öll verið frekar ósátt með matinn.  Þetta þarf að vera búið að spá í áður.  Maður fer ekki óétinn að sofa kvöldið fyrir Járnkarl, punktur.

Nú Oddur ræsti eftir nokkuð ósofna nótt.  Nóttina þá sem maður sefur bara eins og ekkert sé fyrir svona þá vaknar maður sennilegast ekki aftur.  Eitthvað aðeins gruflað í Coco Pops og svo bara kaffi.  Alveg súper.  Vítamín já já og magnesíum.  Allt eins og það á að vera.  Svo bara brennt af stað.  Damn hvað stressið var farið að segja til sín.  Nú við Oddur væfluðumst aðeins um svæðið, redduðum Vigni naglaklippum, fórum á dolluna og svona þetta helsta.  Svo þegar við vorum rétt að verða of seinir smelltum við okkur í gallana.  Fokk!  Allt í einu var bara komið að þessu.  Fokk aftur!  Ég að verða of seinn það er verið að hringja inn.  Á handahlaupum út í á og synti að startinu.  Rétt komin þegar fallbyssuskotið reið af.  Stressið farið, ekkert mál.

Menn ættu að tala meira um að sjórinn sé gruggugur og ble ble.  Dóná er kannski ekki alltaf skítug en boy ó boy þegar fleiri hundruð manns róta af stað í skriðsundi þá skiptir botninn um lögheimili og flýtur upp.  Útsýni núll.  Maður sá ekki neitt.  Svo sem ekki mikið mál en samt fannst mér erfitt að reyna að drafta þegar ég sá ekki manninn fyrir framan mig.  Fannst ég óþolandi hægur enda svo sem ekki við miklu að búast í einhentu sundi.  Tókst þó að halda mér slökum og slapp þar með við krampa í þríhöfðanum.  Fór mína 4,5 km á 1:22 eitthvað og er bara helvíti sáttur með.  Ekki gaman að koma á skiptisvæðið þar sem ég var ansi aftarlega í mínum hópi og hafði fengið fullt af liði úr næsta starti fram úr mér líka.  Vissi alltaf að þetta mundi gerast en samt er þetta ekki gaman.

Var kannski full lengi á skiptisvæðinu þar sem ég flækti Garmininn í gallanum góða hans Gylfa.  Var eitthvað búinn að hugsa hvernig ég ætlaði að gera þetta en ekki æfa.  Klaufi.  Var ekki með skóna á hjólinu og hljóp á þeim að því og út.  Rauk af stað og fílaði mig strax alveg hrikalega vel.  Sá litli pirringur að vera seinn úr vatninu og lengi að skipta hvarf fljótt og ég datt strax í fíling að fara að elta mannskapinn sem hafði verið fljótari en ég að synda.  Vindurinn kom nokkuð á óvart, tók í hjólið bara fljótlega og ég svona eitthvað var að pæla að þetta væri nú eitthvað skrítið logn en fokk it.  Hjólaði bara og hjólaði og fannst svona líka glimrandi gaman.  Hugsa þó að ég hefði bara viljað sleppa því að hafa keyrt þetta á bíl.  Það að fara hjólaleiðina á bíl er bara ekkert líkt og á hjóli.  Nokkuð Scary brekka var bara skítlétt og sama var með beygjurnar ógulegu á niðurleiðinni.  Pís of keik.

Byrjaði full snemma að finna fyrir hamstringnum.  Vissi alveg að það boðaði ekki gott og var að vona að með því að gíra bara nokkuð lágt og spinna vel hratt mundi ég mögulega ná að losa mig við þetta.  Það gekk ekki rass.  Var orðinn svo stífur fyrir seinni hringinn að ég var hættur að gera rétt úr mér.  Held ég hafi ákveðið nokkuð snemma að þetta væri bara rugl.  Var þó alltaf að spá að taka maraþonið á einhverjum fjórum tímum og bæta mig all verulega þannig en þetta var eiginlega of vont.  Hugsaði sem svo að ég væri búinn að Járna mig og ég gæti lent í mjög löngu maraþoni.  Með svoleiðis æfingum væri ég mögulega að meiða mig fyrir Florida og ég var bara ekki til í það.  Mig langar að eiga gott sund, gott hjól og helvíti fínt hlaup í Florida og til þess að það gerist má ég ekki meiða mig meira en orðið er.

Minnugur hvursu langan tíma það tók að jafna sig á Miami þá veit ég að ég gerði rétt.  Þetta hefur pirrað mig endrum og sinnum en fjandinn hafi það ég ætla ekki að fara að safna Járnkörlum ég læt aðra sjá um það.  Ég er reyndar búinn að skrá mig í Roth á næsta ári, árið sem átti að vera Boston og Laugavegsár en það var bara ekki hægt að sleppa því þar sem við verðum tríóið saman aftur.

Já jæja, keppnin svona að mestu búin hjá mér þarna.  Skellti mér í sturtu og svona.  Hitti þar nokkra gaura og spjölluðum við aðeins saman.  Einn var þarna með allar tær bláar og asnalegar.  Kauði talaði fína ensku og var ég eitthvað að hlægja að tánum á honum.  Spyr síðan hvernig honum hafi gengið og jú það gekk bara svona prýðilega, hann vann 🙂 7:59:59 var tíminn.  Not bad.

Rennislétt og fínt

Posted: 6 July, 2012 in Æfingarnar, Keppnir

Ó já, búinn að vera í Germaní frá því á þriðjudag.  Heitt og gott en kannski ekkert mikið sólskin.  Þrátt fyrir brúnkuleisi held ég að það sé bara gott núna.  Maður vitnar alveg eins og prestur í fermingarfræðslu.  Erum þrír úr járni hérna ásamt Evu og Berglindi.  Mátuðum skipaskurðinn í dag ásamt fjölda manns.  Skurðurinn verandi Dóná er með fiskum og fíneríi í en það sást ekki boffs í dag þar sem áin var mjög gruggug.  Líst nú bara svona á þetta.  Er ennþá fullur efasemda að það hafi verið rétt að koma hingað en við sjáum til.  Nógu djö.. er nú frábært að hjóla hérna.  Það er bara einn, tveir og þrír og allt í botn.  Rennislétt malbik og fínt en þó merkilega krappar beygjur á mörgum stöðum.

Keyrðum hjólabrautina í fyrradag.  Sæll vertu, maður var búinn að heyra og sjá af Solar berg og hélt að það væri eitthvað stuð en brekka sem við förum í áður er alveg brekka fyrir allan peninginn.  Það eina sem vantar er kannski soldið rok í fangið og þá er þetta fullorðins.  Það kemur til með að taka hressilega á að fara hana í annað sinn eftir tæpa 140 km.  Ekki er niður rúnturinn verri.  Organdi brekkur með beygjum krappari en 90°.  Það geggjaða við þær er að maður sér þær ekki fyrirfram.

Hlaupið er að sögn frábært.  Tengdasonur hjónanna sem við búum hjá hefur hlaupið í Relay liði hérna og segir að þetta sé alveg frábært.  Þjöppuð möl á nokkuð flatri leið er bara æði.  Þannig er þetta að 70%.

Þannig að…  Ef ég hætti ekki í sundinu og lappirnar verða til friðs í hlaupinu verður þetta djöfull gott hjá mér.  Aftur á móti ef ég finn að þetta er eitthvað ómögulegt þá ætla ég að fara varlega með hlaupið.  En þetta kemur nú í ljós á sunnudaginn.  Afslöppun á mánudag en svo hressandi ferðalag heim á þriðjudag.  Úff allur dagurinn í ferðalag aftur.  Kannski ég kaupi mér bara einkaþotu.

Damn allt að bresta á.  Roth á þriðjudaginn og mér finnst ég varla hafa æft af neinu gagni á þessu ári.  Þetta verður áhugavert.  Þungarokksslammið í götuna um daginn hefur leikið mig soldið grátt.  Fyrir utan talsverð líkamlega krankleika er involsið í hausnum að hrekkja mig líka.  Minnið er þar verst og hefur verið að bregðast mér á slæmum stundum (sem góðum reyndar líka).

Skellti mér í Snæfellsnes hjólakeppni um daginn.  Hafði heyrt agalegar sögur af þessu og leist hreint ekkert á.  Skítamalbik og rok allan andsk… tímann.  Lét Vigni þó gabba mig í þetta sem langa æfingu, hann ætlaði auðvitað ekkert að koma sjálfur, og skráði mig.  Ég gæti trúað honum til að vera enn hlægjandi að þessu.  Heyrði í Trausta og fékk far með honum.  Helvíti langt og því ómögulegt annað en að hafa félagsskap.  Eddi hafði eitthvað verið að spá að vera með en kom ekki.  Svekk.  Vorum fjórir í opnum flokki, ég, Trausti, Sigurþór og Sissi.  Malbikið alveg í fínu lagi en djöfull blés og að sjálfsögðu framan á mann.  Endaði daginn sem sigurvegari, ekki slæmt það og eiginlega alveg þrælgaman.  Flott að borða á Vegamótum.

Sneiðin alveg prýðileg þarna á Snæfellsnesinu.  Pétur Örn nýbúinn að lækka hjá mér stýrið og kom það bara ljómandi út.  Hræddur um að ég sé innskeifur á pedulunum og laga það áður en ég keppi í Roth.  Talandi um Roth.  Ferlega skemmtilegir póstar sem við fáum orðið á hverjum degi frá keppninni um allavega skemmtilega hluti.  Einn stuðningsaðili keppninnar er sóparafyrirtæki og þeir að sjálfsögðu pússa hjólaleiðina glansandi fína.  Frábært.  Veðurspáin svona heitt eða ekki, rakt eða ekki.  Soldið eins og verið sé að spá fyrir um veður á lítilli eyju í Atlantshafi.

Þar sem flugið til Munchen hafði hækkað svo þegar ég ætlaði að kaupa það fór ég með WOW til Stuttgart.  Þaðan eru rétt rúmir 200km til Allersberg þar sem við verðum.  Partý partý í lest í 3 tíma.  Fékk reyndar lestarmiðann á slikk.  Sennilega er þetta eitthvað dásamlega vangefið sem ég hef keypt en það kemur bara í ljós.  Það er nú ekki eins og lestin frá Berlin til Auschwitz hafi verið með einhverri lúxus lest en við komumst þó bæði fram og til baka.  Gott betra en slatti gerði.

Hef verið að sulla soldið í sjónum undanfarið.  Fékk Cat3 gallann hans Gylfa lánaðann og þar munar nú talsvert skal ég nú bara segja.  Minn þessi af ódýru gerðinni, allur jafn hnausþykkur og fínn meðan Gylfa er þunnur þar sem við á og þykkari á hinum stöðunum.  Afbragð.  Hef soldið verið að spá í því sem ég ætla að hjóla og hlaupa í.  Á alveg ágætis Craft Tri-suit en það er bæði frekar þröngt yfir brjóstið og eins er bölvað vesen að fara á klóið í þessu.  Skiptir þá engu hvað skal gera þar.  Af þessum sökum er ég að hugsa um að vera í TYR buxum sem ég á, með vösum neðst á skálmunum og svo einhverjum dásamlegum bol.  Þetta held ég að sé alveg dásamlegur dúett.  Mig langar ekki að hlaupa í þröngum bol og enn síður í þröngum galla.

Þá er það Garmin.  Sama þar.  Nenni ekki að hlaupa með stóra hlunkinn.  Hann er bara óþægilegur á hendi og uppfullur af infó sem ég hef ekkert við að gera.  Mig vantar að vita hraðann og búið.  Ég hef engar áhyggjur af því að ég hjóli/hlaupi of langt.  Ég verð alveg örugglega stöðvaður þegar nóg er komið.  Fékk mér Specialized TT2 hjálminn fyrir helgi.  Sæll vertu hvað hann er rosalegur.  Ætlaði að máta í dag en stytting á böndunum vafðist eitthvað fyrir mér þegar ég var að hlaupa út svo ég tók bara standardinn.  Virkar en er ekki mjög Aero.

Vignir lánaði mér SRAM gjarðirnar sínar.  Þær líta út eins og þær hafi verið hannaðar fyrir þetta hjól.  Váá hvað það er töff.  Nokkuð þyngri en Mavic Cosmic gjarðirnar mínar en vonandi hagnast ég á dýptinni þar sem afturgjörðin er dýpri en mín og hey, ég vil hafa þetta í stíl.

Djöfulls verkun er þetta á manni.  Maður vill auðvitað vera nokkuð frambærilegur.  Því var það þegar ég var staddur í Sportís að velja mér jakka að ég kippti með mér eins og einu afar hressandi glasi Sport þvottaefni.  Cintamani kallinn minn, verður ekki mikið betra.  Veldur ekki miklum kláða á húð þar sem húðin brennur að mestu leiti í burtu.  Svo ég sé nú “fair” þá þvoði ég íþróttafötin mín upp úr þessu og fór svo í þau á langa Trainer æfingu.  4 tímar, hviss bamm búmm og mig er aðeins farið að svíða.

Nú daginn eftir, mánudagur og ég í svona líka stuði.  Lærin, lærin hreint ekki í stuði.  Ekki þreyta heldur risa sár og blöðrur.  Við skulum ekkert vera að ímynda okkur að lærin séu bara framan á fótunum.  Neibb þau ná allan hringinn og ef þau byrja við hné þá enda þau við rass.  Sárin náðu reyndar á rassinn enda ná hjólabuxurnar yfir hann.  Hélt ég dræpist bara.  Andskotans vesen þetta á manni.

Trausti bróðir kom til bjargar eins og er að verða hans vani.  Sá að þetta var skítamál og sagði mér að koma á stofuna til sín.  Þar lét hann draga mér blóð og skoðaði mig síðan.  Sagði þetta vera eitthvað bráða ofnæmi/exem.  Lét mig fá sterakrem til að losna við óþægindin af þessu.  Var ekki alveg að gera sig og lét hann mig fá stera pillur stuttu síðar.  Þær virkuðu alveg ljómandi fínt nema hvað ég minnkaði skammtinn of snemma.  Trausti lét mig bæta í aftur þar til árangurinn væri alveg súper, þá mætti ég minnka.  Gerði það og sárin eru að mestu farin.

Hef verið að dúlla mér svona og svona undanfarið.  Heiðmerkurtvíþrautin er auðvitað uppáhalds hjá mér en núna tók ég þátt.  Gekk alveg la la en hjólið eitthvað þreytt hjá mér.  Keppti síðan í Cube prologue og var bara svona sæmó.  Bæti mig alveg örugglega í næstu keppni ef ég tek þátt.  Það er annað hvort að hvíla einn dag fyrir keppni eða láta eiga sig að taka þátt.  Ekki nógu gaman að finna kraftinn í fótunum en halda ekki keppnina út.

Frábærar æfingabúðir hjá Ægi Þríþraut.  Sprettir voru þemað og komust þau skilaboð rækilega til skila.  Var alveg sannfærður um að ég dræpist bara í lauginn slíkt var actionið á Jacky.  Fann hvað sundið hjá Vadím hefur skilað miklu til mín þar sem ég gat synt á pari við hina þó að mig hafi að sjálfsögðu vantað hraðann.  Öxlin fín og annað bara eftir því.

Eftir afar erfiða daga lét ég mig hafa það og tók þátt í Reykjanes hjólreiðakeppni.  Mætti á Racer og fannst ég til.  Var það sennilega ekki þar sem ég missti hópinn sem ég ætlaði að fylgja langt fram úr mér og gekk bara illa.  Var að berjast einn í nokkurn tíma og tapað kröftum á því.  Merkilegt þar sem ég er nýbúinn að fara illa með mig í Þingvallatúr við sömu aðstæður.  Lét hlutina fara í skapið á mér og það þó að ég viti að skapið bitni fyrst og síðast á mér.  Hjólaði 64 km á 2:06 eða þar um bil.  Svo sem allt í lagi en samt ekki.

Var mjög þreyttur eftir keppnina og rosalega slæmur í öllum liðamótum.  Veit ekki hvort þetta er vatnsleysi eða hvað en þetta gerist stundum hjá mér.  Borðaði og drakk vel og skellti mér út á Sneiðinni fögru.  Að koma af ál racer yfir á Carbon þríþrautarhjól er bara æði.  Rauk í bæinn á no time og áður en ég vissi af var ég að tala við Kristján Eldjárn og son hans við Akraborgina.  Hjóla út á Granda og passa mig að muna eftir stefnumerkjum og vera flottur.  Fer eftir göngustígnum en man lítið eftir beygjunni við JL húsið.  Man næst eftir mér á Borgarspítalanum.

Allt í steik, andlitið illa farið, hendur rispaðar, fætur rispaðir, bak í ólagi, háls mjög slæmur og verst af öllu er hægri öxlin.  Þetta er á sunnudagskvöldið 29. apríl.  Ég er einhverja átta tíma á spítalanum og talað er um að hafa mig um nóttina vegna höfuðáverka.  Fæ þó að fara heim.

Á mánudeginum fæ ég tíma hjá Örnólfi eða réttara sagt, Örnólfur ætlar að hitta mig eftir vinnu.  Oddur býðst til að taka mig á rúntinn, damn að þekkja svona mann, og sækja hjólið líka.  Örnólfur skoðar mig og gerir og sendir mig í ómskoðun.  Þar er byrjað á að segja að ég sé brotinn.  Jibbíí, það var þá eitthvað sem mig vantaði.  Svo kemur í ljós að svo er að öllum líkindum ekki??? og sinar og dót sé líka í fínu lagi.  Mánudagurinn er sá 30. sem er líka síðasti dagurinn til að segja sig úr Challenge Roth.  Ég ákveð eftir miklar pælingar að gera það ekki.  Vil ekki fá það í hausinn að það sé eitthvað lítið mál að hætta við keppni.  Maður klárar það sem maður er byrjaður á.  Ég finn að það vantar hörku í mig og ég verð að finna hana aftur.  Eitthvað farinn að linast og það er ekki ásættanlegt.

Tala við lögguna og fæ að vita að það var vitni að slysinu.  Hjón sem ég fór fram úr báru mér vel söguna og sögðu að þegar ég ætlaði fram úr skokkara hafi hann stokkið til hliðar fyrir mig.  Þá hafi ég nauðhemlað og það má ekki á TT hjóli.  Ég er ansi svekktur ég viðurkenni það.  Hjólið skemmt þó ekki virðist það mikið og ég er bara talsvert slasaður.  Lít mjög illa út og líður jafnvel verr.

Doktorinn segir að ég verði að taka því alveg á núlli næstu 3 til 4 daga.  Lét vinnuna vita og það var auðvitað ekkert mál.  Svo á það að fara í hálfan mánuð samtals og þá má ég byrja að taka á því.  Ég held að ég verði að hlusta á Vigni núna og stilla Roth inn sem leik.  Veit ekki hvernig mér gengur að taka svona keppni ekki alvarlega en ég verð bara að reyna.  Held samt að ég verði aldrei sáttur við sjálfan mig ef ég fer ekki undir 11 tímana.  Það er kannski ekkert merkilegt en eitthvað verð ég að miða við ef ástandið ætlar að vera svona á mér.  Þá er bara að taka tímann eftir Roth alvarlega og taka Florida glæsilega.  Eitthvað sem segir mér að svo verði.

Nýja hjólið er Specialized Allez 2011 árgerðin.  Alveg nýtt fyrir mig að fara út að hjóla á svona græju.  Ótrúlega skemmtilegt apparat og mikill munur að vera á svona í borginni samanborði við TT hjólið.  Hef reyndar verið að uppgvöta nýtt hjól síðustu dag.  Rockhopperinn 29″ fjallahjólið er alveg dásamlegt á Cyclocross dekkjunum sem David Kríu seldi mér.  Veð áfram á þessum líka hlunk en munurinn er að ég gossa alveg hiklaust yfir kanta og allavega drasl.  Brjálað fjör.  Notaði það í Heiðmerkurtvíþrautinni á þessum dekkjum.  Virkaði svona glimrandi en þar var það líka formið á mér í einhverju óstuði.

Morgun ætla ég að kíkja á heilsugæsluna hérna í Mosó.  Grefur alveg djöfullega í andlitunu á mér og lyktin aldeilis eftir því.  Held ég skilji Súbbann bara eftir heima og hjóli bara á fjallahjólinu.  Ekki veitir mér af hreina loftinu.  Djöfull er eitthvað leiðinlegt að lenda í einhverju svona eina helvítis ferðina enn.  Mig langar að kenna hlauparanum um þetta en veit að ég hefði brugðist við á sama hátt og hann.  Ég átti bara að vera á götunni eða ég veit það ekki…  Kannski er þetta ekkert fyrir mig?

Jú víst er þetta fyrir mig.  Þetta kemur allt.

Spældur?

Posted: 30 January, 2012 in Keppnir

Er ég?  Ég veit það ekki.  Ætlaði að fara undir þremur en eftir miðvikudaginn í síðustu viku var það ekki inn í myndinni.  Kálfinn það slæmur og þó svo að ég hafi farið í þrjá góða tíma hjá sjúkraþjálfara þá bara hélt það ekki.  Á föstudaginn, þegar ég ætlaði rétt að skokka, gaf allt dótið sig í fyrstu skrefunum.  Var mikið að hugsa um að sleppa því bara að mæta í dag en bara gat það ekki.  Það er of mikil stemming við svona hlaup til að mæta ekki.

Hitti Ívar og Jóhönnu og ákváðum við Ívar að tékka á okkur og þá í versta lagi að klára bara.  Fann það strax í startinu að þetta mundi ekki ganga og yrði alveg örugglega mjög langt hlaup hjá mér.  Nefndi það margoft við Ívar að hætta en hann hvatti mig áfram og ég lét til leiðast.  Ekkert smá ánægður með það núna.  Vorum eitthvað að myndast við að halda uppi einhverjum hraða en það gekk ekki neitt.  Leiðir skildi svo að mig minnir í kringum 10 mílurnar eða jafnvel fyrr þegar Ívar stoppaði til að taka eina netta skák.  Þar með var hvatningin frá honum farin.

Var endalaust í baráttu við mig að hætta og þegar hinn kálfinn fór að kvarta og í framhaldi af honum lærið þeim megin var ég viss um að þetta væri búið.  Grunaði að lærið væri bara krampi og bætti því í Gatorade drykkjuna án þess að minnka vatnið.  Þegar ég svo kom að þrettándu mílu var augljóst ða það tæki því ekki að hætta þaðan af þar sem þetta væri nú að verða búið.  Fann ekkert fyrir þreytu nema bara í hausnum en reyndi samt að láta þetta ekki fara í taugarnar á mér.  Brosandi staff út um allt og skemmtilegt umhverfi gerðu þetta alveg afbragðs sunnudagsmorgun.

Ömurleg stjórn á hólfunum í startinu varð þess valdandi að við vorum rúmlega 10 mínútur með fyrstu míluna.  Hellingur af gangandi fólki og verulega hægu var í hólfinu okkar, hólfi sem átti að vera hraðasta hólfið fyrir almenning.  Í staðinn var maður að taka fram úr næstum alla leiðina sem er alveg ótrúlega gaman.  Var í baráttu við nokkra síðustu kílómetrana og smellti mér svo fram úr þegar við fórum að nálgast markið.  Tók síðan vel hraðann endasprett síðustu 600, eða svo, metrana.  Þar fór ég fram úr þeim þrjóskustu og heyrði ég öskrið í honum á eftir mér þegar ég hljóp einn leiðina að markinu.  Mikil fagnaðarlæti gerðu þetta bara eins og ég væri að vinna hlaupið.  Svaka stuð.

Kom í markið, fékk bling og vatn og fór beint í að teygja.  Núna er ég allur undarlegur á litinn á verri kálfanum og ansi slæmur í þeim báðum en að öðru leiti alveg súper.  Hef vökvað mig vel, fékk mér Herbalife recovery drykkinn minn og er bara að tjilla.  Rúllaði það sem hægt var að rúlla.

Ívar kláraði á 3:37 og Jóhanna kláraði kvartettinn á 4:57 sem er frábær árangur.  Siggi og Inga kláruðu sitt glæsilega, Siggi á 1:17 og Inga á 1:42 sem er PB hjá henni.  Flott fólk allt saman.  Ég er verulega þakklátur Ívari fyrir að draga mig áfram þegar ég var við að leggjast í aumingjaskap.  Núna er ég enn vissari en áður að ég get allt!  Að skrattast þetta í 3 tíma og 17 mínútur með talsverða verki í hverju skrefi er sönnun þess.

Hefði viljað ná þessu Sub3 markmiði mínu í ár en það verður nú varla úr þessu.  Þá er kannski að ná bara bætingu í einhverju öðru.

Mikið óskaplega væri gott að geta kælt núna 🙂

 

Ha, ég að væla? Nauts

Posted: 29 January, 2012 in Keppnir

Finnst reyndar að ég hafi smá ástæðu til.  Eftir ansi jákvæðan fíling á kálfann og ég bara í rólegheitum ætla ég rétt að skokka hérna í hitanum í fyrrakvöld.  10 skref og málið var dautt.  Núna er staðan þannig að ég verð sáttur ef ég klára.  Það er soldið langur vegur frá því að ætla á Sub3.  Sjáum til.

Ég er sem sagt kominn til Miami.  Nokkuð spennandi borg en ég held mér finnist hún nú ekki falleg.  Veit ekki hvað það er við svona borg en það virðist ekki vera neitt sameiginlegt eða eitthvað sem hið opinbera gerir fyrir staðinn.  Samanborið við Spán og þá skiptir engu hvort maður er í Barcelona eða bara Mallorca þá eru listaverk út um allt, í hringtorgum og já bara út um allt.  Hérna er ekkert svoleiðis.  Eina skrautið eða eitthvað í þá áttina er eitthvað ódýrt plast drasl sem er notað í auglýsingar.

Fór á Expo-ið í dag.  Svona dæmigerður markaðsfílingur á þessu.  Nennti nú lítið að skoða enda verðin ekkert æði.  Fer frekar bara í einhverja búðina hérna hjá mér og finn mér eitthvað.

Frábært þegar ég kom hingað á hótelið þá var ég spurður hvort ég væri með módel með mér.  Ég hváði og þá var ég spurður svona óbeint hvort ég væri að fara að skjóta klám.  Naa ég er í maraþonhlauparahlutverkinu núna.  Reyndar er þetta búið að vera svo skemmtilegt ferðalag að ég held ég verði að smella inn heilli færslu.  Mér tókst að velja mér gististaði í þeim alverstu hverfum sem hugsast gat.  Fyrir svertingja, ég er hvítur í svörtu hverfi og var líka svoleiðis í New York. Ferlega gaman.

Styttist í startið.  Ég ekki nema bara mátulega stressaður enda þetta svo sem fyrir fram dæmt hjá mér.  Bara að spila það kúl og klára með sæmd.  Tímann tek ég bara í Vorþoninu.  Þetta er bara eitthvað sem fylgir.  Maður fer að mörkunum í þjálfun og svo fer maður yfir þau.  Ég áttaði mig ekki á því þegar ég var kominn að þeim.  Því fór sem fór.

En að sjálfsögðu flottur