Já mikil ósköp. Fyrst var það að hlaupa slatta og smá sund með, svo var það hjólað í vinnuna og eitthvað svona meira með. Jafnvel ágætis sund svei mér. Hjólað í vinnuna auðvitað tekið af fullri hörku, allar ferðir teknar af mikilli ákefð og allt keyrt í botn. Lengingar upp á hvern dag og fór ein vikan í 340 km. Þetta var auðvitað með öllum öðrum æfingum og var ég nokkuð búinn þegar líða fór á þriðju vikuna.
Bláa lónið var flott hjá mér. Fór á 32 mm dekkjum, sem var auðvitað áhætta, og borgaði það með lélegum lokatíma. Lét bara vaða á allt og það á fullri ferð. Þurfti stundum að segja mér að vera ekki þessi djöfulls skræfa og herða mig, þá gekk allt betur. Frábært að láta gossa og fá sletturnar yfir sig og á. Veit ekki, var með gleraugu og fljótlega varð skyggnið ansi dapurt. Veit ekki hvort þetta hefðir verið betra án þeirra en við Ísólfsskála sá ég fjandakornið ekki rass, stímdi á grjót og sprengdi. Allt drulluskítugt, ég í óratíma að ná dekkinu af og svo þegar ég er að herða hylkið utan um gasið festist það og allt gusaðist út í loftið. Bloody brill fyrra hylkið farið. Seinna hylkið fór í slönguna. Náði að verða ekki pirraður á þessu en vissulega spældur. Vissi að þarna voru möguleikar mínir á að vera á skemmtilegum stað úr sögunni. Gaf allt sem ég átti og fer fram úr slatta af liði en svo þegar ég er að klára malarveginn við Þorbjörn sprakk aftur. Djöfullsins helvíti. Ekkert gas og allt í einhverju helvítis runki. Hjólið á bakið og ég hljóp af stað með það. Alveg ákveðinn í að klára og þetta voru ekki nema örfáir kílómetrar að hlaupa. Rúllar ekki Garðar Erlings framhjá með pumpuna standandi upp úr vasanum. Ég góla á hann og hann hendir pumpunni í mig. Dekkið á, pumpa í og af stað. Hell yeah! Lokatími 2:21 og það með 20 mínútum í dekkjaviðgerðum og rugli. Fann það þegar ég kom í mark að mér var orðið ansi kalt enda á stuttermum og stuttri brók. Allt fyrir tanið, verst að sólina vantaði. Þræl sáttur með þetta þar sem ég var augljóslega ekki í keppni um sæti og því aldeilis ljómandi tími að ná.
Daginn eftir ætluðum við í stutt recovery hjól með Jens og kó, enduðum í rokferð (hvað annað?) á Þingvelli. Ég hafði að vísu náð nokkrum rudda kílómetra sprettum meðan ég beið eftir mannskapnum í Mosó. Fórum fimm á Þingvelli, Pétur Einars, Geir, Rúnar, Oddur og ég. Mikill hraði og ferlaga frábær pylsan í þjónustumiðstöðinni.
Mánudagur strembinn og svo aftur hörku æfing með Jens. Sundahafnarhringir í geggjuðu roki, keðjuæfingar og allt í botni í rokinu. Lærin loga og ég hugsa með ánægju til Álafosshlaupsins sem ég er að fara í daginn eftir. Stóð mig alveg ljómandi þar. Níu km af möl og brekkum og stuði. Frábært veður, góðir hlauparar og áttunda sæti í heildina. Góðir hlauparar sem er bara heiður að vera í samskokki með. Sundæfingin eftir hlaupið bar þess nú nokkur merki að vel hefði verið tekið á, krampar út í eitt. Fínar harðsperrur daginn eftir, hvað er það eiginlega?
Ég grennist bara og þyngist. Enginn fita eftir á mér held ég. Lærin vel skorin og efri hlutinn sömuleiðis. Gengur vel á lóðaríinu þannig að ekki er ég að aumingjast. Reyni að passa mig og vökva vel, er mjög passasamur á matinn. Mætti alveg borða meira en þetta sleppur meðan ég léttist ekki.
Hef verið að dúlla mér í sjónum. Bæði gallaður og án galla, oftast einn. Þannig slepp ég við að hræða mannskapinn með dökku litarhaftinu þegar ég kólna. Fór í lengsta gallalausa sundið á þessu ári í dag. Virðist vera að venjast fóta og handkuldanum en andlitið og hnakkinn kólna enn alveg ferlega. Einnig er ég orðinn viðkvæmari fyrir veltingnum. Lendi í því að verða flökur á miðju sundi. Afar undarlegt en nú eru tapparnir komnir í töskuna og verður gaman að gá hvort þeir skipti máli. Sjórinn var 12 gráður í dag og er það nú alveg vel sundhæft. Ætla aftur á morgun.