17 des
Sóttur í gær á hótelið. Annar sjálfboðaliði (Finni) með í för og tókum við svo nokkra starfsmenn með. Þó þetta sé ekki nema 50km þá vorum við nú talsverðan tíma á leiðinni. Rétt sluppum í kvöldmat hérna en síðan var mér skutlað upp í það sem kallað er Bushcamp. Þar er ég í tjaldi númer 7. Þetta er nú talsvert meira en okkar venjulega Seglagerðar Ægis tjald en ég hafði búið mig undir það frumstæðasta í þeirri deildinni. Finninn var settur í tjald í aðalbúðunum meðan mér var skutlað aðeins útfyrir í litlar búðir þar. Ég komst svo að því daginn eftir að meðan ég var að vesenast með risastórar moths þá átti hann í rimmu við stóran bavíana, geggjað að byrja þannig.
Það hafði verið þannig að Sambsa mætti í “tjaldið” sitt og er eitthvað að vesenast bara. Heyrir einhver læti á þakinu en spáir ekkert í það, það er blikk þak, en ætlar síðan í sturtu og hittir þá fyrir helvíti mikinn bavíana. Það er ekkert djók að lenda í þeim, þeir eru nokkuð aggresívir og geta verið hættulegir. Nú Sambsa sem betur fer vissi lítið um þetta en áttaði sig þó á að hann hefði verið í sæmilegustu skítamálum þegar tjaldið hans fylltist allt í einu af mannskap að bjarga honum.
Það er þannig hérna í Namibiu að Bavíanar eru flokkaðir sem meindýr. Það þýðir að þá sem komið er með hingað verða hérna þar sem ólöglegt er að sleppa þeim út í náttúruna aftur. Ástæðan fyrir því að komið er með þá hingað er að fólk fær sér þá sem gæludýr en gefst svo upp þegar þeir fara að stækka og verða ill viðráðanlegir. Því er talsverður fjöldi hérna í búrum sem eru reyndar eru gríðarstór gerði sem eru eins og allt annað hérna mjög flott og viðhaldið frábærlega. Við erum með talsverðan hóp út í friðlandinu og þegar maður gefur þeim að éta sér maður hvað þeir eru varasamir.