23 des
Þorlákur og ég illa sofinn. Hreingerningar hjá mér fyrrihlutann og svo rölti ég upp í Camp í hádeginu til að fá mér smá kríu. Á bakaleiðinni ruglaðist ég eitthvað smá og áður en ég veit af er ég ramvilltur. Finn einhvern vegaslóða sem ég ákveð að fylgja. Skelli mér á skokk þar sem ég var að verða tæpur á tíma en allt í einu sé ég bara karlljón liggjandi fram á fætur sér. Þetta var alveg út úr kú þetta var svo óraunverulegt. Heilt ljón og það bara svona slakt á því. Annað hvort sá það mig ekki eða var bara alveg skítsama en mér var sko ekkert sama. Bakkaði í rólegheitunum og komst í hvarf og þorði þá að snúa mér við og ganga sæmilega í burt. Það er ekkert grín að vera sífellt að líta aftur fyrir sig og allt um kring, minnugur þess sem mér var sagt um að ljónin “Stalk-uðu” bráðina, og að leita vel á jörðina fyrir framan sig ef vera kynni að þar leyndist eins og ein Kóbra eða jafnvel ein Mamba.
Ég fann loksins veginn og náði til baka en missti því miður af hópnum. Fokk hvað þetta tók á.
Í kvöldmatnum settist hjá mér skoskur náungi sem hefur verið hérna frá 2010 og fór ég að segja honum frá ljóninu. Hann var ekki hinn hressasti og sagði að þetta væri mjög aggressíft dýr og girðing eða ekki skipti það engu máli. Hann spurði hvað ég hefði verið að gera svona langt úr leið og ég sagði honum að ég hefði eitthvað ruglast, kannski verið soldið í eigin heimi að leita að slöngum og hlusta á musik. Það fór ekki vel í hann og sagði hann að það væri algjört NEI! við því að vera ekki með alla sensa í lagi þegar maður væri hérna. Það væri algengt að hingað slæddust villtir hlébarðar og þeir gefa bara frá sér eitt, kannski tvö, aðvörunar urr og síðan ráðast þeir á mann. Ég var sem sagt nokkuð heppinn í dag.
Við kláruðum svo kvöldmatinn og þegar við vorum að gera okkur klár að labba af stað þá komu starfsmenn að og spurðu hvort það væru einhverjir úr okkar Camp hérna. Við jánkuðum því og þá var okkur sagt að sést hefði til stórs bavíana í grennd við campið okkar og því mættum við ekki fara til baka gangandi, við yrðum sótt.
Núna er ég inn í tjaldi og velti fyrir mér hvort ég eigi að þora að fara á klósettið. Ég meina ljón eða hlébarði eru slæmir en bavíani kemst allt og getur ansi margt. Verandi vegan eru þeir með rosalegar tennur og alveg hrikalega sterkir. Reyndar eru apar það yfirleitt.
24 des
Annað kvöldið af Baboon alert. Apinn fór inn í eitt húsið í gær með því að brjóta hurðina. Hann réðist ekki á íbúann en opnaði flösku af sítrónu drykk og fékk sér snakk. Við vorum vöruð við að við gætum heyrt byssuhvelli og væri þá verið að skjóta púðurskotum til að reyna að fæla apann frá því að vilja vera hérna. Okkur er sagt að halda okkur inni í tjöldunum með ljósin slökkt og engin hljóð. Skrítin jól þetta, einn inn í tjaldi með allt myrkvað. Ég stalst reyndar til að horfa á Bellator en var með skjáinn á tölvunni mjög skyggðan. Alla nóttina glymur síðan eitthvað sem virðist vera alarm.
Þetta er allt of taugatrekkjandi fyrir minn smekk. Mikið betra að vera bara hérna í þessu goða veðri.
Bestu kveðjur Einar minn.