Líður að lokum

Posted: 30 January, 2015 in Uncategorized

Nú er þessu að ljúka.  Ég á síðasta daginn á morgun.  Það er léttir að mörgu leiti en þetta mætti alveg vera mánuður í viðbót.  Maður er farinn að þekkja dýrin og þau mann.  Maður hefur færst “upp” í aldri með dýrin og Thai staffið lætur mann koma nær og nær.  Mætti strollunni í hliðinu að Tiger island í fyrradag.  Steig til hliðar og þegar ég hélt að allt væri komið fór aftur af stað.   Stend ég ekki fyrir framan eitt fullvaxið, laust.  Maður má ekki sýna ótta og alls ekki forða sér og tókst þetta alveg ágætlega því ekki var ég étinn í þetta skiptið.

Léttirinn verður nú helst í að komast til Íslands.  Góða loftið, pödduleysið og mun betri matur.  Þeir sem halda að þetta sé einhver matvendni í mér, Massaman eða Panang sé nú aldeilis fínn matur, eru aldeilis í rangri sjoppu.  Hérna var þetta hvunndags Thai matur, mjög til sparað og æ svona já ekki spennandi.  Svo þarf ég aðeins að jafna mig líkamlega.  Ég hef lést mikið og er ansi tjónaður á skrokkinn.  Mikið skordýrabit um allt og svo auðvitað talsverðar skrámur eftir dýrin sem ég hef verið að vinna með.  Því miður náði ég mér í ígerð þegar Civet kötturinn beit mig og til að bæta í beit einn litli gaurinn mig svo hressilega í þann putta að það sprakk undan nöglinni.

Ætla að skella mér til Bangkok og vera þar í þrjár nætur en ég byrja þó á því að fara og vera eina nótt í Kanchanaburi fyrst.  Fá mér nudd og kíkja á markaðinn fína.  Ekki lélegt að fá Thai hörkunudd fyrir 200 baht, 800 kall.  Svo er það bara heim með smá stoppi í Óðinsvéum þar sem ég á stefnumót við Fenri töffara.  Hlakka hrikalega til.  Fæ mér vonandi kaffi með Sigga svona fyrst ég verð í DK.

Hverfisgatan er innan seilingar.  Uss hvað ég hlakka til.  Hlín verður rétt komin heim frá France með geitaost og eitthvað fínerí.  Ég kem kannski heim með Buddah.

Comments
  1. Krulli's avatar Krulli says:

    „Góða loftið, pödduleysið og mun betri matur.“ Ekki gleyma Framsóknarflokknum 😉

Leave a comment