Hreyfingar á mannskap og dýrum

Posted: 21 January, 2015 in Thailand

Eitthvað hefur okkur fækkað, sjálfboðaliðunum hérna og tvö fara núna í vikunni.  Þá verðum við bara fimm eftir og verður það örugglega bara gaman.  Maður er líka allur orðinn öruggari með bæði dýrin og túristana þannig að þetta verður bara létt.  Maður finnur hvað mánaðarmótin nálgast og ég er farinn að kvíða því að fara héðan.  Maður er farinn að þekkja dýrin og þau mann.  Meira að segja geðvondu stóru dýrin eru farin að hnusa af manni svona milli þess sem þau reyna að troða sér milli rimlanna.

Við erum með gamalt par hérna.  Hann er 15 ára og hún 12 að ég held.  Þegar hann fer út og hún er skilin eftir vælir hún hástöfum þangað til hann kemur aftur.  Hún kemst lítið út greyið því hún er með gláku og er farin að sjá illa.  Hún bætir það hins vegar alveg upp með geðillsku en henni fyrirgefst hún.  Sá um daginn, þegar ég gekk framhjá þeim, að þau lágu í faðmlögum.  Alveg ótrúlega fallegt eitthvað.

Þó tígrisdýrin hérna séu auðvitað aðal er haugur af öðrum dýrum.  Ég hef nú minnst á þau flest held ég en nú var að bætast í hópinn.  Fyrir utan herbergisgluggann minn er nú grísamamma með litla gríslinginn sinn, kannski viku gamlann.  Fór í dag og kíkti á þau.  Hún var með einhverjar varnir svona ti að byrja með en um leið og ég fór að strjúka henni um kviðinn slakaði hún á og leyfði mér kíkja á þenn nýja.  Hún elti mig svo þegar ég fór og sá litli skottaðist á eftir.

Hún dreif sig í bað í drullupollinum sem vatnabuffalóarnir baða sig í og rölti síðan að skrifstofunni.  Þar fór hún yfir ræsið eins og venjulega en sá litli átti ekki breik í það enda um 50 cm breitt.  Nú ég tók bara undir hann og vippaði honum yfir en við það skrækti hann smá og þá tóku mamman og amman, Saucage, þvílíkan kipp og ætluðu að fara að verja hann.  Þetta slapp nú allt til.  Julie, aðalkonan á svæðinu, sagði mér að mesta hættan fyrir svona grísling hérna hjá okkur væri af pabbanum, pabbarnir dræpu gríslingana mjög oft og líklega hefði hann náð í einhverja úr þessu goti fyrst aðeins einn væri sjáanlegur.  Þetta eru villisvín og eru einn eða tveir hérna svona gaurar sem eru algeggjaðir og rjúka í mann.  Hef ekki lent í því frekar en honum Tank, vatnabuffaló.

Kom heim úr hugleiðslu upp í hofi í gærkvöldi.  Orðið ansi dimmt og þegar ég var að fara yfir ræsið hjá okkur heyri ég eitthvað hljóð.  Ég fer eitthvað að tékka á þessu og finn þessa líka fínu skjaldböku, sennilega svona 15 til 20 cm langa.  Hún var augljóslega í skítamálum því ekki komst hún upp og áfram var bara stífla og ekki átti hún séns á að snúa við.  Tók hana því upp og labbaði með út að pollinum fína.  Pollurinn fíni er reyndar alveg skærgrænn á litinn og virkar þykkur að sjá og eiginlega frekar eins og geymslustaður fyrir geislavirkan úrgang.

Bakan tekur ansi góðan sprett svona í lausu lofti og ég var bara skíthræddur um að missa hana.  Hún vigtaði bara slatta og fór öll á fleygiferð þegar hún lét svona.  Um leið og ég setti hana á bakkann rauk hún niður hann og út í vatnið.  Eftir á hugsaði ég:  Djö… ég vona að þetta hafi verið vatnaskjaldbaka.

Myndirnar tala sínu máli.  Vatnabuffalóinn sem er þarna með rassinn í okkur er að ég held Tank, ég nennti ekki að hlaupa fram úr honum og fá hann þá jafnvel á eftir mér.  Hann ræðst á kýrnar í hópnum og bara hvað sem er.

Leave a comment