Að fara í svona útilegu sem sjálfboðaliði er afskaplega langt frá því að vera einhver lúxus, tja allavega hérna í Wat Pha Luang Ta Bua. Maður býr jú frítt og borðar frítt en lengra verður það nú varla teygt. Við erum í samkeppni við Buddah munka um að búa sem frumstæðast held ég. Þeir skíttapa þar sem þeir eru með plasma og huggó hjá sér meðan brauðristin okkar er ónýt og sturturnar okkar strákanna eru allar ískaldar. Hressandi… vissulega en skítkalt engu að síður.
Munkarnir borða bara einu sinni á dag. Þeir byrja daginn eldsnemma á því að fara á röltið og þiggja í matinn frá nágrönnum sínum. Ég hef séð þá á röltinu fyrir sex þannig að þeir eru nokkuð snemma í því. Við byrjum hins vegar klukkan sjö á því að fara og heilsa upp á þá yngstu og næst yngstu. Við löbbum svo með hópinn, 6 stykki, frá Tiger Island yfir í hofið. Þar fara þeir upp á gólf og fá þeir yngstu að hlaupa um en hinir eru tjóðraðir við súlurnar. Þá mæta túristarnir sem hafa keypt sig inn í Morning program. Þeir fá að leika við ungana og svona aðeins við þá eldri en síðan er það abbotinn sem hefur upp raust sína. Þegar hann er búinn með sitt byrjar partíið.
Þá er rokið í matinn. Búið er að taka það sem hafðist úr röltinu og raða upp á langborð. Fyrst eru það túristarnir en svo eru það bara slagsmál. Thai staffið er með þetta alveg þaul skipulagt meðan við hin erum meira svona á kurteysari nótunum. Þarna er samt eins gott að standa sig því þetta er morgun, hádegis og kvöldmaturinn… Í alvöru sko! Ég hef ekkert verið að ná mér í fyrir aðrar máltíðir dagsins en þessa. Reyni bara að borða vel og svo á ég bara brauð og Nutella, núðlusúpur og eitthvað af nammi fyrir utan auðvitað kaffi. Gáfulegt já svona rétt fyrir Ironman æfingastuðið sem maður er að detta í. Það er langt síðan ég hef verið eins léttur og ég er núna.
Ég veit ekkert hvað ég er að borða og vil helst ekkert vita það. Kjúllinn er bara saxaður með stóru saxi þannig að maður er soldið að pilla beinin út úr sér en svo er eitthvað í þessu sem er með ansi andstyggilega áferð, sumt er alveg ævintýralega sterkt og svo er sumt sem er bara viðbjóður. Mér hefur samt tekist að borða mig sæmilega saddann þarna með því að fá mér bara vel af hrísgrjónum í hverri skóflu því þá finn ég síður áferðina og bragðið svona aðeins dofnar.
Við höfum verið að fara þetta svona tvisvar í viku á markað hérna í grennd og hefur það bjargað mér frá því að léttast enn meira. Þar fær maður allavega girnilegan mat, aðallega kjúlla, á smápening. Svo er það að sjálfsögðu Kanchanaburi einu sinni í viku, tvö kvöld, og þá fær maður sér nú vel að borða á nætur markaðnum. Þar borðar maður nægju sína fyrir max 100 baht sem gera 400 krónur. Þetta er með gosi og einhverri girnilegri köku í eftirrétt.
Ætlaði að segja frá hvað ég væri búinn að Búddah upp hjá mér herbergið en kortalesarinn fyrir myndavélakortið er Fubar þannig að þá er smá stopp á myndum. Fæ mér nú annan hið fyrsta.
Smelli með bunka af myndum sem mér hefur vonandi tekist að skíra gáfulegum nöfnum en svo setti ég Caption texta með þeim öllum held ég. Annars held ég nú að þetta séu flestar myndir bara fyrir mig. Þó er nú væntanlega gaman að sjá munkana við það að fara að borða eða bara í aðgerð.












































