Somporn, leigubílstjórinn knái kom mér á endanum á hótelið dularfulla. Merkilegt hvað fáir könnuðust við Lúxus hótelið. Jæja hvað um það. Ég er alveg dauður úr þreytu en get illa sofnað, kaffi drykkja og taugarnar í einhverju rugli. Stressaður fyrir framhaldinu og svona eitthvað.
Vaki fram á morgun og þá er kominn gamlársdagur, held ég. Nú ég fer mjög seint á fætur og kíki út í sjö/ellefu. Þar næ ég mér í eitthvað að borða en samt… þegar maður kemur inn í svona allt annað umhverfi þá veit maður ekkert hvað maður á að kaupa. Ég keypti mér eitthvað sem ég vissi að ég gæti treyst á, kók, Snickers, prótein drykki og snakk. Prótein drykkirnir voru reyndar díselolía og terpentína en þeir lúkkuð vel. Ég henti þeim.
Matsölustaðurinn nokkra metra frá hótelinu er afar girnilegur að sjá Fer inn og þar er aldeilis stuðið. Evrópsk hjón í eldri kantinum að spá í úrvalið og svo ansi sprækur kall á míkrafóninum. Rudda Roland fyrir aftan hann en enginn við það. Þó heyrist í flottum trommum og fjörugt undirspil. Mögulega leikið af bandi, hvað veit ég. Þegar kallinn fór í pásu tók systir hans við og gerði stormandi lukku og síðan kom dóttir þeirra og bætti um betur. Frábært kvöld og ég dríf mig saddur á sál og líkama upp á hótel aftur.
Nýarsdagur, er gamlárs bara búið?, og ég hunskast á fætur rétt eftir hádegi. Rölti út í Big C, sem er svona búð með fullt af búðum, þar sem til stendur að kaupa það sem ég veit að vantar. Splæsi mér í tölvu, bænaföt,eitthvað meira nauðsynlegt dót og sleppti fullt af dóti sem hefði verið gott að hafa. Lenóvó tölvan góða hætti allt í einu að taka straum og var því ekkert annað að gera en að splæsa í nýja. Þessi nýja kostaði 48þús kall og sé ég ekki eftir þeim peningum.
Burðarpokarnir hérna eru pínulitlir og þó svo ég væri ekki með neinn helling fór það í slatta af pokum.
Ætlaði að grípa mér taxa upp á hótel enda einhverjir 3 km þangað. Nei kallinn minn, hér eru engir taxar! Frábært, ég spyr strák hvort einhver ráð séu þar sem ég nenni bara ekki að rölta með alla þessa poka, alla þessa leið. Hann kippir mér með út á bílastæði þar sem gaur á Hondu vespu er í grænu vesti merkt Taxi. Humm ég er með haug af pokum og hann á 125 cc vespu. Akkúrat. Hann tekur nokkra poka og raðar þeim á hjólið en restinni held ég á. Saman brennum við svo eins og Lukku Láki og Léttfeti í átt að sólsetrinu.
Ákvað að vera ekkert að taka einhverja áhættu og fór aftur á matsölustaðinn fína. Þar var aldeilis búið að blása til sóknar í tónlistinni. Heill salur var nú undirlagður í karókí og var alveg haugur ef brosandi Thailendingum þar í hörku fíling. Ég fór bara inn í standardinn og graðgaði þar í mig þessu líka fína Massaman. Fjölskyldan músikalska, hvaða orð er þetta?, var enn við völd á míkrafóninum og brostu þau öll sínu blíðasta þegar þau sáu mig. Sennilega áttað sig á að þau voru á barmi alþjóðlegrar frægðar.
Luxury hotel er ekkert rosalega mikið Luxury. Rúmið er alveg gler hart. Húsgögnin eru að detta í sundur, eitt er reyndar dottið í sundur. Kaffið er bara nokkuð andstyggilegt instant sem ég sæki mér fram í litla bolla. 113 ég veit. Merkilegt er allt ruslið út um allt. Menn opna umbúðir, taka innihaldið úr og henda þeim bara frá sér. Svona er þetta um allt. Stór undarlegt þykir mér.
Valdi bróðir hefur nú verið að slá um sig með glæsilegum dollum í henni Ameríku. Þá er ég auðvitað að meina dollunum sem þú notar í tafli við páfann. Hérna eru nokkrar myndir af dollunni í Luxury hotel og svo þrjár með sem sýna glæsilegar innréttingarnar. Hún er ansi skemmtileg þessi sprauta við hliðina á klósettinu. Dúndur kraftur í henni og þræl gaman að sprauta á maurana meðan maður sinnti öðrum verkum. Ótrúlega skemmtilegt að hafa baðgólfið svona 10 cm neðar gólfinu í herberginu. Ég datt næstum niður og rak lappirnar í á ferðum mínum þarna svefnvana og ruglaður.






Gaman að geta fylgst með þér og lesa frá þér. Þetta er dásamlegt.