Jæja þá er ég lentur í Bangkok og er kominn á rútustöðina. Ég er allavega á rútustöð og ekki er það BSÍ. Þessi rútustöð lítur jafnvel verr út en BSÍ og mögulega verr en Reykjavíkurflugvöllur. Ég átti að fara á Suður Terminal eitthvað en þetta er nú soldið eins og þetta sé að fara úr notkun. Hér var einu sinni heilmikill bisness en ekki lengur. Nú eru flest verslunarrými bara tóm. Það eru þó nokkrir mat eitthvað starfandi. Staðir sem geta kannski afgreitt tíu manns og þá er allt hráefni búið. Þeir virðast flestir vera með það sama en þó er einhver smá munur á sýnist mér.
Uppselt er í rútuna til Kachanaburi og þá næstu og þá næstu. Ég kaupi því miða í þá á eftir þeim. Annað á reyndar eftir að koma í ljós.
Nú rútan á að fara 12:50 þannig að ég hef rúma þrjá tíma til að gera eitthvað spennandi eins og t.d. að hlaða símann minn en hann, þrátt fyrir að vera “nýr” vinnusími, dugir ekki nema í tæpa fjóra tíma nú orðið. Hafði keypt mér auka hleðslu í Amsterdam en hún er búin og mér gengur illa að finna innstungu til að stelast í.
Finn soldið fyrir því að vera svona einn. Ekkert mál að vera á þessum þvæling og öllu þessu standi en það er einhver einsemd í mér. Get ekki einu sinni hringt í einhvern vegna símaleysisins. Maður verður eitthvað blár þegar svona stendur á. Hugurinn reikar í einhverja vitleysu, ég sakna Fróða. Er að koma frá Köben. Hitti Gunna minn þar en hann hafði verið hjá mömmu sinni og systir um jólin. Gengum Strikið og ég fór með hann á Hvids vinstue. Ánægjulegur dagur fannst mér. Gistum svo á fínu hóteli á Istegade 6. Mæli svo sem ekkert með því en ég væri alveg vís með að gista þar aftur ef þarf.
Ein af litlu búðunum hérna selur aldeilis frábært kaffi. Tvöfaldur Espresso á 35 baht sem eru um 140 krónur. Aldeilis fínt. Skúringakona bjargaði mér um kló og nú eru bæði sími og aukarafhlaðan í hleðslu. Snilld.
Jæja áfram með smjörið. Þarf að koma mér til Kachanaburi fyrir kvöldið. Ætla að reyna að nota morgundaginn, 30 des, til að kynna mér aðstæður og vonandi hlaupa eitthvað smá. Mikið djöfull er ég orðinn þreyttur. Hef ekki sofið í marga daga finnst mér. Verið soldið stressaður heima og svo bara já…. Núna er ég búinn að vera á ferðinni frá því sjö í morgun og klukkan orðin tvö að nóttu. Flugið hingað frá Amsterdam var djöfull stíft, þröng sæti og bara erfitt.
Jæja ég með allt mitt á hreinu. Hafði verið með allt útprentað, leiðina á hótelið og nafnið á bænum. Allt á ensku og Thailensku. Rútan kemur og rútan fer með mig innanborðs. Keyrum og keyrum á hörðum, holóttum vegum. Stoppað til að éta og pissa, allt til að tefja finnst mér. Nú við keyrum og þegar við erum búin að vera tæplega fjóra tíma á ferðinni líst mér ekkert á þetta lengur og spyr driverinn AFTUR hvort við séum ekki örugglega á leiðinni til Kachanaburi… Nei nei við erum á leiðinni til Chanburi og það er sko í allt aðra átt. Ég fékk smá sjokk en samt held ég bar aað ég hafi verið of þreyttur til að fá eitthvað verra en það. mér er bent á hvað ég þarf að gera og það er bara að fara á leiðarenda og taka rútu til baka. Já veiiii.
Næsta rútustöð, þessi talsvert skárri en sú fyrri. Ekkert nema góðar fréttir. Rútan til baka kemur eftir næstum tvo tíma! Meira jibbííí. Samkvæmt áætlun á hún að vera 17:30 en það er þegar orðin korters seinkun. Jæja… Nú klukkan eitthvað ferlega mikið er okkur sagt að fara aftur á pall á litlum pickup. Við erum sjö sem troðum okkur aftur á pallinn með farangri og öllu. Belti eru fyrir aumingja, þak, veltigrind nú eða hurð eru bara til skrauts. Keyrum í soldinn tíma að sögn til að fara til móts við rútuna sem er strand vegna umferðar.
Á leiðinni til Bangkok um borð í rútunni fínu og ég þarf að pissa. Veit ekki hvað er mikið eftir en mér líst ekki baun á þetta. Korteri seinna afræð ég að tala við driverinn og segja honum að ég þurfi á tojlettið. Hann veifar mér burtu, held að hann hafi ekki skilið svona vandað mál. Það er munkur í fremsta sætinu sem spyr mig hvað sé málið, hvort ég sé svangur. Ég neita og hann bara brosir. Nokkuð seinna og ég bara get ekki haldið lengur í mér. Fer fram og segi við munkinn að hann verði að koma herra bílstjóra í skilning um að ég verði að pissa, Stop…. piss segi ég. Hann skilur ekki rass fyrr en ég slæ um með leik. Hann brosir og bendir mér á klósettið aftur í bílnum. Ég var búinn að tékka, ég sver það.
Jæja loksins í Bangkok aftur. Klukkan orðin miðnætti og ég alveg ónýtur á því. Til mín kemur hressleikinn sjálfur og bendir mér á að engar rútur séu fyrr en í fyrramálið og ég geti því annað hvort tekið taxa á hótel eða taxa þangað sem ég er að fara. Ég segi honum hvert það sé og hann segir mér að það séu 170 km og það kosti mig 2000 baht (8000 kall). Ég reyni að prútta en ekkert gengur. Tek bílinn, nenni ekki meiru. Ég labba með hressleikanum og hann fer með mig eitthvað bakvið hús. Þar er alveg dásamlega skuggalegt lið með opinn eld í tunnu og voða glæpó eitthvað. Hressleikinn segir mér að ef ég vilji geti ég alveg farið bara á hótel og fengið mér konu. Ég hélt hann væri að grínast er svo var bara alls ekki, honum var fyllsta alvara. Hann talaði um að ég gæti fundið mér konu til að giftast, þær vildu svona vestræna menn eins og mig. Ég þakkaði gott boð en sagðist vilja halda áfram.
Leigubílstjórinn sem ég fékk talaði enga ensku og vissi varla hvert við vorum að fara. Þetta bjargaðist þó allt og ég kom á hótelið alveg fáránlega seint í nótt hafandi verið á ferðalagi í næstum 40 tíma. Þó þetta hafi verið ótrúlega erfitt var þetta soldið ævintýri og verður örugglega gaman að rifja þetta upp síðar.
Hérna eru rafmagnsstaurar og dæmigerðar byggingar í Kanchanaburi. Eins og sést er þetta ekki mjög glamorous. Ljósastaurarnir milli akreina eru aftur á móti ansi flottir.
Þessar fjórar eru af herberginu mínu á Luxury hotel. Þarna kostuðu þrjár nætur 2400 baht eða 9600 krónur. Á miðvikudaginn er fyrsti frídagurinn minn og þá gisti ég á einhverju gisti þar sem nóttin kostar 250 baht eða 1000 kall. Þar er sundlaug, góður morgunmatur og frábær rúm.
Nú þessi fyrsta er af kónginum sjálfum. Thailendingar eru álíka hrifnir af honum og Íslendingar af ÓRG.




Nú svo er það BSÍ. Þetta er ekki jafn æðislegt á myndum og í alvöru. Ég náði engan vegin að taka myndir af niðurníðslunni og óstuðinu þarna, kannski vegna þess hversu ánægður ég var með þetta allt saman.









