Boston, Las Vegas, Thailand og Ironman

Posted: 30 December, 2014 in Uncategorized
Tags:

Boston búið, ekki góður árangur.  Var þreyttur í startinu og vissi að ég mundi ekki ná þriggja tíma markmiðinu.  Undirbúningur hafði ekki verið sem skildi, ég sleppti allt of mörgum dýrum, löngum laugardagsæfingum og stóð mig bara ekki nógu vel.

Þá var það Vegas.  Eftir ég veit ekki hvað en allavega ekki æfingar tók ég Parísar plan Þorláks og setti í gang.  Stór hluti tekinn á bretti.  mér fellur það vel, finnst rosa gaman á brettinu og það býður líka upp á að æfa með hlaupara á öðru plani en maður sjálfur er.  Nú ég æfði andskoti vel og var mjög samviskusamur.  Lenti þó í því að, ótrúlegt en satt, siggið undir iljunum stoppaði mig.  Ég hafði alltaf haldið að sigg væri bara af hinu góða.  Ekki aldeilis kallinn minn.  þegar verst lét var bara eins og ég væri með skóna fulla af grjóti og eftir æfingar fékk ég risa blöðrur.

Hlín tók mig í gjörgæslu með lappirnar og eftir allt of langa æfingapásu gat ég sett allt á fullt aftur.  Veit ekki hvort þetta skipti máli en mér leið alveg geggjað, fann að allt væri að gera sig.

Las Vegas er undarleg borg, mjög undarleg.  Spáin hafði verið þetta rétt undir 20 gráðunum og hlakkaði ég til en þegar við fórum út rétt fyrir hádegi á hlaupadag var dottið niður í fjögur hitastig… Ískalt alveg og blástur.  Shitt, hvað gerir maður nú.  Hlýrabolur og stuttbuxur með og ekkert annað.  Nú ég kaupi mér einhverja bómullardruslu í minjagripabúllu til að vera í meðan beðið er eftir startinu en svo ætlaði ég að hlaupa í stuttermabol.  Þetta fúnkeraði bara fínt.

Ekki alveg sáttur við hólfin í startinu.  Hálfu og heilu er startað saman og var ansi mikið af skemmtiskokkurum í fremsta hólfinu.  Soldið sikk sakk í startinu en það var svo sem bara gaman.  Fann að ég var til í allt og hugsaði aðallega um að halda mig innan skekkjumarka á úrinu, þau voru 4:05 -4:20.  Það komu svo sem kaflar sem ég þurfti að slá af en annars var þetta frekar barátta við vindinn fannst mér.  Gaman að hlaupa fram hjá Elvis Presley Chapel, Drive through kapellu og alls konar undarlegu fólki.

Tók þetta bara á baráttunni og hélt ég væri á tíma en eitthvað klikkaði þar hjá mér því ég lenti á 3:01.  Þess má geta að merkingarnar voru helvíti lélegar hjá þeim þannig að maður gat ekki Pace-að sig manualt heldur neyddist ég til að treysta á úrið og það er mjög óáræðanlegt.

Ekkert af þessu tekur þó frá þann hluta hlaupsins að ná öðru sæti aldursins og 24 sæti Overall, það voru 3400 hlauparar.  Helvíti gaman að vera á fyrstu síðu í úrslitunum.  Las Vegas maraþon fer því á ofarlega á listann yfir skemmtilega hluti sem ég hef dúllað mér við.

Næst er það Thailand.  Ég sit við tölvuna í 12 tíma flugi til Bangkok núna og skrifa þetta.  Þar ætla ég að vera næstu 40 dagana við umhirðu tígrisdýra.  Eitthvað klappa ég fílum, björnum og vatnabuffalóum en um kvöldmatarleitið er það svo hugleiðsla með Buddah munkunum.  Ég veit ekki hvernig verður að æfa eitthvað þarna, mér skilst að það sé talsvert af slöngum og sporðdrekum í skóginum og það er afar óhressandi að láta þau kvikyndi narta í sig.

Hvernig sem það fer þá verður allt sett á fullt þegar ég kem heim í byrjun febrúar.  Ég er skráður í Ironman Barcelona sem er haldinn 4. október.  Mig langar soldið að reyna að æfa meira á morgnana en ég hef gert og fara frekar fyrr að sofa.  Er þetta aldurinn eða hvað?  Ég held að þetta sé hið besta mál, mér hættir alltaf til að vaka of lengi og ég ætla að passa soldið upp á hvíldina núna.

Besti Ironman tími minn er 10:55 og langar mig að bæta mig einhvern smá slatta núna og segja þetta svo bara gott af Ironman.  Þetta er of tímafrekt og mér finnst ég bara hafa of mikið af skemmtilegum hlutum að gera.  Mig langar í hjólaferðir til útlanda og heima, eitthvað ekki á tíma eða æfingaleveli heldur bara til að njóta.  Aftur…. er þetta aldurinn?  Ég meina… hjólið er frábært, ég hef hjólað út um allt einn og í góðum félagsskap en endalausar ferðir inn á Þingvelli, yfir Mosfellsheiði, vond pulsa og svo til baka yfir sömu heiðina…. Well ég veit ekki hvort það togi svo fast lengur.

Mér finnast hlaupin alveg æðisleg og frábært að hjóla en mig langar að leika mér meira á hjólinu og keppa minna eða ekkert.  Sundið er frábært í sjónum en mér hefur ekki tekist að smitast af sundáhuganum í lauginni.  Ég viðurkenni að það er gaman að geta synt af einhverju viti en tíminn sem fer í að verða góður sundmaður er bara tími sem ég hef ekki.

Fróði minn fór í pössun fram að Ironman, ég sé ekki að ég hafi tíma fyrir hann og get ekki hugsað mér að hafa hann illa hirtan og leiðan greyið.  Hundur eins og hann þarf athygli og hreyfingu.  Ég gat boðið upp á félagsskap en fátt annað.  Hann er búinn að vera í vist núna í mánuð og ég sakna hans hræðilega.  Það er frábær nærvera af svona dýri og skilur það eftir sig mjög stórt tómarúm þegar það fer.

Allavega… það er Thailand, tígrisdýrin, klaustur og Buddah munkar núna.  Kannski dettur í mig einhver ægilegur æfingaandi þegar ég kem heim eða kannski fer ég bara á tvöfaldan snúning í fjósinu.  Nú svo er það auðvitað skólinn sem ég byrja í að hluta núna á vorönn en fer svo á fulla ferð í haust.  Það verður frábært að fara að læra aftur og í þetta sinn eitthvað sem ég hef verulegan áhuga á.

761492-1007-0045s - Copy 761551-1332-0027s - Copy 761563-1075-0013s - Copy  761551-1332-0024s - Copy

En nú er það Thailand og tígrisdýrin næstu vikurnar.  Ætla að taka eitthvað af myndum og skrifa um það sem mér þykir áhugavert í þessu merkilega landi.

Leave a comment