Eitthvað undarlegur þessa dagana. Mæðist alveg djöfullega og finnst ég bara ekkert súrefni fá. Mikil átök á hjólinu og ég er bara í tómu tjóni, meira að segja lyftingar eru ekki sem bestar þar sem mig allt að því svimar eftir þungar lyftur. Svipað ástand og var á mér eftir Florida sem svo bara hvarf einn daginn. Hef þó hvílt ágætlega á mér lappirnar en tekið mjög vel á lóðunum.
Veit ekki, er þetta ofþjálfun? Skil samt ekki hvernig það mætti vera. Hef ekki verið í neinu rugli eftir París, tek kannski æfingar í meðallagi langar en passa ákefðina vel. Samt… ég sef illa á virkum dögum en get sofið lengi ef ég fæ tækifæri til. Losna ekki við hor og viðbjóð úr öndunarveginum og eins og ég sagði er öndunin alveg ferleg. Sándar eins og ofþjálfun en ég bara veit ekki hvernig hún ætti að vera til komin.
En nóg af væli! Ég hef bætt mig verulega í lóðunum, þó svo að bekkurinn sé ekkert markmið hjá mér er hann nú einu sinni bekkurinn. Repsaði 80×8 um daginn og fannst bara fínt og svipaða sögu er að segja um flest annað. Hef þó hlýft fótunum við þyngdum en er í 70 prósentunum og þá aðeins oftar. Það sem ég hef hjólað hefur verið fínt. Blússandi kraftur í fótunum og fílingurinn góður. Ef ekki væri fyrir helvítis súrefnisskortinn væri þetta alveg dúndur allt.
Er að synda hjá Þríkó þessa dagana. Þjálfarinn svona ljómandi, er þetta kannski bara málið með alla sundþjálfara? Vadim, Gylfi og nú Kalli. Frábærir allir saman. Mæti tvisvar í viku og er bara, svei mér þá, að öðlast smá sjálfstraust.
Hef verið að spá að hvíla nokkuð vel eftir sumarið. Allt of mikið að angra mig líkamlega og ég held bara að þriggja mánaða Yoga og huggulegheit væru af hinu góða. Mögulega gæti eitthvað hressandi haustmaraþon í október þó seinkað þessum plönum eitthvað en ég sé til. Veskið verður líka að fá að hafa eitthvað að segja um þetta og það er með eitthvað djöfulls væl þessa dagana 🙂