Jæja já. Þorlákur lagði fyrir okkur próf. Kalt mat á maraþonhraða á að ráða æfingahraða dagsins. Ég er ákveðinn í að vera þetta á rétt undir þremur tímum og hann spurði hvort ég héldi að ég gæti það. Ég svaraði honum því að ég gæti allt! Við það stóð og prófið var tekið á þeim forsendum. Ég stóðst prófið eins og ég bjóst við.
Hef verið með ansi auman og harðan hægri lærvöðva, það auman að ég hef fengið talsverða verki við niðurstig. Sleppti Powerade hlaupinu á fimmtudaginn og vonaðist til að jafna mig. Ég náði því ekki og hafði smá áhyggjur þegar ég byrjaði í morgun. Var eiginlega bara fjandi aumur og var mikið að spá hvort ég ætti að slaufa æfingunni. Hitaði alveg sæmilega gáfulega upp, rólegt með talsverðum hraða inn á milli en samt þessi árans verkur. Fokk ég tek sjénsinn. Veit ekki hvenær ég hætti að finna til en það gerðist allavega einhvern tímann á leiðinni.
Nú eftir æfinguna skaust ég í Kópavoginn fyrir Valda bróðir og dreif mig svo niður í Jakaból til að horfa á hann þríbæta Íslandsmetið í bekkpressu. Strákurinn endaði í 245 kílóum í flottri lyftu. Verður ansi gaman að sjá hann á Power mótinu sem verður eftir fimm vikur.
Sundæfing hjá Gylfa seinna en venjulega fyrir mig þar sem mig langaði að sjá Valda keppa. Fullt af fótaæfingum og óvenju mikið sund hjá honum í dag. Ég er nokkuð sannfærður um að það er þeim að þakka að ég er í ótrúlega góðu standi núna. Mér finnst ég hafa tekið fínum framförum í sundinu hjá Gylfa en auðvitað þyrfti ég að æfa þetta af einhverju gagni. Málið er að ég bara nenni ekki að vera að vakna fyrir sex á morgnana til að fara í sund.
Næsta vika er svona la la með nokkuð þungan laugardag en svo er það bara alvöru Tapering.
Ég hlakka mikið til þessa hlaups. Er nokkuð viss um að markmiðið náist en vona að ég átti mig nógu snemma ef það stefnir í að það geri það ekki þannig að ég geti dottið niður á 4:30 og klárað hlaupið á 3:10.
Hef velt framhaldinu nokkuð fyrir mér. Sé fyrir mér að taka viku í góða hvíld með sundi og yoga en svo dúndra ég mér í gang á hjólinu. Fíni trainerinn hefur fengið að standa nokkuð óhreifður þar sem áherslan hefur verið nokkuð ákveðin á hlaupin undanfarið. Held að hann verði tekinn í gott brúk, hafi Sneiðina á honum og skrattist um á Racernum. Svekkjandi að hafa sennilega ekki efni á hjólinu sem mig langaði í en það er bara fínt að æfa á þungu hjóli. Ég verð þá bara að leggja aðeins meira á mig til að hanga í liðinu sem ég æfi með. Það er auðvitað bara frábært.
Hjól með Vigni og vonandi Oddi í fyrramálið þannig að það gæti verið skynsamlegt að fara að sofa.