Tveir og tveir þriðju

Posted: 16 November, 2012 in Keppnir

Florida, Florida og smá Sandy.  Oddur skutlaði okkur Hrefnu út á flugvöll seinnipartinn á sunnudegi.  Dásamlegt alveg og ferðin byrjar vel.  Lendum í Washington og náum skutlu þaðan.  Só far só gúd, jebb.  Í Baltimore sjáum við bara og heyrum að það sé búið að fella allt flug frá Baltimore næsta dag niður!  Við tekur þriggja daga dásemd á flugvallarhóteli.  Hvorugt okkar með föt til að skunda um í 10 stiga hita og rigningu.  Það sem verra var að það var ekkert að hafa að borða í grenndinni og sló þetta soldið taktinn hjá okkur.  Hammarar og franskar eða eitthvað í þeim fíling varð soldið ráðandi.  Nú við komumst til Panama City Beach rétt tímanlega til að byrja partýið.  Skráning, setja saman hjól, smá expo og allt þetta sem fylgir.

Gistum á keppnishótelinu og Boy var það keppnis.  Sundið startaði í fjörunni fyrir neðan, T1 og T2 voru inn á hótelinu og markið beint fyrir framan.  Þetta var eins kúl og þú færð það.  113 hérna!  Keppnishótel og það var engin leið að fá neitt gáfulegt að borða þarna.  Föstudagsmorgun og það er ekki einu sinni hægt að fá morgunmat.  Jahérna.  Ég ætlaði hvort eð er ekkert að vera í fitun.

Nú þetta var svona eitthvað út og suður hjá okkur, gerðum lítið enda stóð aldrei til að vera í einhverjum túrisma.  Bara hlýtt og gott en þó alltaf einhver leiðinda gustur á þessu öllu.  Okkur sagt að leifarnar af Sandy séu að ganga yfir.  Hvað veit ég um það?  Sjórinn er hrikalega úfinn alla daga en ég hugsa til félaga minna frá síðasta ári þegar allt varð spegilslétt nóttina fyrir keppni.  Svona verður þetta hjá mér.

Já akkúrat.  Bullandi sjór, mikil alda og stuð í fjörunni.  Í einhverri heimsku trúði ég því að með því að vera aftarlega mundi ég jafnvel græða lygnari sjó en það var auðvitað ekki.  Hefði bara átt að fylgja plani, fara vel til hægri og vera framarlega.  Ansi erfitt að rata nokkuð í sjónum svona.  Maður er svo neðarlega að þegar aldan er fyrir framan mann sér maður ekki neitt.  Fann svo þegar ég kom að ströndinni til að hlaupa yfir í seinna ger að var ég óstöðugur.  Sá að ég var á 40 mínútum og langaði að reyna að bæta aðeins í.  Mér tókst það nú aldeilis já.  Bætti við fimm mínútum á seinni hring.  Kannski ekki alveg það sem mig langaði en ég var svo sem ekkert mjög skýr þegar ég var að óska mér bætingar.

Nú ég gusast upp úr sjónum, rusla gallanum niður og á bakið.  Flysjararnir drógu af mér gallann á undratíma og ég inn í T1.  Var óstöðugur en fannst ég annars bara góður.  Fór í skóna inni og hljóp af stað, botna ekkert í mér að gera það og fór fljótlega úr þeim enda stéttin hál og skórnir ekki með neinu gúmmí til að gera þá stama.  Þurfti að bíða aðeins eftir sturtunni þegar ég kom úr sjónum en fannst ég að öðru leiti ekki lengi í skiptingu og hef því ekki betri skýringu á tímanum.

Flýg af stað á hjólinu.  Frábært malbik og man ég að ég hugsaði hvílík forréttindi það væru að fá að hjóla á svona.  Var með Powerade á Aero brúsanum og Magnesíum og C-vítamín blöndu á öðrum brúsanum aftan á.  Ég hafði spurt á Expo-inu um hvernig gel við fengjum og var sagt eitthvað dásemdar ávaxta GU.  Það átti eftir að breytast því Peanut butter var aðallega í boði.  Mér, ansi flökurt eftir sjóinn, gekk illa að koma þessu niður og ekki var Perform drykkurinn betri.  Sennilega hefur þetta verið ágætis stöff en maginn var eitthvað ósáttur við þetta.  Hef sennilega komið 6 gelum niður og rétt rúmum lítra af drykk.  Það er bara ekki nóg á svona langri og erfiðri hjólaferð í 35 stiga hita.

Ég fann alveg hvernig ég fjaraði út en gat andskotann ekkert gert í því.  Þegar ég kom að drykkjarstöðvum og fékk mér gel og setti það í skálmina var ég bara að bæta í hauginn.  Þarna vantaði mig eitthvað, kannski hefði einhverju breytt að hafa High5 gelin sem mér þykja svo góð en ég efast um það.  Held samt að ég verði gera ráðstafanir fyrir næsta Kall.

Kom inn á T2 á sæmilegu gasi.  Var ekkert hress en samt viss um að ég gæti hlaupið og það jafnvel sæmilega.  Var alveg með það á hreinu að 3:30 yrðu ekki mál.  Annað átti eftir að koma í ljós.  Ég hafði því miður valið mér Racer-a til að hlaupa á.  Slæmur díll þegar maður er kraftlaus.  Komst ekkert upp á fótinn og gat ekki rass.  Reyndi að bumba í mig hressleika en gekk ekkert.  Fín hlaupaleið, fjölbreytt og hressileg og því var tíminn fljótur að líða og fannst mér þetta merkilega skemmtilegt hlaup.

Kem í mark og heyri setninguna frábæru: Einar Valdimarsson of Iceland you are an Ironman.  Frábært alveg.  Hafði tekið vel á síðustu tvær mílurnar og meira að segja það vel að ég hafði áhyggjur af því að ég mundi ekki ráða við að klára á því gasi sém ég var  Á móti mér, í markinu, tók alveg frábær kall, setti á mig húfu, vafði mig í álteppi og beindi mér til konu sem smellti á mig medalíu.  Sagði mér að knúsa hana og svo héldum við áfram.  Splæst í mynd og svo bara allt í lagi bless.  Keppnin búin en ég ekki alveg sáttur.  Eða hvað?

Eftir á er ég bara ekkert ósáttur.  Ég synti bara alveg ágætlega miðað við aðstæður.  hjólaði alveg la la en hlaupið er bara skiljanlegt og í raun seinni hluti hjólsins líka.  Daginn eftir er ég varla þreyttur enda langt undir getu megnið af leiðinni.  Ég held ég dragi þann lærdóm helstan að ég verði að vera með neysluna meira á hreinu.  Það er alveg ferlegt að vera stökk með gel sem ég kem ekki niður og orkudrykk sem er ógóður.  Orkudrykknum breyti ég ekki en gelið er ekkert mál að hafa á hreinu.  Súkkulaðistykki á hjólinu hefði mögulega gert eitthvað fyrir mig en ég er ekki viss.

Allt í allt er ég bara sáttur með sjálfan mig eftir þetta.  Bæting er alltaf bæting og skrokkurinn svona urrandi fínn.

Held bara að ég splæsi í myndirnar úr keppninni.

Leave a comment