Þar sem þetta var svo sem ekki í fyrsta skiptið sem lærið (hamstring) hefur hrekkt mig svona eins og í Roth ákvað ég að reyna að taka þetta soldið föstum tökum. Snæfellsneskeppnin hafði verið alveg hreint ljómandi slæm og hefði átt að vara mig við en eins og oft áður heyri ég bara ekki þegar skrokkurinn er að kvarta.
Nú Mæja okkar Odds bauðst til að tala við hann Magna og athuga með að koma mér að í Kíró. Ég þáði það að sjálfsögðu enda engu að tapa. Mætti á stofuna og var myndaður hátt og lágt og síðan var bara djöflast soldið á því sem þurfa þótti. Til að byrja með voru þvílík læti í mér, brak og brestir, en núna er þetta allt að verða nokkuð settlegt. Ég var ansi efins á þetta en ég held bara að þetta sé að gera sig. Hef verið heiðarlegur við mig og Magna þ.e. engin meðvirkni á þetta. Hann óhress ef illa hefur gengið og þá breytt til.
Vegna stöðunnar, á leið til Florida og svona, ákvað ég að fá nokkra tíma hjá Ólöfu íþróttanuddara og Gúkku sem kom Viðari Braga í gang eftir hans stopp. Þetta allt hefur verið alveg full dagskrá liggur mér við að segja. Hef aðeins lyft en finnst ég þó ekkert hafa æft í langan tíma. Hef tekið einhver styttri hlaup á flottu tempói og aðeins hjólað en samt ekki mikið og alls ekki það sem ég mundi vilja vera að gera núna.
Góðu fréttirnar fyrir mig eru þó þær að lappirnar eru bara allar að gera sig. Hljóp í fyrrakvöld á bretti niðrí Laugum. Var búinn að ákveða að hlaupa hratt en ekkert mjög langt. Hitaði upp og teygði og svona eitthvað gáfulegur já. 2km á brettinu í upphitun og svo bara stuðið í gang. Var mest á pace 3:50 en tók þó tvo kílómetra á 3:22 sem tók nú sæmilega í. Var bara með vatn en hefði þurft að vera með orku og jafnvel bara gel með mér. Beyglur og smá axlir á eftir, teygjur og rúlla og það flautar í mér af hamingju. Lappirnar bara betri en þegar ég lagði af stað.
Næsta vika er aðeins minni recovery vika en samt drjúg. Nú er bara að halda sjó í vatnsdrykkju, mataræði (muna að borða), rúllum og teygjum. Ef ég passa þetta verður gaman að æfa af mikilli ákefð fram að Florida og enn skemmtilegra að keppa þar.