Í alvöru er klukkan orðin svona margt?

Posted: 1 July, 2012 in Æfingarnar, Keppnir

Damn allt að bresta á.  Roth á þriðjudaginn og mér finnst ég varla hafa æft af neinu gagni á þessu ári.  Þetta verður áhugavert.  Þungarokksslammið í götuna um daginn hefur leikið mig soldið grátt.  Fyrir utan talsverð líkamlega krankleika er involsið í hausnum að hrekkja mig líka.  Minnið er þar verst og hefur verið að bregðast mér á slæmum stundum (sem góðum reyndar líka).

Skellti mér í Snæfellsnes hjólakeppni um daginn.  Hafði heyrt agalegar sögur af þessu og leist hreint ekkert á.  Skítamalbik og rok allan andsk… tímann.  Lét Vigni þó gabba mig í þetta sem langa æfingu, hann ætlaði auðvitað ekkert að koma sjálfur, og skráði mig.  Ég gæti trúað honum til að vera enn hlægjandi að þessu.  Heyrði í Trausta og fékk far með honum.  Helvíti langt og því ómögulegt annað en að hafa félagsskap.  Eddi hafði eitthvað verið að spá að vera með en kom ekki.  Svekk.  Vorum fjórir í opnum flokki, ég, Trausti, Sigurþór og Sissi.  Malbikið alveg í fínu lagi en djöfull blés og að sjálfsögðu framan á mann.  Endaði daginn sem sigurvegari, ekki slæmt það og eiginlega alveg þrælgaman.  Flott að borða á Vegamótum.

Sneiðin alveg prýðileg þarna á Snæfellsnesinu.  Pétur Örn nýbúinn að lækka hjá mér stýrið og kom það bara ljómandi út.  Hræddur um að ég sé innskeifur á pedulunum og laga það áður en ég keppi í Roth.  Talandi um Roth.  Ferlega skemmtilegir póstar sem við fáum orðið á hverjum degi frá keppninni um allavega skemmtilega hluti.  Einn stuðningsaðili keppninnar er sóparafyrirtæki og þeir að sjálfsögðu pússa hjólaleiðina glansandi fína.  Frábært.  Veðurspáin svona heitt eða ekki, rakt eða ekki.  Soldið eins og verið sé að spá fyrir um veður á lítilli eyju í Atlantshafi.

Þar sem flugið til Munchen hafði hækkað svo þegar ég ætlaði að kaupa það fór ég með WOW til Stuttgart.  Þaðan eru rétt rúmir 200km til Allersberg þar sem við verðum.  Partý partý í lest í 3 tíma.  Fékk reyndar lestarmiðann á slikk.  Sennilega er þetta eitthvað dásamlega vangefið sem ég hef keypt en það kemur bara í ljós.  Það er nú ekki eins og lestin frá Berlin til Auschwitz hafi verið með einhverri lúxus lest en við komumst þó bæði fram og til baka.  Gott betra en slatti gerði.

Hef verið að sulla soldið í sjónum undanfarið.  Fékk Cat3 gallann hans Gylfa lánaðann og þar munar nú talsvert skal ég nú bara segja.  Minn þessi af ódýru gerðinni, allur jafn hnausþykkur og fínn meðan Gylfa er þunnur þar sem við á og þykkari á hinum stöðunum.  Afbragð.  Hef soldið verið að spá í því sem ég ætla að hjóla og hlaupa í.  Á alveg ágætis Craft Tri-suit en það er bæði frekar þröngt yfir brjóstið og eins er bölvað vesen að fara á klóið í þessu.  Skiptir þá engu hvað skal gera þar.  Af þessum sökum er ég að hugsa um að vera í TYR buxum sem ég á, með vösum neðst á skálmunum og svo einhverjum dásamlegum bol.  Þetta held ég að sé alveg dásamlegur dúett.  Mig langar ekki að hlaupa í þröngum bol og enn síður í þröngum galla.

Þá er það Garmin.  Sama þar.  Nenni ekki að hlaupa með stóra hlunkinn.  Hann er bara óþægilegur á hendi og uppfullur af infó sem ég hef ekkert við að gera.  Mig vantar að vita hraðann og búið.  Ég hef engar áhyggjur af því að ég hjóli/hlaupi of langt.  Ég verð alveg örugglega stöðvaður þegar nóg er komið.  Fékk mér Specialized TT2 hjálminn fyrir helgi.  Sæll vertu hvað hann er rosalegur.  Ætlaði að máta í dag en stytting á böndunum vafðist eitthvað fyrir mér þegar ég var að hlaupa út svo ég tók bara standardinn.  Virkar en er ekki mjög Aero.

Vignir lánaði mér SRAM gjarðirnar sínar.  Þær líta út eins og þær hafi verið hannaðar fyrir þetta hjól.  Váá hvað það er töff.  Nokkuð þyngri en Mavic Cosmic gjarðirnar mínar en vonandi hagnast ég á dýptinni þar sem afturgjörðin er dýpri en mín og hey, ég vil hafa þetta í stíl.

Leave a comment