Kannski er það ekki langur tími miðað við allt og allt en þegar maður er í blússandi undirbúningi undir Challenge Roth þá eru 2 vikur í stopp langur tími. Þetta gerist í bót rétt eftir að Cintamani reyndi að eitra fyrir mér. Ef ég hefði étið þvottaefnið hefði ég sennilega bara drepist! Þetta var það alvarlegt, já. Þá var ég stopp í 3 vikur og svo núna í 2. Ljóta óstuðið.
Hjólaði í gær í fyrsta sinn í hálfan mánuð. Hífandi rok og ég úti á Ólafi. Hann er reyndar enn á CycloCross dekkjunum (700×33) þannig að hann rennur ljúft yfir. Skellti mér á Hólmsheiðina, Úlfarsfellið og Heiðmörkina. Hitti ekkert af fólki svona seint á sunnudegi í hávaða helvítis roki og snjókomu. Þegar ég svo kom að Ingvari Helga á leiðinni heim leist mér ekkert á mig. Alveg búinn á því og var bara ekkert viss um að ég meikaði það heim. Lét mig hafa það og tók þetta á þrjóskunni.
Fann það í gær á hjólinu að ég var ekki góður. Vantaði kraftinn og það þrátt fyrir svona langa pásu. Svo þegar ég fór að lyfta í kvöld fann ég virkilega fyrir þessu því venjulega eftir smá pásu er ég alveg að springa og ferlega sterkur en ekki í kvöld. Lyfti samt talsvert en þegar ég fór svo heim fann ég að ég var ekki svona upp pumpaður eins og venjulega eftir gott lóðarí heldur var ég bara þreyttur í þeim vöðvum sem ég hafði verið að taka á.
Tek þátt í Hjólað í vinnuna átakinu með hinum Point-urunum. Ansi gaman enda andinn auðsóttur á svona litlum stað. Þetta þýðir aftur á móti að ég verð að hagræða eitthvað æfingum næstu daga með tilliti til þessa. Það ætti ekki að vera neitt mál og ég læt það bara ganga. Því miður verður sundið eitthvað að bíða meðan sárið er að fá á sig einhverja húð. Vil ómögulega fá óþarflega stórt ör í andlitið. Svo er þetta talsvert óþægilegt eins og er þannig að já, sundið bíður.
Þar sem ég gat ekki tekið þátt í Kópavogsþrautinni bauð ég mig fram til starfa. Það var þegið og skemmti ég mér alveg ljómandi vel við að brautarverja hlaupabrautina. Var bara á Ólafi hinum sérstaka enda veitti svo sem ekki af þar sem ég var að mestu einn við þetta. En það var bara gaman. Ótrúlega gaman að sjá allt nýja liðið sem er að detta inn og af þvílíkum krafti. Ég veit ekki hvort kemur mér meira á óvart Stefán Guð eða Alma en þau eru bæði alveg ótrúleg. Það er samt eitthvað við það að Stefán fær allt upp í hendurnar, að því virðist, meðan Alma er nokkuð venjuleg á þessu.
Ég verð að trúa því að núna sé ég kominn á beinu brautina. Spurning um að slaufa Bláa Lóninu 😦