Er að standa mig alveg urrandi vel á hjólinu. Trainer æfing er hin besta skemmtun þar sem ég gleymi mér á nóinu og stend allt flatt, tja allt nema kannski hjartalínuritið. Það er í laginu eins og Himalayafjöllin. Kannski ekki alveg því hef nú verið nokkuð passasamur á efri mörkin. Það eru helst æfingarnar á einni löpp sem ýfa þetta eitthvað upp hjá mér en þær eru líka andskoti erfiðar.
Sundæfingar ganga bara. Síðasti fimmtudagur var ansi erfiður. Öxlin leiðinleg og þegar næstum korter var eftir af æfingunni sagði ég Vadim að ég réði ekki við meira, öxlin væri orðin það slæm. Ekkert mál sagði hann þá eru það bara fótaæfingar. Það fór svo þannig að ég var vel rúmlega æfinguna að skrattast þetta hjá honum. Ljómandi.
Hlaupin hafa verið erfið þessa vikuna. Verið með þreytuverki, held ég, aftan í lærum og rassi. Hef verið að lyfta soldið vel og það er sjálfsagt að hjálpa til en ég hef hjólið þó grunað um græsku í þessu. Laugardagshlaupið var mér sérstaklega erfitt og var bara eins og ég væri með staurfætur. Stirður og ómögulegur og að spítta í upp brekku var ekki gaman.
Í dag var samhjól á vegum Ægis-3. Farið af stað frá TRI og vestur í bæ hringur tekinn með einhverju Sundahafnar ralli. Óvenju mikið um óhöpp en merkilegast var nú við flugvallarendann þegar einn stakst á kaf í klaka. Hann var með hjálmmyndavél og vonandi hefur hún verið á upptöku. Væri gaman að fá að sjá það. Smá lenging í restina og svo kakó og bakkelsi í TRI. Eftir full gott stopp þar héldum við fjórir, Oddur, Gylfi og Tjörvi, áfram enda æfingu dagsins ekki lokið. Rúlluðum með Tjörva heim og héldum við svo áfram upp í Kóra þaðan í Garðabæ, Kópavog, Fossvog og þaðan fór hver til síns heima. Náði ég að hjóla 80 km í dag sem mér finnst bara flott á fjallahjóli í svona svona færi.
Ætla að prófa að vera meira á hjólinu þessa vikuna. Allavega þá daga sem það er gerlegt. Morgundagurinn er fyrstur. Þarf að taka með mér sunddót, föt í Yoga og vinnuföt. Ansi góð hleðsla á manni en ég slepp þó við að vera með skó. Þetta verður ansi gott aukahjól á manni þessa dagana.´
Búið og ansi búinn á því í kvöld