Búinn að vera ansi duglegur þessa vikuna. Skrokkurinn svona glimrandi að verða. Eftir heilmikinn djöfulgang hjá sjúkraþjálfara er öxlin öll að koma til. Ég hef getað tekið aðeins á því í kjötvinnslunni en það sem betra er þó að ég hef getað klárað sundæfingarnar. Nú síðast á fimmtudaginn kláraði ég hana létt og var þó ekkert slegið af alla æfinguna.
Fór í hjólatest hjá Vigni. Veit ekki hvort það var gáfulegt þar sem það dró soldið úr mér. Gekk illa, var strax þreyttur og mjög móður. Hvernig er hægt að vera þreyttur þegar maður er ekki að gera neitt? Maður spyr sig. Núna er ég búinn að taka eitt rólegt hlaup, Pace 5, þar sem púlsinn var að meðaltali 122. Það held ég að hljóti að vera merki þess að ég sé að detta í gang. Hörku hjól í kvöld, Ólafur á nagladekkjum, 30+ í roki og rigningu á dúndur meðalhraða. Erfitt til að byrja með en svo hætti að svíða og öndunin komst í gang.
Heiðmörkin á morgun með Oddi. Ætlum að vera spakir og taka stuttan hring. 12 km er örugglega bara fínn klukkutími þar sem reikna má með drullu og stuði. Nú það má þá alltaf lengja aðeins ef það passar.
Fór á þessa ljómandi Gel kynningu hjá Gylfa og Heimi Karls. Flott hárið á Heimi. Klikkar ekkert á því kallinn. Hefði ekki orðið hissa að sjá hann í Diskó jakka á Kadilakk. Hann var reyndar á Lexus jeppa þannig að það klikkaði. Gelin virka ansi snjöll. Voru tvenn eða þrenn sem ég gæti alveg hugsað mér að gúffa í mig en kostnaðurinn er aðeins að þvælast fyrir. Tíkall á kassann með 30 gelum. Eitt á dag og maður er alveg dásamlegur. Gummi Gísla segir þetta hafa bjargað einhverju bakdóti hjá konunni og einhver Pétur hjá Atlas ber þessu voða góða sögu. Merkileg fannst mér þó staðhæfingin um að næringarinnihald hinna ýmsu matvæla hefði rýrnað um tugi prósenta á 20+ árum. Banani er ekki nema brot af þeim banana sem hann var ’84. Mengun og eitthvað mannanna böl er að skemma allt. Það sem við ekki drepum skemmum við bara í staðinn.
Horfði á nokkur Roth video í dag. Horfði talsvert á skiptinguna á T2 og hugsaði með mér hvernig í ósköpunum mér dytti þetta rugl í hug og það með nokkurra daga millibili. Fokk, maður er ekki í lagi. Held að ég fái Maríu Sæmunds til að bóka mig í hrútaþukl á næsta héraðsmóti. Þá verð ég fastur í æfingum fyrir það og leiðist ekki út í svona dellu á meðan. Læri kannski bara á harmonikku eða greiðu í leiðinni. A star is born.
Búið