Spældur?

Posted: 30 January, 2012 in Keppnir

Er ég?  Ég veit það ekki.  Ætlaði að fara undir þremur en eftir miðvikudaginn í síðustu viku var það ekki inn í myndinni.  Kálfinn það slæmur og þó svo að ég hafi farið í þrjá góða tíma hjá sjúkraþjálfara þá bara hélt það ekki.  Á föstudaginn, þegar ég ætlaði rétt að skokka, gaf allt dótið sig í fyrstu skrefunum.  Var mikið að hugsa um að sleppa því bara að mæta í dag en bara gat það ekki.  Það er of mikil stemming við svona hlaup til að mæta ekki.

Hitti Ívar og Jóhönnu og ákváðum við Ívar að tékka á okkur og þá í versta lagi að klára bara.  Fann það strax í startinu að þetta mundi ekki ganga og yrði alveg örugglega mjög langt hlaup hjá mér.  Nefndi það margoft við Ívar að hætta en hann hvatti mig áfram og ég lét til leiðast.  Ekkert smá ánægður með það núna.  Vorum eitthvað að myndast við að halda uppi einhverjum hraða en það gekk ekki neitt.  Leiðir skildi svo að mig minnir í kringum 10 mílurnar eða jafnvel fyrr þegar Ívar stoppaði til að taka eina netta skák.  Þar með var hvatningin frá honum farin.

Var endalaust í baráttu við mig að hætta og þegar hinn kálfinn fór að kvarta og í framhaldi af honum lærið þeim megin var ég viss um að þetta væri búið.  Grunaði að lærið væri bara krampi og bætti því í Gatorade drykkjuna án þess að minnka vatnið.  Þegar ég svo kom að þrettándu mílu var augljóst ða það tæki því ekki að hætta þaðan af þar sem þetta væri nú að verða búið.  Fann ekkert fyrir þreytu nema bara í hausnum en reyndi samt að láta þetta ekki fara í taugarnar á mér.  Brosandi staff út um allt og skemmtilegt umhverfi gerðu þetta alveg afbragðs sunnudagsmorgun.

Ömurleg stjórn á hólfunum í startinu varð þess valdandi að við vorum rúmlega 10 mínútur með fyrstu míluna.  Hellingur af gangandi fólki og verulega hægu var í hólfinu okkar, hólfi sem átti að vera hraðasta hólfið fyrir almenning.  Í staðinn var maður að taka fram úr næstum alla leiðina sem er alveg ótrúlega gaman.  Var í baráttu við nokkra síðustu kílómetrana og smellti mér svo fram úr þegar við fórum að nálgast markið.  Tók síðan vel hraðann endasprett síðustu 600, eða svo, metrana.  Þar fór ég fram úr þeim þrjóskustu og heyrði ég öskrið í honum á eftir mér þegar ég hljóp einn leiðina að markinu.  Mikil fagnaðarlæti gerðu þetta bara eins og ég væri að vinna hlaupið.  Svaka stuð.

Kom í markið, fékk bling og vatn og fór beint í að teygja.  Núna er ég allur undarlegur á litinn á verri kálfanum og ansi slæmur í þeim báðum en að öðru leiti alveg súper.  Hef vökvað mig vel, fékk mér Herbalife recovery drykkinn minn og er bara að tjilla.  Rúllaði það sem hægt var að rúlla.

Ívar kláraði á 3:37 og Jóhanna kláraði kvartettinn á 4:57 sem er frábær árangur.  Siggi og Inga kláruðu sitt glæsilega, Siggi á 1:17 og Inga á 1:42 sem er PB hjá henni.  Flott fólk allt saman.  Ég er verulega þakklátur Ívari fyrir að draga mig áfram þegar ég var við að leggjast í aumingjaskap.  Núna er ég enn vissari en áður að ég get allt!  Að skrattast þetta í 3 tíma og 17 mínútur með talsverða verki í hverju skrefi er sönnun þess.

Hefði viljað ná þessu Sub3 markmiði mínu í ár en það verður nú varla úr þessu.  Þá er kannski að ná bara bætingu í einhverju öðru.

Mikið óskaplega væri gott að geta kælt núna 🙂

 

Comments
  1. Sissi's avatar Sissi says:

    3:17 er nú ekki slæmur tími á “Einari” eða hvorugri löppinni góðri. Góður að klára 🙂

  2. jarnkarl's avatar jarnkarl says:

    Takk fyrir það Sissi. Þú átt nú aldeilis eftir að fá að reyna tímann í þínu maraþoni maður 🙂

Leave a comment