Út með það gamla inn með það nýja

Posted: 13 October, 2011 in NIðritími, Tuðað og vælt

Djöfulls bull!  Ég er hundsvekktur að þurfa að slaufa Florida, skárra væri það nú.  Æfingarnar á ég þó ennþá og er ekki lagstur í neinn aumingjaskap.  Er búinn að vera í að lágmarka peningatap á þessu öllu en það er nú slatti samt sem ég næ ekki til baka.  Skítt með það.

Hef verið að velta næstu skemmtunum fyrir mér og fyrir utan auðvitað að koma sér í einhvern almennilegan gang aftur er númer eitt að halda áfram hjá meistara Vadím og ná sæmilegum tökum á sundinu.  Það verður að fá nokkurn forgang hjá mér, bæði finnst mér gaman að synda og langar að gera það vel og eins er ómögulegt að tapa helling af mínútum á ekki stærri hluta af keppninni.  Annars sýnist mér 2012 verða líflegt hvað keppnir varðar.  Er nokkuð klár á að fara til Miami í maraþon núna í janúar, Laugavegurinn er á dagskrá, hálfur járnkarl snemma sumars er líklegur, Reykjavíkurmaraþon og svo væntanlega Járnkarl í nóvember.

Ætla að notast við æfingaprógrammið frá Mark Allen til að undirbúa mig undir Miami.  Minnka hjólið eitthvað þar sem það verður að mestu á trainer en annars er það bara allt á fulla ferð um leið og kryppan segir ok.  Full ferð verður auðvitað miðuð við þægilegan púls enda hefur það gefist mér afskaplega dásamlega.  Við vorum með þrjár hlaupaæfingar í viku sennilega um 5 tíma eða minna og gaf það svona ljómandi af sér.

Fór á bretti í kvöld í annað sinn frá byltu.  Fyrra skiptið var í 10 mín með leyfi Eyglóar og í kvöld fór ég 25 mín.  10 mín á pace 5, 10 mín á pace 4 og svo mjög rólegt í 5 mín.  Teygði alveg gommu og gerði æfingar á axlir og bak.  Drulluvont og fann ég rækilega fyrir því hvað mataræðið hefur verið lélegt undanfarnar vikur.  Merkilegt hvað maður getur verið vitlaus, einmitt þegar ég þarf að hugsa sem best um mig klikka ég á þessu.

Er  alveg hættur á verkjalyfjum og bólgueyðandi, lyf eru ekki My thang og fékk ég bara blússandi hausverk af þessu dóti.  Átti eitthvað af voðalega fínum verkjalyfjum sem við nánari skoðun féllu á tíma 2006.  Fékk bara í magann af þeim.  Glatað alveg, skil ekki hvernig ég gat verið fullur í tíma og ótíma þegar ég þoli ekki einu sinni verkjalyf.

Leave a comment