Fallinn

Posted: 25 September, 2011 in Æfingarnar

Laugardagur:  Langt hjól á plani.  Fórum í seinna fallinu í það sem átti að vera flatt 150 – 180.  Vorum varla búnir með 30 þegar sprakk hjá Oddi.  12 mínútur þar og aftur af stað.  Eftir stutta stund byrjaði að grána og fljótlega að rigna.  Vorum rétt að detta í lítið þorp og fórum undir vegg til að bíða þetta af okkur.  Sumarklæðnaður á okkur, stuttbuxur og stuttbolur.  Innan stutts tíma var komin lemjandi rigning og drifum við okkur inn í þorpið og í bakarí sem við fundum þar.  Þá opnuðust himnarnir og það gerði þvílíka hellidembu.  Venjulega varir svona stutt en það bara hætti ekki að rigna.  Veðurspáin breytt og ekki átti að stytta upp fyrr en um kvöldið, hvaða rugl er þetta?  Fundum okkur strætóstöð og tókum strætó til Alcudia og hjóluðum þaðan heim.  Vorum alveg gegndrepa og kaldir.  Nóg hjól í dag enda ekki þorandi að hjóla á blautum götunum.

Ákváðum að taka bara sunnudagshlaupið í staðinn.  Inn til Pollenca og þar upp einhverjar tröppur þar sem þeir hörðustu áttu að gera tvisvar.  Sex kílómetrar í upphitun og ég kominn með skjálfta af orkuleysi.  Fékk mér orkudrykk og gel og hresstist allur.  Fórum í tröppurnar og Boy oh boy voru þær töff.  350 metrar og 50 metrar upp í loft af misháum, mislöngum og ójöfnum tröppum.  Ég hélt ég væri dauður þegar ég kom upp.  Jafnaði mig og niður aftur sem var bara ansi snúið.  Aftur upp og núna á betri tíma og síðan bara enn eina ferð og hún aftur hraðari.  Hressleikinn alveg í botni.

Þegar við snerum svo heim ákvað ég að taka smá tempo á þetta og setti á mig iPodinn.  Ministry að gera góða hluti og ég smellti grjóti á gjöfina.  Ferskur og í góðu skapi fór ég þetta á 3:30 til 3:40.

Flott að borða um kvöldið eins og öll önnur kvöld.

Sunnudagur:  Já já langur hjóladagur 180 km.  Ég náði að hjóla 22 km og var eitthvað aðeins á eftir í eigin heimi, aumur í klofinu og ble ble þegar ég ákvað að ná strákunum.  Gaf vel í en í einu úrvals hringtorginu rann hjólið undan mér.  Ég var á tæplega 50 km hraða og skall ansi harkalega í götuna.  Fékk talsvert högg á vinstri öxlina og rúllaði eitthvað og rann svo smá svona líka en slapp við að lenda á kantsteininum.  Strákarnir reistu mig við og biðu meðan ég kveinkaði mér og aumingjaðist.  Vignir stoppaði ljómandi dömu sem skutlaðist með mig og Trausta í bæinn, Sa Pablo, á slysó.  Vignir og Oddur héldu áfram enda nóg eftir af deginum.  Gaman að koma á slysó í ókunnu landi, fékk að fara fram fyrir og allt.  Tvær huggulegar hjúkkur og Dr. Igor, jebb, tóku á móti mér.  Trausti sagði þeim að við værum í sameiginlegu kerfi og ættum ekki að borga nema mininum.  Hjúkkit.  Mér var strokið og ég sótthreinsaður og plástraður voða fínt.

Igor skrifaði beiðni fyrir röntgen en við ákváðum (eða Trausti) að það mætti bíða aðeins.  Fórum bara upp á hótel, skiptum um föt og drifum okkur út að borða.  Kínverskur í dag og svo kaffi og eplakaka í eftirrétt.  Alveg ljómandi en ég er hræddur um að ég æfi ekki mikið hérna það sem eftir er af ferðinni.  Það verður að hafa það og er þó skárra en ef ég hef brotnað.  Ekki útséð með það þó en það verður bara að koma í ljós.

Alveg er það merkilegt að ég hef oft hugsað það að detta bæði á mótorhjólinu og sneiðinni hvernig ég mundi bregðast við þegar það væri að gerast.  Aha, maður bregst ekki rassgat við öðruvísi en að lenda í götunni!  Það er ekkert flóknara en það.

Leave a comment