Langa hjólið var flutt yfir á daginn í dag, laugardag, þar sem spáin fyrir morgundaginn er frekar fúl til hjólreiða. Fórum úr víkinni góðu og stefndum á Suðurnesin. Hægur andvari aftan á hlið og varla hægt að óska þess betra. Haustfílingur á hitastiginu og því jakki, síðbuxur og hanskar brúkaðir. Fann full mikið fyrir lærunum og efri hluta eftir lyftingarnar í gærkvöldi en það merkir bara að ég var ekki að eyða tímanum í vitleysu í salnum. Tókum fljótt nokkuð vel á því og alveg ótrúlegt hvað er stutt til Keflavíkur á reiðhjóli. Fyrir ekki löngu síðan hefði ég bara sagt “yeah right” ef einhver hefði nefnt það að hjóla þangað.
Horfðum á ljómandi skemmtilega sprettþraut hjá 3N, Traust fljúga í gólfið, og Torben vinna enn einn sprettinn og fórum síðan bara aftur til baka. Dísa lasin og lét sækja sig en við Oddur fengum félagsskap af Gísla ritara, Trausta, Corinnu og Klemens í bæinn. Keyrðum þetta sæmilega þétt og í stað þess að stoppa og hinkra eftir hægari hjólamönnum fór ég í öll hringtorg og hjólaði til baka og “sótti”. Þannig hélt ég fullri keyrslu alla leiðina en stoppaði svo með hópnum þegar Oddur sprengdi. Oddur komst að því að hann þarf aðeins að æfa dekkjaskiptingar og ég þarf þess svo sem líka. Grátlegt að tapa þeim mínútum sem allar æfingarnar hafa skilað sér í dekkjaskiptum.
Fjórir tímar búnir þegar við komum í bæinn og fannst mér ómögulegt að láta þar við sitja og lengdi um einn Reykjavíkurhring. Farið að blása nokkuð og ég orðinn þreyttur í lærum þegar ég hitta Helga. Hjóluðum saman upp í Nauthólsvík þar sem ég ákvað að láta gott heita. Hann í Tapering og vildi klára sína tvo tíma hélt áfram en ég dreif mig í bakarí og verðlaunaði mig fyrir gott dagsverk. Mér fannst ómögulegt að klára mig það mikið að ég yrði alveg hundlélegur í hlaupinu á morgun. Maður má ekki gleyma því að Þríþraut er ein íþrótt en ekki þrjár og verður því að haga æfingum eftir því.