Hef verið í baráttunni við að komast undir 40 mín á 10 km í nokkurn tíma. Í sumar gekk það loksins í Valshlaupinu og þá í góðum plús, 39:06. Síðan hef ég ekki hlaupið 10 nema í Hveragerði en þá í brekkum og utanvegar og tel það ekki með. Jæja núna í Reykjavíkurmaraþoninu fór ég í hálft og fór fyrstu 10 á undir 40 og það sem meira er, ég hélt þeim hraða allt hlaupið. Langaði að fara á undir 1:25 en fór á 1:23:48. Munurinn er bara mínúta en ég er urrandi sáttur. Grrr!
Var ákveðinn í því að vera flottur í hlaupinu, flottur þ.e. vera ekki alveg eins og ég væri að skíta í mig af erfiði. Hef reynt að temja mér að hlaupa uppréttur, léttur og brosandi og það gekk núna sem undanfarin hlaup. Ég hleyp hraðar, mér líður betur og finnst miklu skemmtilegra að hlaupa svoleiðis. Þegar áhorfendur kalla, heilsa ég og er bara almennt í góðum fíling. Fór í nýju Brooks Racer-unum, með nýju geimveru gleraugun og með gel í hárinu. Djöfull var gaman. Gusaðist af stað með fremstu mönnum enda ákveðinn í að láta ekki troðning skemma fyrir mér. Við Viðar Bragi hlupum saman talsverðan spotta en strax á Suðurgötunni fannst mér hann ætla að taka full vel á’ðí. Spurði hann hvort við værum ekki soldið hratt en hann leit bara á mig eins og ég væri geimvera og sló ekkert af. Eftir á að hyggja hefur hann kannski haldið að ég væri geimvera með nýju gleraugun. Hugsaði sem svo að fyrst hann væri í þessum gír væri réttast fyrir mig að halda mig þar líka. Hljóp allt hlaupið eftir Garminum enda svo sem ekkert viss um að ég gæti farið mikið hraðar en Pace 4. Pillaði upp eitthvað af mannskap á leiðinni og lengi hélt ég að mundi ekki ná konunum tveimur fyrir framan mig. Það er viss áfangi þegar maður klárar allar konur.
Var með tvo gelbrúsa með mér sem ég hélt á. Það var ekki gáfulegt. Fann að ég spenntist allur við að halda á þeim. Losaði mig við annan hjá Seðlabankanum og það var strax skárra. Ótrúlegt hvað smá truflun getur haft mikil áhrif. Brekkan við vöruhótelið tók hressilega í og hugsaði ég að nú væri þetta farið hjá mér en það bjargaðist. Náði fremstu konunni í Borgartúninu eftir að gefa slatta í þegar ég sá hana. Hélt sama tempóinu þaðan í frá. Var orðinn þreyttur og fannst þetta soldið erfitt en það er bara til að hafa gaman af. Notaði einn og hálfan brúsa af geli og fékk mér Powerade á öllum drykkjarstöðvum. Sullaði framan í mig á annarri stöðinni, fékk í auga og var allur ómögulegur. Var eitthvað að reyna að þrífa gleraugun en gekk illa. Endaði bara með að sleikja putta og þurrka þannig af þeim. Fékk mér súkkulaðibita við Klepp en fannst hann harður og ómögulegur allur og hrækti honum bara.
Hef æft vel undanfarna daga. Mjög kraftmikill og fínn. Hver æfingin eftir aðra þar sem ég hef bókstaflega vaðið áfram á hjólinu og hlaupið eins og vindurinn. Lærin hafa orgað af hamingju en svo hafa þau fengið vel af kolvetnum og proteinum og þá er allt gott. Hef verið mjög góður í mataræðinu og fyrir vikið vantar aldrei kraft.
Tók nokkrar fínar í salnum. Flatur bekkur gengur síður og því hef ég verið í hallandi bekk. Hef náð að þyngja á næstum öllu og fjölga endurtekningum á sama tíma. Það er ekki alveg í takt við það sem prógrammið segir en ég get þyngt á sama tíma og ég fjölga repsum þá geri ég það að sjálfsögðu.
Enn batnar sundið. Ég er að sjálfsögðu ekki orðinn neinn sundmaður og á langt í það en ég batna í hvert skipti sem ég fer í laugina. Renn betur, teygi mig lengra og velt betur. Allt í áttina en axlirnar eru enn vandamálið. Fékk sama verk og þegar öxlin fraus um daginn. Hringdi beint í Sólveigu sjúkraþjálfara og fékk tíma. Hún segir að það sé hæpið að öxlin frjósi aftur og það eina fyrir mig sé að æfa bara og æfa. Humm eins og ég geri lítið af því? Hvað um það ég get synt 2000 metra á sæmilegum hraða en þá koma verkirnir.
Fór til Ólafar Sæmundsdóttir nuddara í dag. Vignir mælti með henni og ákvað ég að prófa svona djúpvefja/íþróttanudd. Kálfarnir alveg gler og hún skrattaðist með olnbogum á mér..Var oft ansi vont en ég reyndi að taka það bara sem áskorun að vera nógu fljótur að ná slökun og losna þannig við sársaukann. Það gekk ansi misvel en var samt gaman. Núna sit ég með auma kálfa og móral yfir því að hafa ekki farið í Tempo hlaupið í dag. Verð í staðinn að vakna eldsnemma og hlaupa í fyrramálið.
Jæja nokkrar myndir úr RM2011. Ég auðvitað í aðalhlutverki en fann líka flottar myndir af Odd og Pétri Helga. Það sést á þessum myndum hvað þetta er ljómandi skemmtilegt sport.