Aldeilis verið fjörið undanfarið. Sunnudagsæfingarnar eru orðnar keppnis og eftir að við fengum Karenu Axels með okkur var farið að svíða í. Brenndum sunnudag austur á Laugarvatn í Tan veislu sumarsins. Allir komu huggulegri til baka og var þó varla á bætandi. Nú helgina eftir (síðasta helgi) fórum við svo á Þingvelli og svo Nesjavellina heim. Vorum bara fjögur, ég, Vignir, Ásdís og Karen. Jökulsárhlaup og djammnótt sat eitthvað í Ásdísi og gengu brekkuskrímslin hægt hjá henni. Í stað þess að bíða uppi fannst Karenu alveg rakið að við hjóluðum bara niður fyrir Ásdísi og þannig fengju allir svipaðan skammt úr æfingunni. Ég hélt hún væri að grínast! Nei, nei alveg ljómandi og ekki bara fyrsta brekkan heldur allar brekkurnar á leiðinni og ef það var jafnslétta þá bara ruslaði hún upp hól til að hjóla yfir. Mikið djöfull var þetta samt rosalega gaman og þegar ég kláraði síðustu brekkuna í annað sinn leið mér bara alveg frábærlega.
Ákváðum að hittast seint eða klukkan hálft tíu daginn eftir og taka langa hlaupið. Vignir var ekki til í að splæsa heilu hlaupi á bilaða hásin þannig að þetta var bara ég og íslandsmeistarar kvenna. Ásdís hægði eftir ekki langt hlaup þar sem kálfinn var að hrekkja hana. Við settum vel í og fórum tvo tímana með korters hraðabreytingum. Það átti að vera frá hægu upp í nokkuð hratt en var bara alveg ljómandi hratt og svo enn hraðar. Ferlega gaman og skemmtilegt að breyta svona til með æfingar.
Ég veit ekki hvað er að breytast en þriðjudagsæfingarnar sem eru núna orðnar einn og hálfur hlaup og þrír hjól eru bara ekkert langar. Þetta voru langar helgaræfingar í fyrra en núna er þetta bara svona svona. Eitthvað Hollendingsgerpi gerði góða tilraun til að keyra mig niður á Krýsuvíkurveginum, svona til að sýna mér að ég hafi ekkert með það að gera að hjóla á veginum. Ég kærði þetta til lögreglunnar og sagði sá sem ég talaði við að þeir tækju svona alvarlega. Hvet ég þá þríþrautar og hjólagarpa sem lenda í svona rugli að láta lögreglu vita, þetta er fært til bókar og menn fá símtal frá lögreglunni. Nú svo er auðvitað hægt að kenna mönnum lexíu með vænum skammti af ofbeldi en það er kannski ekki sniðugt að launa ofbeldi með ofbeldi eða hvað? Erum við þá ekki orðin of lík nágrönnum okkar í vestri eða guðs útvöldu þjóð? Segi svona.
Er alveg hættur að drekka kók og borða nammi. Ég held, svei mér þá, að ég finni nokkurn mun á mér. Ég er svo kraftmikill þessa dagana að ég læt stundum eins og hver æfing sé mín síðasta. Þriðjudagurinn var ansi hvass og þá er nú hífandi á Krýsuvíkurpylsunni. Ég setti bara í G og þrumaði upp í vindinn. Hélt flottu farti og var mjög fljótur að jafna mig á eftir. Fór svo og hljóp áðan og var að average-a á pace 4 án þess að blása úr nös. Þetta hlýtur að vera mataræðið. Kannski fer ég eitthvað fyrr að sofa og næ að jafna mig svona betur á því. Veit það ekki en þetta er mjög ánægjulegt.
Reykjavíkurmaraþon á laugardaginn. Ég ætla í hálft og ætla að bæta PB frá því í snjóþoninu í vor. PB er 1:27:30 en ég stefni undir 1:25. Verð ansi hress með mig ef það gengur.
Sundið er eitthvað að gera sig hjá mér. Hef tekið nokkrar góðar æfingar þar sem ég hef bara farið og synt. Hefur bara gengið fínt en eftir 2 plús er ég farinn að vita vel af öxlum. Verð bara að reyna að bæta átakið þó svo að það sé kannski ekki optimal þá er það þó betra en ekkert. Ég er allavega nokkuð bjartsýnn á mig í sundinu eins og er.