Hólka Pólka

Posted: 26 June, 2011 in Uncategorized

Einhver losarabragur er á hópnum þessa dagana.  Formaðurinn fjarri góðu gamni með auma hásin og menn að keppa um allar trissur.  Ég reyndar á heilmiklu skralli í Berlin þessa vikuna þar sem ég sá Slipknot í pínulitlum sal, eitthvað sem maður hefði aldrei þorað að vonast til að sjá.  Mikil nálægð, mikill hávaði og mikið rokk.  Tók eina góða hlaupaæfingu á flugvellinum sem var hluti loftbrúarinnar til Berlin við upphaf kalda stríðsins.  Berlinarborg er að breyta honum í almenningsgarð þar sem til stendur að halda brautunum fyrir hjólara, hlaupara og skate-ara.  Rennislétt malbik og það mikið af því.  Hringurinn um flugvöllinn tæpir 7 km og fór ég tvo.

En að æfingum.  Fór í fyrsta gallasundið á föstudaginn eftir lyftingaæfingu.  Hafði verið á hefðbundnu róli, léttur og fínn, þegar ég prófaði bekkinn.  Byrjaði létt og þyngdi svo aðeins.  Fer síðan einn og hálfan í sjónum og var svo gjörsamlega ónýtur í öxlinni á eftir.  Fór svo í gær og dag en þá bara styttra í einu en fór þá bara aftur.  Synti aðeins með Ermarsundsfólkinu og náði fínum tíma í sjónum í bæði skiptin sem er bara ágætt eftir 17 km hlaup.

Sunnudagur spáði góðu hjólaveðri en svo virðast spár hafa breyst eða eitthvað.  Fórum fjórir, ég, Eddi, Pétur og Siggi, á Þingvelli í talsverðum strekkingi í fangið.  Ég í góðum gír og ákváðum við að skipta liði við Gljúfrastein, ég gaf aðeins í og fór á undan.  Var ekki með iPodinn og rúllaði Holka polka með Sniglabandinu í hausnum á mér alla leiðina austur.  Vonaðist til að heyra eitthvað í sjoppunni sem ég gæti gripið en svo heppinn var ég ekki og rúllaði því lagið aftur í bæinn.  Verst að ég kann ekki allan textann þannig að þetta var að verða þreytt.

Var rétt rúma tvo tíma austur en svo eftir að fá kaffi, flatara og pönnsu rauk ég í bæinn á rétt rúmum klukkutíma.  Hrikalega gaman þó að notalegt hefði verið að hafa skóhlífarnar.

Sneiðin fór í tékk í vikunni og er ég laus við leguhljóðið sem var að trufla mig.  Það er gott.

Græðgi virðist hafa gripið Hafnfirðingana því þáttökugjaldið í hálfa kallinum hefur hækkað um 50% milli ára.  Misjafnt er eftir því við hvern er talað hver ástæðan er en augljóst er að mikil óheillaþróun er að eiga sér stað í keppnisgjöldum.  Var að hugsa um Laugaveginn svona þar sem öxlin er varla sundhæf en þá kostar 51.000 að fara hann!  Þetta er alveg út í bláinn.  Tökum 113 á þetta.

Hérna sést hvað við v0rum á frábærum stað á tónleikunum.  DJ-inn kom þarna upp á svalirnar til okkar og lét sig síðan gossa aftur á bak niðrí mannhafið.  Algjörlega geggjað.

Amen

 

Leave a comment