Skemmtilegir dagar

Posted: 13 June, 2011 in Æfingarnar, Keppnir

Hef verið duglegur að fara í Nauthólsvík undanfarið.  Oft með Corinnu en líka einn.  Hef reynt að bæta við tímann í hvert skipti og gengið það alveg ágætlega.  Finnst þetta alltaf jafn gaman og finn ennþá fyrir spennu þegar ég er á leiðinni og eins líka þegar ég sé eitthvað líf í sjónum.  Svo er nú líka nokkuð spennandi að sjá ekki til botns, öfug lofthræðsla?

Æfingar hafa gengið alveg bærilega.  Fór loksins til Örnólfs sem smellti í mig einni huggulegri sprautu.  Nokkuð óþægilegt en allt í lagi.  Þetta var á miðvukudegi og á sunnudeginum tók ég þátt í Bláa Lóns þrautinni.  Alveg brill, öxlin frábær og núna á mánudagskvöldi er ég eins og nýr.

Bláa Lónið gekk svona líka ágætlega.  Ætlaði að vera með Vigni og Bjarts mönnum en klúðraði því að troða mér fram í byrjun og byrjaði afleitlega.  Horfði á eftir þeim meðan ég var stökk í hægri umferð og góðri hrúgu af fólki sem datt.  Ég skrattaðist þetta því einn vankunnugur á alla taktík en þeim mun ákveðnari í að standa mig vel.  Þvílík keppni, ótrúlega fjölbreytt landslag og leiðin algjörlega frábær.  Geggjað að láta sig vaða niður brekkurnar upp á von og óvon að maður kæmist heill á húfi út úr þessu.

Kom í mark á 2:12:58 sem er hvorki betra né verra en ég gerði mér vonir um þar sem ég hafði ekki hugmynd um við hverju væri að búast.  Þegar ég kom í mark var ég ekki hjólaþreyttur heldur meira eitthvað annað.  Sætið var of lágt hjá mér og ég bara eitthvað ekki vanur þessu.  Núna er ég að drepast í klofinu eftir að vera með sætið svona lágt.  Hvað um það.  Tókum Brick á þetta í BL og hlupum út í rúmt korter og svo til baka.  Upp út og mótvindur til baka.  Dæmigert.  Smá sull í Lóninu og svo hjólað í bæinn.  Að sjálfsögðu var áttin okkur ekki hagstæð þannig að þetta tók í.

Fórum fjögur saman í bæinn, ég, Ásdís, Vignir og Oddur.  Rétt náðum starfsmönnum Áslandslaugar og fengum dótið okkar afhent.  Hávar og Maggi voru ekki svona heppnir en þeir komu nokkrum mínutum eftir að við Vignir lukum einum aukahring um hverfið.  Maggi átti stórleik dagsins þar sem hann var með bíllyklana sína í töskunni.  Eftir á að hyggja verð ég smá pirraður yfir þessari eilífu minnimáttarkennd.  Afhverju í ósköpunum drullaðist ég ekki til að berjast um stöðu strax í startinu.  Að gefa eftir stöðu er alveg fáránlegt í keppni og ég verð að fara að venja mig af þessum ósóma.

Er í fríi frá vinnu tvo daga af næstu þremur og verður aldeilis tekið á því þann tíma.

Næst er það svo Slipknot í Berlin, það verður geggjað.

 

Leave a comment