Áfram vegin til Florida

Posted: 28 March, 2011 in Uncategorized

Þokkaleg vika æfingalega séð þó ég sé auðvitað að sleppa frekar billega þar sem ég syndi ekkert.  Tek kannski nokkra hringi í heita pottinum en annað er það nú ekki. 

Hlaup og hjól ganga vel finnst mér.  Lappirnar í góðu standi og mér gengur bærilega að halda mig við viðmiðin á púls.  Sólveig er svo jákvæð á bata að hún leyfði mér byrja í lóðunum og hvatti mig til að róa, eða ég held hún hafi hvatt mig til þess.  Jú, það hlýtur að vera.  Merkilegt að ég hef oft róið í róðravélum og alltaf með einhverjum djöfulgang en núna settist ég bara við og réri og réri eins og skólastrákur í Oxford.  Tók vel á en bara á réttum stöðum, fótum!

Fór með Ólaf (nýja Specialized hjólið) til Corinnu á laugardaginn og fór svo með henni dúndur hring í Heiðmörkina og eitthvað sem ég veit ekkert hvað var.  Hún sagði mér einhverntímann að við værum við Helgafellið en það var svo mikil þoka að ég sá ekki neitt.  Hrikalega skemmtilegt að fara svona á fjallahjóli, maður verður bara eins og krakki að leika sér.  Tók merkilega í og geri ég alveg eins ráð fyrir að næsta hjólaæfing verði tekin á Ólafi en ekki á þrekhjóli.

 

Trainerinn minn er sennilega bara ónýtur.  Helvítis rúllan er orðin eins og sandpappír og var ég að kíkja eftir öðrum á ebay áðan þegar ég ákvað að reyna að koma mér bara út.  Verst að geta ekki sett aðeins grófari dekk undir Ítalann, þá færi ég bara út á honum.  Hvorugur racerinn leyfir hins vegar stærri dekk.

Sunnudagsbrickinn var undarlega erfiður.  Þurfti að stoppa nokkrum sínum og strekkja aðeins á mér.  Vorum bara fjórir en það var fínt hjá okkur.  Horfðum á Jón Pál og svo á  Bruce Willis eiga stórleik í einni Die Hard myndinni.  Við Oddur renndum okkur svo útfyrir í hlaupið.  Frábært veður og algjört æði að hlaupa loksins úti.  Hljóp reyndar rólegheitahlaup með Corinnu á afmælisdaginn hennar en þá var ekki komið svona gott færi eins og núna.

  Stundum verður maður að loka augunum

Það er voða gír á mér núna en ég hlýt að jafna mig á því og detta niðrí sömu leti og venjulega.

Alltaf gaman á brettinu en ansi heitt þarna

Amen

Leave a comment